Skip to main content
Hljóð/Mynd

Netnámskeið fyrir stjúpfjölskyldur

Guðfinna Ýr Sumarliðadóttir og Guðrún Ísabella Þráinsdóttir, nemendur í Uppeldis- og menntunarfræðum við HÍ fjalla hér um bandaríska netnámskeið „Skills for Stepfamilies“ sem finna má á heimasíðunni. Námskeiðið miðar að því að byggja upp jákvæð samskipti í stjúpfjölskyldum og bæta ímynd stjúpfjölskyldunnar. Greinin var unnin í námskeiðinu Málstofa: efsta á baugi og framtíðarsýn vorið 2011 

 Hvaða ímynd hefur samfélagið af stjúpfjölskyldum?  Í rannsókn Planitz og Feeney (2009) voru borin saman viðhorf almennings til stjúpfjölskyldna annars vegar og kjarnafjölskyldna hins vegar. Þar kom fram að viðhorf fólks voru almennt neikvæðari og blendnari til stjúpfjölskyldna en kjarnafjölskyldna. Í þessari sömu rannsókn kom einnig fram að einstaklingarnir áttu auðveldara með að lýsa kjarnafjölskyldum en stjúpfjölskyldum.

Hvað er það sem veldur þessari neikvæðu ímynd? Margt getur haft áhrif, helstu ástæðurnar eru taldar vera að stjúpfjölskyldan er oft mynduð í kjölfar skilnaðar eða sambúðarslita. Einnig er talið að tíður samanburður við hina „fullkomnu“ kjarnafjölskyldu geti einnig verið ástæða, en oft er litið á stjúpfjölskylduna sem einhverskonar frávik frá henni. Áhrif neikvæðrar umfjöllunar Talið er líklegt að fjölmiðlaumfjöllun hafi áhrif á ímynd og viðhorf fólks til stjúpfjölskyldunnar. En flestir kannast við þá staðalímynd sem dregin er upp af vondu stjúpunni og af kúgaða heimilisföðurnum. Stjúpan forðast að sýna börnum hans hlýju og ástúð en beitir þau þess í stað andlegu og líkamlegu ofbeldi, á sama tíma og hún hyglir sínum eigin börnum. Börnin fyrirlíta stjúpmóður sína og þrá ekkert heitar en að losna við hana, samanber ævintýrin um Öskubusku og Hans og Grétu. Af þessum sögum að dæma er ekki að furða að börn sem og fullorðnir líti stjúpfjölskylduna neikvæðum augum og eigi í sumum tilfellum erfitt með að viðurkenna að þeir tilheyri slíkri fjölskyldu (Claxton-Oldfeild, 2008).

Hafa þessar neikvæðu ímyndir stjúpfjölskyldunnar áhrif á þá sem tilheyra henni? Taliðer að svo sé og neikvæðu ímyndir hafi áhrif á aðlögunarvilja fjölskyldumeðlima til að mynda ný fjölskyldutengsl. Jafnframt er því haldið fram að vilji þeirra til að leysa ágreiningsmál sem upp koma innan fjölskyldunnar sé minni (Planitz og Feeney, 2009). Það er mat okkar að liður í að draga úr neikvæðum áhrifum staðalímynda stjúpfjölskyldna er jákvæða upplifun af því að tilheyra þeim. Jákvæð samskipti innan fjölskyldunnar getur því verið mikilvægur þáttur í að stuðla að bættri ímynd stjúpfjölskyldna út á við, sem og líðan fjölskyldumeðlima.

Netnámskeið fyrir stjúpfjölskyldur  „Skills for Stepfamilies“ og rannsókn sem mótað var af Gelatt, Adler-Baeder og Seeley (2010) í Bandaríkjunum miðar að því að bæta samskipti innan stjúpfjölskyldna. Námskeiðið er gjaldfrjálst og aðgengilegt á Netinu: http://stepfamily.orcasinc.com/ (Parenting Toolkit: Skills for Stepfamilies, e.d.). Útgangspunktur verkefnisins eru myndskeið sem að sýna raunaðstæður sem upp geta komið innan stjúpfjölskyldna. Eftir hvert myndskeið birtast þrjár samskiptaleiðir sem sýna misjöfn viðbrögð við fyrri aðstæðum, aðeins eitt þeirra er talið árangursríkast. Eftir hverja samskiptaleið fá áhorfendur síðan að kynnast tilfinningum og upplifun þeirra sem þátt áttu í myndskeiðinu. Benda má á þann möguleika að fólki gefst kostur á að búa til sitt eigið bókasafn byggt á greinum og fræðum sem aðgengileg eru á síðunni (Parenting Toolkit: Skills for Stepfamilies, e.d.).

Árangur námskeiðsins – Rannsókn Gelatt, Adler-Baeder og Seeley (2010) sem gerð var í tengslum við námskeiðið benti til þess að það hafi haft jákvæð áhrif á fjölskyldulíf og samskipti innan fjölskyldna. Einnig kom fram, að þar sem verkefnið væri aðgengilegt á netinu væri það hentugt, einkum og sér í lagi vegna þess að hver og einn getur tekið þátt á sínum forsendum, án þess að vera dæmur af öðrum og þáttakendur þora að nálgast sín eigin vandamál. Námskeið sen þetta, geta nýst stjúpfjölskyldum til að efla samskipti sem og að hvetja fjölskyldumeðlimi til þess að taka meðvitaðri ákvarðanir í samskiptum sínum. Verkefnið hentar einnig fólki sem langar að bæta samskiptafærni og auka þekkingu sína á jákvæðum samskiptum.

 Heimildir

Claxton-Oldfeild, S. (2008). Stereotypes of stepfamilies and stepfamily members. Í J. Pryor (Ritstjóri), The International Handbook of Stefamilies, 30-52. New Jersy: John Wiley & Sons, Inc.

Gelatt, V. A., Adler-Baeder, F. og Seeley, J. R. (2010). An interactive web-based program for stepfamilies: development and evaluation of efficacy. Family Relations, 59, 572-586.

Newman, D. M. og Grauerholz, L. (2002). Sociology of Families (2. útgáfa). Thousand Oaks: Pine Forge Press. Parenting Toolkit: Skills for Stepfamilies. (e.d.). An Interactive Web-based Program for Stepfamilies: Development and Evaluation of Efficacy. Sótt 23. janúar 2011 af http://stepfamily.orcasinc.com.

Planitz, J. M. og Feeney, J. A. (2009). Are stepsiblings bad, stepmothers wicked, and stepfathers evil? An assessment of Australian stepfamily stereotypes. Journal of Family Studies, 15, 82-97.

Instagram