Skip to main content
Fjölskylda

Ólík tengsl innan stjúpfjölskyldunnrar

Tengslamyndun er flókið fyrirbæri og margt sem þarf að hafa í huga, en öll höfum við hæfileika til að mynda tengsl sem er manninum mikilvæg. Við eru tengdari foreldrum á annan hátt en vinum eða vinnfélögum en öll eru þau okkur mikilvæg á einn eða annan hátt, þó mismikið.Stjúptengsl geta verið margvísleg rétt eins og önnur tengsl.

Stjúpfjölskyldur þurfa að gera ráð fyrir að tengsl innan fjölskyldunnar geta verið mismunandi, í stað þess að fá samviskubit yfir því að „réttar“ tilfinningar láti á sér standa gagnvart einum eða öðrum fjölskyldumeðlimi. Við þurfum hinsvegar alltaf að sýna virðingu og viðurkenningu á tilvist hvers annars þótt það sé ekki hægt að gera kröfu um ást og náin tengsl. Viðurkenning skapar tilfinninguna að tilheyra og eflir stjúpfjölskyldur.

 „Ég var í nokkrum vandræðum með hvernig ég ætti að tengjast fimmtán ára stjúpdóttur minni sem virtist hafa allt á hornum sér en ég ákvað hinsvegar að reyna. Ég fór að fylgjast með hvað hún horfði á í sjónvarpinu. Sumt af því fannst mér hálfgerð vella en ég reyndi að spyrja um persónur þáttanna og af hverju henni þótti þeir áhugaverðir í stað þess að koma með einhverjar yfirlýsingar um innihald þeirra. Ég finn að það skilar árangri og við erum farin að tala aðeins meira saman en áður. Hún er meira að segja farin að yrða á mig af fyrra bragði. Það gefur mér von. Litli bróðir hennar er allt öðruvísi og náðum við strax vel saman enda báðir miklir fótboltaáhugamenn. Það vildi líka svo heppilega til að við höldum með sama liði. Ég finn að hann lítur upp til mín og það gleður mig“(Halldór, 43 ára stjúpi til 6 mánaða).

Valgerður Halldórsdóttir, félags- og fjölskylduráðgjafi

Instagram