Fyrirsjáanleiki og sveigjanleiki eru mikilvægir þættir í því að tryggja farsælt jólahald eftir skilnað. Þetta kom fram í máli Valgerðar Halldórsdóttur félagsráðgjafa í Kastljósi í kvöld. Þar var rætt um hvaða áskoranir geta tengst jólahaldi eftir skilnað foreldra og hvernig væri hægt að tryggja að börnum, foreldrum og stjúpforeldrum líði sem best. „Börnin eru ekki að telja klukkustundir eða endilega daga. Þau meta samskipti,“ sagði Valgerður. Sjá má viðtalið hér
„Ég var að skoða tölur yfir tímabilið frá 1994 til 2011 og þar kemur í ljós að 41,8% barna hafa fæðst hjá einhleypri móður, farið í gegnum sambúðarslit með foreldrum eða skilnað. Það er svipað hlutfall milli þessara þriggja þátta. VIð getum því gert ráð fyrir því að mjög stór hluti barna hér á landi tilheyri stjúpfjölskyldum. Ef við skoðum þetta frá annarri hlið, þá vitum við að skilnaðir hér eru nokkuð algengir og fólk fer tiltölulega fljótt í ný sambönd. Það er íslensk rannsókn, reyndar frá 2008, sem sýnir að fjórðungur fólks er kominn í samband innan árs og um 70% innan fjögurra ára. Þannig að það eru mjög margir sem tengjast stjúptengslum á einn eða annan hátt,“ segir Valgerður. Lesa má og hlusta á viðtalið í heild hér.