Skip to main content
Stjúpforeldrar

Mér fannst hún vanþakklát og pabbi hennar líka” – Viðtal

Fyrir skemmstu birtist hér á Pjattinu pistill sem bar yfirskriftina “10 setningar sem stjúpmömmur ættu aldrei að láta út úr sér“. Pistillinn vakti mikla athygli og umræður inni á Facebook síðu okkar Pjattrófa.

…svo í kjölfarið höfðum við samband við félagið Stjúptengsl en konan á bak við það félag er Valgerður Halldórsdóttir félagsráðgjafi , MA og höfundur bókarinnar „Hver er í fjölskyldunni? Skilnaðir og stjúptengsl.

Það er ljóst að með aukinni skilnaðartíðni og breyttu samfélagsmynstri verða fleiri og fleiri fjölskyldur ‘blandaðar’. Flestir finna sér nýja maka eftir skilnað og ljóst er að vel flestir, ef ekki allir, reka sig fljótt á hindranir þegar kemur að því að setja saman hina ‘fullkomnu’ nýju fjölskyldu.

PERSÓNULEG REYNSLA AF STJÚPUHLUTVERKI KOM ÞESSU AF STAÐ

Valgerði má kalla fremsta meðal jafninga í reynslu sinni og þekkingu á blönduðum fjölskyldum en það var persónuleg reynsla hennar af því að gerast stjúpmóðir, sem og menntun hennar, sem kom af stað því starfi sem hún rekur í dag með félagið Stjúptengsl. 

Henni er mikið í mun að fræða stjúpfjölskyldur um þær fjölbreyttu stöður sem þar geta komið upp enda svo ótal margir að fást við það sama þó margir haldi að þar sé hver í sínu horni að glíma við sértæk vandamál.

Við tókum hana tali og fengum Valgerði til að segja okkur sína sögu af því að vera stjúpmóðir og eflaust kannast margar við þær tilfinningar sem hún lýsir í viðtalinu. Það eru nefninlega, eins og áður segir, margir að glíma við það sama:

“Ég var nýgift með son úr fyrri sambúð og stjúpdóttur. Samböndum okkar hjóna við foreldra barnanna var „löngu lokið“ og nú átti þetta að takast, ekki skorti okkur reynsluna. Utanfrá vorum við eins og „venjuleg fjölskylda“. Útivinnandi hjón sem bjuggu á þriðju hæð í blokk í vesturbæ Reykjavíkur með tvö börn á aldrinum 6 og 8 ára,” segir Valgerður þegar hún fer yfir upplifun sína af því að stofna til nýrrar fjölskyldu en Valgerði hafði dreymt um samhenta fjölskyldu síðan foreldrar hennar skildu.

“Ég tók því ekki vel í það þegar mér fannst tekið framfyrir hendurnar á mér og maðurinn minn samþykkti einhverjar breytingar á umgengni dótturinnar við móðurina án samráðs við mig. Hvað um mín plön? Það var eins og ég væri alger aukastærð í þessu máli. Ég fann að skortur á samráði við mig sem eiginkonu, upplifði ég sem stjórnleysi og ágreiningur sem upp kom á milli foreldrana bitnaði á samskiptum mínum og stjúpdóttur minnar. Ég var engu skárri sjálf varðandi son minn og föður hans og tók ákvarðanir án samráðs við manninn minn sem hafði hafði sínar skoðanir á málinu rétt eins og ég. Við vorum bæði einfaldlega vön því að taka ákvarðanir án samráðs og gamlar rútínur sem áður hentuðu okkur sem einhleypir foreldrar spilltu nú fyrir í sambandinu og samstöðu okkar í stjúpfjölskyldunnar,” segir Valgerður.

Ég fann hinsvegar að það komu dagar og stundir þar sem mér fannst ég vera að umturnast í þá manneskju sem ég vildi síst vera „vondu stjúpuna“! Hvernig gat þetta gerst? Mér líkaði ekki við þá manneskju enda var hún full af sektarkenndar, ráðalaus og einmanna.

SKORTUR Á SAMRÁÐI FORELDRA

“Fyrir kom að foreldra barna okkar tóku ákvarðanir sem snertu okkar fjölskyldulíf án nokkurs samráðs við hvorugt okkar. Til að mynda skráði pabbi sonar míns hann í básúnutíma þegar hann var 8 ára, útvegaði hljóðfæri og hvarf síðan aftur út á land til sinna fyrri verkefna. Mér finnst þetta nokkuð spaugilegt í dag en það veit sá sem allt veit að okkur var ekki hlátur í huga á sínum tíma. Pabbinn var velmeinandi og vildi að sonurinn fengi uppbyggilegt tónlistaruppeldi en nauðsynlegt samráð skorti. Það var nokkuð ljóst að strákurinn gat ekki séð um verkefnið einn þó ekki væri nema fyrir það hvað básúnan var stór og þung og hann of smár til að bera hana á milli heimilis og skóla, ásamt skólatösku. Okkur varð smá saman ljóst að samband við okkar fyrrverandi yrði í raun aldrei alveg „lokið“ og þeir yrðu inni í lífi okkar alltaf á einhvern hátt, við áttum jú saman börn. Það var mun vænlegra að koma á góðri foreldrasamvinnu en að láta sem að þeir skiptu ekki máli í fjölskyldulífi okkar.”

VANÞAKKLÁT STJÚPDÓTTIR – AF HVERJU GAT HÚN EKKI HLÝTT?

“Mér fannst allt ganga nokkuð vel í byrjun og steikti ég lambalæri, sendi börnin í sunnudagaskólann, takmarkaði tölvu – og sjónvarpsnotkun barnanna, aðstoðaði við heimanám, þvoði þvott og lagði mig fram við að láta fólkinu mínu líða vel eins og ég gat og kunni. Maðurinn minn vann auka- og yfirvinnuna enda tekjuhærri en ég en hann var alltaf mjög liðtækur þegar hann var heima við. Í fyrstu hefði ég sómt mér vel utan á tímaritinu „Húsfreyjan“ en ef forsíðumyndin hefði sýnt líðan mín þegar á leið, er ég hrædd um að hún hefði ekki þótt nothæf eða söluleg.”

“Við hjónin höfðum passað vel upp á að gera ekki upp á milli barnanna. Allt var keypt nákvæmlega eins handa börnunum í herbergi þeirra, nema í sitt hvorum litnum. Ég lagði mig líka fram í fyrstu við að kom eins fram við þau og ætlaðist „auðvitað“ líka til þess sama af þeim, það er að segja að þau kæmu eins fram við mig. Jafnvel ætlaðist ég aðeins meira til af stjúpdóttur minni en syni mínum þar sem það var nú langt í frá sjálfsagt að ég sinnti þeim hlutum sem ég tók að mér, já og óumbeðin eins og að kaupa á hana föt eða láta hana læra. Verkefnið var vanþakklátt. Undir niðri hafði ég átt ég von á að maðurinn minn og stjúpdóttir mín yrðu mér þakklát fyrir að koma „kvenlegu skikki“ á hlutina. Hvað var eiginlega að stjúpdóttur minni, af hverju kunni hún ekki bara að þakka fyrir eins og strákurinn minn gerði? Af hverju gat hún ekki bara hlýtt? Af hverju var hún alltaf að minna mig á hvernig var þegar þau pabbi höfðu það þegar þau voru bara tvö? Mér fannst hún vanþakklát og pabbi hennar líka sem fór alltaf í vörn fyrir hana,” segir Valgerður og bætir við að stundum hafi eiginmaðurinn hegðað sér eins og andstæðingur hennar.

FAMILI

“Ég gerði slíkt hið sama þegar mér fannst hann ekki sýna syni mínum sanngirni eða skilning. Á slíkum stundum fannst mér ég vera heimilislaus og velti fyrir mér hvernig mér hafi eiginlega dottið í hug að flytja inn á þau?
Ég stóð mig að því að reyna fá tíma fyrir mig og son minn þegar ég saknaði þess tíma sem við áttum tvö saman og lífið var einfaldara. Ég ræddi það hinsvegar ekki við nokkurn mann enda taldi ég það ekki „rétt“, svoleiðis gerði maður ekki. Ég var himinlifandi þegar við hjónin fengum tíma tvö ein sem mér fannst allt of sjaldan. Var í lagi með mig, ég vildi skapa samstillta fjölskyldu en þráði þó ekkert heitara en að skipta henni upp?”

Eftir á sé ég að þetta var eins og reyna spila Matador með Lúdóreglum en þar sem reglurnar í Matador eru mun flóknari en í Lúdó voru ekki miklar líkur til að við næðum þeim árangri sem við höfðum vænst.“

ÓSAMMMÁLA UM REGLUR Á HEIMILINU

fam

“Fljótlega fann ég fyrir ýmsu smálegu sem mér líkaði ekki þegar kom að krökkunum en við vorum ekki alltaf sammála um hvaða reglur ættu að gilda t.d. við matarborðið eða varðandi nestið. Umræðan var tekin upp á staðnum og eðlilega höfðu krakkarnir sína skoðun á málinu. Ég reyndi stundum að láta sem ekkert væri þar sem mér fannst það ekki tækt að vera nýgift manni sem vildi gera allt fyrir mig og vera síðan sífellt að kvarta yfir einhverju sem auðvitað átti ekki að skipta máli,” segir Valgerður en smátt fór kvíði að sækja að henni. Henni fannst hún vera að bregðast og hafði áhyggjur af ástandinu:

“Af hverju fóru samskipti mín og stjúpdóttur minnar smá saman að valda þessum pirringi og kvíða hjá mér? Ég sem hafði hlakkað til að kynnast þessari fallegu og líflegu stelpu. Var ekki bara eitthvað að mér eða var ekki bara eitthvað að hjá henni sem þurfti að laga?”

VAR ÉG AÐ UMTURNAST Í “VONDU STJÚPUNA”?

“Ég hafði gert ráð fyrir að krakkarnir myndi rífast enda rífast flest systkini, en ekki að ég myndi ekki höndla hlutina eins og ég kaus. Þeim kom reyndar oftast mjög vel saman og voru bæði góð við litlu systur sína þegar hún fæddist. Sérstaklega stjúpdóttir mín en ég fann að fæðingarorlofið gerði okkur gott þar sem við áttum oft stundir tvær með litla skottið og náðum að kynnast og tengjast betur en áður,” segir hún. “Ég fann hinsvegar að það komu dagar og stundir þar sem mér fannst ég vera að umturnast í þá manneskju sem ég vildi síst vera „vondu stjúpuna“! Hvernig gat þetta gerst? Mér líkaði ekki við þá manneskju enda var hún full af sektarkenndar, ráðalaus og einmanna.

Það var mér mikill léttir þegar ég fór í viðtal og var bent á bók eftir frumkvöðlana Emily og John Visher á sviði rannsókna og meðferðar fyrir stjúpfjölskyldur, ég var augljóslega ekki ein á báti. Í félagsráðgjafanámi við Háskóla Íslands vann ég síðan verkefni um stjúpfjölskyldur og „stofnaði“ Stjúptengsl í einu slíkra verkefna. Því meira sem ég lærði komst ég að því að ég var meira „venjuleg“ en ég hafði gert mér áður grein fyrir. Við höfðum, rétt eins og svo margir aðrir, verið með óraunhæfar væntingar og tekið fjölskyldur þar sem öll börnin voru sameiginleg sem fyrirmynd. Eftir á sé ég að þetta var eins og reyna spila Matador með Lúdóreglum en þar sem reglurnar í Matador eru mun flóknari en í Lúdó voru ekki miklar líkur til að við næðum þeim árangri sem við höfðum vænst.”

kids

LÍTILL STUÐNINGUR Í UMHVERFINU EN STENDUR TIL BÓTA

Valgerður segir að stundum hafi þau ráð sem vinir og vandamenn komu með ekki reynst mjög gagnleg því sjaldnast tóku þau mið af fjölskyldugerðinni.

“Í stað þess að spyrja um hlutverk okkar gagnvart börnunum hvors annars var gengið út frá því að ég væri í móðurhlutverkinu og hann í föðurhlutverkinu gagnvart báðum börnunum. Reikningar varðandi stjúpdóttur mína voru stílaðir á mig, ekki foreldra hennar og fengum við forsjá yfir barni hvors annars án þess að vita hvað það fæli í sér í raun og án þess að vera spurð hvort það væri eitthvað sem við vildum en sú regla var lögð niður í síðustu breytingum á Barnalögunum,” segir Valgerður og bætir við að þegar hún líti í baksýnisspegilinn sjái hún að þau hafi dottið í allar gryfjur sem hægt var að falla í, í stjúpfjölskyldu:

“Við byrjuðum oft á góðum hlutum en ef þeir gengu ekki strax upp var sumum hætt of fljótt, aðrir fengu að halda sér eins og héldum alltaf upp á daginn sem við kynntumst og fórum kannski með börnin út á borða eða bíó. Við reyndum að finna út úr hlutunum og stundum tókst okkur að grípa til húmorsins þegar allt annað brást – og mæli ég sérstaklega með henni enda er ekki allt jafn alvarlegt. Við þurfum að velja okkur orustur.”

Valgerður segir mikilvægt að hver og ein fjölskylda finni út hvað henni hentar til að hlutirnir gangi upp í stað þess að fara vopnuð fyrirframgefnum hugmyndum um hvernig hlutirnir „eiga að vera“.

“Það getur hjálpað að vita við hverju er að búast, koma auga á smásigra og vita hvað telst „normalt“ fyrir stjúpfjölskyldur. Stuðningur kennara og annarra sem koma að börnum og fjölskyldum þeirra skiptir einnig miklu máli ekki síst fyrir stjúpfjölskyldur sem eru að reyna finna út úr hlutunum í samfélagi sem ekki er alltaf meðvitað um sérstöðu hennar og verkefni. Stuðningur við stjúpfjölskyldur felur í sér barna- og fjölskylduvernd en með uppbyggilegum viðbrögðum út frá þekkingu og raunhæfum hugmyndum aukum við lífsgæði barna og ungmenna og fjölskyldna þeirra sem hafa upplifað missi, sum oftar en einu sinni,” segir Valgerður að lokum.

Instagram