Skip to main content
Foreldrasamvinna

Góð foreldrasamvinna skiptir máli fyrir námsárangur

Rannsóknir hafa sýnt fram á  mikilvægi góðrar samvinnu foreldra  fyrir barnið. Góð tengsl milli þeirra skila sér í betri líðan hjá börnum,  til að mynda ná þau að aðlagast betur félagslega og ná betri árangri í skóla (Sigrún Júlíusdóttir, Jóhanna R. Arnardóttir og Guðlaug Magnúsdóttir, 2008).

Fólk á það til að festast í reiði og biturleika í gegnum skilnað og  virðast stundum einbeita sér að því neikvæða  og gleyma að horfa á það jákvæða sem þau sáu áður í fari hvors annars.  Foreldrar þurfa að geta haldið börnum sínum fyrir utan deilumál sín  þannig að þeir geti unnið betur saman með hag barnsins fyrir brjósti. Þeir þurfa að geta talað saman, sýnt gagnkvæma virðingu í samskiptum sínum og hver og einn reyni að gera sitt besta til að vera til staðar fyrir barnið.  Séu þeir jákvæðir gagnvart fyrrverandi maka styður það við og eflir gæði sambands þeirra við börnin (Walsh, 1998, Pryor, 2008).

Í flestum tilfellum er skilnaður mikið áfall og börnin upplifa mikla sorg enda breytast tengsl við foreldra og mikil umskipti verða oft í lífi þeirra. Börn vinna misjafnlega úr áföllum og er því brýnt að þau fái allan þann stuðning sem þau þarfnast (Sigrún Júlíusdóttir, Jóhanna R. Arnardóttir og Guðlaug Magnúsdóttir, 2008).  Þau geta átt erfitt með að spjara sig námslega, félagslega og tilfinningalega fyrstu tvö árin eftir skilnað foreldra sinna en þessi afturför getur orðið mun lengri ef samskipti foreldra eru slæm (Sigrún Júlíusdóttir, 2001). Því er mikilvægt að halda sem mestum stöðugleika í daglegu lífi barnanna og að þau finni fyrir öryggi og vissu um að þrátt fyrir skilnað munu foreldrarnir vera áfram til staðar. Því fyrr sem börn finna fyrir stöðugleika því fyrr aðlagast þau nýjum aðstæðum (Sigrún Júlíusdóttir, Jóhanna R. Arnardóttir og Guðlaug Magnúsdóttir, 2008). Ef skilnaðurinn hefur bætt samskipti foreldranna hefur það jákvæðar afleiðingar á börnin og aðlögunin er alltaf betri ef foreldrar eru  jákvæðir gagnvart hvert öðru. (Sigrún Júlíusdóttir, 2001).

Höfundar: Arna Bech, Guðný Helga Grímsdóttir og Tara Lind Jónsdóttir nemendur í áfanganum Stjúpfjölskyldur; skilnaður og endurgerð fjölskyldusamskipta, HÍ 2011.

Instagram