Skip to main content
Stjúpforeldrar

Þú vissir að ég ætti börn!

„Þú vissir að ég ætti börn“ hreytti Almar út úr sér pirraður við Erlu sambýliskonu sína þegar hún lét í ljós óánægju sína með að börnin yrðu hjá þeim um helgina. Mamma þeirra hafði ákveðið að skella sér norður með vinkonum sínum og beðið hann fyrir þau þó þetta væri „hennar vika“. Almari fannst  ekkert sjálfsagðara en að vera með börnin.

Hann átti bágt með að skilja um hvað ósætti eða geðvonska Erlu snérist því  þau voru ekki  með sérstök plön um helgina.  Almari fannst hún  breytt frá því upphafi sambandsins því í  fyrstunni  virtist hún vera mjög  sátt við börnin og allt hafði gengið vel fram að þessu.  Hann hætti klukkan fjögur í vinnunni  þá daga sem hann var með börnin en vann oft lengur þá daga sem þau voru hjá mömmu sinni.  Honum fannst þetta fyrirkomulag fínt og börnin virtust mjög sátt.

Óhætt er að fullyrða að flestir stjúpforeldrar fara í sambönd með góðum hug og vilja til að láta hlutina ganga. Þeir átta sig á að foreldrar þurfa að eiga tíma með börnum sínum og þarfir þeirra geta ekki alltaf verið í fyrsta sæti þegar farið er í samband með fólki sem á börn. Sumir  reyna jafnvel að aðlaga sig einhliða venjum og hefðum sem maki þeirra í samráði við sinn  fyrrverandi maka hafa mótað eins og þeim hentar.  Fæstir stjúpforeldrar eru  hinsvegar sáttir í slíkum aðstæðum til lengdar og kalla oft á breytingar þar sem gert er meira ráð fyrir þeim og sambandsaðilinn og fyrrverandi maki  virðast ekki taka tillit til eða virða.

Sumir vilja ekki vera með nein „leiðindi“ og reyna að „halda í sér“ sérstaklega þegar öllum öðrum  virðist líða vel.  Í óöryggi  bíða þeir lengur en góðu hófi gegnir með að láta óánægju sína í ljós, leyfa öðrum að skilgreina hlutverk sitt og taka jafnvel meira að sér en þeir raunverulega ráða við.  Í stað þess að vera í þeirri stöðu  að bjóða smá saman fram aðstoð með börnin draga þeir sig í hlé og samveran verður kvíðvænleg.

Betra er að gera ráð fyrir breytingum þegar nýr maki kemur til sögunnar en stjúpforeldar eins og annað fólk  vill hafa áhrif í sitt daglega líf og finna að gert sé ráð fyrir þeim.  Yfirvinna „barnlausu“ vikuna kann að henta einhleypu foreldri en í nýju sambandi getur það farið illa í stjúpforeldrið sem upplifir að lítið svigrúm sé til þess að rækta sambandið án barna.  Ekki bætir það stöðuna þegar ráðstafað er tíma þess eða rými án samráðs við það.
Að hreyta í maka sinn  „þú vissir að ég ætti barn eða börn“ þegar hann kvartar undan tímaleysi makans eða hvernig fyrrverandi maki vill stjórna öllu og , hjálpar jafnvel ekki.   Þvert á móti eru meiri líkur á að stjúpforeldrið upplifi sig útundan og reitt sem grefur undan löngun þess til að „fórna“ sér og tíma sínum fyrir stjúpbörnin og að foreldrið fái það svigrúm sem það þarf til að sinna börnum sínum.
Það á að vera sjálfsagt  mál að leita til fyrrverandi maka þegar aðstoð þarf með börnin en báðir foreldrar þurfa að taka mið af stjúpforeldrinu þegar breyta þarf tímasetningum  eða skipulagi vilji þeir að börnum líði vel.  Óánægja í stjúpfjölskyldum bitnar ekki síður á börnum þeirra en samskiptum þeirra fullorðnu.
Allir þurfa að upplifa sanngirni og að gert sé ráð fyrir þeim á einhvern hátt. Fái stjúpforeldri þörfum sínum fyrir athygli og tíma fullnægt eins og aðrir í fjölskyldunni eru meiri líkur á að hollusta þess gagnvart henni eflist og það verði viljugra til að láta þarfir stjúpbarnanna ganga fyrir sínum eigin þegar nauðsyn krefur. Það þykir kannski ekki rómantískt en er nauðsynlegt, þegar hlutirnir krefjast mikils samráðs og samhæfingar, að hafa stundaskrár þar sem teknir eru frá tímar til að rækta sambandið.
Valgerður Halldórsdóttir félags- og fjölskylduráðgjafi, MA,

Instagram