Skip to main content
Skilnaður

Hefur þú heyrt í barninu þínu?

Óhætt er að fullyrða að aðal áhyggjuefni foreldra við skilnað og sambandsslit snúa að börnum þeirra. Hvernig megi lámarka áhrif skilnaðarins á líðan barnanna er þeim ofarlega í huga.  Góð samskipti foreldra og regluleg samvera foreldra og barna skiptir þar öllu máli. Í sumum tilvikum verða samskiptin hinsvegar mjög lítil, jafnvel engin um lengri tíma.  Óútskýrð fjarvera foreldra veldur börnum sorg og þau upplifa höfnun.  Að auki hafa þau tilhneigingu til að kenna sér um hluti sem þau hafa ekkert með að gera eins og skilnað eða drykkju foreldra og því hætta á að bagginn verði enn þungbærari fái þau ekki viðunandi skýringu á framferðinu.

Ýmsar ástæður eru fyrir því að foreldri hverfi, til lengri eða skemmri tíma úr lífi barns. Í sumum tilvikum er ástæðan erfið samskipti foreldra sem verður til þess að annað foreldrið gefst upp.  Oftast er það faðirinn sem gefst upp á að reyna að vera í sambandi við barnið sökum erfiðrar hegðunar móður eða það er móðirin sem gefst upp á að reyna fá föður til að sinna barni sínu. Hvort heldur sem er, er það barnið sem tapar.  Í deilum er auðvelt að  kenna hinum aðilanum um hvernig málum er háttað  og telja sér trú um að það sé aðeins hann sem þarf að breytast  en ekki maður sjálfur, eigi að bæta samskiptin.  Sjálfsagt á það við í einhverjum tilvikum,  en oft er það nú svo að báðir aðilar eiga sinn þátt.  Endalaust nudd um að foreldrið sé ekki að standa sig,  þöggun eða sýna yfirlæti og hroka,   að standa ekki við það sem lofað  er eða leyfa hinum aðilanum aldrei að njóta vafans er allt hegðun sem er í valdi hvers og eins að takast á við hjá sjálfum sér og hefur ekkert með hinn aðilann að gera. Við berum ábyrgð á okkar eigin framkomu.

Fleiri ástæður geta að sjálfsögðu legi að baki fjarveru foreldris eins og alvarlegir geðrænir erfiðleikar, misnotkun áfengis, fíkniefnanotkun eða fangelsisvist.  Hver svo sem ástæðan er þurfa börn viðeigandi skýringu á fjarveru og eða erfiðri hegðun foreldris. Börn skilja oft meira en fullorðnir gera sér grein fyrir.  Þó foreldri hafi ekki tök á vera í reglulegur samskipti við börn sín er ekki ástæða til að sleppa þeim alveg. Hægt er að sýna barni ást og umhyggju á margvíslegan máta. Að eiga stutta stund á kaffihúsi með foreldri eða heima hjá ættingjum skiptir barn máli sé ekki annað mögulegt að sinni.  Foreldri getur hringt eða lesið bækur inn á disk eða sent slóð sem spila má fyrir háttinn, póstkort og  tölvupóstur duga líka vel. Nú svo mega börn líka heimsækja foreldra á sjúkrahús og í fangelsi að ákveðnum reglum uppfylltum.

Það er aldrei of seint að bæta samskipti eða taka upp þráðinn hafi hann slitnað.  Í þeim tilvikum sem foreldrar hafa glatað trausti barna sinna og hins foreldrisins t.d.  vegna áfengisneyslu eða neyslu vímuefna er mikilvægt að sýna því skilning að það geti tekið tíma að byggja upp traust að nýja og stundum þarf hjálp utanaðkomandi aðila.

Sé hægt að vera í beinu sambandið við geimstöðvar á tunglinu og fá reglulega myndir frá Mars, ætti að vera hægt að finna leið til að láta barn vita að mamma eða pabbi elski það og það skiptu máli,  jafnvel þó svo foreldrið hafi ekki tök á að hitta það í eigin persónu. Ert þú búin/n að láta heyra í þér?

Valgerður Halldórsdóttir,  félags- og fjölskylduráðgjafi

Instagram