Skip to main content
Fjölskylda

Eru mínir nánustu þeir sömu og barna minna?

Jól og áramót er spennandi tími fyrir flesta. Skipts er á litríkum pökkun,  farið er í heimsóknir og matarboð til vina og  ættingja, flugeldar sprengdir í loft upp  þegar gamla árið kvatt og nýju ári fagnað.  Fyrir aðra fylgja honum blendnar tilfinningar, jafnvel kvíði og sorg.  Tómi stóllinn sem fyrrverandi maki átti  við  matarborðið minnir á  brostna drauma og fjarveru foreldris.  Skiptir ekki öllu máli hver áttir frumkvæðið að skilnaðnum,  hann er sársaukafullur fyrir marga.

Með tímanum ná  hinsvegar flestir að aðlagast breyttum aðstæðum og lífið fær nýjan lit. Í tóma stólinn er sestur nýr maki, stundum með börn af fyrra sambandi sem kallar á nýtt skipulag  og sveigjanleika.  Gera þarf ráð fyrir að fyrrverandi mökum og stjúpforeldrum í skipulagningu hátíða sem fólk er mistilbúið til eða eins og ein mamman sagði „Hvað kemur mér það við hvernig minn fyrrverandi og hans nýja hafa það um jólin?  Ég ætla bara að halda mín jól!“.

Okkur kemur í sjálfu sér ekki við hvernig fyrrverandi makar halda jól frekar en hvernig nágrannar okkar halda jól,  en  það skipir börn miklu máli að eiga átakalaus jól með sínum nánustu.  Þegar börn eiga foreldra á tveimur heimilum og kannski stjúpforeldra á þeim báðum er nánast öruggt að þau skilgreina fjölskyldu sína á annan hátt en foreldar þeirra.  Fyrrverandi makar skilgreina sjaldnast hvort annað sem hluta af fjölskyldu sinni en þeir tilheyra oftast báðir fjölskyldum sameiginlegra barna,  sem og stjúpforeldar barnanna, hálfsystkini og stundum stjúpsystkini. Fólk sem annað foreldrið veit jafnvel lítil eða engin deili á.  Það er þó ekkert gefið í þessum efnum frekar en annað.  Stundum,  ef engin eða lítil samskipti eru á milli stjúpforeldra og barna eða  þau ekki góð, eru meiri líkur á að viðkomandi teljist utan fjölskyldunnar en ella.

Viðhorf barns og þarfir geta farið sama með þörfum og viðhorfum foreldris en þær þurfa hinsvegar ekki að gera það.  Það er því ekki víst að barnið sé jafn spennt að ganga inn í hefðir  stjúpforeldrisins og foreldri þess,  eða segja skilið við stjúpforeldri  sem  foreldrið hefur sagt skilið við.  Í slíkum aðstæðum þarf að vera vilji til að finna lausn sem hentar öllum, ekki bara sumum.

Stundum er óskað eftir nærveru barna á fleirum en einu stað á sama tíma. Það væri lúxus ef hægt væri klóna börnin. Þannig gæti  Júlía,  verið með mömmu sinni hjá nýju tengdaforeldrum hennar  á jóladag og verið á „sama tíma“ með föður sínum  og stjúpu hjá föðurforeldrum í Grafarvogi , já eða á Akureyri hjá stjúpafa -og ömmu.  Þá gæti hún líka verið á „sama tíma“ með Helga,  sammæðra hálfbróður sínum hjá föður hans í Hafnarfirði,  sem hún hefur alltaf litið á sem föður sinn. Mamma hennar talaði líka alltaf um hann sem pabba hennar, þangað til þau skildu síðastliðið vor.  Nú heitir hann „Gummi pabbi Helga“ hjá mömmu hennar.

Þangað til við höfum náð að þróa þá tækni betur að klóna fólk þurfa foreldrar,  sem og stjúpforeldrar séu þeir til staðar, að komast að einhverju samkomulagi um veru barna um hátíðir. Það er ágætt að hafa það á bak við eyrað í skipulagningunni að börn þurfa hvíld, að í árinu eru 365 dagar og ekkert sem bannar að halda þá alla hátíðlega ef við viljum.  Séum við eitthvað illa upplögð má biðja vini og vandamenn um aðstoð að koma börnum á milli heimila,  slappað af í staðinn með konfekt og kertaljós.   Börn telja ekki  daga og mínútur nema helstu þegar vona er á jólasveininum,  þau kunna hinsvegar vel að meta góð samskipti foreldra númer eitt, tvö og þrjú.   Skipta fjölskyldugerðir þar engu máli. Veljum frið –  og eigum öll gleðileg  jól!

Valgerður Halldórsdóttir, félags- og fjölskylduráðgjafi

Instagram