Skip to main content
Fagfólk

Fjölskyldustefna skóla – margbreytileiki fjölskyldugerða

Flestir telja samstarf heimilis og skóla mikilvægan þátt í að tryggja velferð barna, farsælt skólastarf, nám og öryggi nemenda. Góð samvinna er álitin ein besta forvörnin gegn t.d. neyslu fíkniefna og óæskilegri hegðun. Í þeim tilvikum sem börn eiga tvö heimili er mikilvægt að samstarfið nái til beggja heimila. Sama á við um í íþrótta- og tómstundastarf.

Í sumum tilvikum er starfsfólk skóla og skólafélagar eini fasti punkturinn í lífi barns þegar einhver veikindi eða breytingar verða í fjölskyldu þess, t.d. vegna skilnaðar, andláts eða nýrra stjúptengsla. Óróinn sem yfirleitt fylgir skilnaði, aðlögun að lífi einhleypra foreldra og því að eiga tvö heimili, síðan að stjúpforeldrum, stjúpsystkinum og hálfsystkinum er oft mikill í fyrstu. Ný stjúptengsl reyna oft á samskipti foreldra og barna sem og fyrrverandi maka. Oft og tíðum fylgja nýju fólki flutningar, nýjar reglur og að vinir verði ekki eins aðgengilegir og áður. Vináttutengsl eru verndandi og auka sjálfsöryggi barna og ungmenna og þau geta t.d. haft veruleg áhrif á hvort barn dettur út úr íþróttum eða ekki.
Erlendar rannsóknir benda til að börn sem alast upp við óstöðugt fjölskyldulíf eru líklegri til að lenda í erfiðleikum og sýna að jafnaði lakari námsárangur en þau sem búa við stöðugleika. Því er mikilvægt að nærumhverfi barna og ungmenna taki mið af veruleika barna og styðji við þau og fjölskyldur þeirra eins og kostur er.
Skólum er m.a. ætlað það hlutverk að aðstoða foreldra í uppeldishlutverki þeirra. Mikilvægt er að sú aðstoð sem veitt er taki mið af margbreytileikanum og að starfsfólk skólans fái til þess stuðning og verkfæri í stað þess að hver og einn reyni eingöngu eftir bestu getu. Styðjandi umhverfi getur skipt sköpum og auðveldað foreldrum að bera þá ábyrgð sem þeim ber á námi barna sinna sem og að upplýsa skólann um hluti sem geta haft áhrif á líðan barna þeirra í skólanum. Til að svo megi verða er mikilvægt að þessir aðilar finni gagnkvæmt traust og stuðning.

Það er fagnaðarefni að ríkisstjórn ætli sér að móta fjölskyldustefnu og mörg sveitarfélög hafa sett sér slíka stefnu en tilgangurinn er m.a. að samræma ákvarðanir, styrkja foreldra sem uppalendur og efla stöðugleika og öryggi í lífi barna óháð fjölskyldugerð. En betur má ef duga skal. Stefnan þarf að vera í sífelldri endurskoðun, hana þarf að laga að einstaka stofnunum og tryggja þarf framkvæmd hennar. – Falleg orð á pappír duga skammt!

Er tekið mið af börnum sem eiga tvö heimili- og stundum stjúpfjölskyldur á þeim báðum?

 

Höfundur
Valgerður Halldórsdóttir, félags- og  fjölskylduráðgjafi, formaður Félags stjúpfjölskyldna og ritstjóri www.stjuptengsl.is

Instagram