Skip to main content
Fjölskylda

Umræða um fjármál þykir ekki rómantískt

Umræða um fjármál þykir ekki rómantískt en erlendar rannsóknir benda til að aðeins 20% para ræða þessa hluti fyrir hjónaband. Hún er hinsvegar nauðsynleg, sérstaklega í ljósi þess að fjármál geta auðveldlega drepið niður alla rómantík og haft áhrif á fjölskylduþrótt stjúpfjölskyldunnar.

Óhætt er að fullyrða að það getur vafist fyrir mörgum í stjúpfjölskyldum hvernig haga skuli fjármálunum og því mikilvægt að vera hreinskilina um stöðuna.  Það eru engin ný sannindi að raunhæf fjárhagsáætlun dregur úr óvissu og bætir líðan fjölskyldunnar. Hreinskilni er því mikilvæg, eigi að byggja upp traust og draga úr streitu í fjölskyldunni.

„Ég veit aldrei alveg hver staðan er hjá okkur. Við gerum fjárhagsáætlanir en svo eru alltaf að koma upp einhverjar gamlar áætlanir, sem komnar eru fram yfir gjalddaga og við þurfum að bregðast við og öll okkar plön hrynja. Mér finnst það sérstaklega pirrandi vegna þess að þá þarf ég að borga fyrir hann meðlagið eða annað varðandi krakkana hans“ (Kolla 47 ára, stjúpa).

  Í stjúpfjölskyldum á fólk að baki ólíka reynslu og upplifun og geta fjárhagsskuldbindingar verið einn hluti af því. Ábyrgð og skyldur maka geta því verið ólíkar og haft áhrif á fjárhagslega stöðu heimilisins. Meðlagsgreiðslur er dæmi um slíka skuldbindingu en í íslenskri rannsókn frá 2008 kom fram t.a.m. að stjúpforeldrar ungmenna sem áttu fráskilda foreldra áttu í tæplega 55% tilvika barn úr fyrri samböndum. Sumir fá greitt meðlag og aðrir greiða meðlag.

Það er því mikilvægt að ræða fjármálin og taka þátt í að skipuleggja þau, vilji fólk styrkja samband sitt. Skortur á yfirsýn í fjármálum leiðir til deilna um fjármál jafnvel þó  að fjárhagur sé rúmur og eigi því ekki að vera vandamál. Fyrri reynsla getur haft mikil áhrif á það hvernig fólk hagar fjármálum sínum í nýju sambandi og hana þarf að ræða.

Erlendar rannsóknir benda til að þeir einstaklingar sem stofna til nýrra sambanda eftir skilnað vilja vera sjálfstæðari í fjármálum en þeir sem eru í sínu fyrsta sambandi . Það þarf í raun ekki að koma á óvart þar sem oft annar og stundum báðir aðilarnir í sambandinu hafa þurft að skipa eignum og skuldum við skilnað. Þeir eru meðvitaðir um möguleikann á að núverandi samband geti flosnað upp, ekki síður en það fyrra. Reynslan mótar einstaklinginn og mikilvægt er að láta hana verða sér til þroska.

Ef til vill má líta svo á að í nýja sambandinu sé gagnlegra að leggja áherslu á að takast á við það sem ekki var tekist á við í því fyrra, þ.e. að taka ábyrgð á fjármálum heimilisins ásamt maka sínum og efla fjölskyldunna um leið.

„Ég hélt alltaf að minn fyrrverandi væri svo klár í fjármálum, hann einhvern veginn talaði þannig, svo að ég leyfði honum bara að ráða. Ég fattaði ekki fyrr en við skildum að við voru skuldug upp fyrir haus og áttum ekkert í þessu dóti sem hann var alltaf að kaupa. Ég hef þurft að hafa allt of mikið fyrir því sem ég á í dag til þess að ég sé tilbúin til að fórna því ef við Herbert skiljum“ (Katrín 42 ára stjúpa).

Hvernig fólk útdeilir því fjármagni sem til skiptana er milli fjölskyldumeðlima er hægt að túlka sem vísbendingu um hvar hollustan liggur í fjölskyldunni, þar með gagnvart börnum hvors annars og staðfestu í sambandinu .

„Katrín heldur öllu fyrir sig hvað varðar fjármálin og mér finnst að við séum meira eins og tveir meðeigendur að fyrirtæki en hjón. Það fer óskaplega illa í mig þegar hún er að bera mig saman við sinn fyrrverandi, en ég er ekki hann og er með öll mín fjármál á hreinu. Mér finnst eins og hún hafi ekki trú á að sambandið gangi“ (Herbert 52 ára faðir).

Mikilvægt er að báðir aðilar taki ákvarðanir um fjárútlát heimilisins. Það getur reynt á að fara í gegnum umræðuna en hún er nauðsynleg. Jafnvel í bestu samböndum getur umræðan orðið viðkvæm þegar taka þarf ákvarðanir hvernig nota skuli þá peninga sem til ráðstöfunar eru.

Eftir Valgerði Halldórsdóttur, félags- og fjölskylduráðgjafi

Instagram