Skip to main content
Fjölskylda

Konan nennir ekki í frí með mér og dætrunum

Við hjónin rífumst um hvert eigi að fara í sumarfríinu. Mér fannst síðasta frí fínt en konan er ekki sammála. Henni finnst ég hafa notað allt sumarfríið til að sinna dætrum mínum af fyrra hjónabandi og nennir ekki aftur í slíkt frí. Hún virðist ekki skilja að stelpurnar hafa þörf fyrir mig og að ég hafi ekki haft mikinn tíma fyrir þær í vetur vegna vinnu. Verður hún ekki að gefa eftir?

 

Með kveðju, Haukur

Svar:

Komdu sæll Haukur.

Í hugum flestra fylgir því tilhlökkun að fara í sumarfrí. Þá á að slappa af, sinna áhugamálunum, treysta fjölskylduböndin, ferðast, ljúka verkum sem hafa setið á hakanum og skemmta sér. Ætli flestir séu ekki í þeim hugleiðingum núna í byrjun sumar.

Gott er að heyra að þér er umhugað um dætur þínar en það er augljóst að konan þín er ósátt og finnst þú sinna dætrunum í fríum á kostnað ykkar sambands. Af orðalagi bréfs þíns að dæma gæti hún haft nokkuð til síns máls, því að þú mótmælir þessu ekki heldur bendir á ástæður fyrir því, s.s. að dæturnar þurfi á þér að halda og geti lítið umgengist þig nema í fríum vegna mikillar vinnu.

Þú spyrð hvort konan þín þurfi ekki að láta undan. Mér sýnist þvert á móti að þú verðir að endurskoða skipulagið hjá þér. Þú vinnur mikið og það bitnar á dætrum þínum, sennilega á konunni þinni líka, og svo ætlar þú að bæta þeim það upp í fríunum, nema hvað að þá finnst konunni hún verða útundan. Líkast til saknar hún þess líka að vera með þér.

Öll erum við ólík og með mismunandi þarfir og væntingar um hvernig við viljum verja sumarfríi okkar. Sumir óska þess helst að flatmaga í rólegheitum á sólarströnd en aðrir vilja vera á þeytingi um öll fjöll með stórfjölskyldunni.

Þar sem ólíkar væntingar, þarfir og óskir stangast á, er líklegt að einhver verði fyrir vonbrigðum, reiðist og “nenni” ekki aftur – eins og konan þín orðar það. Vellíðan í fjölskyldum, ekki síst stjúpfjölskyldum, byggist oft á tíðum á málamiðlun, að allir fái eitthvað við sitt hæfi.

Ætla má að konunni þinni finnist þú skeytingarlaus um hennar þarfir. Hætta er á pirringi og að hún láti hann bitna á þér og stelpunum. Þú bregst þá kannski  við með því að fara í vörn og túlka framkomu hennar sem svo að hún hafi eitthvað á móti þeim. Lagleg flækja það! Og allt sem konan þín er í rauninni að segja, er að hana langi til að vera meira með þér og hafa þig svolítið út af fyrir sig.

Orð eru til alls fyrst. Ég legg til að þið ræðið öll saman, þið konan þín og dætur þínar, um hvernig þið viljið verja sumarfríinu og komist að niðurstöðu sem allir geta sætt sig við, – ekki bara stúlkurnar heldur þið öll.

Með því að sýna sveigjanleika og gera ráð fyrir öllum getur fríið orðið ljómandi góður tími, eftirminnilegur og lærdómsríkur, sem veitir þá tilbreytingu og hvíld sem að er stefnt. Slíkt frí er betur til þess fallið að treysta fjölskyldu- og vináttuböndin en það sem er notað til að vinna á uppsöfnuðu samviskubiti gagnvart dætrunum á kostnað parasambandsins. Notaðu annan tíma til þess. Kannski þarftu að reyna að endurskoða vinnutíma þinn svo að þú getur sinnt dætrum þína allan ársins hring.

Að þessu sögðu tek ég undir þá afstöðu í bréfi þínu að mikilvægt er að börn og kynforeldrar fái tækifæri til að vera saman án stjúpforeldra, þótt ekki sé nema dag og dag. Sömuleiðis þarf að skipuleggja tíma til að treysta parasambandið. Stjúpforeldrar geta með svipuðum hætti fundið sér tíma til að efla sambandið við stjúpbörnin.

Þannig skipulag eykur almenna vellíðan og ánægju og auðveldar öllum lífið. Er um að gera að gefa hugarfluginu lausan tauminn, það er ekki til einhver ein rétt leið til að vera eða vera ekki í fríi.

Afturkippir eru hluti af lífinu. Gerum ráð fyrir þeim, líka í fríinu, en missum ekki sjónar á því sem er gott og jákvætt og tökum tillit til allra, líka stjúpmæðra!

Vlgerður Halldórsdóttir, félags- og fjölskylduráðgjafi

Instagram