Skip to main content
Flokkur

Fagfólk

Orð skipta máli – eða „eþakki“?

Eftir Fagfólk

„Já ég er alveg sammála þér, mér finnst þetta orð „umgengnisforeldri“ leiðinlegt. Það er eitthvað svo niðurlægjandi eins og maður sé annars flokks foreldri“.  Á vefnum syslumenn.is er að finna mikið af gagnlegum upplýsingum, meðal annars um svokallaða umgengni og fyrrnefnda umgengnisforeldra en það eru þeir foreldrar sem ekki eiga sama lögheimili og börn þeirra.  Þar segir að tilgangur umgengninnar sé að tryggja að barn fái að umgangast og halda sambandi við það foreldri sitt sem það býr ekki hjá. Jafnframt að það sé réttur foreldris að fá að umgangast barn sitt og á því hvílir skylda að sinna umgengni við barnið.

Flestir foreldrar vilja mikil samskipti við börn sín óháð því hvar lögheimili þeirra er skráð og gera það sem þeir geta til að börnin geti átt samvistir við báða foreldra sína, jafnvel þeir sem eiga í persónulegum deilum. Því miður á það ekki við um alla foreldra. Sumir foreldrar  ákveða að vera ekki inni í lífi barna sinna frá upphafi en aðrir láta sig smá saman hverfa úr lífi þeirra. Algengar ástæður þess að foreldrar draga úr tengslum við börn sín eftir skilnað eða skera á þau,  er að þeir geta átt erfitt með að þola þann sársauka sem fylgir að vera ekki lengur í daglegum samskiptum við þau, erfið samskipti við fyrrverandi maka eða vegna misskilinnar tillitssemi þ.e. til að skapa rými fyrir stjúpforeldri í lífi barnanna. Stundum er skorðið á tengsl við eigin börn vegna erfiðra stjúptengsla  í stað þess að reyna bæta og læra nýjar leiðir. Ef foreldri sinnir ekki börnum sínum hefur það engar lagalegar afleiðingar en fátt er erfiðara börnum en höfnun foreldra, sama hvaða ástæðu þeir gefa sér. Það er líklega ekki að ástæðulausu að sum börn upplifi sig minna metin að verðleikum en önnur börn.

Hið fyrrnefnda „umgengnisforeldri“ er ekki að finna á vef Hagstofunnar og því ekki sýnilegt í opinberum tölum hennar nema sem „einstaklingur“. Ef það komið í sambúð að nýju er það „hjón eða óvígð sambúð með börn“ séu börn með lögheimili á heimilinu eða „hjón eða óvígð sambúð án barna“ hvernig svo sem menn komast að þeirri niðurstöðu.   Þar má hinsvegar finna „einstætt foreldri“ og „einhleypt foreldri“, „kona með barn“ og „karl með barn“. Kannski að það ætti að vera „karl (eða kona) með lögheimili barns“ ef ég skil þetta rétt þar sem ekki er verið að vísa í foreldra almennt.  Á vefnum kemur líka fram að hugtakið lögheimili sé „tölfræðilegt“ hugtak. Það þýðir líklega að nota eigi hugtakið til mælinga en það er verra þegar það er notað til að skilgreina hverjir eru foreldrar og ekki foreldar samkvæmt Hagstofunni. En þegar rætt er um einhleypa foreldra hér á landi er líklega aðeins eiga við um títtnefnda lögheimilisforeldra en fjöldi þeirra árið 2013, voru um þrettán þúsund manns og yfirgnæfandi meirihluti konur.

Svo virðist sem að litið sé á að lögheimili feli í sér „fasta búsetu“ og börn fari í „umgengni“. En hvað er föst búseta? Hún á að vera einhverskonar bækistöð okkar, þar sem við dveljumst að jafnaði í tómstundum okkar, höfum heimilismuni okkar og svefnstað þegar við erum ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika.  Ég velti því þá fyrir mér hvort barn sem dvelur viku og viku hjá hvoru foreldri um sig uppfylli skilyrði fastar búsetu? Ef svo er, á það þá ekki við um bæði heimilin? Nú hvað með börn sem eru 10 daga á heimili móður og 20 daga á heimili föður ef þau eiga sambærilega hluti á báðum stöðum og foreldrar deila ábyrgð og umönnun nokkuð jafnt?

Spurning hvort við þurfum ekki ný viðmið til að fá fram upplýsingar um fjölskyldugerðir sem gefi betri mynd af  veruleikanum og hugtök sem endurspegla sameignlega ábyrgð foreldra. Kannski má kalla umgengnissamninga „foreldrasamninga“ þar sem fram kemur hvernig þeir ætla að sinna hlutverki sínu og tryggja rétt barna sinna. Ef til vill er orðið „samvistir“ meira lýsandi og viðeigandi orð en  „umgengni“  og  kostnaðarskiptingu jákvæðara en meðlag. Börn þurfa á því að halda að samfélagið styðji við báða foreldra þeirra, geri þá sýnilega og líti  á þá sem jafn mikilvæga í lífi þeirra með aðgerðum sínum og orðum – er eftir einhverju að bíða?

 

Valgerður Halldórsdóttir, félags- og fjölskylduráðgjafi

 

 

Fjölskyldustefna skóla – margbreytileiki fjölskyldugerða

Eftir Fagfólk

Flestir telja samstarf heimilis og skóla mikilvægan þátt í að tryggja velferð barna, farsælt skólastarf, nám og öryggi nemenda. Góð samvinna er álitin ein besta forvörnin gegn t.d. neyslu fíkniefna og óæskilegri hegðun. Í þeim tilvikum sem börn eiga tvö heimili er mikilvægt að samstarfið nái til beggja heimila. Sama á við um í íþrótta- og tómstundastarf.

Í sumum tilvikum er starfsfólk skóla og skólafélagar eini fasti punkturinn í lífi barns þegar einhver veikindi eða breytingar verða í fjölskyldu þess, t.d. vegna skilnaðar, andláts eða nýrra stjúptengsla. Óróinn sem yfirleitt fylgir skilnaði, aðlögun að lífi einhleypra foreldra og því að eiga tvö heimili, síðan að stjúpforeldrum, stjúpsystkinum og hálfsystkinum er oft mikill í fyrstu. Ný stjúptengsl reyna oft á samskipti foreldra og barna sem og fyrrverandi maka. Oft og tíðum fylgja nýju fólki flutningar, nýjar reglur og að vinir verði ekki eins aðgengilegir og áður. Vináttutengsl eru verndandi og auka sjálfsöryggi barna og ungmenna og þau geta t.d. haft veruleg áhrif á hvort barn dettur út úr íþróttum eða ekki.
Erlendar rannsóknir benda til að börn sem alast upp við óstöðugt fjölskyldulíf eru líklegri til að lenda í erfiðleikum og sýna að jafnaði lakari námsárangur en þau sem búa við stöðugleika. Því er mikilvægt að nærumhverfi barna og ungmenna taki mið af veruleika barna og styðji við þau og fjölskyldur þeirra eins og kostur er.
Skólum er m.a. ætlað það hlutverk að aðstoða foreldra í uppeldishlutverki þeirra. Mikilvægt er að sú aðstoð sem veitt er taki mið af margbreytileikanum og að starfsfólk skólans fái til þess stuðning og verkfæri í stað þess að hver og einn reyni eingöngu eftir bestu getu. Styðjandi umhverfi getur skipt sköpum og auðveldað foreldrum að bera þá ábyrgð sem þeim ber á námi barna sinna sem og að upplýsa skólann um hluti sem geta haft áhrif á líðan barna þeirra í skólanum. Til að svo megi verða er mikilvægt að þessir aðilar finni gagnkvæmt traust og stuðning.

Það er fagnaðarefni að ríkisstjórn ætli sér að móta fjölskyldustefnu og mörg sveitarfélög hafa sett sér slíka stefnu en tilgangurinn er m.a. að samræma ákvarðanir, styrkja foreldra sem uppalendur og efla stöðugleika og öryggi í lífi barna óháð fjölskyldugerð. En betur má ef duga skal. Stefnan þarf að vera í sífelldri endurskoðun, hana þarf að laga að einstaka stofnunum og tryggja þarf framkvæmd hennar. – Falleg orð á pappír duga skammt!

Er tekið mið af börnum sem eiga tvö heimili- og stundum stjúpfjölskyldur á þeim báðum?

 

Höfundur
Valgerður Halldórsdóttir, félags- og  fjölskylduráðgjafi, formaður Félags stjúpfjölskyldna og ritstjóri www.stjuptengsl.is

Eru stjúpfjölskyldur normal í kirkjunni?

Eftir Fagfólk

Við vorum þrír prestar í litlum hópi fagfólks sem sat dagsnámskeið um stjúptengsl í síðustu viku. Námskeiðið var haldið af Valgerði Halldórsdóttur félagsráðgjafa og aðjúnkt við HÍ, sem hefur unnið mikið frumkvöðlastarf í miðlun og rannsóknum á stjúptengslum og stjúpfjölskyldum.

Markmiðið með námskeiðinu var að gefa fagfólki sem vinnur með fjölskyldum í starfi sínu færi á að kynnast helstu þáttum sem hafa áhrif á tengsl og líðan í stjúpfjölskyldum, svo það komist hjá því að auka óvart á streitu í fjölskyldum vegna þekkingarleysis heldur dragi einmitt frekar úr henni. Aukin þekking á sérstöðu stjúpfjölskyldna og á algengum uppákomum í stjúpfjölskyldum gefur fagfólki í fjölskylduvinnu meira öryggi í samstarfi við stjúpfjölskyldur og einstaklinga sem tilheyra þeim. 

 

Eru stjúpfjölskyldur normal í kirkjunni?

Instagram