Skip to main content
Hátíðir

Gerum ráð fyrir breytingum og lífið verður léttara

Óhjákvæmilega breytist jólahaldið þegar fólk skilur og stofnar stjúpfjölskyldur,  rétt eins og þegar það fer í sambúð, eignast börn, tengdaforeldra eða tengdabörn. Stokkar þarf upp venjur og hefðir sem fólk er misviljugt eða tilbúið til að takast á við og  búa þarf til nýjar með fólki sem þekkir illa sögu hvers annars. Með sögur lærum við að kynnast okkur sjálfum og öðrum og sköpum líka samfellu og tilfinninguna að tilheyra.

Hvernig eigum við að hafa jólin?

Í sambúð þarf fólk að finna út úr öllum mögulegum og ómögulegum hlutum og ætla má að margir sem eru nú saman sín fyrstu jól velti því fyrir sér hvort og þá hvar eigi að vera á aðfangadagskvöld eða að aðra hátíðisdag?  Að öllum líkindum vill það halda í eitthvað af sínum jólahefðum s.s. að borðaðar eru rjúpurnar sem pabbi skaut eða hnetusteikina hennar mömmu þar sem „ engin jól eru án hennar!“
Stórfjölskyldan hefur líka sínar hugmyndir um hvar parið á að vera um jólin og ætli einhver að bregða út af vananum er hætt á að sumir fái að heyra  „við erum alltaf hjá ömmu á jóladag, þú getur ekki sleppt því að koma“ eða „Ætlar þú að vera eina systkinið sem ekki ert hjá okkur á aðfangadag?“
Málið getur flækst töluvert ef sambýlingarnir eiga báðir fráskilda foreldra og stjúpforeldra sem líka gera kröfur um að haldið sé í „hefðirnar“  (spurning er síðan hvenær?).  Nú ef sambýlingarnir eiga að auki börn úr öðrum samböndum og koma þarf á móts við foreldra og stjúpforeldra barnanna á hinum heimilum,  krefst jólahaldið líklega doktorsgráðu í sáttamiðlum og verkefnastjórnun ef reyna á að koma á móts við þarfir allra um að halda vilja  í hefðirnar.
Það er ekki hægt að horfa fram hjá mikilvægi fjölskylduhefða og venja í lífi fólks. Þær veita okkur öryggi, skapa samfellu í lífinu og tilfinninguna  „að tilheyra“  sem reynst mörgum stjúpfjölskyldum erfitt í fyrstu enda á fólk ólíka sögu sem það þekkir misvel.  Hinsvegar geta þær virkað eins og „þröng og óþægileg peysa“ ef ekki er gert ráð fyrir að „barnið stækki“ eða með öðrum orðum að hlutirnir breytist – alveg óháð fjölskyldugerð.

Sveigjanleiki er lykillinn

Til að geta tekist á við breytingar sem er eðlilegur hluti af lífinu þurfum við að geta sýnt sveigjanleika sem felur í sér þá hæfni til að breyta og breytast til að hlutirnir gangi upp og fólki líði vel – ekki bara sumum.  Að festast í þrasi um hvaða hefð er rétt eða best um jólin kemur fólki ekkert áfram og skemmir fyrir aðlögun stjúpfjölskyldunnar sem og annarra fjölskyldna sem eru að fara í gegnum breytingar.  Stundum þurfum við að sætta okkur við aðra eða þriðju skástu lausnina. En ef fólk hefur það í huga að einn af þeim þáttum sem spáir fyrir um hvort samband verði langlíft eða ei er ekki hvort upp komi ágreiningur heldur hæfnin að fara í gegnum breytingar og leysa deilur á uppbyggilegan hátt ætti það að vera verðugt áskorunarefni að takast á við að breyta hefðum sem ekki henta lengur.
Verkefnið er stærra hjá stjúpfjölskyldum en mörgum öðrum og mikilvægt er að hafa í huga að halda í þær hefðir sem hægt er að halda í, breyta öðrum og skapa nýjar fyrir stjúpfjölskylduna. Ef það þýðir tvíréttað á aðfangadag eða ef  pabbi og mamma vilja áfram  gefa börnum sínum saman jólagjafir þrátt fyrir að þau eru komin með nýja maka þá er það í góðu lagi. Sumir hafa „gamlárskvöldið“ á þrettándanum  og jólaboðin á aðventunni. Stjúpfjölskyldur rétt eins og aðrar fjölskyldur geta notað alla daga ársins til að skapa hefðir sem þétta hópinn – það er hinsvegar lykilatriði að muna að mörg börn eiga tvö heimili sem taka þarf tillit til sama á hvaða tíma ársins það er. Ef við höfðum það í huga að jólin koma og það eru til margar leiðir til að halda og skapa hefðir – verður lífið bæði léttara og skemmtilegra!

Munum að breytingar eru hluti af lífinu og því eðlilegt að hefðir breytast og nýjar verða til.

• Hvernig við höldum upp á jól og aðrar hátíðir – er valkvætt.
• Leyfum okkur að prófa – höldum í það sem okkur líkar en sleppum örðu.
• Í stjúpfjölskyldum eru nokkur „við“ sem er fullkomlega eðlilegt – sérstaklega í fyrstu.
• Kynnum okkur sögu hvers annars – það má gera með því t.d. að setja spurningar undir diska í jólaboðunum eða hafa myndaalbúmin aðgengileg.  Við munum komast að mörgu óvæntu og skemmtilegu.
• Hefðir eru mikilvægur þáttur í að takast á við sorg og missi, þau eru græðandi og  það sama á við um nýjar hefðir í nýjum aðstæðum.
• Höldum í þær hefðir sem hjálpa og sleppum öðrum.

Valgerður Halldórsdóttir félags-og fjölskylduráðgjafi, MA

Instagram