Flokkur

Fjölskylda

Lesbískar stjúpfjölskyldur

Eftir Fjölskylda

Töluverð breyting hefur orðið á fjölskyldugerðum síðastliðna áratugi, skilnaðartíðni hefur hækkað og mismunandi fjölskyldugerðir eru algengar í vestrænum löndum. Lesbísk stjúpfjölskylda er ein af þessum fjölskyldugerðum, en stækkandi hópur barna elst nú upp í stjúpfjölskyldum.

Í ritgerðinni er spurt hverjar eru helstu áskoranir sem lesbískar stjúpfjölskyldur mæta.Sjá á http://skemman.is/en/item/view/1946/14352

Mamma, pabbi barn – og stjúpbörn

Eftir Fjölskylda

Aðsend grein

Ég er stjúpmamma tveggja stálpaðra stelpna og maðurinn minn er stjúppabbi sonar míns. Saman eigum við lítinn tveggja ára gleðigjafa. Við hjónin erum því bæði að glíma við allt sem því fylgir að vera stjúpforeldri og börnin auðvitað að glíma við það líka.

Maður hefur lært mikið á þessu ferli – það kom mér á óvart að jafnvel eftir nokkur ár, þá er alveg ljóst að við munum aldrei líta á stjúpbörnin sem okkar eigin börn. Þetta er mikið álag á sambandið og hefur orðið enn meiri eftir að litli sonur okkar fæddist, þar sem við höfum minni tíma aflögu fyrir stóru krakkana okkar og auðvitað fyrir hvort annað. Helstu ágreiningsefni okkar hjónanna tengjast uppeldi stjúpbarnanna – þ.e. mér finnst hann láta allt eftir sínum börnum og honum finnst ég láta allt eftir mínu barni. Með okkar sameiginlega barn er ekki svona mikil togstreita á milli okkar, þó við séum auðvitað ekki alltaf sammála. Mikið hefur gengið á og er enn í gangi, maður spyr sig hreinlega stundum hvort þetta sé hægt? Ofan á allt glímir eitt barnið við veikindi sem taka verulega á heimilislífið. En auðvitað eru líka góðar stundir, maður má ekki gleyma því þó að oft finnist okkur þær slæmu vera fleiri. Ég get alveg tekið undir það að vera stjúpforeldri sé erfiðasta og vanþakklátasta hlutverk sem maður fær. Oft líður mér eins og heimilisþræli, sérstaklega gagnvart stjúpdætrum mínum því það verður ekki litið framhjá því að maður er fórnfúsari gagnvart sínu eigin holdi og blóði.

Það væri gagnlegt að heyra sögur annarra í sömu sporum, hvernig aðrir takast á við vandamál sem koma upp og hvað hefur hjálpað.

Við spjöllum saman á http://www.facebook.com/stjuptengsl.is?ref=hl

Umræða um fjármál þykir ekki rómantískt

Eftir Fjölskylda

Umræða um fjármál þykir ekki rómantískt en erlendar rannsóknir benda til að aðeins 20% para ræða þessa hluti fyrir hjónaband. Hún er hinsvegar nauðsynleg, sérstaklega í ljósi þess að fjármál geta auðveldlega drepið niður alla rómantík og haft áhrif á fjölskylduþrótt stjúpfjölskyldunnar.

Óhætt er að fullyrða að það getur vafist fyrir mörgum í stjúpfjölskyldum hvernig haga skuli fjármálunum og því mikilvægt að vera hreinskilina um stöðuna.  Það eru engin ný sannindi að raunhæf fjárhagsáætlun dregur úr óvissu og bætir líðan fjölskyldunnar. Hreinskilni er því mikilvæg, eigi að byggja upp traust og draga úr streitu í fjölskyldunni.

„Ég veit aldrei alveg hver staðan er hjá okkur. Við gerum fjárhagsáætlanir en svo eru alltaf að koma upp einhverjar gamlar áætlanir, sem komnar eru fram yfir gjalddaga og við þurfum að bregðast við og öll okkar plön hrynja. Mér finnst það sérstaklega pirrandi vegna þess að þá þarf ég að borga fyrir hann meðlagið eða annað varðandi krakkana hans“ (Kolla 47 ára, stjúpa).

  Í stjúpfjölskyldum á fólk að baki ólíka reynslu og upplifun og geta fjárhagsskuldbindingar verið einn hluti af því. Ábyrgð og skyldur maka geta því verið ólíkar og haft áhrif á fjárhagslega stöðu heimilisins. Meðlagsgreiðslur er dæmi um slíka skuldbindingu en í íslenskri rannsókn frá 2008 kom fram t.a.m. að stjúpforeldrar ungmenna sem áttu fráskilda foreldra áttu í tæplega 55% tilvika barn úr fyrri samböndum. Sumir fá greitt meðlag og aðrir greiða meðlag.

Það er því mikilvægt að ræða fjármálin og taka þátt í að skipuleggja þau, vilji fólk styrkja samband sitt. Skortur á yfirsýn í fjármálum leiðir til deilna um fjármál jafnvel þó  að fjárhagur sé rúmur og eigi því ekki að vera vandamál. Fyrri reynsla getur haft mikil áhrif á það hvernig fólk hagar fjármálum sínum í nýju sambandi og hana þarf að ræða.

Erlendar rannsóknir benda til að þeir einstaklingar sem stofna til nýrra sambanda eftir skilnað vilja vera sjálfstæðari í fjármálum en þeir sem eru í sínu fyrsta sambandi . Það þarf í raun ekki að koma á óvart þar sem oft annar og stundum báðir aðilarnir í sambandinu hafa þurft að skipa eignum og skuldum við skilnað. Þeir eru meðvitaðir um möguleikann á að núverandi samband geti flosnað upp, ekki síður en það fyrra. Reynslan mótar einstaklinginn og mikilvægt er að láta hana verða sér til þroska.

Ef til vill má líta svo á að í nýja sambandinu sé gagnlegra að leggja áherslu á að takast á við það sem ekki var tekist á við í því fyrra, þ.e. að taka ábyrgð á fjármálum heimilisins ásamt maka sínum og efla fjölskyldunna um leið.

„Ég hélt alltaf að minn fyrrverandi væri svo klár í fjármálum, hann einhvern veginn talaði þannig, svo að ég leyfði honum bara að ráða. Ég fattaði ekki fyrr en við skildum að við voru skuldug upp fyrir haus og áttum ekkert í þessu dóti sem hann var alltaf að kaupa. Ég hef þurft að hafa allt of mikið fyrir því sem ég á í dag til þess að ég sé tilbúin til að fórna því ef við Herbert skiljum“ (Katrín 42 ára stjúpa).

Hvernig fólk útdeilir því fjármagni sem til skiptana er milli fjölskyldumeðlima er hægt að túlka sem vísbendingu um hvar hollustan liggur í fjölskyldunni, þar með gagnvart börnum hvors annars og staðfestu í sambandinu .

„Katrín heldur öllu fyrir sig hvað varðar fjármálin og mér finnst að við séum meira eins og tveir meðeigendur að fyrirtæki en hjón. Það fer óskaplega illa í mig þegar hún er að bera mig saman við sinn fyrrverandi, en ég er ekki hann og er með öll mín fjármál á hreinu. Mér finnst eins og hún hafi ekki trú á að sambandið gangi“ (Herbert 52 ára faðir).

Mikilvægt er að báðir aðilar taki ákvarðanir um fjárútlát heimilisins. Það getur reynt á að fara í gegnum umræðuna en hún er nauðsynleg. Jafnvel í bestu samböndum getur umræðan orðið viðkvæm þegar taka þarf ákvarðanir hvernig nota skuli þá peninga sem til ráðstöfunar eru.

Eftir Valgerði Halldórsdóttur, félags- og fjölskylduráðgjafi

Fjarstýring fyrrverandi maka?

Eftir Fjölskylda

„Hann hleypur eftir öllum hennar dyntum og ætlast til að ég spili bara með þar sem ég er barnlaus. Mér finnst konan alveg óþolandi og hann eins og strengjabrúða í höndunum á henni!“

Fyrrverandi makar geta haft töluverð áhrif á fjölskyldulíf hvors annars, bæði meðvitað og ómeðvitað. Að bregðast við beiðni fyrrverandi eiginkonu eða eiginmanns um að skipta um helgi með börnin getur verið túlkað sem góð foreldrasamvinna og sveigjanleiki hjá kynforeldrum, en sem stjórnsemi og tillitsleysi af hálfu stjúpforeldris sem hafði allt annað í huga um helgina, allra síst að láta fyrrverandi eiginkonu eða eiginmann stýra því hvernig lífi hún eða hann lifir!

Grundvallarþörfum eins og að vera elskaður og vel metinn, vera í samvistum við þá sem manni þykir vænt um og hafa stjórn á eigin lífi er misvel mætt í stjúpfjölskyldum. Samskipti við fyrrverandi maka valda oft árekstrum í nýju sambandi, sérstaklega þegar engir tilburðir eru hafðir uppi í þá átt að koma á móts við framangreindar þarfir með umræðu og samráði við nýja makann. Stjúpforeldrinu finnst því hafnað og kynforeldrið óttast höfnun. Óánægju er þá oft beint að fyrrverandi maka unnustans eða unnustunnar og þau vænd um ósanngirni og stjórnsemi – í stað þess að spjótunum sé beint að eigin maka.

Það er ekki neitt óeðlilegt við það þótt fyrrverandi makar beini óskum sínum hvort til annars þegar kemur að börnunum og sveigjanleiki er mikilvægur í samskiptum þeirra. Hinsvegar þurfa þeir að læra að staldra við og hugsa, í stað þess að segja hiklaust „já“. Ákvörðunin snertir fleiri. Það er ekkert að því að segja við sína fyrrverandi eða sinn fyrrverandi: „Ég hef samband eftir smástund, ætla að kanna hvort það gangi ekki upp heima fyrir.“

Flestum finnst óþægilegt að hafa ekki stjórn á eigin lífi. Stjúpforeldrar eru þar engin undantekning. Ótti og samviskubit Ýmsir þættir hafa áhrif á hegðun fráskildra foreldra og geta leitt til að þeir setji sínum fyrrverandi eða sinni fyrrverandi ekki mörk í samskiptum, s.s. ótti við að missa börnin, samviskubit yfir skilnaðinum og hugsanlega nýja sambandinu, tregða að lofa nýjum maka að tengjast börnunum og söknuður yfir því að hafa ekki eins mikið samband við börn sín og áður. Samviskubit er sársaukafullt bit. Það verður oft til þess að börnunum eru ekki sett viðeigandi mörk t.d. varðandi borðsiði og almenna kurteisi, sem veldur svo aftur ágreiningi milli foreldra og stjúpforeldra.

Með því að gera sér grein fyrir hvað geti legið að baki ákveðinni hegðun, eins og ótti og samviskubit kynforeldris, sem finnst hann missa tengslin við börnin, og ótti stjúpforeldris við að missa stjórn á eigin lífi, ætti að auðvelda þeim að finna lausnir og koma á móts við gagnkvæmar þarfir. Í því felst áskorun að treysta þau bönd sem fyrir eru og skapa rými fyrir ný tengsl. Kynforeldrið gegnir þar lykilhlutverki.

Höfundur Valgerður Halldórsdóttir, félags- og fjölskylduráðgjafi

Sérstaða stjúpfjölskyldna

Eftir Fjölskylda
  • Stjúpfjölskyldur eru ekki eins og fjölskyldur þar sem parið/hjónin eiga öll börnin saman. Í hefðbundnum kjarnafjölskyldum tengist foreldri barni sínu við fæðingu og uppeldið fer svo eftir gildismati foreldranna.
  • Í stjúpfjölskyldum flytur fólk saman, oft án þess að nokkur tengsl hafi náð að myndast milli stjúpforeldris og barns. Án tengsla getur verið erfitt að umbera pirrandi hegðun og annað gildismat en maður hefur sjálfur vanist.
  • Við sem búum í stjúpfjölskyldum verðum að vinna að því að verja tíma saman og um leið læra að virða og meta hvert annað og næra tilfinninguna að vera hluti af fjölskyldunni. Að mynda tengsl og fá tilfinninguna að tilheyra tekur tíma,  sýnum þolinmæði og sveigjanleika – það er vel þess virði!.
  • Fyrrverandi maki og tengdafjölskylda, hálfsystkini og stjúpsystkini eru hluti af fjölskyldu barna okkar og tengjast því fjölskyldunni á margvíslegan hátt. Þessi flóknu tengsl geta skapað streitu sem hefðbundnar kjarnafjölskyldur þurfa aldrei að takast á við – það hjápar að viðurkenna að mörk fjölskyldunnar ná út fyrir heimilið. Gerum ráð fyrir samskiptum og höldum þeim opnum.
  • Rannsóknir hafa sýnt að gleði og ánægja sé mest í byrjun hjá hefðbundnum kjarnafjölskyldum en að streita aukist eftir fæðingu barna og eftir því sem fjölskyldan stækkar. Í stjúpfjölskyldum verður oft meiri óánægja vart og streitu í upphafi en hún virðist minnka með árunum og líðan fjölskyldumeðlima batna  Full ástæða er til bjartsýni.

e.Valgerði Halldórsdóttur, félags- og fjölskylduráðgjafi

Unum því þótt allir í stjúpfjölskyldum elski ekki hver annan

Eftir Fjölskylda
  • Óraunhæft er að búast við að ást spretti af engu. Samvera  er forsenda þess að ást, væntumþykja, umhyggja og samstaða verði til. Ekkert er þó sjálfgefið í þessum efnum. Í stjúpfjölskyldum geta margvíslegir þættir haft áhrif, s.s. aldur barna. Því eldri sem börnin eru, þeim mun síður fella þau sig við breytingar. Misræmið á milli væntinga og raunveruleika er uppspretta ófullnægju og óhamingju. Þess vegna er hyggilegt að stilla væntingum í hóf og gera raunhæfar kröfur.
  • Jákvæð viðhorf og  raunhæfar hugmyndir hjálpa til við að byggja upp heilbrigð tengsl og uppbyggileg viðbrögð, það er hjálpar að vita hvaða tilfinningar eru eðlilegar í stjúpfjölskyldum. Ef stjúpforeldum er send þau skilaboð eða þeir gera þær kröfur á sjálfan sig, að það hljóti að vera eitthvað að þeim, að þykja vænna um eign börn en annarra  þarf engan að undra að margir veigri sér við að ræða líðan sína í stjúpforeldrahlutverkinu við maka sinn eða aðra. Það er því oft ekki fyrr en stjúpforeldrar hitta aðra í sömu sporum að þorað er að opna umræðuna og því fylgir mikill léttir fyrir marga að vera ekki „einn á báti“.
  •  Í umræðuhópi með stjúpmæðrum sagði ein stjúpan frá því að mesti léttirinn fyrir hana varð að heyra að hún þurfti ekki að elska stjúpson sinn eins og hennar eigin börn.  Þá fyrst gat hún slakað á. „Mér leið allaf eins og tapara fram og því og pirraðist endalaust bæði út í hann og sjálfa mig  fyrir að elska hann ekki eins og mín eigin börn. Ég var með stanslaust samviskubit og sektarkennd sem bitnaði á okkar sambandi . Núna er ég bæði ánægðari sjálf og slakari gagnvart honum. Strákurinn er fínn, en ég viðurkenni það fúslega nú að ég hef aðrar tilfinningar til minna barna en hans“.
  •  Það getur verið töluverð vinna að mynda góð tengsl sérstaklega þegar haft er í huga þann grunn sem stjúpfjölskyldur byggja á, og því  ánægjulegt þegar smásigrar  koma í ljós. Það hjálpar að hafa réttu „verkfærin“  eða upplýsingar og mikið magn af þolinmæði!
  • Fjölskyldur sem leyfa mörkum og hlutverkum að þróast smám saman í stað þess að krefjast „“tafarlausrar ástar” eiga auðveldara með að skapa náin tengsl sín á milli með tímanum . Vinátta, virðing og kurteisi er grundvöllur fyrir góðum  tengslum milli stjúpforeldra og stjúpbarna. En  þeir stjúpforeldrar,, sem eiga auðveldast með að eiga samskipti við  stjúpbörn sín og eru í góðum tengslum við þau, taka hlutina rólega,  sýna þeim hlýju, stuðning og taka hlutina ekki of persónulega.

E. Valgerði Halldórsdóttur, félags- og fjölskylduráðgjafi

Ólík tengsl innan stjúpfjölskyldunnrar

Eftir Fjölskylda

Tengslamyndun er flókið fyrirbæri og margt sem þarf að hafa í huga, en öll höfum við hæfileika til að mynda tengsl sem er manninum mikilvæg. Við eru tengdari foreldrum á annan hátt en vinum eða vinnfélögum en öll eru þau okkur mikilvæg á einn eða annan hátt, þó mismikið.Stjúptengsl geta verið margvísleg rétt eins og önnur tengsl.

Stjúpfjölskyldur þurfa að gera ráð fyrir að tengsl innan fjölskyldunnar geta verið mismunandi, í stað þess að fá samviskubit yfir því að „réttar“ tilfinningar láti á sér standa gagnvart einum eða öðrum fjölskyldumeðlimi. Við þurfum hinsvegar alltaf að sýna virðingu og viðurkenningu á tilvist hvers annars þótt það sé ekki hægt að gera kröfu um ást og náin tengsl. Viðurkenning skapar tilfinninguna að tilheyra og eflir stjúpfjölskyldur.

 „Ég var í nokkrum vandræðum með hvernig ég ætti að tengjast fimmtán ára stjúpdóttur minni sem virtist hafa allt á hornum sér en ég ákvað hinsvegar að reyna. Ég fór að fylgjast með hvað hún horfði á í sjónvarpinu. Sumt af því fannst mér hálfgerð vella en ég reyndi að spyrja um persónur þáttanna og af hverju henni þótti þeir áhugaverðir í stað þess að koma með einhverjar yfirlýsingar um innihald þeirra. Ég finn að það skilar árangri og við erum farin að tala aðeins meira saman en áður. Hún er meira að segja farin að yrða á mig af fyrra bragði. Það gefur mér von. Litli bróðir hennar er allt öðruvísi og náðum við strax vel saman enda báðir miklir fótboltaáhugamenn. Það vildi líka svo heppilega til að við höldum með sama liði. Ég finn að hann lítur upp til mín og það gleður mig“(Halldór, 43 ára stjúpi til 6 mánaða).

Valgerður Halldórsdóttir, félags- og fjölskylduráðgjafi

Laskað traust

Eftir Fjölskylda

Hafi börn upplifað að „missa“ stjúpforeldra sem þeim þótti vænt um eða nokkur „sundur – saman“ sambönd hjá foreldrum og nýjum aðilum er óvíst að þau séu fús til að gefa nýjum aðila tækifæri til að tengjast sér – sem kann að fara eftir smá tíma. Það er mikilvægt að sýna viðbrögðum stjúpbarna skilning þegar viðleytni stjúpforeldra til að tengjast þeim er ekki vel tekið. Gera þarf ráð fyrir að það geti takið langan tíma að öðlast traust þeirra.

Stjúpforeldar kunna einnig að óttast það að tengjast stjúpbörnum sínum ef ske kynni að sambandið endist ekki. Það er því nauðsynlegt að gefa sambandi tíma til að þróast án þess að börnin eru kynnt til sögunnar og muna að góðir hlutir gerast hægt. Með því að vinna úr fyrri sambandsreynslu og láta sambandslit verða sér til einhvers þroska þ.e. að læra af þeim í stað þess að safna upp ógagnlegum viðbrögðum og viðhorfum eru meiri líkur á að sambandið gangi – og við verðum traustsins verð!

Valgerður Halldórsdóttir félags- og fjölskylduráðgjafi

Tæknileg samskipti

Eftir Fjölskylda

Tæknin býður upp á marga möguleika til að halda sambandi við foreldra, stjúpforeldra  börn og stjúpbörn séu fjarlægðir miklar og tími til samveru lítill.

Sutt spjall á Facebook, jákvæðar athugasemdir á „vegginn“ eða á myndir, skemmtileg sms skilaboð, netpóst,  Skype og símann má nýta til að styrkja samband sem annars væri ekki tækifæri til. Mikinn efnivið til umræðna er t.d. oft að finna á feisbook og gefst stundum tækifæri til að kynnast vinum barnanna eða vinum foreldra. En eins og með önnur samskipti þarf að fara sér hægt, finna út smám smá saman hvað er viðeigandi og skiptir aldur barna auðvitað máli.

Hvað sem tíma til samveru líður, þurfa þeir fullorðnu leggi sig fram við að mynda og halda tengslum við börnin. Hollt er að hafa í huga að ýmislegt getur haft áhrif hvernig til tekst í fyrstu og engin ástæða er til að gefast upp þótt samskiptin séu ekki hnökralaus. Það er fullkomlega eðlilegt í stjúpfjölskyldum!

Valgerður Halldórsdóttir félagsráðgjafi

Konan nennir ekki í frí með mér og dætrunum

Eftir Fjölskylda

Við hjónin rífumst um hvert eigi að fara í sumarfríinu. Mér fannst síðasta frí fínt en konan er ekki sammála. Henni finnst ég hafa notað allt sumarfríið til að sinna dætrum mínum af fyrra hjónabandi og nennir ekki aftur í slíkt frí. Hún virðist ekki skilja að stelpurnar hafa þörf fyrir mig og að ég hafi ekki haft mikinn tíma fyrir þær í vetur vegna vinnu. Verður hún ekki að gefa eftir?

 

Með kveðju, Haukur

Svar:

Komdu sæll Haukur.

Í hugum flestra fylgir því tilhlökkun að fara í sumarfrí. Þá á að slappa af, sinna áhugamálunum, treysta fjölskylduböndin, ferðast, ljúka verkum sem hafa setið á hakanum og skemmta sér. Ætli flestir séu ekki í þeim hugleiðingum núna í byrjun sumar.

Gott er að heyra að þér er umhugað um dætur þínar en það er augljóst að konan þín er ósátt og finnst þú sinna dætrunum í fríum á kostnað ykkar sambands. Af orðalagi bréfs þíns að dæma gæti hún haft nokkuð til síns máls, því að þú mótmælir þessu ekki heldur bendir á ástæður fyrir því, s.s. að dæturnar þurfi á þér að halda og geti lítið umgengist þig nema í fríum vegna mikillar vinnu.

Þú spyrð hvort konan þín þurfi ekki að láta undan. Mér sýnist þvert á móti að þú verðir að endurskoða skipulagið hjá þér. Þú vinnur mikið og það bitnar á dætrum þínum, sennilega á konunni þinni líka, og svo ætlar þú að bæta þeim það upp í fríunum, nema hvað að þá finnst konunni hún verða útundan. Líkast til saknar hún þess líka að vera með þér.

Öll erum við ólík og með mismunandi þarfir og væntingar um hvernig við viljum verja sumarfríi okkar. Sumir óska þess helst að flatmaga í rólegheitum á sólarströnd en aðrir vilja vera á þeytingi um öll fjöll með stórfjölskyldunni.

Þar sem ólíkar væntingar, þarfir og óskir stangast á, er líklegt að einhver verði fyrir vonbrigðum, reiðist og “nenni” ekki aftur – eins og konan þín orðar það. Vellíðan í fjölskyldum, ekki síst stjúpfjölskyldum, byggist oft á tíðum á málamiðlun, að allir fái eitthvað við sitt hæfi.

Ætla má að konunni þinni finnist þú skeytingarlaus um hennar þarfir. Hætta er á pirringi og að hún láti hann bitna á þér og stelpunum. Þú bregst þá kannski  við með því að fara í vörn og túlka framkomu hennar sem svo að hún hafi eitthvað á móti þeim. Lagleg flækja það! Og allt sem konan þín er í rauninni að segja, er að hana langi til að vera meira með þér og hafa þig svolítið út af fyrir sig.

Orð eru til alls fyrst. Ég legg til að þið ræðið öll saman, þið konan þín og dætur þínar, um hvernig þið viljið verja sumarfríinu og komist að niðurstöðu sem allir geta sætt sig við, – ekki bara stúlkurnar heldur þið öll.

Með því að sýna sveigjanleika og gera ráð fyrir öllum getur fríið orðið ljómandi góður tími, eftirminnilegur og lærdómsríkur, sem veitir þá tilbreytingu og hvíld sem að er stefnt. Slíkt frí er betur til þess fallið að treysta fjölskyldu- og vináttuböndin en það sem er notað til að vinna á uppsöfnuðu samviskubiti gagnvart dætrunum á kostnað parasambandsins. Notaðu annan tíma til þess. Kannski þarftu að reyna að endurskoða vinnutíma þinn svo að þú getur sinnt dætrum þína allan ársins hring.

Að þessu sögðu tek ég undir þá afstöðu í bréfi þínu að mikilvægt er að börn og kynforeldrar fái tækifæri til að vera saman án stjúpforeldra, þótt ekki sé nema dag og dag. Sömuleiðis þarf að skipuleggja tíma til að treysta parasambandið. Stjúpforeldrar geta með svipuðum hætti fundið sér tíma til að efla sambandið við stjúpbörnin.

Þannig skipulag eykur almenna vellíðan og ánægju og auðveldar öllum lífið. Er um að gera að gefa hugarfluginu lausan tauminn, það er ekki til einhver ein rétt leið til að vera eða vera ekki í fríi.

Afturkippir eru hluti af lífinu. Gerum ráð fyrir þeim, líka í fríinu, en missum ekki sjónar á því sem er gott og jákvætt og tökum tillit til allra, líka stjúpmæðra!

Vlgerður Halldórsdóttir, félags- og fjölskylduráðgjafi

Instagram