Algengt er að farið sé í sambúð án þess að rætt sé áður hvert eigi að vera hlutverk stjúpforeldrisins gagnvart stjúpbörnunum eða hvernig það geti tengst þeim. Ástæðurnar geta verið margvíslegar. Sumir telja það mjög líkt foreldrahlutverkinu og því engin ástæða til að ræða það sérstaklega og aðrir hafa bara ekki hugsað út í að þess þurfi og eru bara ástfangnir af maka sínum.
Einhverjir vilja forðast umræðuefnið og finnst óþægilegt að biðja maka sinn að taka að sér verkefni varðandi börn sem hann á ekki í eða biðja hann um að bakka út, sýni hann of mikinn ákafa í að taka að sér uppeldis- og agahlutverk. Sumir stjúpforeldrar vilja ekki særa maka sína og segja hvernig þeim líður gagnvart væntingum sem gerðar eru til þeirra. Dæmi um efni sem sumum finnst erfitt að ræða er vera kallaðir „pabbi“ eða „mamma“ stjúpbarns án nokkurs samráðs eða að það sé ætlast til að þeir borgi ýmislegt fyrir stjúpbörn sín sem þeim finnst að „hitt“ foreldrið eigi að borga.
Það er hinsvegar nauðsynlegt að ræða og komast að einhverju samkomulagi um hlutverk stjúpforeldra, rétt eins og ræða þarf fjármál. Hvorugt umræðuefnið þykir rómantískt en bæði geta drepið alla rómantík sé ekki þá þeim tekið. Óhætt er að prófa sig áfram í hlutverkinu og sjá hvernig gengur án þess að vera búin að negla allt niður, en nauðsynlegt þó að ræða áður hvernig taka skuli á ágreiningi komi hann upp og endurskoða þá leið sem valin var í byrjun.
Valgerður Halldórsdóttir, félags- og fjölskylduráðgjafi