Skip to main content
Fjölskylda

Endurspeglast viðhorf í hamingjuóskum og gjöfum?

„Mig langaði svo að færa vinkonu minni kort og óska henni til hamingju með stjúpdótturina  en það var bara ekkert slíkt kort til í bókabúðinni, ótrúlegt eins og stjúpfjölskyldur eru algengar“

Yfirleitt ríkir spenna og eftirvænting hjá væntanlegum foreldrum, vinum og ættingjum þeirra  þegar von er á fjölgun í fjölskyldunni.  Fólkið veltur fyrir sér kyn barnsins og útliti og aðstandendum finnst eðlilegt að fá upplýsingar um leið og barnið er fætt, helst um leið og hríðir byrja.

Yfirleitt eru þeir tilbúnir til að hjálpa til við undirbúninginn, redda vöggu, vagni og þess háttar hlutum svo taka megi sem best á móti nýja fjölskyldumeðlimi.  Það þykir líka eðlilegt að verðandi foreldrar  undirbúi sig undir komu barnsins og sæki námskeið um fæðingu og þroska barns. Þrátt fyrir góðan undirbúning og eftirvæntingu sem fylgir komu þess getur eðlilegur kvíði gert vart við sig hjá foreldrum varðandi fæðinguna, heilbrigði barnsins og hvernig til takist að sinna foreldrahlutverkinu þar þar að kemur.

Að vita hvað sé eðlilegt og við hverju megi búast er gagnlegt og dregur úr kvíða.  Það er þó aldrei hægt að undirbúa allt og getur ósjálfbjarga hvítvoðungar reynt verulega á samband foreldra, sérstaklega þegar svefnlausra nætur eru margar. Stokka þarf upp fyrri venjur bæði innan og utan heimilisins og koma á verkaskiptingu sem hentar nýjum aðstæðum.

Vinir og ættingjar eru oftast tilbúnir til að hlaupa undir bagga með pössun og aðstoða nýbakaða foreldra eins og þarf.  Móður og barni færa þeir gjafir á sængina og ekki telja þeir það eftir sér að koma með fleiri pakka við skírn eða í nafnaveislu barnsins. Sumri stofna bankabók í nafni barnsins svo tryggja megi fjárhagslega afkomu þess í framtíðinni.  Löngunin til að umvefja barnið er fölskvalaus.

Viðbrögð vina og ættingja þegar stjúpbörn bætast í hópinn eru ekki jafn fyrirsjáanleg. Sumir taka þeim fagnandi og finnst fjölskyldan ríkari en áður, á meðan öðrum finnst það miður og tala um foreldri með „pakka“.  Fæstir spyrja um fæðingardag stjúpbarnsins en venjulega er fólk forvitið um aldur þeirra.  Sjaldnast er stjúpbörnum færðar sérstakar gjafir eða heillaóskir  í tilefni þess að þau verða hluti af lífi stjúpforeldra sinna og eini „pakkinn“ sem fer á milli eru þau sjálf.  Tilfinningar barnanna sjálfra geta verið blendnar. Sum eru ánægð með að foreldrar þeirra séu hamingjusamir og eru glöð með að vera hluti af „alvöru“ fjölskyldu á meðan önnur eru ósátt og höfðu gert sér jafnvel von um að foreldrar þeirra tækju saman að nýju.

Hvernig eða hvort eigi að bregðast við á einhvern sérstakan hátt þegar stjúpforeldri eignast stjúpbarn eða stjúpbarn eignast stjúpforeldri er óvíst í hugum margra.  Kannski vegna ráðandi hugmynda í samfélaginu um hvað  telst eftirsóknarvert og hvað ekki.

Ef marka má hillur bókaverslana þá telst engin ástæða til að selja hamingjuóskakort fyrir nýbakaða stjúpforeldra eða „fæðingardagbók“ stjúpbarnsins. Hinsvegar má finna vörur sem ala á fordómum gagnvart stjúpfjölskyldum og sérstaklega stjúpmæðrum,  eins og barbídúkkan í líki vondu stjúpmóðurinnar.  Einnig litabækur, servéttur, glös,  pappadiska, töskur, pennaveski, strokleður og dvd-myndir, þar sem Öskubuska, Hans og Gréta, Mjallhvít og dvergunum sjö koma við sögu.  Í ljósi þessa þarf líklega engan að undra þó fimm ára gutti hafi spurt hvort að stjúpmæður og skrímsli væru í alvöru til eða vera hissa á stúlkunni sem neitaði að fara heim til skólasystur sinni þar sem hún bjó með pabba sínum og stjúpu.

Ljóst er að fordómar geta mótast  snemma á lífsleiðinni og þeir eru skaðlegir. Óhætt er að fullyrða að stjúpmæður verða sérstaklega fyrir barðinu á þeim.  Vert er að hafa í huga að stjúpfjölskyldur og fjölskyldur einhleypra foreldra hafa sömu verkefni og aðrar fjölskyldur en að auki hafa þær verkefni sem eru sérstök fyrir þær.  Börnin sem þeim tilheyra eiga oftast tvö heimili sem taka þarf tillit  til.  Það er einfaldlega flóknara að vera í stjúpfjölskyldu eða einn á vakt sem einhleypt foreldri.  Það er vert að hafa í huga að fordómar beinast ekki aðeins að öðrum þeir geta líka beinst gagnvart okkur sjálfum og sjálfsmynd okkar.  Það er því ómetanlegt fyrir þær mörg þúsund stjúpfjölskyldur sem og fjölskyldur einhleypra foreldra  hér á landi að finna stuðning og viðurkenningu samfélagins.

Valgerður Halldórsdóttir, félags- og fjölskylduráðgjafi

Instagram