Skip to main content
Flokkur

Fjölskylda

Hvað græði ég á þessu?

Eftir Börn og ungmenni, Fjölskylda

„Stjúp­syst­ir mín fær allt frá minni fjöl­skyldu en ég og bróðir minn fáum ekk­ert frá henn­ar.  Hvað áttu við spurði ég? Sko, mamma hef­ur sí­felld­ar áhyggj­ur af því hvernig henni líði og ger­ir allt fyr­ir hana en pæl­ir ekk­ert í okk­ur. Hún læt­ur stund­um eins og hún sé meiri mamma henn­ar en okk­ar, kaup­ir föt, fer á hand­bolta­leiki hjá henni og svo býður hún henni með okk­ur í allt af því að hún er í fjöl­skyld­unni. Amma og afi gefa henni gjaf­ir eins og okk­ur, en við fáum ekk­ert frá henn­ar fólki, svo er pabbi henn­ar ekk­ert að pæla í því hvernig mér eða bróður mín­um líður. Hann fer oft eitt­hvað með stjúp­syst­ur minni án þess að bjóða okk­ur systkin­un­um með. Mamma seg­ir að það sé af því að við erum tvö en hún bara ein,“ Val­gerður Hall­dórs­dótt­ir fjöl­skyldu­fræðing­ur rek­ur fyr­ir­tækið stjúptengsl.is. Hún skoðar sam­skipti í stjúp­fjöl­skyld­um í nýj­um pistli: Sjá framhald á Smartland


 

Frestaði brúðkaupinu ítrekað vegna foreldra sinna – Mbl Smartland

Eftir Fjölskylda, Hátíðir

Sæl Val­gerður.

Ég er að fara að gifta mig í sept­em­ber, sem ætti að vera mikið gleðiefni. Und­ir­bún­ing­ur­inn geng­ur von­um fram­ar en eina vanda­málið eru for­eldr­ar mín­ir. Þau skildu fyr­ir tólf árum og var skilnaður­inn mjög erfiður og sár­in virðast aldrei ætla að gróa. Þau eiga bæði nýj­an maka og það er nán­ast ómögu­legt að sjá fyr­ir sér þær aðstæður að þau geti hrein­lega hist í brúðkaup­inu en þau hafa bæði sagt að þau komi. Það eru hins veg­ar ótelj­andi hliðar á því sem valda mér kvíða. Satt að segja hef ég frestað því lengi að gifta mig út af þessu ástandi á þeim, en ætla ekki að gera það leng­ur. Hvað get ég gert?

Kveðja,

Helga

Sæl Helga.

Það er sorg­leg staðreynd að sum­ir virðast ekki ná að vinna úr sín­um skilnaði. Sér­stak­lega í ljósi þess að djúp­stæður ágrein­ing­ur er ekki einka­mál for­eldra og hef­ur áhrif á alla þá sem að þeim standa. Rétt eins og þú seg­ir sjálf þá hef­ur þú fram til þessa frestað því að gifta þig út af erfiðum sam­skipt­um þeirra.

Já­kvæðu frétt­irn­ar eru að for­eldr­ar þínir virðast ætla að mæta í brúðkaupið þitt þótt það muni ör­ugg­lega valda þeim kvíða og streitu að óbreyttu. Það má gefa þeim plús fyr­ir það. Mik­il­vægt er að þú og til­von­andi maki þinn haldið ykk­ar striki og leyfið þeim ekki að hafa frek­ari áhrif á áform ykk­ar varðandi brúðkaup. Sjá meira Hér

Sumarfrí í stjúpfjölskyldum valda kvíða – MBL

Eftir Fjölskylda

Það er há­anna­tími, flest­ir á leið í frí, sum­ir í stór­um hóp­um, þar sem öllu ægir sam­an, for­eldr­um, stjúp­for­eldr­um, ömmu og afa, stjúpömmu- og afa, bræðrum, stjúp­bræðrum, systr­um og stjúp­systr­um. All­ir sam­an á hót­eli og all­ir glaðir í tvær til þrjár vik­ur. En þannig er það ekki alltaf. Og stund­um kem­ur fólk heim úr frí­um síður út­hvílt en áður en farið var út.

Að sögn Val­gerðar Hall­dórs­dótt­ur, fjöl­skyldu og fé­lags­ráðgjafa hjá Stjúptengsl­um, get­ur sum­ar­fríið reynt á marga, sér­stak­lega ef óraun­hæf­ar vænt­ing­ar og skort­ur á skipu­lagi stýra ferðinni.


Lesa má greinina í heild sinni HÉR.

Hver er í fjölskyldunni?

Eftir Fjölskylda

Stundum hreykir fólk sér af frændsemi og tengslum við aðra sem þótt hefur skara fram úr. Hafi viðkomandi til dæmis unnið til verðlauna vegna andlegs atgerfis eða útlits er hann gjarnan „meira“ tengdur viðkomandi, en sá sem hefur sýnt hegðun sem ekki þykir til eftirbreytni. Það er þó ekki algilt frekar en annað. Kannski skiptir tíminn einhverju máli í því samhengi. Það þykir til að mynda frekar fínt í Ástralíu að geta rakið ættir sínar til „glæpamannanna“ sem Bretar losuðu sig við á sínum tíma. Stundum var eini „glæpur“ þeirra, fátækt.

Þegar kemur að því að velta fyrir okkur hver tilheyrir frændgarði okkar og fjölskyldu vefst það síður fyrir fólki sem ekki hefur reynslu af skilnað eða sambandsslitum en þeim sem hafa þá reynslu í farteskinu. Börnin, hvort sem þau eru ung eða fullorðin, tilheyra fjölskyldu foreldra sinna og foreldarnir fjölskyldu barna sinna. Ef einhver þykir hafa sýnt óviðeigandi lífsstíl eða hegðun er hann í versta falli talinn vera „svarti sauðurinn“ í fjölskyldunni og fáir myndu gera athugasemd við það þó hann vildi vera með á fjölskyldumyndinni á ættarmótinu fyrir austan. Makar, tengdaforeldrar og tengdabörn, teljast líka venjulega til fjölskyldunnar hvort sem samskiptin þykja góð og uppbyggileg eða erfið og niðurrífandi.

Endurskilgreinum fjölskyldutengsl

Óhjákvæmilega fylgja breytingar skilnaði og nýju sambandi. Sumar eru nokkuð fyrirsjáanlegar en aðrar koma á óvart eins og að börn og foreldrar skilgreina fjölskyldu sína á annan hátt en áður. Ástæðan er sú að sjaldnast nefna fyrrverandi makar hvorn annan sem hluta af fjölskyldu sinni en tilheyra þó oftast áfram fjölskyldu barna sinna. Þegar foreldrar fara í nýja sambúð eða hjónaband bætist við maki og stundum börn hans, sem verður til þess að margir skilgreina fjölskyldu sína upp á nýtt.

Er stjúpforeldrið í fjölskyldunni?

Það er hinsvegar ekki sjálfgefið að þótt fólk deili heimili að það telji hvort annað til fjölskyldu sinnar. Ef börnum líkar til að mynda ekki við stjúpforeldri sitt eða ef stjúpforeldrið hefur ekki náð að tengjast stjúpbarninu eru minni líkur á að viðkomandi teljist til fjölskyldu þess en ella. Að upplifa sig útundan er vond tilfinning, á það bæði við um börn og fullorðna. Við þurfum öll á viðurkenningu að halda. Það kann að koma sumum á óvart að viðkenning stjúpbarna skiptir stjúpforeldra máli og að þeir hafa trú á því í fyrstu að stjúpfjölskyldur verði nánari með tímanum. Börn eru hinsvegar mistilbúin til þess í fyrstu að taka þeim og þá er hætta á að stjúpforeldri sem reynt hefur eftir bestu geti að tengjast þeim, upplif höfnun séu þau ekki reiðbúin. Séu samskipti maka stjúpforeldrisins við fyrrverandi maka líka erfið eru meiri líkur á að stjúpforeldrið finnist barnið og allt sem því viðkemur smá saman verða vandamál og vill sem minnst af því vita. Jafnframt fylgir streita þessum aðstæðum sem bitnar bæði á börnum og fullorðnum. Hætta er á að sá stuðningur sem mögulega var fyrir hendi í fyrstu minnki eða hverfi en tengsl segja til um hversu mikinn eða lítils stuðnings er að vænta af viðkomandi og hvort fólk treysti sér til að leita eftir honum þegar á þarf að halda.

Ólík en jafngild

Stjúpfjölskyldur þurfa stuðning og að vita hvað er normalt fyrir þær, í stað þess að reyna bera sig saman við fjölskyldur þar sem öll börn eru sameiginleg. Jafnfram þarf að vinna í að koma á góðum samskiptum við fyrrverandi maka/barnsföður eða –móður,  séu þau ekki í lagi.

Meiri líkur eru á að stjúpforeldrar – og börn fái stuðning og veiti stuðning séu góð tengsl fyrir hendi. Stundum þarf fólk að læra hvað hjálpar þannig að þétta megi tengslanetið og fleiri fái að tilheyra fjölskyldu viðkomandi. Það ber því að fagna þeirri vinnu sem farin er af stað hjá hinu opinbera að móta fjölskyldustefnu sem tekur mið af margbreytileikanum – og ekki síst auknum áhuga almennings á málefninu.

Valgerður Halldórsdóttir félags- og fjölskylduráðgjafi MA, sáttamaður

Hver borgar hvað fyrir hvern?

Eftir Fjölskylda

„Mér finnst svo ósanngjarnt að við skulum vera látin borga tvöfalt meðlag með stráknum sem er aðra hvora viku hjá okkur. Það er ekkert pælt í því hvaða tekjur mamma hans hefur eða maðurinn hennar, en þau eru mun betur stæð en við“.

Óhætt er að fullyrða að flestir foreldrar vilja sjá um framfærslu barna sinna og margir stjúpforeldrar greiða ýmislegt fyrir stjúpbörn sín eins og tómstundir, sumarfrí, fatnað og mat og fleira. Jafnvel þó bæði innlendar og erlendar rannsóknir sýni að stjúpforeldrar séu síður tilbúnir til þess að styðja stjúpbörn sín en eigin börn. Ef tengsl stjúpforeldra og stjúpbarna eru góð er líklegra að þeim langi til að veita þeim fjárhagslega stuðning en ef þau eru erfið eða engin.

Lagaleg skylda 

Foreldrum ber lagalega skylda til að framfleyta börnum sínum. Skiptir engu hvort þeir fari með forsjá þeirra eða ekki. Annað á við um stjúpforeldra og í raun hefur minnihluti þeirra framfærsluskyldu gagnvart stjúpbörnum sínum. Ástæðan er sú að um 90% foreldra fara með sameignlega forsjá við skilnað. Þýðir það að minnihluti stjúpforeldra hefur forsjá stjúpbarna sinna. Hafi þeir hana, fellur hún niður við skilnað.

Því er hinsvegar ekki að neita ákveðnar væntingar eru til stjúpforeldra um framfærslu stjúpbarna. Hvað varðar hið opinbera þá virðist sem að lögheimili barns sé látið ráða en ekki hvort stjúpforeldrið hafi forsjá þess eða ekki. Eða er hið opinbera ekki að gera ráð fyrir því að stjúpforeldri sem á sama lögheimili og stjúpbarn taki þátt í framfærslu barnsins, þar sem bætur tengdar börnum skerðast og afsláttur fellur niður þegar breytingar verða á hjúskaparstöðu foreldrisins?

Ég er að reyna átta mig á þessu en það virðist einhver önnur hugsun í gangi þegar kemur að stjúpforeldri sem er maki meðlagsgreiðanda. Í því tilviki virðast tekjur stjúpforeldrisins ekki skipta máli þegar verið er að ákvarða hvort foreldri geti greitt eitthvað umfram einfalt meðlag með barni sínu eða ekki. Auk þess sem það foreldri telst ekki foreldri samkvæmt skattalögum og nýtur engra bóta tengda börnum sem greitt er með meðlag, jafnvel þó það dvelji hjá því aðra hvora viku. Ég velti fyrir mér af hverju sumir telja það þurfi að breyta lögheimilislögum til að jafna betur opinberar bætur á milli heimila. Af hverju eru umgengnissamningar eða foreldrasamningar eins og ég kýs að kalla þá, ekki látnir ráða?

Skiptar skoðanir 

Meðal almennings eru skiptar skoðanir um það hvort stjúpforeldri eigi að sjá um framfærslu stjúpbarna sinna eða ekki. Í könnun sem send var út á vegum Félags stjúpfjölskyldna í fyrra taldi 52% svarenda að stjúpforeldrar ættu að borga til jafns við foreldra fyrir þau börn sem eru búsett á heimilinu.

En þegar tölurnar voru greindar nánar kom í ljós mikill munur á afstöðu fólks til þessa máls eftir samsetningu stjúpfjölskyldunnar. En 65% þeirra sem áttu börn saman og báðir komu með börn í sambandið voru sammála jafnri framfærslu forelda og stjúpforeldra en aðeins 25% stjúpforeldra sem ekki átti börn sjálfir. Tölurnar benda til þess að eignast barn saman skipti töluverðu um afstöðu bæði foreldra og stjúpforeldra varðandi þátttöku stjúpforeldris í kostnaði vegna barna sem búsett eru á heimilinu. Önnur afstaða virðist vera gagnvart börnum sem koma í „umgengni“ samkvæmt upplýsingum í nýlegri MA ritgerð í félagsráðgjöf. Þau börn virðast fá minni fjárhagslega aðstoð en börnin sem teljast búsett á heimilinu. En hvenær teljast börn búa á heimili og hvenær eru þau í umgengni?

Jafnframt kom í ljós í fyrrgreindri könnun sem send var út á vegum Félags stjúpfjölskyldna að 25% svarenda voru þeirra skoðunar að foreldri ætti ekki að borga meðlag með barni sem býr með foreldri og stjúpforeldri. Þessi hugmynd hefur ekki farið hátt í umræðunni um meðlagsmál hér á landi – enda spurning hversu raunhæf eða sanngjörn hún er.

Hvað sem því líður þarf að skoða framfærslu barna sem eiga foreldra á tveimur heimilum svo tryggja megi þeim góð lífsskilyrði óháð hjúskaparstöðu foreldra og draga úr deilum sem kerfið skapar. Líklega þarf að endurskoða kerfið frá grunni sem virðist taka mið af öðrum veruleika en við búum við í dag.

Valgerður Halldórsdóttir félags- og fjölskylduráðgjafi MA, sáttamaður.

Áður birt 2015

Lúdó

Í Matdador með Lúdóreglur?

Eftir Fjölskylda

Fjölskyldur eru mismunandi – og það á líka við um stjúpfjölskyldur þar sem parið á börn úr öðrum samböndum. Það getur verið á framhaldsskólaaldri með ung börn eða á gamals aldri eins og afi minn sem flutti út af elliheimilinu og hóf sambúð að nýju við mismikla gleði aðstandenda. Fólk getur verið gagnkynhneigt eða samkynhneigt af íslenskum eða erlendum uppruna svo eitthvað sé nefnt. Þrátt fyrir margbreytileika þeirra benda rannsóknir til að að þær eiga margt sameignlegt og glíma við svipaðar áskoranir.

Útundan

Að upplifa sig útundan er algeng tilfinning bæði hjá börnum og fullorðum sem getur haft óheppileg áhrif á fjölskyldulífið sé ekki brugðist við á uppbyggilegan máta. Gegnir kynforeldri þar lykilhlutverki að tengja saman börn og maka, miðla upplýsingum og tryggja góð samskipti við fyrrverandi maka eða barnsföður/móður.

Algengt er hlutverk stjúpforeldra vefjist fyrir fólki og upp komi óraunhæfar hugmyndir um að hægt sé að endurskapa kjarnafjölskylduna. Jafnvel að stjúpforeldrið geti alfarið komið í staðinn fyrir það foreldri sem ekki er búsett á heimilinu. Það býður hættunni heim, sérstaklega ef stjúpforeldri tekur að sér agamálin án þess að tengsl hafi náð að myndast við börnin. Óhjákvæmilega fylgja líka nýjar hefðir og venjur nýju fólki sem deilir saman heimili og á sér aðra sögu. Hvort á að gera ráð fyrir að börnin sjái sjálf um nestið eins og mín börn eða smyrja fyrir þau eins og hann/hún gerir fyrir sín börn? Er nauðsynlegt að samræma hlutina? Sætaskipan við eldhúsborðið breytist þegar börnin eru aðeins viku í senn á heimilinu og foreldrar reyna gjarnan að aðlaga vinnutíma sinn svo þeir geti sinnt börnunum þann tíma sem þau eru hjá þeim. Hvað gerist þegar parið eignast síðan sameignlegt barn?

Foreldrið „úti í bæ“

Fyrrverandi maki eða barnsfaðir/móðir getur líka haft sín áhrif á fjölskyldulífið, bæði viljandi og óviljandi með hegðun sinni og unnið gegn aðlögun barna sinna að stjúpfjölskyldunni með sífelldri truflunum og inngripi í aðstæður á hinu heimilinu. Þegar tekist er á við missi og breyttar aðstæður hjálpar að hafa ríflegan skammt af þolinmæði og sveigjanleika sem virkar eins höggdeyfir. Líkt og brjóskið í líkamanum. Öll samskipti verða liprari og viðnám minna hjá fjölskyldumeðlimum sem eru kannski ekki eins spenntir fyrir stjúpfjölskyldulífinu í fyrstu og parið.

Það eflir stjúpfjölskyldur að vita hvað eru klassísk verkefni fyrir þær í stað þess að reyna nota kjarnafjölskyldur sem fyrirmynd. Sé það reynt er það eins og að spila Matador með Lúdóreglum. Vænta má fleiri stórsigra í Matador, en einfaldar lúdóreglur duga ekki til.

Valgerður Halldórsdóttir félags- og fjölskylduráðgjafi,  MA, sáttamaður.

Áttu rétt á styrkjum fyrir viðtöl eða námskeið?

Eftir Ráðgjöf

Stéttarfélög styrkja félagsmenn sína til að sækja nám og námskeið.

Hér að neðan eru tenglar á heimasíður þar sem nálgast má upplýsingar um styrki en athugið að listinn er ekki tæmandi.

Hafðu samband við þitt stéttarfélag og kannaðu málið.

Afl stéttarfélag

BHM

BSRB (Stéttarfélög í almennaþjónustu)

Efling

FFÍ (Flugfreyjufélag Íslands)

FÍA (Félag íslenskra atvinnuflugmanna)

Kennarasamband Íslands  

Kjölur (Stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu)

LL (Landssamband Lögreglumanna)

Landsmennt (Fræðslusjóður Samtaka atvinnulífsins og verkafólks á landsbyggðinni)

MATVÍS

Rafiðnaðarsamband Íslands

SEF (Samstarfsnefnd um endurmenntun framhaldsskólakennara)

Sameyki (SFR)

Samband stjórnendafélaga

SSF – Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja

Starfsafl

Starfsgreinasamband Íslands

Starfsmenntasjóður SVS (VR, LÍV, FVSA)

Verkfræðingafélag Íslands

VR 

AÐRIR

Vinnumálastofnun veitir einnig styrki

Félagsþjónusta og barnavernd í þínu sveitarfélagi

Ég ráðlegg fólki að hætta að reyna fá viðurkenningu frá fyrrverandi maka – viðtal

Eftir Fjölskylda

„Það getur verið erfitt að flytja inn á heimili þar sem aðrir eru fyrir, jafnvel þótt það sé búið að útbúa sérherbergi með góðum vilja og hvaðeina,“ segir fjölskyldu- og félagsráðgjafinn Valgerður Halldórsdóttir sem prýðir forsíðu Vikunnar að þessu sinni.

„Það getur meira að segja verið erfitt fyrir foreldrið að flytja inn á heimili þar sem aðrir eru fyrir og kannski upplifir það sig aldrei eiga fullkomlega heima þar sjálft. Stundum er líka krafist aðlögunar í aðra áttina. Við konur segjum líka oft: „Á mínu heimili …“ og börnin velta þá fyrir sér hvort þau og pabbi þeirra eigi heima þar líka. Þau fá það á tilfinninguna að stjúpmóðirin ráði öllu, sem stundum er raunin. Stundum eru foreldri og stjúpforeldri ekki sammála um hvort barnið eigi heima á heimilinu eða hvort það sé gestur. Þegar barn segir: „Mér finnst ég ekki eiga heima hérna“ eða: „Ég er ekki í fjölskyldunni“ er algengt að það sé leiðrétt og látið vita að víst eigi það heima þarna eða auðvitað sé það í fjölskyldunni í stað þess að svara tilfinningu þess. Hvað þarf að gera til að barninu líði eins og heima hjá sér eða til að því líði eins og það tilheyri fjölskyldunni?“

Óumbeðin uppeldisráð stjúpforeldris óvinsæl
Blaðamaður hugsar upphátt og spyr Valgerði hvort nauðsynlegt sé að foreldri, þ.e. fyrrverandi maki, og stjúpforeldri hafi einhver samskipti sín á milli en hún hristir höfuðið. „Ég held að það sé ekki nauðsynlegt að hafa mikil samskipti, það er nóg að geta hist og að vera kurteis í samskiptum í aðstæðum eins og afmælum, útskriftum og þess háttar. Stundum vill fólk ekki vera í neinum samskiptum og það getur truflað fyrrverandi maka að stjúpforeldrið sé inni í öllum tölvupóstssamskiptum foreldra. Hann hafi hvorki áhuga á að tala við viðkomandi né veita tilvist hans einhverja sérstaka viðurkenningu. Gæti jafnvel ekki verið meira sama. Ég ráðlegg fólki að hætta að reyna að fá viðurkenningu frá fyrrverandi maka sé hann ekki tilbúinn að veita hana. Besta viðurkenningin er í rauninni sú að finna það að barnið vilji vera hjá þér og að þið séuð í góðum tengslum.“

Blaðamaður nefnir dæmi úr nærumhverfi sínu þar sem stjúpmóðir sendi móðurinni óumbeðin uppeldisráð og spyr hvort það sé eitthvað sem vert sé að leggja sig fram við. „Nei,“ svarar Valgerður hlæjandi, „ég myndi aldrei mæla með því. Maður fer ekki að senda einhverju fólki sem maður er í engum tengslum við óumbeðin uppeldisráð. Hins vegar gæti verið óskað eftir samtali um eitthvað, til dæmis vandamál varðandi tölvunotkun sem ætti auðvitað að vera sjálfsagt. En óumbeðin uppeldisráð eru ekki til þess fallin að slá í gegn og skapa engar vinsældir.“

Viðtalið í heild má lesa í nýjasta tölublaði Vikunnar.

https://www.man.is/vikan/eg-radlegg-folki-ad-haetta-ad-reyna-ad-fa-vidurkenningu-fra-fyrrverandi-maka/

Hver er í fjölskyldunni?

Eftir Fjölskylda

Stundum hreykir fólk sér af frændsemi  og tengslum við aðra sem þótt hefur skara fram úr.   Hafi viðkomandi  til dæmis unnið til verðlauna vegna andlegs atgerfis  eða útlits er hann gjarnan „meira“ tengdur  viðkomandi,  en sá sem hefur sýnt hegðun sem ekki þykir til eftirbreytni.  Það er þó ekki algilt frekar en annað.  Kannski skiptir tíminn einhverju máli í því samhengi.  Það þykir til að mynda frekar fínt í Ástralíu að geta rakið ættir sínar til „glæpamannanna“ sem Bretar losuðu sig við á sínum tíma.  Stundum var eini „glæpur“  þeirra, fátækt.

Þegar kemur að því að velta fyrir okkur hver tilheyrir frændgarði  okkar og fjölskyldu vefst það síður  fyrir fólki sem ekki hefur reynslu af skilnað eða sambandsslitum en þeim sem hafa þá reynslu í farteskinu.  Börnin, hvort sem þau eru ung eða fullorðin, tilheyra fjölskyldu foreldra sinna og foreldarnir  fjölskyldu barna sinna.   Ef einhver þykir hafa sýnt óviðeigandi lífsstíl eða hegðun er hann í versta falli  talinn vera „svarti sauðurinn“ í fjölskyldunni og fáir myndu gera athugasemd við það þó hann vildi vera með á fjölskyldumyndinni á ættarmótinu fyrir austan.  Makar,  tengdaforeldrar og tengdabörn,  teljast líka venjulega til fjölskyldunnar  hvort sem samskiptin þykja  góð og uppbyggileg eða erfið og niðurrífandi.

Óhjákvæmilega fylgja breytingar skilnaði og nýju sambandi. Sumar eru nokkuð fyrirsjáanlegar en aðrar koma á óvart eins og  að börn og foreldrar skilgreina fjölskyldu sína á annan hátt en áður. Ástæðan er sú að sjaldnast nefna fyrrverandi makar hvorn annan sem hluta af fjölskyldu sinni en tilheyra þó oftast áfram fjölskyldu barna sinna.  Þegar foreldrar fara í nýja sambúð eða hjónaband bætist við maki og stundum börn hans,  sem verður til þess að margir skilgreina fjölskyldu sína upp á nýtt. Það er hinsvegar ekki  sjálfgefið að þótt fólk deili heimili að það telji hvort annað til fjölskyldu sinnar. Ef börnum líkar til að mynda ekki við stjúpforeldri sitt eða ef stjúpforeldrið hefur ekki náð að tengjast stjúpbarninu eru minni líkur á að viðkomandi teljist til fjölskyldu þess en ella.  Að upplifa sig útundan er vond tilfinning, á það bæði við um börn og fullorðna. Við þurfum öll á viðurkenningu að halda. Það kann að koma sumum á óvart að viðkenning stjúpbarna skiptir stjúpforeldra máli og að þeir hafa trú á því í fyrstu að stjúpfjölskyldur verði nánari með tímanum.  Börn eru hinsvegar mistilbúin til þess í fyrstu að taka þeim og þá er hætta á að stjúpforeldri sem reynt hefur eftir bestu geti að tengjast þeim,  upplif höfnun séu þau ekki reiðbúin.   Séu samskipti maka stjúpforeldrisins við fyrrverandi maka líka erfið eru meiri líkur á að stjúpforeldrið finnist  barnið og allt sem því  viðkemur smá saman verða vandamál og vill sem minnst af því vita. Jafnframt fylgir streita þessum aðstæðum sem  bitnar bæði á börnum og fullorðnum. Hætta er á að sá stuðningur sem mögulega var fyrir hendi í fyrstu minnki eða hverfi en tengsl segja til um hversu mikinn eða lítils stuðnings er að vænta af viðkomandi og hvort fólk treysti sér til að leita eftir honum þegar á þarf að halda.

Stjúpfjölskyldur þurfa stuðning og að vita hvað er normalt fyrir þær, í stað þess að reyna bera sig saman við fjölskyldur þar sem öll börn eru sameiginleg. Jafnfram þarf að vinna í að koma á góðum samskiptum við fyrrverandi maka/barnsföður eða –móður,  séu þau ekki í lagi.

Meiri líkur eru á að stjúpforeldrar – og börn fái stuðning og veiti stuðning séu góð tengsl fyrir hendi. Stundum þarf fólk að læra hvað hjálpar þannig að þétta megi tengslanetið og fleiri fái að tilheyra fjölskyldu viðkomandi. Það ber því að fagna þeirri vinnu sem farin er af stað hjá hinu opinbera að móta fjölskyldustefnu sem tekur mið af margbreytileikanum – og ekki síst auknum áhuga almennings á málefninu.

Valgerður Halldórsdóttir, félags- og fjölskylduráðgjafi

Instagram