Skip to main content
Fjölskylda

Nýtt sett af afa og ömmu

60plus

Skilnaður foreldra hefur áhrif á afa og ömmur. Í kjölfarið breytast oft samskiptin við barnabörnin. Algengt er að móðurforeldrar sjái meira af þeim en föðurforeldrar. Þó skiptir miklu máli fyrir líðan og öryggi barnanna að þau fái áfram að halda tengslum við báða afa sína og ömmur. Á umrótartímum, sem skilnaður er, geta þau verið mikilvægt skjól og stuðningur við börnin. Flestir samgleðjast börnum sínum, þegar þeir finna sér nýjan maka, en tilkoma hans getur haft áhrif á sambandið við barnabörnin.

Á það sérstaklega við ef þeir hafa verið í mikilvægu stuðningshlutverki áður, ef til vill veitt bæði húsaskjól og barnapössun. Aðstæðurnar geta orðið enn flóknari ef t.d. nýja tengdadóttirin/nýi tengdasonurinn á börn úr fyrra sambandi. Kröfur eru gerðar til þess að afinn og amman aðlagist þeirri staðreynd að þau hafi eignast nýja tengdadóttur/nýjan tengdason, hugsanlega stjúpbarnabörn líka, og á sama tíma minnka jafnvel tengslin við þeirra eigin barnabörn.

En hvert er hið nýja hlutverk þeirra? Stjúpafi og stjúpamma geta gengt mikilvægu hlutverki fyrir stjúpfjölskylduna, haft uppbyggileg áhrif á hana og þjappað henni saman. Má t.d. ímynda sér að sameiginlegar hefðir fjölskyldunnar, venjur sem binda hana saman, verði líka til fyrir tilstilli elstu kynslóðarinnar og haldið við af henni. Oft eru stjúpbörn frekar tilbúin til að viðurkenna nýtt sett af afa og ömmu en nýtt stjúpforeldri. Þau lenda síður í hollustuklemmunni, sem þau geta lent í gagnvart stjúpforeldri, þ.e. það verður síður litið á það sem svik að þau tengist nýjum afa og ömmu.

Ekki eftir pöntun

Allir þurfa að gefa sér tíma til að kynnast í rólegheitunum. Það er t.d. alls ekki sjálfsagt að nýja stjúpbarnabarnið vilji kyssa stjúpömmu sína bless og faðma hana eins og hin barnabörnin. Eða að stjúpafi og stjúpamma séu alveg tilbúin að passa stjúpbarnabarnið jafn mikið og önnur barnabörn. Hreinskiptar samræður, þar sem allir fá tækifæri til að setja fram skoðanir sínar og lýsa væntingum sínum, eru best til þess fallnar að koma í veg fyrir vonbrigði og gremju. Góð byrjun er að opna umræðuna og stilla kröfum í hóf. Tilfinningar foreldra til stjúpbarna sinna rista yfirleitt ekki jafn djúpt og tilfinningarnar til eigin barna, þótt þess séu vissulega dæmi, og því er varla hægt að ætlast til þess af eldri kynslóðinni. Ást kemur ekki eftir pöntun. Þess vegna getur það verið mikill léttir fyrir stjúpafa og stjúpömmur að vita að þess sé ekki krafist að þau elski stjúpbarnabörnin jafn innilega og barnabörnin. Að þessu sögðu er samt rétt að benda á nauðsyn þess að taka tillit til þarfa og þroska barnsins. Einkum ung börn eiga bágt með að sætta sig við mismunun. Eldri börn geta sýnt því skilning að blóðtengsl séu nánari en stjúptengsl, svo framarlega sem þau finna að gert sé ráð fyrir þeim að öðru leyti og þau verði ekki fyrir meðvitaðri höfnun. Oft birtist þetta í gjöfum. Að mínu mati er æskilegast að gjafir séu á svipuðum nótum ef samskipti milli stjúpsystkina eru mikil. Það kemur í veg fyrir særindi og öfund. Gjafir þurfa ekki að vera mælikvarði elsku.

Mismunandi tengsl

Ekki þarf að vera neitt óeðlilegt við að stjúpafi og stjúpamma myndi mismunandi tengsl við barnahópinn eða að börnin í hópnum tengist þeim á mismunandi hátt. Aldur barna skipir t.a.m. máli. Litlum börnum finnst ekkert undarlegt að eiga marga afa og ömmur, – það er jafnvel auglýst eftir þeim í blöðunum til að sinna börnum í hefðbundnum kjarnafjölskyldum! –, og þótt eldri börn óski ekki sérstaklega eftir aukapari af afa og ömmu geta þau orðið góðir bakhjarlar síðar á lífsleiðinni, þegar þau fara sjálf að uppfylla jörðina. Heimsmynd lítilla barna er allt önnur en fullorðinna. Þau hafa hag af því að einfalda hlutina – og mættum við oft fara að dæmi þeirra – og hafa lítið fyrir því að eigna sér nýjan afa og ömmu, þótt þau líti ekki svo á að stjúpforeldrið sé pabbi eða mamma. Afar og ömmur hafa líka lag á að setja hagsmuni barnanna ofar öðru. Hvað sem líður hugsanlegum skilnaðarátökum eða öðrum erfiðleikum brjóta þau oft odd af oflæti sínu þegar heill barnabarnanna er í húfi, enda ættu þau frekar að geta leitt vandamálin hjá sér og reynt að standa utan við þau. Samt þarf að sýna því skilning að fyrrverandi tengdaforeldrar geti átt erfitt að tengjast nýjum maka, sem “tekur sæti” dóttur þeirra eða sonar, stjúpforeldri barnabarna þeirra. Hafa þarf í huga og virða við fyrrverandi tengdaforeldra að þeir glími við margháttaðar og andstæðar tilfinningar. Þeir hafa þörf fyrir barnabörnin sín og barnabörnin fyrir afa sinn og ömmu.

Deildaskipt fjölskylda

Með það í huga að stjúpfjölskyldan verður ekki “blönduð” eða “maukuð”, eins og áður var minnst á, getur verið gott að treysta burðarvirki hennar með því að efla þau tengsl sem fyrir eru og smám saman mynda ný tengsl. Aðferð til þess er t.d. að “deildaskipta” fjölskyldunni öðru hvoru. Það ýtir nefnilega undir átök og streitu að ætla sífellt að gera alla hluti saman. Gefa þarf afa og ömmu tækifæri til að sinna barnabörnum sínum án stjúpbarnabarnanna – og stjúpbarnabörnin þurfa líka tækifæri til að tengjast stjúpafa sínum og -ömmu án hinna barnabarnanna. Liður í að efla tengslin innan stjúpstórfjölskyldunnar felst í því að skipta henni upp af og til, en svo á auðvitað stundum að hrista hópana saman. Stjúpfjölskyldan er – svo vísað sé í sjálfan James Bond – betri “hrist” en “blönduð”.

Dæmi

  •  Af misskilinni hollustu við fráskilinn son sinn ákvað amma að umgangast barnabörn sín minna áður, þar sem þau bjuggu hjá fyrrverandi tengdadóttur hennar. Hún sá því mun meira af stjúpbarnabörnum sínum en barnabörnum sínum. Barnabörnin upplifðu það sem svik við sig.
  • Afi og amma ákváðu að gefa barnabörnunum meiri og veglegri gjafir en stjúpbarnabörnunum í þeim tilgangi að bæta þeim upp erfiðleikana í kringum stofnun nýrrar fjölskyldu. Mikill aldursmunur var á börnunum og fannst stjúpbörnunum það í góðu lagi, þótt þeirra gjafir væru minni. Þau áttu ekki von á neinu hvort sem er, þekktu stjúpafa og -ömmu lítið og gerðu ekki sömu kröfur til þeirra og sinna eigin afa og ömmu.
  • Afa og ömmu fannst það vera svik við barnabörnin að gefa þeim og stjúpbarnabörnunum jafn dýrar gjafir, þótt börnin ættu sameiginlegt hálfsystkin. Framkoma þeirra ól á afbrýðisemi í systkinahópnum og olli deilum milli maka.
  • Amma óttaðist viðbrögð barnabarnanna ef hún sýndi nýju stjúpbörnunum umhyggju. Á sama tíma óttaðist hún viðbrögð sonar síns og tengdadóttur ef hún sýndi þeim ekki nægjanlega umhyggju. Hún vissi eiginlega ekki hvernig hún ætti að haga sér. Það sem áður veitti henni gleði, olli henni áhyggjum.
  • Afi og fyrrverandi tengdasonur voru miklir mátar og hittust oft með barnabörnunum. Afinn útilokaði nýja tengdasoninn af ótta við að missa sambandið við barnabörnin. Amma óttaðist mest að nýja tengdadóttirin mundi gera upp á milli barnabarna sinna, stjúpbarna sinna, og hennar eigin barna.

e. Valgerði Halldórsdóttur, félags- og fjölskylduráðgjafi

Instagram