Skip to main content
Börn og ungmenni

Maðurinn minn mismunar börnunum

Ég á eitt barn frá fyrra hjónabandi og 9 mánaða dóttur með núverandi manninum mínum sem hann fer með eins og “prinsessu”. Hún er eina barnið hans. Hann virðist lítið vilja vera með mínu barni og það er eins og að það sé fyrir honum. Í hvert sinn sem ég reyni að ræða þetta við hann finnst honum að eina lausnin sé að við skiljum. Hvað get ég gert til að halda fjölskyldunni saman?

 

Svar:

Komdu sæl

Auðvitað langar alla, sem fara að búa saman, til að hlutirnir gangi upp, sérstaklega þegar börn eru með í spilinu. Hinsvegar liggur ekki alltaf í augum uppi hvernig best sé að skapa ánægjulegt fjölskyldulíf. Mikill munur er á því að stofna stjúpfjölskyldu, þar sem fyrir eru tengsl milli foreldra og barna, eða hefðbundna kjarnafjölskyldu, sem börnin fæðast inn í og foreldrarnir mynda tengsl við samtímis.

Stjúpfjölskyldur geta ekki fylgt sama mynstri og hefðbundnar kjarnafjölskyldur þar sem börnin eru öll afsprengi sömu foreldra. Ég hef líkt því við bílstjóra sem reynir að rata um Reykjavík eftir korti yfir Kópavog!

Raunhæfar væntingar skipta sköpum fyrir stjúpfjölskylduna. Til dæmis er ekki hægt að búast við að stjúpforeldri elski stjúpbörn sín á sama hátt og kynforeldri eða að ætlast til að það komi í stað kynforeldris barnanna – þótt það geti auðvitað átt við í sumum tilvikum.

Þú segir að maðurinn þinn fari með dóttur sína eins og „prinsessu“. Þannig erum við flest gagnvart börnum okkar sem betur fer. Hann hefur fylgst með meðgöngunni, fæðingu hennar og uppvexti frá upphafi og myndað náin tengsl við hana.

Stjúpforeldrar og stjúpbörn þurfa góðan tíma til að mynda tengsl. Almenn kurteisi er upphaf góð sambands og setur samskiptunum eðlilegan ramma. Ágæt byrjun fyrir stjúpforeldra er að haga sér eins og velviljaður ættingi.

Óskastaða flestra er að samskiptin verði ánægjuleg og gjöful og því er mikilvægt að gera sér grein fyrir við hverju sé að búast. Óraunhæfar væntingar eru uppskriftin að átökum og vonbrigðum. Fræðsla er því mikilvæg og viðurkenning.

Sumir stjúpforeldrar vilja fara hægar í sakirnar en aðrir. Kynforeldri getur túlkað slíkt viðhorf sem höfnun á börnunum. Þess háttar afstaða kynforeldris, sem er hugsanlega sprottin af óþarfa viðkvæmni, kann að auka á vandann. Parið í stjúpfjölskyldum þarf að ræða væntingar sínar varðandi börnin af hreinskilni og hreinsa loftið. Ríki gagnkvæmur skilningur er líklegra að kynforeldri og stjúpforeldri geti stutt hvort annað og forðast átök og togstreitu.

Af bréfi þínu að dæma kennir þú manninum þínum um það sem aflaga fer. Það getur vel verið rétt hjá þér. En er hugsanlegt að eitthvað vanti á samráð ykkar á milli? Það kemur ekki fram hvað barnið þitt er gamalt en því yngri sem stjúpbörnin eru þeim mun betur gengur stjúpforeldri að nálgast þau. Eldri börn hafa sjálf óskir og væntingar sem þarf að taka tillit til auk þess sem þau hafa oft vanist aðstæðum sem taka breytingum þegar kynforeldrarnir eignast nýjan maka. Breytingum fylgir oft óvissa.

Eigi að reyna að leysa vanda er ekki er vænlegt að nefna skilnað í hvert sinn sem eitthvað bjátar á. Slík viðbrögð grafa undan sambandinu og skapa óöryggi. Þau benda líka til að þið hafið um langt skeið tekist á um þetta atriði, kannski fleiri.

Ég held að það sé algert lykilatriði að þið reynið að ræða saman og ákveða að vera saman í liði í stað þess að hlaupa út af vellinum þegar illa gengur! Til að stjúpfjölskyldunni gangi vel má parið ekki gleyma að rækta samband sitt. Barnsfaðir þinn og maki þarf að endurskoða sína afstöðu og spyrja sig hvað hann sé raunverulega tilbúinn að leggja á sig til að samband ykkar gangi upp og fjölskyldan haldi velli.

Stundum er málum þannig háttað að nauðsynlegt er að ræða við fagmann s.s. félagsráðgjafa, sálfræðinga og presta til að leysa málin og draga úr þeirri spennu sem orðin er. Það er til mikils að vinna, bæði ykkar vegna og barnanna.

Með bestu kveðju Valgerður Halldórsdóttir, félags- og fjölskylduráðgjafi

Instagram