Skip to main content
Flokkur

Stjúpforeldrar

Hvernig er að vera stjúpforeldri? Spjall Valgerðar, Lindu og Svenna í Hlaðvarpsþættinum 180 gráður með Lindu og Svenna

Eftir Hljóð/Mynd, Stjúpforeldrar

Hvernig er að vera stjúpforeldri og hvaða gildrur ber að forðast þegar þú ferð inn í það hlutverk. Áttu að verða „foreldri“ eða einungis „vinur“ barnsins, eða kannski hvoru tveggja. Valgerður Halldórsdóttir hjá stjuptengsl.is  ræðir við okkur í upplýsandi viðtali sem ekkert stjúpforeldri ætti að missa af. Hlusta má á þáttinn HÉR

Framleiðandi- Sveinn Snorri Sighvatsson/ Volume  Þáttastjórn- Sveinn Snorri Sighvatsson/ Linda Baldvinsdóttir

Ekk­ert kyn­líf þegar hann er með börn­in Smartland Mörtu Maríu

Eftir Stjúpforeldrar

Sæl Val­gerður.

Ég er búin að vera í sam­bandi  við mann í tvö ár sem á stráka úr fyrra sam­bandi. Ég elska mann­inn minn og get ekki hugsað mér að missa hann. Ég er hins veg­ar al­veg kom­in að því að ganga út og er kom­in með kvíðahnút nokkr­um dög­um áður en þeir koma til okk­ar. Ég reyni að vera lítið heima en mér finnst maður­inn minn „stimpla sig úr sam­band­inu“ þegar þeir eru hjá okk­ur. Það er meira að segja skrúfað fyr­ir allt kyn­líf!

Kveðja, 

ein ör­vænt­ing­ar­full.

Komdu sæl.

Það er skilj­an­legt að þú hlakk­ir ekki til að strák­arn­ir hans komi til ykk­ar, ef þér líður þannig að maður­inn þinn „stimpli sig út“ úr sam­band­inu í návist þeirra. Hann vill ör­ugg­lega að strák­arn­ir finni að hann sé til staðar fyr­ir þá. Hins veg­ar get ég ímyndað mér að koma þeirra valdi hon­um líka viss­um kvíða og hann upp­lifi að hann sé einn á báti með þá þegar hann finn­ur spenn­una í þér. Hann gæti dregið þá álykt­un að þú þolir ekki strák­ana hans þar sem þú ert leng­ur í vinn­unni, meira með vin­kon­um þínum eða í rækt­inni þá viku sem þeir eru hjá ykk­ur.  Lesa má greinina í heild sinni HÉR

Stjúpmæður upplifa höfnun og vanþakklæti Fréttatíminn Björk Eiðsdóttir

Eftir Stjúpforeldrar

Félagsráðgjafinn og fjölskyldufræðingurinn Valgerður Halldórsdóttir er einn okkar fremstu sérfræðinga þegar kemur að tengslum stjúpfjölskyldna. Hún segir okkur geta verið mikið betur undir stjúpforeldrahlutverkið búin.

Valgerður Halldórsdóttir heldur úti vefsíðunni stjúptengsl.is og býður bæði upp á námskeið og viðtöl fyrir stjúfjölskyldur. Í síðustu viku fór af stað nokkurra þátta samstarf hennar og Viðju uppeldisfærni sem halda úti hlaðvarpinu Uppeldisspjallið.

„Þar er að finna aðgengilega uppeldisráðgjöf sem uppeldisfræðingar og sálfræðingur veita. Í ljós kom að það var mikið hlustað á þáttinn og þörfin fyrir hendi. Við ákváðum því að gera nokkra þætti saman sem snúa að börnum. Hlustendur geta sent inn spurningar sem ég ætla að reyna svara. Með vorinu mun hlaðvarpið „Stjúptengsl“ fara í loftið en fólk í stjúpfjölskyldum er á öllum aldri og viðfangsefnin óþrjótandi,“ segir Valgerður en þættirnir eru aðgengilegir í gegnum Soundcloud. Viðtalið má lesa í heild HÉR

 

Stjúp­mæður reyna oft of mikið að þókn­ast öðrum – Marta María Mbl.is

Eftir Stjúpforeldrar

Val­gerður Hall­dórs­dótt­ir, fé­lags- og fjöl­skylduráðgjafi, rek­ur fyr­ir­tækið stjuptengsl.is. Nú er hún að fara að halda nám­skeið fyr­ir stjúp­mæður og líka fyr­ir pör í stjúp­fjöl­skyld­um. Hún seg­ir að sam­fé­lags­miðlar hafi áhrif á sam­skipti stjúp­for­eldra við stjúp­börn og það geti verið auðvelt fyr­ir börn að upp­lifa að þau séu „útund­an“ þegar verið er að pósta lát­laust þegar börn­in eru ekki með í för.

Hvers vegna ertu að halda nám­skeið fyr­ir stjúp­mæður og pör í stjúp­fjöl­skyld­um?

„Flest­ar stjúp­fjöl­skyld­ur og marg­ar stjúp­mæður upp­lifa svipaða hluti sem eru oft mjög fyr­ir­sjá­an­leg­ir en fæst­ir þekkja. Með því að læra um stjúptengsl má koma í veg fyr­ir al­geng­ar uppá­kom­ur og van­líðan sem get­ur fylgt þeim. Ég hef rekið mig á að þegar fólk þekk­ir ekki til þá er til­hneig­ing til að fólk „kenni hvað öðru um“ sem eyk­ur enn frek­ar á vand­ræðin. Flest­um finnst sjálfsagt að fara á for­eldra­nám­skeið fyr­ir verðandi for­eldra eða sækja nokk­ur hundaþjálf­un­ar­nám­skeið til að tak­ast á við nýj­ar áskor­an­ir á upp­byggi­leg­an hátt. Það sama á við um stjúptengsl,“ seg­ir Val­gerður.

Hvað er það sem stjúp­mæður eru oft að gera vit­laust?

„Að setja ekki á sig súr­efn­is­grím­una og reyna of mikið að þókn­ast öðrum á sinn eig­in kostnað. Kon­ur eru oft hrædd­ar við að „vera leiðin­leg­ar“, reyna að þókn­ast öll­um og rugla því sam­an við að setja heil­brigð mörk til dæm­is gagn­vart maka sín­um og taka of mikið að sér gagn­vart börn­un­um í fyrstu. Jafn­vel þótt eng­inn hafi beðið þær um það, sum­ar halda jafn­vel að þær eigi að vera einskon­ar mæður á heim­il­inu án þess að hafa „umboð“ til þess frá stjúp­börn­um sín­um eða maka. Nú svo get­ur mak­inn og stjúp­for­eldrið verið sam­mála en stjúp­börn­in láta óspart vita að „hún er ekki mamma mín“. Það eru til ýms­ar út­gáf­ur á þessu.

Það er líka mögu­leiki á að öll­um líki mjög vel við hana sem stjúpu og það sem hún stend­ur fyr­ir á heim­il­inu en hún sjálf er að koðna niður inn­an frá. Birt­ist það meðal ann­ars í því að all­ir vin­konu­hitt­ing­ar, sauma­klúbb­ar eða auka­vinna er sett á þann tíma sem stjúp­börn­in eru á heim­il­inu,“ seg­ir Val­gerður.

Val­gerður bend­ir á að það fylgi þessu verk­efni mik­il óvissa.

„Sér­stak­lega þegar fólk hef­ur litla sem enga hug­mynd um hvernig dýna­mík stjúp­fjöl­skyldna er. Allt of marg­ar kon­ur spyrja hvort þær megi hafa svona og hinseg­in til­finn­ing­ar gagn­vart hlut­verk­inu í stað þess að virða sín­ar til­finn­ing­ar og skoða hvað megi gera til að þeim líði bet­ur. Þessi óvissa og löng­un til að öll­um líki við hana veld­ur því m.a. að aðrir skil­greina hlut­verk stjúp­unn­ar en ekki hún sjálf. Við ræðum þessa hluti og fleira meðal ann­ars á ör­nám­skeiðinu þann 28. októ­ber. Þann 22. októ­ber verður í boði fyr­ir þær kon­ur 6 vikna nám­skeið sem kall­ast Stjúpu­hitt­ing­ur.“

Hvers vegna verða sam­skipti stjúp­mæðra og stjúp­barna oft svona stirð?

„Það vant­ar oft­ast upp á tengslamynd­un­ina milli stjúp­mæðra og barna í slík­um til­vik­um. Við þurf­um að ein­blína meira á maður á mann sam­skipti og kynn­ast hvert öðru áður en við för­um að beita okk­ur. Oft og tíðum vant­ar líka upp á sam­vinnu pars­ins t.d. um regl­ur á heim­il­inu. Stjúp­mæðrum/​feðrum finnst for­eldrið ekki vera að fylgja eft­ir regl­um heim­il­is­ins og fer þá „beint í börn­in“ sem taka því illa. En stund­um samþykk­ir for­eldrið ein­hverja reglu sem það er í raun ekki til­búið að fylgja eft­ir, í stað þess að ræða það við stjúp­for­eldrið og móta regl­ur sem henta öll­um. Skort­ur á sam­starfi bæði á milli stjúp­for­eldra og for­eldra á heim­ili og á milli heim­ila bitn­ar því mjög oft á börn­un­um. Jafn­vel finnst börn­um að stjúp­for­eldrið stjórni for­eldri þeirra og stjúp­for­eldr­inu að börn­in stýri for­eldr­inu þegar þau eru á heim­il­inu.“

Ef þú ætt­ir að gefa stjúp­móður eitt ráð, hvað væri það?

„Lærðu um stjúptengsl og hlúðu vel að sjálfri þér.“

Svo ertu líka með para­nám­skeiðið. Hvað græða pör á því að fara á svona nám­skeið?

„Það sem flest­ir segja að þeir hafi grætt mest á er að hitta önn­ur pör í svipuðum spor­um. Jafn­framt með því að læra um helstu áskor­an­ir stjúp­fjöl­skyldna er eins og að fá gott landa­kort til að fara eft­ir.

En skorti mörk, sam­starf og skiln­ing á stöðu bæði for­eldra og stjúp­for­eldra sem og barna er hætta á að pirr­ing­ur og árekstr­ar verði tíðir. Upplýsingar um námskeið er að finna á www.stjuptengsl.is

Finnst þér stjúptengsl verða flókn­ari með til­komu sam­fé­lags­miðla?

„Það er stund­um viðkvæmt mál þegar stjúp­for­eldr­ar birta mynd­ir af sér með stjúp­börn­um sín­um á Face­book eða öðrum miðlum en alls ekki í öll­um til­vik­um. For­eldr­um barn­anna á hinu heim­il­inu get­ur fund­ist að sér vegið sem for­eldri en við þurf­um sjaldn­ast að ótt­ast að börn skipti for­eldr­um sín­um út fyr­ir stjúp­for­eldra.

Í öðrum til­vik­um birt­ist mynd af for­eldri með stjúp­börn­um sín­um, og fer það fyr­ir brjóstið á börn­un­um á hinu heim­il­inu sem ekki eru með. Stund­um hafa ung­menni lokað á stjúp­for­eldra sína á sam­fé­lags­miðlum án út­skýr­inga af þeirri ein­földu ástæðu að slík­ar mynd­ir geta sært. Til­finn­ing­in að vera „útund­an“ er sterk.

Sam­fé­lags­miðlar geta líka auðveldað fólki að fá yf­ir­sýn yfir líf barna sinna og stjúp­barna, sem gjarna glat­ast við það að eiga börn sem til­heyra tveim­ur heim­il­um,“ seg­ir Val­gerður.

Sótt af MBL.is

Mér fannst hún vanþakklát og pabbi hennar líka” – Viðtal

Eftir Stjúpforeldrar
Fyrir skemmstu birtist hér á Pjattinu pistill sem bar yfirskriftina “10 setningar sem stjúpmömmur ættu aldrei að láta út úr sér“. Pistillinn vakti mikla athygli og umræður inni á Facebook síðu okkar Pjattrófa.

…svo í kjölfarið höfðum við samband við félagið Stjúptengsl en konan á bak við það félag er Valgerður Halldórsdóttir félagsráðgjafi , MA og höfundur bókarinnar „Hver er í fjölskyldunni? Skilnaðir og stjúptengsl.

Það er ljóst að með aukinni skilnaðartíðni og breyttu samfélagsmynstri verða fleiri og fleiri fjölskyldur ‘blandaðar’. Flestir finna sér nýja maka eftir skilnað og ljóst er að vel flestir, ef ekki allir, reka sig fljótt á hindranir þegar kemur að því að setja saman hina ‘fullkomnu’ nýju fjölskyldu.

PERSÓNULEG REYNSLA AF STJÚPUHLUTVERKI KOM ÞESSU AF STAÐ

Valgerði má kalla fremsta meðal jafninga í reynslu sinni og þekkingu á blönduðum fjölskyldum en það var persónuleg reynsla hennar af því að gerast stjúpmóðir, sem og menntun hennar, sem kom af stað því starfi sem hún rekur í dag með félagið Stjúptengsl. 

Henni er mikið í mun að fræða stjúpfjölskyldur um þær fjölbreyttu stöður sem þar geta komið upp enda svo ótal margir að fást við það sama þó margir haldi að þar sé hver í sínu horni að glíma við sértæk vandamál.

Við tókum hana tali og fengum Valgerði til að segja okkur sína sögu af því að vera stjúpmóðir og eflaust kannast margar við þær tilfinningar sem hún lýsir í viðtalinu. Það eru nefninlega, eins og áður segir, margir að glíma við það sama:

“Ég var nýgift með son úr fyrri sambúð og stjúpdóttur. Samböndum okkar hjóna við foreldra barnanna var „löngu lokið“ og nú átti þetta að takast, ekki skorti okkur reynsluna. Utanfrá vorum við eins og „venjuleg fjölskylda“. Útivinnandi hjón sem bjuggu á þriðju hæð í blokk í vesturbæ Reykjavíkur með tvö börn á aldrinum 6 og 8 ára,” segir Valgerður þegar hún fer yfir upplifun sína af því að stofna til nýrrar fjölskyldu en Valgerði hafði dreymt um samhenta fjölskyldu síðan foreldrar hennar skildu.

“Ég tók því ekki vel í það þegar mér fannst tekið framfyrir hendurnar á mér og maðurinn minn samþykkti einhverjar breytingar á umgengni dótturinnar við móðurina án samráðs við mig. Hvað um mín plön? Það var eins og ég væri alger aukastærð í þessu máli. Ég fann að skortur á samráði við mig sem eiginkonu, upplifði ég sem stjórnleysi og ágreiningur sem upp kom á milli foreldrana bitnaði á samskiptum mínum og stjúpdóttur minnar. Ég var engu skárri sjálf varðandi son minn og föður hans og tók ákvarðanir án samráðs við manninn minn sem hafði hafði sínar skoðanir á málinu rétt eins og ég. Við vorum bæði einfaldlega vön því að taka ákvarðanir án samráðs og gamlar rútínur sem áður hentuðu okkur sem einhleypir foreldrar spilltu nú fyrir í sambandinu og samstöðu okkar í stjúpfjölskyldunnar,” segir Valgerður.

Ég fann hinsvegar að það komu dagar og stundir þar sem mér fannst ég vera að umturnast í þá manneskju sem ég vildi síst vera „vondu stjúpuna“! Hvernig gat þetta gerst? Mér líkaði ekki við þá manneskju enda var hún full af sektarkenndar, ráðalaus og einmanna.

SKORTUR Á SAMRÁÐI FORELDRA

“Fyrir kom að foreldra barna okkar tóku ákvarðanir sem snertu okkar fjölskyldulíf án nokkurs samráðs við hvorugt okkar. Til að mynda skráði pabbi sonar míns hann í básúnutíma þegar hann var 8 ára, útvegaði hljóðfæri og hvarf síðan aftur út á land til sinna fyrri verkefna. Mér finnst þetta nokkuð spaugilegt í dag en það veit sá sem allt veit að okkur var ekki hlátur í huga á sínum tíma. Pabbinn var velmeinandi og vildi að sonurinn fengi uppbyggilegt tónlistaruppeldi en nauðsynlegt samráð skorti. Það var nokkuð ljóst að strákurinn gat ekki séð um verkefnið einn þó ekki væri nema fyrir það hvað básúnan var stór og þung og hann of smár til að bera hana á milli heimilis og skóla, ásamt skólatösku. Okkur varð smá saman ljóst að samband við okkar fyrrverandi yrði í raun aldrei alveg „lokið“ og þeir yrðu inni í lífi okkar alltaf á einhvern hátt, við áttum jú saman börn. Það var mun vænlegra að koma á góðri foreldrasamvinnu en að láta sem að þeir skiptu ekki máli í fjölskyldulífi okkar.”

VANÞAKKLÁT STJÚPDÓTTIR – AF HVERJU GAT HÚN EKKI HLÝTT?

“Mér fannst allt ganga nokkuð vel í byrjun og steikti ég lambalæri, sendi börnin í sunnudagaskólann, takmarkaði tölvu – og sjónvarpsnotkun barnanna, aðstoðaði við heimanám, þvoði þvott og lagði mig fram við að láta fólkinu mínu líða vel eins og ég gat og kunni. Maðurinn minn vann auka- og yfirvinnuna enda tekjuhærri en ég en hann var alltaf mjög liðtækur þegar hann var heima við. Í fyrstu hefði ég sómt mér vel utan á tímaritinu „Húsfreyjan“ en ef forsíðumyndin hefði sýnt líðan mín þegar á leið, er ég hrædd um að hún hefði ekki þótt nothæf eða söluleg.”

“Við hjónin höfðum passað vel upp á að gera ekki upp á milli barnanna. Allt var keypt nákvæmlega eins handa börnunum í herbergi þeirra, nema í sitt hvorum litnum. Ég lagði mig líka fram í fyrstu við að kom eins fram við þau og ætlaðist „auðvitað“ líka til þess sama af þeim, það er að segja að þau kæmu eins fram við mig. Jafnvel ætlaðist ég aðeins meira til af stjúpdóttur minni en syni mínum þar sem það var nú langt í frá sjálfsagt að ég sinnti þeim hlutum sem ég tók að mér, já og óumbeðin eins og að kaupa á hana föt eða láta hana læra. Verkefnið var vanþakklátt. Undir niðri hafði ég átt ég von á að maðurinn minn og stjúpdóttir mín yrðu mér þakklát fyrir að koma „kvenlegu skikki“ á hlutina. Hvað var eiginlega að stjúpdóttur minni, af hverju kunni hún ekki bara að þakka fyrir eins og strákurinn minn gerði? Af hverju gat hún ekki bara hlýtt? Af hverju var hún alltaf að minna mig á hvernig var þegar þau pabbi höfðu það þegar þau voru bara tvö? Mér fannst hún vanþakklát og pabbi hennar líka sem fór alltaf í vörn fyrir hana,” segir Valgerður og bætir við að stundum hafi eiginmaðurinn hegðað sér eins og andstæðingur hennar.

FAMILI

“Ég gerði slíkt hið sama þegar mér fannst hann ekki sýna syni mínum sanngirni eða skilning. Á slíkum stundum fannst mér ég vera heimilislaus og velti fyrir mér hvernig mér hafi eiginlega dottið í hug að flytja inn á þau?
Ég stóð mig að því að reyna fá tíma fyrir mig og son minn þegar ég saknaði þess tíma sem við áttum tvö saman og lífið var einfaldara. Ég ræddi það hinsvegar ekki við nokkurn mann enda taldi ég það ekki „rétt“, svoleiðis gerði maður ekki. Ég var himinlifandi þegar við hjónin fengum tíma tvö ein sem mér fannst allt of sjaldan. Var í lagi með mig, ég vildi skapa samstillta fjölskyldu en þráði þó ekkert heitara en að skipta henni upp?”

Eftir á sé ég að þetta var eins og reyna spila Matador með Lúdóreglum en þar sem reglurnar í Matador eru mun flóknari en í Lúdó voru ekki miklar líkur til að við næðum þeim árangri sem við höfðum vænst.“

ÓSAMMMÁLA UM REGLUR Á HEIMILINU

fam

“Fljótlega fann ég fyrir ýmsu smálegu sem mér líkaði ekki þegar kom að krökkunum en við vorum ekki alltaf sammála um hvaða reglur ættu að gilda t.d. við matarborðið eða varðandi nestið. Umræðan var tekin upp á staðnum og eðlilega höfðu krakkarnir sína skoðun á málinu. Ég reyndi stundum að láta sem ekkert væri þar sem mér fannst það ekki tækt að vera nýgift manni sem vildi gera allt fyrir mig og vera síðan sífellt að kvarta yfir einhverju sem auðvitað átti ekki að skipta máli,” segir Valgerður en smátt fór kvíði að sækja að henni. Henni fannst hún vera að bregðast og hafði áhyggjur af ástandinu:

“Af hverju fóru samskipti mín og stjúpdóttur minnar smá saman að valda þessum pirringi og kvíða hjá mér? Ég sem hafði hlakkað til að kynnast þessari fallegu og líflegu stelpu. Var ekki bara eitthvað að mér eða var ekki bara eitthvað að hjá henni sem þurfti að laga?”

VAR ÉG AÐ UMTURNAST Í “VONDU STJÚPUNA”?

“Ég hafði gert ráð fyrir að krakkarnir myndi rífast enda rífast flest systkini, en ekki að ég myndi ekki höndla hlutina eins og ég kaus. Þeim kom reyndar oftast mjög vel saman og voru bæði góð við litlu systur sína þegar hún fæddist. Sérstaklega stjúpdóttir mín en ég fann að fæðingarorlofið gerði okkur gott þar sem við áttum oft stundir tvær með litla skottið og náðum að kynnast og tengjast betur en áður,” segir hún. “Ég fann hinsvegar að það komu dagar og stundir þar sem mér fannst ég vera að umturnast í þá manneskju sem ég vildi síst vera „vondu stjúpuna“! Hvernig gat þetta gerst? Mér líkaði ekki við þá manneskju enda var hún full af sektarkenndar, ráðalaus og einmanna.

Það var mér mikill léttir þegar ég fór í viðtal og var bent á bók eftir frumkvöðlana Emily og John Visher á sviði rannsókna og meðferðar fyrir stjúpfjölskyldur, ég var augljóslega ekki ein á báti. Í félagsráðgjafanámi við Háskóla Íslands vann ég síðan verkefni um stjúpfjölskyldur og „stofnaði“ Stjúptengsl í einu slíkra verkefna. Því meira sem ég lærði komst ég að því að ég var meira „venjuleg“ en ég hafði gert mér áður grein fyrir. Við höfðum, rétt eins og svo margir aðrir, verið með óraunhæfar væntingar og tekið fjölskyldur þar sem öll börnin voru sameiginleg sem fyrirmynd. Eftir á sé ég að þetta var eins og reyna spila Matador með Lúdóreglum en þar sem reglurnar í Matador eru mun flóknari en í Lúdó voru ekki miklar líkur til að við næðum þeim árangri sem við höfðum vænst.”

kids

LÍTILL STUÐNINGUR Í UMHVERFINU EN STENDUR TIL BÓTA

Valgerður segir að stundum hafi þau ráð sem vinir og vandamenn komu með ekki reynst mjög gagnleg því sjaldnast tóku þau mið af fjölskyldugerðinni.

“Í stað þess að spyrja um hlutverk okkar gagnvart börnunum hvors annars var gengið út frá því að ég væri í móðurhlutverkinu og hann í föðurhlutverkinu gagnvart báðum börnunum. Reikningar varðandi stjúpdóttur mína voru stílaðir á mig, ekki foreldra hennar og fengum við forsjá yfir barni hvors annars án þess að vita hvað það fæli í sér í raun og án þess að vera spurð hvort það væri eitthvað sem við vildum en sú regla var lögð niður í síðustu breytingum á Barnalögunum,” segir Valgerður og bætir við að þegar hún líti í baksýnisspegilinn sjái hún að þau hafi dottið í allar gryfjur sem hægt var að falla í, í stjúpfjölskyldu:

“Við byrjuðum oft á góðum hlutum en ef þeir gengu ekki strax upp var sumum hætt of fljótt, aðrir fengu að halda sér eins og héldum alltaf upp á daginn sem við kynntumst og fórum kannski með börnin út á borða eða bíó. Við reyndum að finna út úr hlutunum og stundum tókst okkur að grípa til húmorsins þegar allt annað brást – og mæli ég sérstaklega með henni enda er ekki allt jafn alvarlegt. Við þurfum að velja okkur orustur.”

Valgerður segir mikilvægt að hver og ein fjölskylda finni út hvað henni hentar til að hlutirnir gangi upp í stað þess að fara vopnuð fyrirframgefnum hugmyndum um hvernig hlutirnir „eiga að vera“.

“Það getur hjálpað að vita við hverju er að búast, koma auga á smásigra og vita hvað telst „normalt“ fyrir stjúpfjölskyldur. Stuðningur kennara og annarra sem koma að börnum og fjölskyldum þeirra skiptir einnig miklu máli ekki síst fyrir stjúpfjölskyldur sem eru að reyna finna út úr hlutunum í samfélagi sem ekki er alltaf meðvitað um sérstöðu hennar og verkefni. Stuðningur við stjúpfjölskyldur felur í sér barna- og fjölskylduvernd en með uppbyggilegum viðbrögðum út frá þekkingu og raunhæfum hugmyndum aukum við lífsgæði barna og ungmenna og fjölskyldna þeirra sem hafa upplifað missi, sum oftar en einu sinni,” segir Valgerður að lokum.

Glíma stjúpur við „fæðingarþunglyndi?

Eftir Stjúpforeldrar

Erlendar rannsóknir benda til að stjúpmæður geta upplifað mikla streitu í uppeldishlutverki sínu og að þær séu vanmetnar bæði af öðrum fjölskyldumeðlimun þ.e. stjúpbörnum og maka, og samfélaginu í heild.

Flestar stjúpmæður fara í nýtt samband með góðum hug og vilja til að láta hlutina ganga með börnin, stundum of langt og á þeirra eigin kostnað. Erlendar rannsóknir benda til að stjúpmæður geta upplifað mikla streitu í uppeldishlutverki sínu og að þær séu vanmetnar bæði af öðrum fjölskyldumeðlimun þ.e. stjúpbörnum og maka, og samfélaginu í heild.fylgir ákveðin hætta á þunglyndi og margar eru einmanna í þessum mjög svo algengum sporum en um 75-80% fólks fer í ný sambönd eftir skilnað. Þó þær glími ekki við fæðingarþunglyndi í þeirri merkingu orðsins en full ástæða er til að rannsaka betur hvað það er sem veldur. Líðan stjúpmæðra bitnar ekki eingöngu á þeim sjálfum heldur benda rannsóknir til að tengsl eru á milli andlegrar heilsu umönnunaraðila eins og stjúpmæðra og andlegrar heilsu barna. Það er því mikilvægt að stjúpmæður taki ekki meira að sér en þær raunverulega treysta sér til þegar kemur að stjúpbörnunum að ótta t.d. við að vera“leiðinlegar“.

Félagslegur stuðningur er ein besta vörnin gegn streitu og þunglyndi. Samfélagið hefur hinsvegar og því miður einkennst af hálfgerðri stjúpblindu þar sem ekki er komið auga á stjúptengsl eða gert ráð fyrir þeim í rannsóknum eða stefnumótun í samfélaginu né miklum stuðningi. Jafnvel ekki hjá stjúpfjölskyldunum sjálfum og fundnar eru til ýmsar skýringar á því af hverju viðkomandi tilheyrir ekki stjúpfjölskyldu eins og að börnin búi ekki hjá viðkomandi að staðaldri, þau hafi ekki sama lögheimili eða þau séu orðin svo fullorðin. En stjúpfjölskylda er skilgreind sem fjölskylda þar sem annar eða báðir aðilar koma með barn eða börn úr öðrum samböndum.

Skortur á viðurkenningu

Þessi skortur á viðurkenningu er víða og sumri reyna að fela það að þeir búa í stjúpfjölskyldum. Sumir ganga jafnvel svo langt að segja að viðkomandi stjúpfaðir eða stjúpmóðir sé meira eins og pabbi eða mamma þar sem viðkomandi er svo góð/ur! Rétt eins og stjúpforeldar geti ekki verið góðir. Við vitum að þessi ímynd kemur úr ævintýrunum en það er ekki hægt að horfa framhjá því sem kemur fram bæði í erlendum og innlendum rannsóknir það getur reynt meira á í stjúpfjölskyldum sem kemur m.a. fram í tölum um ofbeldi innan fjölskyldunnar og ungmenni fari fyrr að heiman. Það er því mikilvægt forvarnarverkefni að styðja við stjúpforeldra og stjúpfjölskyldur í heild sem og að tryggja að börn og ungmenni haldi tengslum við báða foreldra sína eftir skilnað og líka þegar farið er í stjúpfjölskyldu.
Það er mitt mat að eitt stærsta velferðarmál samtímans sé að þétta tengslanet barna og fjölskyldna þeirra. Fordómar, óvissa og lítill félagslegur stuðningur við stjúpfjölskyldur getur gert það að verkum að þessi stuðningurinn fer oft forgörðum í stað þess að gera fjölskyldunetið ríkara þegar vel tekst til.

Stjúpuhittingur

Til að bregðast við þessari þörf sem ég þekkti sjálf vel á sínum tíma ákvað ég í í vetur eftir nokkuð hlé að bjóða upp stjúpmæðrahópa sem ganga undir nafninu „Stjúpuhittingur“ og eru konurnar frá 5-8 í hóp ásamt leiðbeinanda. En ég legg áherslu á að hóparnir séu persónulegir og allar konur fái sinn tíma til að tjá sig en það er nú oft þannig að leið og við orðum hlutina upphátt, í öruggu umhverfi og án þess að vera trufluð finnum við okkar eigin lausnir.

Í hópunum tökum fyrir ákveðin verkefni og ræðum í hópnum. Ég hef haft þá venju að biðja þær um að senda mér póst þar sem fram kemur hvað þær vilja fá út úr hópnum. Það er ótrúlega oft það sama sem þeim langar til að ræða og það sem stendur upp úr og er nánast í öllum póstum er að þeim langar að kynnast öðrum stjúpum, fá ráð frá þeim sem eru í svipuðum sporum og fá staðfestingu á því að líðan þeirra sé normal, þær séu ekki einar um að líða „svona. Mitt hlutverk er að leiða hópinn, leggja fyrir verkefni og stutt innlegg úr fræðunum þegar við á.

Hóparnir eru lokaðir og skiptir trúnaður þar öllu máli. Þetta hefur verið einstaklega gefandi og skemmtileg vinna og er bæði grátið og helgið og allt þar á milli. Á fyrsta fundi förum við m.a. yfir þessa punkta sem þær senda mér án þess að nefna hver sendi hvað og síðan fá þær heimaverkefni sem farið er í næsta tíma. Eftir fyrsta tímann er upplifa margar konur eins og þungu fari sé af þeim létt en sumar finna líka fyrir gremju yfir ýmsu sem upp hefur komið og ekki náðst að vinna úr. Það má kannski segja að vera í slíkum hóp hjálpar þeim m.a. að vinna úr hlutunum og gefur þeim kjark til að takast á við hluti milli funda eins og að setja mörk og ræða viðkvæm mál. Við áherslu á að koma auga á það sem vel gengur og gera meira af því sem virkar. Það sem mér hefur fundist skipta konurnar mestu máli er að hitta aðrar konur í öruggum aðstæðum og ræða stjúpmóðurhlutverkið sem hvílir þungt á mörgum konum. Fara í sjálfsskoðun og heyra í öðrum í sömu sporum en við lærum mikið af hvor annarri.

Vita hvað þær eiga ekki að vera!

Flestar stjúpmæður eru meðvitaðar um hvað þær eiga ekki að vera þ.e. mæður stjúpbarna sinna, enda eiga flest þeirra mæður. Þær vilja heldur ekki vera vonda stjúpan í ævintýrunum. En hvert er þá hlutverk stjúpmóðurinnar? Margar komast að því að þær hafa leyft öðrum að skilgreina það fyrir sig og það hafi ekki hjálpað að vilja ekki vera „leiðinleg“ og setja því ekki sjálfum sér og öðrum mörk. Með því að læra hvað er normalt fyrir stjúpfjölskyldur og vera með raunhæfar væntingar, velja sér sjálf það hlutverk sem hún vill vera í og prófa sig áfram, sem og taka áhættina á að „vera leiðinleg“ sem felur ekkert annað í sér en að setja viðeigandi mörk og skapast góður grunnur fyrir gott fjölskyldulíf. Það verður hinsvegar mikilvægt að taka fram að það er ekki á ábyrgð stjúpunnar einnar að bæta fjölskyldulífið en það verður nú að segjast eins og að oftast eru það konur sem draga vagninn í fjölskyldumálum. Á námskeiðinu öðlast flestar þann kraft og ekki síst sjálfsöryggi sem til þarf að fara í þá vinnu sem til þarf svo öllum líði vel í fjölskyldunni. Oftast er makinn áhugasamur um það sem fram fer og parið fer í að skoða málin meira saman – sem er lykilatriði.

 

Valgerður Halldórsdóttir, félags- og fjölskyldráðgjafi, sáttamaður

 

Skilaboð frá stjúpmæðrum til maka sinna

Eftir Stjúpforeldrar
 1. Sýndu því skilning að það tekur mig  tíma að byggja upp samband við börnin þín og það er eðlilegt að vera meira tengdur eigin börnum en annarra. Leyfðu mér að prófa mig áfram.
 2. Hafðu mig með í ráðum varðandi börnin þín og breytingar á umgengni. Þegar þú spyrð mig álits finnst mér ég skipta þig máli og að við erum í þessu saman.  Ég verð ánægðari  og börnin munu njóta þess  líka.
 3. Þegar ég er spurð, hef ég bæði rétt á að segja já, nei eða leyfðu mér að hugsa málið.
 4. Ég virði rétt þinn til að ráðstafa tíma þínum og peningum – viltu virða minn líka?
 5. Viltu ræða við mig og skipuleggja þá daga sem börnin þín eru hjá okkur með mér. Óvæntum uppákomum fækkar og við verðum öll mun afslappaðri þegar við vitum hvað er framundan.
 6. Þegar ég er afslöppuð  og undirbúin verð ég jákvæðari og á  auðveldar að taka börnunum þínum opnum örmum.  Það hjálpar mér að mynda betri tengsl við þau.
 7. Gerðu líka ráð fyrir að við gerum eitthvað saman sem fjölskylda þegar börnin þín og þinnar fyrrverandi eru ekki hjá okkur.
 8. Deildu með mér ábyrgð á börnunum en hvorki  varpa henni alfarið á mig eða halda þeim frá mér.
 9. Sýndu því skilning að ég þarf stundum tíma án þín og barna þinna, svo ég geti aðlagast í rólegheitum.
 10. Viltu láta sambandið við þína fyrrverandi snúast um börnin ykkar en ekki ókláraðar deilur sem kemur hvorki mér né börnunum þínum við.
 11. Það hjálpar mér að finna út úr mínu hlutverki sem stjúpa, sinnir þú vel föðurhlutverki þínu.   Við þurfum að móta heimilisreglurnar saman en þú verður að sjá um að framfylgja þeim – í fyrstu.
 12. Þurfir þú að velja á milli minna óska og þinnar fyrrverandi – viltu standa með mér?
 13. Mundu eftir að hrósa mér – sumir dagar eru einfaldlega mjög erfiðir.
 14. Hugsaðu um það sem hefur gengið vel og hvað það er sem virkar. Hugsum í lausnum!
 15. Ég elska þig – og skil að börnin þín skipta þig máli. Hjálpumst að skapa heimili sem við tilheyrum öll og skiptum hvort annað máli!

Samantekt kvenna sem voru á námskeiðinu Stjúpuhittingur hjá Valgerði Halldórsdóttur félags- og fjölskylduráðgjafa

 

Stjúpur – Öskubuskur samtímans?

Eftir Stjúpforeldrar

Ég má laga til, elda, keyra og sækja stjúpdóttur mína í leikskólann og aðstoða stjúpson minn við að heimanám en svo þegar kemur að skemmtun í leikskólanum eða skólanum þá virðist það nú ekki alveg sjálfsagt að ég mæti. Það nefnir það engin að minnsta kosti!

Flestir eru sammála um það í dag að stjúpforeldrum er ekki ætlað að ganga börnum í föður- eða móðurstað. Enda er sjaldnast nokkur þörf á þar sem flest börn eiga báða foreldra á lífi og eru í reglulegum samskiptum við þá.

Stjúpforeldar taka hinsvegar oft að sér verkefni, bæði óumbeðnir og beðnir,  sem yfirleitt teljast í verkahring foreldra.   Það eru hlutir eins og að elda matinn,  smyrja nesti fyrir börnin,  þvo af þeim þvott, aðstoða  við heimanám,  minna á íþróttafötin og  koma þeim í leikskólann svo fátt eitt sé nefnt.

Þessi verkefni geta reynt á önnun kafna foreldra og þó svo að börnin láti ganga á eftir sér,  þá efast þeir sjaldnast um ást barna sinna eða óttast að missa hana þó eitt og annað gangi á, á önnum sömum vetrarmorgni.  Þeir fá bæði  brosið frá barninu  í lok skóladags  og  eru boðnir  hjartanlega velkomnir á „ kaffihúsadaginn“ eða „mömmu/pabbamorguninn“  í leikskólanum.

Þessi sömu verkefni geta reynt enn  frekar á stjúpforeldra,  sem oft eru óvissir um hvað þeir mega eða eiga að gera þegar kemur að stjúpbörnunum.  Þeir geta  verið  í því hlutverki að sjá um uppeldi og umönnun stjúpbarns en á sama tíma eiga að halda ákveðinni fjarlægð við það og skipta sér sem minnst af. Línan milli þess sem telst góð afskipi og síðan afskiptasemi er því oft þunn í stjúpfjölskyldum. Við slíkar aðstæður er auðvelt að „misstíga“ sig og verða pirraður og finnast maður vera vanmetin.

Við þurfum öll,  öðru hvoru,  á að halda viðurkenningu og stuðning í lífinu  bæði frá okkar nánustu sem og í nærumhverfi okkar.  Vel upplýst starfsfólk  t.d. skóla og heilsugæslu getur því skipt sköpum og verið mikilvægur stuðningur fyrir fjölskyldur sem glíma við óvæntar uppákomur í lífinu.

Um daginn spurði ég nokkrar stjúpmæður um hvað þeim fannst gott og hvað betur mætti fara í samskiptum við leikskóla stjúpbarna þeirra en töluverð umræða hafi verið um það í hópnum hvort þær mættu mæta á svokallaða „mömmumorgna“ eða ekki.

Svörin létu ekki á sér standa. Ein kunni vel að meta það frumkvæði leikskólakennarans að bjóða henni að vera á póstlista skólans. Önnur nefndi að skólinn stæði sig vel í því að koma skilaboðum á bæði heimila barnsins og boðið væri upp á tvenn foreldraviðtöl . Taldi hún það  mikilvægt í ljósi þess að samskipti foreldrana voru ekki góð.  Aðrar kvörtuðu hinsvegar undan því að engar upplýsingar bærust nema á lögheimili barnsins. Það hefði orðið til þess að ein mætti með barnið  í leikskólann á „dótadegi“ án nokkurs  leikfangs með tilheyrandi vonbrigðum fyrir barnið.  Margar tóku það nærri sér að engar gjafir voru stílaðar á þær, bara pabbann og svo virtist sem að enginn gerði ráð fyrir þeim á skemmtanir  tengda börnunum. Boðin væru oftast stíluð á foreldra og forráðamenn. Fannst þeim það skrýtið þar sem flestir foreldrar í dag færu sameiginlega með forsjá barna sinna. Þær væru því ekki forráðamenn þeirra.

Aðspurðum  um þetta  mál fannst flestum kennurum það sjálfsagt  að þær mættu  á þær skemmtanir og annað í skólanum  sem þær vildu,  þó það sé ekki tekið sérstaklega fram.  Það ætti jafnvel ekki að þurfa þess heldur.  En í ljósi þess að hlutverk stjúpforeldra er oft óljóst í fyrstu þá kann það að vera nauðsynlegt.  Annars er hætta á að stjúpan upplifi sig í hlutverki Öskubusku – hún má strita við uppeldi og umönnun stjúpbarna sinna en fær ekki boð á „ballið“.  Hvað gera álfkonur þá?

Valgerður Halldórsdóttir, félags- og fjölskylduráðgjafi

Þú vissir að ég ætti börn!

Eftir Stjúpforeldrar

„Þú vissir að ég ætti börn“ hreytti Almar út úr sér pirraður við Erlu sambýliskonu sína þegar hún lét í ljós óánægju sína með að börnin yrðu hjá þeim um helgina. Mamma þeirra hafði ákveðið að skella sér norður með vinkonum sínum og beðið hann fyrir þau þó þetta væri „hennar vika“. Almari fannst  ekkert sjálfsagðara en að vera með börnin.

Hann átti bágt með að skilja um hvað ósætti eða geðvonska Erlu snérist því  þau voru ekki  með sérstök plön um helgina.  Almari fannst hún  breytt frá því upphafi sambandsins því í  fyrstunni  virtist hún vera mjög  sátt við börnin og allt hafði gengið vel fram að þessu.  Hann hætti klukkan fjögur í vinnunni  þá daga sem hann var með börnin en vann oft lengur þá daga sem þau voru hjá mömmu sinni.  Honum fannst þetta fyrirkomulag fínt og börnin virtust mjög sátt.

Óhætt er að fullyrða að flestir stjúpforeldrar fara í sambönd með góðum hug og vilja til að láta hlutina ganga. Þeir átta sig á að foreldrar þurfa að eiga tíma með börnum sínum og þarfir þeirra geta ekki alltaf verið í fyrsta sæti þegar farið er í samband með fólki sem á börn. Sumir  reyna jafnvel að aðlaga sig einhliða venjum og hefðum sem maki þeirra í samráði við sinn  fyrrverandi maka hafa mótað eins og þeim hentar.  Fæstir stjúpforeldrar eru  hinsvegar sáttir í slíkum aðstæðum til lengdar og kalla oft á breytingar þar sem gert er meira ráð fyrir þeim og sambandsaðilinn og fyrrverandi maki  virðast ekki taka tillit til eða virða.

Sumir vilja ekki vera með nein „leiðindi“ og reyna að „halda í sér“ sérstaklega þegar öllum öðrum  virðist líða vel.  Í óöryggi  bíða þeir lengur en góðu hófi gegnir með að láta óánægju sína í ljós, leyfa öðrum að skilgreina hlutverk sitt og taka jafnvel meira að sér en þeir raunverulega ráða við.  Í stað þess að vera í þeirri stöðu  að bjóða smá saman fram aðstoð með börnin draga þeir sig í hlé og samveran verður kvíðvænleg.

Betra er að gera ráð fyrir breytingum þegar nýr maki kemur til sögunnar en stjúpforeldar eins og annað fólk  vill hafa áhrif í sitt daglega líf og finna að gert sé ráð fyrir þeim.  Yfirvinna „barnlausu“ vikuna kann að henta einhleypu foreldri en í nýju sambandi getur það farið illa í stjúpforeldrið sem upplifir að lítið svigrúm sé til þess að rækta sambandið án barna.  Ekki bætir það stöðuna þegar ráðstafað er tíma þess eða rými án samráðs við það.
Að hreyta í maka sinn  „þú vissir að ég ætti barn eða börn“ þegar hann kvartar undan tímaleysi makans eða hvernig fyrrverandi maki vill stjórna öllu og , hjálpar jafnvel ekki.   Þvert á móti eru meiri líkur á að stjúpforeldrið upplifi sig útundan og reitt sem grefur undan löngun þess til að „fórna“ sér og tíma sínum fyrir stjúpbörnin og að foreldrið fái það svigrúm sem það þarf til að sinna börnum sínum.
Það á að vera sjálfsagt  mál að leita til fyrrverandi maka þegar aðstoð þarf með börnin en báðir foreldrar þurfa að taka mið af stjúpforeldrinu þegar breyta þarf tímasetningum  eða skipulagi vilji þeir að börnum líði vel.  Óánægja í stjúpfjölskyldum bitnar ekki síður á börnum þeirra en samskiptum þeirra fullorðnu.
Allir þurfa að upplifa sanngirni og að gert sé ráð fyrir þeim á einhvern hátt. Fái stjúpforeldri þörfum sínum fyrir athygli og tíma fullnægt eins og aðrir í fjölskyldunni eru meiri líkur á að hollusta þess gagnvart henni eflist og það verði viljugra til að láta þarfir stjúpbarnanna ganga fyrir sínum eigin þegar nauðsyn krefur. Það þykir kannski ekki rómantískt en er nauðsynlegt, þegar hlutirnir krefjast mikils samráðs og samhæfingar, að hafa stundaskrár þar sem teknir eru frá tímar til að rækta sambandið.
Valgerður Halldórsdóttir félags- og fjölskylduráðgjafi, MA,

Það má prófa sig áfram í hlutverkinu

Eftir Stjúpforeldrar

Algengt er að farið sé í sambúð án þess að rætt sé áður hvert eigi að vera hlutverk stjúpforeldrisins gagnvart stjúpbörnunum eða hvernig það geti tengst þeim.  Ástæðurnar geta verið margvíslegar.  Sumir telja það mjög líkt foreldrahlutverkinu og því engin ástæða til að ræða það sérstaklega og aðrir hafa bara ekki hugsað út í að þess þurfi og eru bara ástfangnir af maka sínum.

Einhverjir vilja forðast umræðuefnið og finnst óþægilegt að biðja maka sinn að taka að sér verkefni varðandi börn sem hann á ekki í eða biðja hann um að bakka út, sýni hann of mikinn ákafa í að taka að sér uppeldis- og agahlutverk. Sumir stjúpforeldrar vilja ekki særa maka sína og segja hvernig þeim líður gagnvart væntingum sem gerðar eru til þeirra. Dæmi um efni sem sumum finnst erfitt að ræða er vera kallaðir „pabbi“ eða „mamma“ stjúpbarns án nokkurs samráðs eða að það sé ætlast til að þeir borgi ýmislegt fyrir stjúpbörn sín sem þeim finnst að „hitt“ foreldrið eigi að borga.

Það er hinsvegar nauðsynlegt að ræða og komast að einhverju samkomulagi um hlutverk stjúpforeldra, rétt eins og ræða þarf fjármál. Hvorugt umræðuefnið þykir rómantískt en bæði geta drepið alla rómantík sé ekki þá þeim tekið.  Óhætt er að prófa sig áfram í hlutverkinu og sjá hvernig gengur án þess að vera búin að negla allt niður, en nauðsynlegt þó að ræða áður hvernig taka skuli á ágreiningi komi hann upp og endurskoða þá leið sem valin var í byrjun.

Valgerður Halldórsdóttir, félags- og fjölskylduráðgjafi

Instagram