Skip to main content
All Posts By

valgerdur

Samskipti foreldra og barna í stjúpfjölskyldum

Eftir Börn og ungmenni

Skilnaði fylgja ýmsar breytingar bæði fyrir börn og fullorðna þ.á.m. breytast tengsl foreldara og barna. Það er ekki óalgengt að börn fái meiri ábyrgð á heimili og gagnvart yngri systkinum en í mörgum tilvikum fá þau líka meiri áhrif. Ákvarðanir sem áður voru teknar í samráði við maka eins og hvað eigi að vera í helgarmatinn eða gera í sumarfríinu eru nú teknar í samráði við börnin.

 

Smá saman verður til nýjar hefðir og venjur á heimilium þeirra sem þau eiga annarsvegar með móður og hinsvegar föður. Í stað þess að hafa nammi- og sjónvarpskvöld kvöld á föstudagskvöldum þá færist það kannski yfir á laugardagkvöld vegna breyttra aðstæðna og pabbi og/eða mamma leyfa þeim að sofna í sófanum fyrir framan sjónvarpið eða upp í rúmi hjá þeim, eitthvað sem ekki var leyft áður. Skilnaður er einmannalegur og oft er börnum ætlað að fylla upp í það tómarúm sem myndast. Það er t.d. ekki sjálgefið að börn sætti sig við að þurfa hlýta þeim reglum að sofa í sínu herbergi þegar nýr maki kemur til sögunnar eða ekki höfð með í samráði þegar ákveða á sunnudagmatinni eða sumarfríið.

Það kemur því morgum á óvart að heyra að mikið af þeim „verkefnum“ sem margar stjúpfjölskyldur eru að takast á við í upphafi á rætur sínar að rekja til hvernig aðlögun eftir skilnað hefur tekist. (Hvort fyrrverandi makar hafi komið á starfhæfu sambandi sín á milli sem snýst um börnin en ekki um að sinna gömlum „skyldum“ sem fylgdi hjónabandinu eins og að skipta um dekk, þvo þvotta eða annað. Reyndar er ekki óalgengt að samband foreldra sem hafði verið í góðu lagi breytist þegar nýr aðiðili kemur til sögunnar m.a. af ótta við að vera skipt út sem foreldraímynd en stunda batna samskiptin líka við það foreldri sem barnið býr ekki með að staðaldri– en það er nú efni í aðra grein

Sambambandið við börnin breytist – ójafnvægi í fyrstu!

Algengt er að samskipti foreldra og barna breytist þegar foreldri fer í nýja sambúð og stjúpfjölskylda verður til. Margir foreldrar eru með  óraunhæfar væntingar um hvað sé framundan í stjúpfjölskyldunni s.s. að stjúpforeldri til skammas tíma geti tekið að sér að aga ungling án þess að tengsl hafi náð að myndst. Það er óvíst að nýi makinn kæri sig um það hlutverk og þó svo væri er mjög ólíklegt að unglingurinn kæri sig um það. Samræður eru mikilvægar um væntingar allra aðila.

Stjórnsemi eða sorg?

En algengt er að foreldrar upplifi aukna erfiðleika í uppeldinu og eru þeir í sumum tilvikum minna innstilltir á þarfir barna sinna á þessu tímabili. Sum börn upplifa að þau þurfi að keppa um tíma og athygli foreldra sinna. Oft upplifir foreldri sig á milli steins og sleggju þegar kemur að sætta ólík sjónarmið barna sinna og svo maka. Sá tími sem notaður er í byrjun í börnin skilar sér í betri aðlögun en algengt era að þau kvarti undan kröfu um skjóta aðlögun. Sumum finnt sem að foreldri þeirra hafa yfirgefið þau á einhvern hátt og þau séu minna mikilvæg fyrir foreldra sína. Hætta er á að þau finni fyrir reiði, verða stressuð og sýnt erfiða hegðun sem allt of oft er túlkuð af fullornu fólki, bæði foreldrum og sjúpforeldrum sem stjórnsemi. Fólk getur kannski sett sig í spror þeirra ef það hefur upplifað makan fjarlægjast og það óöryggi sem því getur fylgt

Ég hitti 15 ára stúlku sem hafi farið að heima nokkrum vikum áður. Móðir hennar og stjúpi til 9 mánaða sögðu að þau gætu ekki haft hana, þar sem hún hlustaði ekki á þau og hún var mjög ókurteis við stjúpann.  Stjúpanum fanst hún illa upp alin og taldi sig geta bætt úr. Mamma hennar ver henni reið þar sem hún taldi dóttur sína meðvitað vera reyna að eyðileggja samband hennar við nýja kærastann. Í samtali við stelpuna var hún mjög reið móður sinni þar sem mamma hennar hafði falið honum agahlutverkið á heimilinu og nú þurfti hún að spyrja hann hvort hún mætti gista hjá vinkonu sinni eða kaupa föt og annað sem hún hafði áður rætt við móður sina. Hún saknaði þess sem þær höfðu átt á sama tíma og hún var mömmu sinni mjög reið. Stjúpann þoldi hún ekki

Startið var ekki gott hjá þeim. Erlend rannsókn benti til að samskipti móður og barna einkenndust af meiri átökum í stjúpfjölskyldu en í kjarnafjölskyldum. Hinsvegar kom jafnframt í ljós að jafnvægi komst oftast á eftir tvö ár og það var þá lítill munur og á mæðrum gagnvart börnum í stjúpfjölskyldum og þeim sem  ekki höfðu skilið.

Flókin staða foreldra

Það er getur verið flókin staða að vera í senn foreldri og stjúpforeldri bæði fyrir foreldra sem búa með börnum sínum að staðaldri og svo þeirra sem búa sjaldnar með þeim.

Ég man eftir einni móður sem hélt aftur að sér að eyða tíma með sínum börnum eða kaupa á þau föt og anna til að gera ekki upp á milli barna sinn og stjúpbarna. Börnin hennar upplifðu fjarlægt móður sinna og voru henni reið á sama tíma og hún fann fyrir vaxandi pirringi gagnvart stjúpbörnum sínum sem henni fannst stoppa sig af. Þjökuð af sektarkennd og pirringi fór hún að „stelast“ til að eyða tíma með börnunum einfaldlega í stað þess að ræða málið  við maka sinn og skipa fjölskyldunni upp eins öðru hvoru sem nauðsynlegt er í stjúpfjölskyldum. Við þurfum ekki bara að vinna að því að búa til ný tengsl – líka að styðja við eldir tengsl.

Erlendar rannsóknir benda til að unglingar í stjúpfjölskyldum eru líklegri til að fara fyrr að heiman en aðrir unglingar og eru átök á heimili oft ástæðan. Þau eru jafnframt minna heima hjá sér. Náist að koma á stöðugleika í fjölskyldunni er útkoma barna í stjúpfjölskyldum svipuð og í kjarnafjölskyldum.

Hver á trúnað hvers?

Hollustuklemma getu skapast þegar foreldri og barn eru ekki sammála um hve mikið eigi að segja  stjúpforeldri um ákveðin mál er þau varða. Þó svo að foreldrið treysti nýja makanum fyrir fyrir upplýsingum um barnið t.d. að það  pissi undir, að það hafi fallið í prófi eða það sé í  ástarsorg er langt í frá sjálfgefið að barnið kæri sig um að slíkar upplýsingar séu veittar fyrr en tengsl hafa myndast.  Það tekur tíma að mynda góð tengsl – og ekki er óalgegnt að börn upplifi stjúpforeldrið sem ekki hluta af fjölskyldunni. Það er því mikilvægt að foreldrar hafi þetta í huga í samskiptum við börn sín áður en þeir ætlast til að barn þeirra t.d. hlýði stjúpforeldri sínu.

Það ber að varast að alhæfa um stjúpfjölskyldur – þær eru langt í frá einsleitur hópur.  Börn og ungmenni geta aðlagast breytingum með tímanum. Þegar vel er staðið að þeim og með hagsmuni þeirra í huga, eru líkur á að aðlögun viðr auðveldari og tengsl við foreldra haldist. Að læra um stjúpfjölskyldu og skoða hversu raunhæfar hugmyndir mann eru hjálpar.

Valgerður Halldórsdóttir félags- og fjölskylduráðgjafi, MA

Reynsla Stjúpfeðra – lokaverkefni frá 2010

Eftir Stjúpforeldrar

Íris Halla Guðmundsdóttir skrifaði BA ritgerð árið 2010  í uppeldis- og menntunarfræðum  sem heitir Stjúpfeður: upplifun og reynsla stjúpfeðra í stjúpfjölskyldum. „Þessi ritgerð fjallar um eigindlega rannsókn á upplifun stjúpfeðra í stjúpfjölskyldum.

Rannsóknin byggist á opnum viðtölum við sex stjúpfeður. Flestir stjúpfeðurnir upplifðu stjúpforeldrahlutverkið á góðan hátt að jafnaði þó svo að upp hafi komið einhver vandamál“. „Talið er mikilvægt að aðilar innan fjölskyldu myndi tilfinningatengsl, flestir stjúpfeðurnir töldu sig hafa náð að mynda góð tengsl við stjúpbörn sín. Sumum þeirra fannst skipta máli á hvaða aldursskeiði þeir komu inn í líf barnsins. Það var mismunandi hjá viðmælendunum í hversu miklum samskiptum þeir voru við líffræðilegan föður. Sumir voru í litlum sem engum samskiptum við hann en þrátt fyrir það voru engin leiðindi þar á milli. Hins vegar voru aðrir sem höfðu lent í ágreiningi og jafnvel forræðisdeilum við viðkomandi. Í þeim tilfellum fannst þeim skipta öllu máli að börnin myndu ekki lenda á milli í þessum deilum foreldranna.

Leiðbeinandi hennar var Sigurlína Davíðsdóttir Aðgangur er lokaður á Skemmunni http://hdl.handle.net/1946/4724

Hlutverk stjúpmæðra – BA rannsókn

Eftir Stjúpforeldrar

Í BA verkefni í félagsráðgjöf fjallar  Ólöf Lára Ágústsdóttir um hlutverk stjúpmæðra og þær væntingar og kröfur sem gerðar eru til þeirra. Ritgerðin byggir á niðurstöðum eigindlegrar rannsóknar þar sem djúpviðtöl voru tekin við fimm stjúpmæður. Þátttakendur rannsóknar höfðu mislanga reynslu af stjúpmæðrahlutverkinu og upplifðu hlutverk sitt á mismunandi hátt. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að hlutverkið reynist erfitt og fer það eftir þátttöku maka og þrautsegju stjúpmæðranna sjálfra hvernig tekið er á þeim vandamálum sem upp koma.

Áhrif goðsagnarinnar um vondu stjúpuna hafa einnig talsvert að segja um líðan stjúpmæðranna, hvernig þær sjá sig sem vondu stjúpuna og áhrif þess á hlutverk þeirra. Þó tengja þær sig ekki við þá stjúpu sem birtist í ævintýrunum. Stjúpurnar upplifðu sig í húshjálparhlutverki þar sem þeim er ætlað að sjá um öll helstu heimilisverk og gæta stjúpbarna sinna en á sama tíma halda ákveðinni tilfinningalegri fjarlægð frá þeim.

Umsjón með verkefninu var Dr. Sigrún Júlíusdóttir og leiðbeinandi Valgerður Halldórsdóttir

Hér má lesa ritgerðina í heild sinni  http://skemman.is/is/stream/get/1946/8120/21328/1/BA$005b1$005d.pdf

Ólík tengsl innan stjúpfjölskyldunnrar

Eftir Fjölskylda

Tengslamyndun er flókið fyrirbæri og margt sem þarf að hafa í huga, en öll höfum við hæfileika til að mynda tengsl sem er manninum mikilvæg. Við eru tengdari foreldrum á annan hátt en vinum eða vinnfélögum en öll eru þau okkur mikilvæg á einn eða annan hátt, þó mismikið.Stjúptengsl geta verið margvísleg rétt eins og önnur tengsl.

Stjúpfjölskyldur þurfa að gera ráð fyrir að tengsl innan fjölskyldunnar geta verið mismunandi, í stað þess að fá samviskubit yfir því að „réttar“ tilfinningar láti á sér standa gagnvart einum eða öðrum fjölskyldumeðlimi. Við þurfum hinsvegar alltaf að sýna virðingu og viðurkenningu á tilvist hvers annars þótt það sé ekki hægt að gera kröfu um ást og náin tengsl. Viðurkenning skapar tilfinninguna að tilheyra og eflir stjúpfjölskyldur.

 „Ég var í nokkrum vandræðum með hvernig ég ætti að tengjast fimmtán ára stjúpdóttur minni sem virtist hafa allt á hornum sér en ég ákvað hinsvegar að reyna. Ég fór að fylgjast með hvað hún horfði á í sjónvarpinu. Sumt af því fannst mér hálfgerð vella en ég reyndi að spyrja um persónur þáttanna og af hverju henni þótti þeir áhugaverðir í stað þess að koma með einhverjar yfirlýsingar um innihald þeirra. Ég finn að það skilar árangri og við erum farin að tala aðeins meira saman en áður. Hún er meira að segja farin að yrða á mig af fyrra bragði. Það gefur mér von. Litli bróðir hennar er allt öðruvísi og náðum við strax vel saman enda báðir miklir fótboltaáhugamenn. Það vildi líka svo heppilega til að við höldum með sama liði. Ég finn að hann lítur upp til mín og það gleður mig“(Halldór, 43 ára stjúpi til 6 mánaða).

Valgerður Halldórsdóttir, félags- og fjölskylduráðgjafi

Laskað traust

Eftir Fjölskylda

Hafi börn upplifað að „missa“ stjúpforeldra sem þeim þótti vænt um eða nokkur „sundur – saman“ sambönd hjá foreldrum og nýjum aðilum er óvíst að þau séu fús til að gefa nýjum aðila tækifæri til að tengjast sér – sem kann að fara eftir smá tíma. Það er mikilvægt að sýna viðbrögðum stjúpbarna skilning þegar viðleytni stjúpforeldra til að tengjast þeim er ekki vel tekið. Gera þarf ráð fyrir að það geti takið langan tíma að öðlast traust þeirra.

Stjúpforeldar kunna einnig að óttast það að tengjast stjúpbörnum sínum ef ske kynni að sambandið endist ekki. Það er því nauðsynlegt að gefa sambandi tíma til að þróast án þess að börnin eru kynnt til sögunnar og muna að góðir hlutir gerast hægt. Með því að vinna úr fyrri sambandsreynslu og láta sambandslit verða sér til einhvers þroska þ.e. að læra af þeim í stað þess að safna upp ógagnlegum viðbrögðum og viðhorfum eru meiri líkur á að sambandið gangi – og við verðum traustsins verð!

Valgerður Halldórsdóttir félags- og fjölskylduráðgjafi

Tæknileg samskipti

Eftir Fjölskylda

Tæknin býður upp á marga möguleika til að halda sambandi við foreldra, stjúpforeldra  börn og stjúpbörn séu fjarlægðir miklar og tími til samveru lítill.

Sutt spjall á Facebook, jákvæðar athugasemdir á „vegginn“ eða á myndir, skemmtileg sms skilaboð, netpóst,  Skype og símann má nýta til að styrkja samband sem annars væri ekki tækifæri til. Mikinn efnivið til umræðna er t.d. oft að finna á feisbook og gefst stundum tækifæri til að kynnast vinum barnanna eða vinum foreldra. En eins og með önnur samskipti þarf að fara sér hægt, finna út smám smá saman hvað er viðeigandi og skiptir aldur barna auðvitað máli.

Hvað sem tíma til samveru líður, þurfa þeir fullorðnu leggi sig fram við að mynda og halda tengslum við börnin. Hollt er að hafa í huga að ýmislegt getur haft áhrif hvernig til tekst í fyrstu og engin ástæða er til að gefast upp þótt samskiptin séu ekki hnökralaus. Það er fullkomlega eðlilegt í stjúpfjölskyldum!

Valgerður Halldórsdóttir félagsráðgjafi

Konan nennir ekki í frí með mér og dætrunum

Eftir Fjölskylda

Við hjónin rífumst um hvert eigi að fara í sumarfríinu. Mér fannst síðasta frí fínt en konan er ekki sammála. Henni finnst ég hafa notað allt sumarfríið til að sinna dætrum mínum af fyrra hjónabandi og nennir ekki aftur í slíkt frí. Hún virðist ekki skilja að stelpurnar hafa þörf fyrir mig og að ég hafi ekki haft mikinn tíma fyrir þær í vetur vegna vinnu. Verður hún ekki að gefa eftir?

 

Með kveðju, Haukur

Svar:

Komdu sæll Haukur.

Í hugum flestra fylgir því tilhlökkun að fara í sumarfrí. Þá á að slappa af, sinna áhugamálunum, treysta fjölskylduböndin, ferðast, ljúka verkum sem hafa setið á hakanum og skemmta sér. Ætli flestir séu ekki í þeim hugleiðingum núna í byrjun sumar.

Gott er að heyra að þér er umhugað um dætur þínar en það er augljóst að konan þín er ósátt og finnst þú sinna dætrunum í fríum á kostnað ykkar sambands. Af orðalagi bréfs þíns að dæma gæti hún haft nokkuð til síns máls, því að þú mótmælir þessu ekki heldur bendir á ástæður fyrir því, s.s. að dæturnar þurfi á þér að halda og geti lítið umgengist þig nema í fríum vegna mikillar vinnu.

Þú spyrð hvort konan þín þurfi ekki að láta undan. Mér sýnist þvert á móti að þú verðir að endurskoða skipulagið hjá þér. Þú vinnur mikið og það bitnar á dætrum þínum, sennilega á konunni þinni líka, og svo ætlar þú að bæta þeim það upp í fríunum, nema hvað að þá finnst konunni hún verða útundan. Líkast til saknar hún þess líka að vera með þér.

Öll erum við ólík og með mismunandi þarfir og væntingar um hvernig við viljum verja sumarfríi okkar. Sumir óska þess helst að flatmaga í rólegheitum á sólarströnd en aðrir vilja vera á þeytingi um öll fjöll með stórfjölskyldunni.

Þar sem ólíkar væntingar, þarfir og óskir stangast á, er líklegt að einhver verði fyrir vonbrigðum, reiðist og “nenni” ekki aftur – eins og konan þín orðar það. Vellíðan í fjölskyldum, ekki síst stjúpfjölskyldum, byggist oft á tíðum á málamiðlun, að allir fái eitthvað við sitt hæfi.

Ætla má að konunni þinni finnist þú skeytingarlaus um hennar þarfir. Hætta er á pirringi og að hún láti hann bitna á þér og stelpunum. Þú bregst þá kannski  við með því að fara í vörn og túlka framkomu hennar sem svo að hún hafi eitthvað á móti þeim. Lagleg flækja það! Og allt sem konan þín er í rauninni að segja, er að hana langi til að vera meira með þér og hafa þig svolítið út af fyrir sig.

Orð eru til alls fyrst. Ég legg til að þið ræðið öll saman, þið konan þín og dætur þínar, um hvernig þið viljið verja sumarfríinu og komist að niðurstöðu sem allir geta sætt sig við, – ekki bara stúlkurnar heldur þið öll.

Með því að sýna sveigjanleika og gera ráð fyrir öllum getur fríið orðið ljómandi góður tími, eftirminnilegur og lærdómsríkur, sem veitir þá tilbreytingu og hvíld sem að er stefnt. Slíkt frí er betur til þess fallið að treysta fjölskyldu- og vináttuböndin en það sem er notað til að vinna á uppsöfnuðu samviskubiti gagnvart dætrunum á kostnað parasambandsins. Notaðu annan tíma til þess. Kannski þarftu að reyna að endurskoða vinnutíma þinn svo að þú getur sinnt dætrum þína allan ársins hring.

Að þessu sögðu tek ég undir þá afstöðu í bréfi þínu að mikilvægt er að börn og kynforeldrar fái tækifæri til að vera saman án stjúpforeldra, þótt ekki sé nema dag og dag. Sömuleiðis þarf að skipuleggja tíma til að treysta parasambandið. Stjúpforeldrar geta með svipuðum hætti fundið sér tíma til að efla sambandið við stjúpbörnin.

Þannig skipulag eykur almenna vellíðan og ánægju og auðveldar öllum lífið. Er um að gera að gefa hugarfluginu lausan tauminn, það er ekki til einhver ein rétt leið til að vera eða vera ekki í fríi.

Afturkippir eru hluti af lífinu. Gerum ráð fyrir þeim, líka í fríinu, en missum ekki sjónar á því sem er gott og jákvætt og tökum tillit til allra, líka stjúpmæðra!

Vlgerður Halldórsdóttir, félags- og fjölskylduráðgjafi

Netnámskeið fyrir stjúpfjölskyldur

Eftir Hljóð/Mynd

Guðfinna Ýr Sumarliðadóttir og Guðrún Ísabella Þráinsdóttir, nemendur í Uppeldis- og menntunarfræðum við HÍ fjalla hér um bandaríska netnámskeið „Skills for Stepfamilies“ sem finna má á heimasíðunni. Námskeiðið miðar að því að byggja upp jákvæð samskipti í stjúpfjölskyldum og bæta ímynd stjúpfjölskyldunnar. Greinin var unnin í námskeiðinu Málstofa: efsta á baugi og framtíðarsýn vorið 2011 

 Hvaða ímynd hefur samfélagið af stjúpfjölskyldum?  Í rannsókn Planitz og Feeney (2009) voru borin saman viðhorf almennings til stjúpfjölskyldna annars vegar og kjarnafjölskyldna hins vegar. Þar kom fram að viðhorf fólks voru almennt neikvæðari og blendnari til stjúpfjölskyldna en kjarnafjölskyldna. Í þessari sömu rannsókn kom einnig fram að einstaklingarnir áttu auðveldara með að lýsa kjarnafjölskyldum en stjúpfjölskyldum.

Hvað er það sem veldur þessari neikvæðu ímynd? Margt getur haft áhrif, helstu ástæðurnar eru taldar vera að stjúpfjölskyldan er oft mynduð í kjölfar skilnaðar eða sambúðarslita. Einnig er talið að tíður samanburður við hina „fullkomnu“ kjarnafjölskyldu geti einnig verið ástæða, en oft er litið á stjúpfjölskylduna sem einhverskonar frávik frá henni. Áhrif neikvæðrar umfjöllunar Talið er líklegt að fjölmiðlaumfjöllun hafi áhrif á ímynd og viðhorf fólks til stjúpfjölskyldunnar. En flestir kannast við þá staðalímynd sem dregin er upp af vondu stjúpunni og af kúgaða heimilisföðurnum. Stjúpan forðast að sýna börnum hans hlýju og ástúð en beitir þau þess í stað andlegu og líkamlegu ofbeldi, á sama tíma og hún hyglir sínum eigin börnum. Börnin fyrirlíta stjúpmóður sína og þrá ekkert heitar en að losna við hana, samanber ævintýrin um Öskubusku og Hans og Grétu. Af þessum sögum að dæma er ekki að furða að börn sem og fullorðnir líti stjúpfjölskylduna neikvæðum augum og eigi í sumum tilfellum erfitt með að viðurkenna að þeir tilheyri slíkri fjölskyldu (Claxton-Oldfeild, 2008).

Hafa þessar neikvæðu ímyndir stjúpfjölskyldunnar áhrif á þá sem tilheyra henni? Taliðer að svo sé og neikvæðu ímyndir hafi áhrif á aðlögunarvilja fjölskyldumeðlima til að mynda ný fjölskyldutengsl. Jafnframt er því haldið fram að vilji þeirra til að leysa ágreiningsmál sem upp koma innan fjölskyldunnar sé minni (Planitz og Feeney, 2009). Það er mat okkar að liður í að draga úr neikvæðum áhrifum staðalímynda stjúpfjölskyldna er jákvæða upplifun af því að tilheyra þeim. Jákvæð samskipti innan fjölskyldunnar getur því verið mikilvægur þáttur í að stuðla að bættri ímynd stjúpfjölskyldna út á við, sem og líðan fjölskyldumeðlima.

Netnámskeið fyrir stjúpfjölskyldur  „Skills for Stepfamilies“ og rannsókn sem mótað var af Gelatt, Adler-Baeder og Seeley (2010) í Bandaríkjunum miðar að því að bæta samskipti innan stjúpfjölskyldna. Námskeiðið er gjaldfrjálst og aðgengilegt á Netinu: http://stepfamily.orcasinc.com/ (Parenting Toolkit: Skills for Stepfamilies, e.d.). Útgangspunktur verkefnisins eru myndskeið sem að sýna raunaðstæður sem upp geta komið innan stjúpfjölskyldna. Eftir hvert myndskeið birtast þrjár samskiptaleiðir sem sýna misjöfn viðbrögð við fyrri aðstæðum, aðeins eitt þeirra er talið árangursríkast. Eftir hverja samskiptaleið fá áhorfendur síðan að kynnast tilfinningum og upplifun þeirra sem þátt áttu í myndskeiðinu. Benda má á þann möguleika að fólki gefst kostur á að búa til sitt eigið bókasafn byggt á greinum og fræðum sem aðgengileg eru á síðunni (Parenting Toolkit: Skills for Stepfamilies, e.d.).

Árangur námskeiðsins – Rannsókn Gelatt, Adler-Baeder og Seeley (2010) sem gerð var í tengslum við námskeiðið benti til þess að það hafi haft jákvæð áhrif á fjölskyldulíf og samskipti innan fjölskyldna. Einnig kom fram, að þar sem verkefnið væri aðgengilegt á netinu væri það hentugt, einkum og sér í lagi vegna þess að hver og einn getur tekið þátt á sínum forsendum, án þess að vera dæmur af öðrum og þáttakendur þora að nálgast sín eigin vandamál. Námskeið sen þetta, geta nýst stjúpfjölskyldum til að efla samskipti sem og að hvetja fjölskyldumeðlimi til þess að taka meðvitaðri ákvarðanir í samskiptum sínum. Verkefnið hentar einnig fólki sem langar að bæta samskiptafærni og auka þekkingu sína á jákvæðum samskiptum.

 Heimildir

Claxton-Oldfeild, S. (2008). Stereotypes of stepfamilies and stepfamily members. Í J. Pryor (Ritstjóri), The International Handbook of Stefamilies, 30-52. New Jersy: John Wiley & Sons, Inc.

Gelatt, V. A., Adler-Baeder, F. og Seeley, J. R. (2010). An interactive web-based program for stepfamilies: development and evaluation of efficacy. Family Relations, 59, 572-586.

Newman, D. M. og Grauerholz, L. (2002). Sociology of Families (2. útgáfa). Thousand Oaks: Pine Forge Press. Parenting Toolkit: Skills for Stepfamilies. (e.d.). An Interactive Web-based Program for Stepfamilies: Development and Evaluation of Efficacy. Sótt 23. janúar 2011 af http://stepfamily.orcasinc.com.

Planitz, J. M. og Feeney, J. A. (2009). Are stepsiblings bad, stepmothers wicked, and stepfathers evil? An assessment of Australian stepfamily stereotypes. Journal of Family Studies, 15, 82-97.

Góð foreldrasamvinna skiptir máli fyrir námsárangur

Eftir Foreldrasamvinna

Rannsóknir hafa sýnt fram á  mikilvægi góðrar samvinnu foreldra  fyrir barnið. Góð tengsl milli þeirra skila sér í betri líðan hjá börnum,  til að mynda ná þau að aðlagast betur félagslega og ná betri árangri í skóla (Sigrún Júlíusdóttir, Jóhanna R. Arnardóttir og Guðlaug Magnúsdóttir, 2008).

Fólk á það til að festast í reiði og biturleika í gegnum skilnað og  virðast stundum einbeita sér að því neikvæða  og gleyma að horfa á það jákvæða sem þau sáu áður í fari hvors annars.  Foreldrar þurfa að geta haldið börnum sínum fyrir utan deilumál sín  þannig að þeir geti unnið betur saman með hag barnsins fyrir brjósti. Þeir þurfa að geta talað saman, sýnt gagnkvæma virðingu í samskiptum sínum og hver og einn reyni að gera sitt besta til að vera til staðar fyrir barnið.  Séu þeir jákvæðir gagnvart fyrrverandi maka styður það við og eflir gæði sambands þeirra við börnin (Walsh, 1998, Pryor, 2008).

Í flestum tilfellum er skilnaður mikið áfall og börnin upplifa mikla sorg enda breytast tengsl við foreldra og mikil umskipti verða oft í lífi þeirra. Börn vinna misjafnlega úr áföllum og er því brýnt að þau fái allan þann stuðning sem þau þarfnast (Sigrún Júlíusdóttir, Jóhanna R. Arnardóttir og Guðlaug Magnúsdóttir, 2008).  Þau geta átt erfitt með að spjara sig námslega, félagslega og tilfinningalega fyrstu tvö árin eftir skilnað foreldra sinna en þessi afturför getur orðið mun lengri ef samskipti foreldra eru slæm (Sigrún Júlíusdóttir, 2001). Því er mikilvægt að halda sem mestum stöðugleika í daglegu lífi barnanna og að þau finni fyrir öryggi og vissu um að þrátt fyrir skilnað munu foreldrarnir vera áfram til staðar. Því fyrr sem börn finna fyrir stöðugleika því fyrr aðlagast þau nýjum aðstæðum (Sigrún Júlíusdóttir, Jóhanna R. Arnardóttir og Guðlaug Magnúsdóttir, 2008). Ef skilnaðurinn hefur bætt samskipti foreldranna hefur það jákvæðar afleiðingar á börnin og aðlögunin er alltaf betri ef foreldrar eru  jákvæðir gagnvart hvert öðru. (Sigrún Júlíusdóttir, 2001).

Höfundar: Arna Bech, Guðný Helga Grímsdóttir og Tara Lind Jónsdóttir nemendur í áfanganum Stjúpfjölskyldur; skilnaður og endurgerð fjölskyldusamskipta, HÍ 2011.

Systkinatengsl í stjúpfjölskyldum – reynsla nemenda

Eftir Börn og ungmenni

Er munur á að eignast al,- hálf- og/eða stjúpsystkini. Nemendur í áfanganum: Stjúpfjölskyldur, skilaður og endurgerð fjölskyldusamskipta veltu fyrir sér mismunandi systkinatengslum  og hvað er það sem hjálpaði þeim að tengjast hvert öðru?

Þeir nemendur sem áttu stjúpsystkini sögðu að aldur barnanna skiptir máli þegar stjúpfjölskyldurnar myndast . Eftir því sem að börnin voru eldri var erfiðara að mynda tengsl, og ef þau tengdust ekki stjúpmóður voru minni líkur á að þau tengdust börnum hennar. Það kom einnig fram að meiri líkur væru á því að systkini að sama kyni eiga það frekar til í að tengjast en af gagnstæðu kyni. Rætt var um mögulega kynferðisleg spenna milli stjúpsystkina og það gæti flækt hlutina.

Tengsl við stjúpforeldri skipir máli. Þau sem áttu hálfsystkini voru sammála um að það skipti máli hvort systkinin ólust upp saman og  bjuggu á sama stað eða hvort að það hittist bara á umgengistíma hjá foreldrinu. Því að því meira sem þau eyddu tíma með viðkomandi því meiri líkur voru á betri og nánari tengslum. Einnig töldu þau að stjúpforeldrið hefði á sama hátt áhrif á tengsl þeirra við hálfsystkini sín eins og við stjúpsystkini þe. ef samband þeirravið stjúpforeldrið  var gott hafði það jákvæð áhrif á  hálfsystkinatengslin annars ekki.Í umræðunni kom jafnframt fram að samband kynforeldra gæti haft áhrif á systkinatengslin, ef það er ekki nógu gott smitað út frá sér.

Mikilvægt sé þegar barn eignast hálfsystkini að það finni fyrir öryggi og að það sé gert ráð fyrir því sem hluta af fjölskyldunni. Barninu getur liðið eins og það sé ekki lengur mikilvægt  í lífi foreldris  því hálfsystkinið sé ríkara og mikilvægara þar sem báðir foreldrarnir á heimilinu eru kynforeldrar þess.

Engin mynd af mér á heimilinu?Einnig kom fram að litlir hlutir í augum eins fjölskyldumeðlims  getur verið stórir hlutir í annars fjölskyldumeðlims. Að það sé ekki mynd af viðkomandi barni á fjölskylduveggnum bara hálf- og/eða stjúpsystkinum getur virkað illa á barn og á líðan þess. Litlu hlutirnir geta skipt börn miklu málí eins og að vera með mynd  af því upp á vegg ásamt hinum systkinunum, að fá að halda á systkini við skírn eða  fá að vera með þegar það er verið að baða það o.s.fv.  Að líða eins og partur af fjölskyldunni, hvort sem það er hjá foreldri sem barnið býr með að staðaldir eða hjá foreldri sem það hittir reglulega er mikilvægt. Þeir nemendur sem áttu hálfsystkini sögðu að það væri mjög mismunandi hvernig tengsl þeirra væri háttað við hálfsyskini sín. Sum voru mjög náin en aðrir þekktu þau lítið.

Alsystkinahópurinn var sammála því að aldurinn skipti líka máli og því nær sem systkinin eru í aldri því nánari eru þau. Ef mikið aldursbil er á milli systkinanna er það ekki fyrr en um og  eftir menntaskóla sem að systkinin fara að verða vinir því þá eru þau komin á sama þroskastig og ná því að tengjast betur. Einnig töldu þau að ef aldursbilið var mikið,  var meiri samkeppni milli systkinanna. Þau voru sammála því að það skipti máli að fá að taka þátt í lífi systkina sinna, fá að annast þau sem yngri voru en það gerði það að verkum að þeim fannst þau betur tilheyra fjölskyldu sinni. Þeir nemendur sem fengu að halda á systkini sínu undir skírn þóttu mjög vænt um það.

Nýbakaðar mæðir eru ólíkar gagnvar eigin börnum en stjúpbörnum Sumar mæður í hópnum greindu frá því að þegar þær áttu sitt annað settu þær eldra barnið aðeins til hliðar í fyrstu vegna þess að nýja ungabarnið þarfnaðist meiri umönnunar.Þær fegnu hinsvegar meira samviskubit gagnvart stjúpbarni sínu en eldra barni sínu. Þær sögðu  sig tengdari sínu eigin barni en stjúpbarni og treystir meira á ást barna sinna í þessum nýju aðstæðum. Þær komu öðru vísi fram við stjúpbarn en eigin barn, til dæmir voru kurteisari við stjúpbarn sitt og væntu meiri skilnings á aðstæðum frá eigin barni

Nemendur voru sammála um vegna eigin reynslu og með því að hlusta á hvert annað að það margt sem getur skipt máli þegar kemur að tengslamyndun fjölskyldna og því stundum erfitt að sjá hvað hefur áhrif og hvað ekki. En þau voru sammála um að það skipir öllum máli að fá að vera með og líða eins og þeir sú partur af heildinni.Þegar farið var yfir hvaða þætti væru sameignlegir öllum systkinhópunum þ.e. al-,hálf og stjúpsystkinum var það að aldurinn virtist skipta máli og hversu mikinn tíma þau eyddu saman.

Höfundar: Guðný Helga Grímsdóttir, Svanhildur Anna Gestdóttir, nemendur á áfanganum: Stjúpfjölskyldur, skilnaður og endurgerð fjölskyludsamskipta Hí,  vor 2011

Instagram