Skip to main content
All Posts By

valgerdur

Er blóraböggull í fjölskyldunni?

Eftir Börn og ungmenni

Mér finnst óþægilegt þegar stjúpsonur minn lokar sig af inni í herbergi. Hann stjórnar bæði manninum mínum og heimilinu með fýlu, ekki hjálpar mamma hans til með illu umtali.

Það er nú flestum kunnugt að baknagg og langvarandi ágreiningur  foreldra og er ekki eingöngu til ama og leiðinda, hann er líka börnum beinlínis skaðlegur og flækir líf þeirra stundum langt fram á fullorðins ár. Geta þeir verið á sama tíma í afmæli barnabarnanna þegar þar að kemur?

Við skilnað hafa foreldrar ekki lengur sömu yfirsýn yfir líf barna sinna og áður, séu deilur á milli þeirra verður hún enn minni. Börn læra að að rugga ekki bátnum „ að óþörfu“ með umræðum um hvað eigi sér stað á hinu heimili þeirra.  Þó hlutirnir lagist eitthvað upplifa sum að þeim er ekki trúað. En hann var frekar daufur drengurinn sem var þreyttur á því að þurfa sífellt vera verja mömmu sína, þegar pabbi hans og stjúpa sögðu hana tala illa um þau.  „Það er ekki satt, ekki lengur“ sagði hann brostinni röddu. Mamma hans hafði talað illa um þau í fyrstu en hún var löngu hætt því og hvatti hann frekar en latti að fara til pabba síns.  Þeir feðgar  höfðu alltaf átt gott samband og fannst mömmu hans sorglegt að pabbi hans virtist sjaldan gefa sér tíma fyrir son sinn eftir að hann fór í nýtt sambandi.  Mamma hans hafið reynt að ræða um það við pabba hans en hann tók því illa og sagði hana ekki geta unnt sér þess að hann væri ástfangin. Hún yrði að hætta að beita syni þeirra gegn honum.  Strákurinn fann sig ekki lengur heima hjá pabba sínum eftir að hann fór í nýtt samband. Stjúpan hafið verið mjög skemmtilegt fyrst og pabbi hans glaður,  en nú var andrúmsloftið þrungið spennu þegar hann var hjá þeim.

Streitan og áreitið sem fylgir erfiðum samskiptum foreldra,  veldur líka ósjaldan kvíða og pirringi hjá stjúpforeldrinu. Koma stjúpbarna á heimilið, sem í fyrstu fylgdi eftirvænting og áhugi, breytist gjarnan í kvíðahnút á mánudegi sé von á þeim á föstudegi. Sé samstarf foreldris og stjúpforeldrisins á heimilinu ábótavant, fylgir veru barnanna  enn meiri streita og kvíði.  Börn, rétt eins og fullorðnir reyna að forðast slíkar aðstæður sé ekkert að gert.

Áður en fyrrverandi er kennt alfarið um að börn séu ósátt á heimilinu eða vilja ekki koma er ástæða til að skoða með opnum huga hvort framkoma okkar sjálfra ýti undir deilur,  sem og aðstæður barna/stjúpbarna á heimilinu.

Algengt umkvörtunarefni barna í stjúpfjölskyldum er að þau fái sjaldan eða aldrei tíma ein með foreldri sínu, ekki sé gert ráð fyrir þeim, stjúpforeldri grípi sífellt inni í samskipti þeirra við foreldrið sitt og hlutirnir hafi gerst allt of hratt. Settar séu reglur og venjur sem þau eigi að tileinka sér á stuttum tíma. Sumum finnst að það sé gert upp á milli barna og þau fái litlar upplýsingar.  En efinn um ást foreldris og að það muni standi með því þegar á þarf að halda,  reynist þeim erfiðastur.

Börn láta gjarnan líðan sína í ljós með hegðun sinni. Sé lítill skilningur á stöðu þeirra og þeim fullorðnu skortir „verkfæri“ til að leysa málið á uppbyggilegan máta,  lenda sum hver í hlutverki blórabögguls á heimilinu.   Stjúpforeldri getur átt það til að réttlæta framkomu sína og slæma líðan með hegðun barnsins og leita sífellt að vísbendingum, stundum raunverulegum en oftast ímynduðum,  um að eitthvað sé að barninu.  Finni foreldri og stjúpforeldri ekki viðeigandi leiðir til að takast á við þessar aðstæður eða læra að fyrirbyggja þær, er hætta á að „lausn vandans“,  felist í stopulum samskiptum eða skorðið sé á öll tengsl við barnið.

Börn þurfa fullvissu um að þau skipti foreldra sína máli og ekki sé skorið á tengslin við þau vegna erfiðra samskipta milli foreldra eða í stjúpfjölskyldunni sjálfri. Þegar horft er á hegðun og líðan barna í stjúpfjölskyldum má hafa í huga að þau hafa upplifað margvíslegan missi og sum óttast að missa enn meira.

Valgerður Halldórsdóttir, félags- og fjölskylduráðgjafi

Stjúpur – Öskubuskur samtímans?

Eftir Stjúpforeldrar

Ég má laga til, elda, keyra og sækja stjúpdóttur mína í leikskólann og aðstoða stjúpson minn við að heimanám en svo þegar kemur að skemmtun í leikskólanum eða skólanum þá virðist það nú ekki alveg sjálfsagt að ég mæti. Það nefnir það engin að minnsta kosti!

Flestir eru sammála um það í dag að stjúpforeldrum er ekki ætlað að ganga börnum í föður- eða móðurstað. Enda er sjaldnast nokkur þörf á þar sem flest börn eiga báða foreldra á lífi og eru í reglulegum samskiptum við þá.

Stjúpforeldar taka hinsvegar oft að sér verkefni, bæði óumbeðnir og beðnir,  sem yfirleitt teljast í verkahring foreldra.   Það eru hlutir eins og að elda matinn,  smyrja nesti fyrir börnin,  þvo af þeim þvott, aðstoða  við heimanám,  minna á íþróttafötin og  koma þeim í leikskólann svo fátt eitt sé nefnt.

Þessi verkefni geta reynt á önnun kafna foreldra og þó svo að börnin láti ganga á eftir sér,  þá efast þeir sjaldnast um ást barna sinna eða óttast að missa hana þó eitt og annað gangi á, á önnum sömum vetrarmorgni.  Þeir fá bæði  brosið frá barninu  í lok skóladags  og  eru boðnir  hjartanlega velkomnir á „ kaffihúsadaginn“ eða „mömmu/pabbamorguninn“  í leikskólanum.

Þessi sömu verkefni geta reynt enn  frekar á stjúpforeldra,  sem oft eru óvissir um hvað þeir mega eða eiga að gera þegar kemur að stjúpbörnunum.  Þeir geta  verið  í því hlutverki að sjá um uppeldi og umönnun stjúpbarns en á sama tíma eiga að halda ákveðinni fjarlægð við það og skipta sér sem minnst af. Línan milli þess sem telst góð afskipi og síðan afskiptasemi er því oft þunn í stjúpfjölskyldum. Við slíkar aðstæður er auðvelt að „misstíga“ sig og verða pirraður og finnast maður vera vanmetin.

Við þurfum öll,  öðru hvoru,  á að halda viðurkenningu og stuðning í lífinu  bæði frá okkar nánustu sem og í nærumhverfi okkar.  Vel upplýst starfsfólk  t.d. skóla og heilsugæslu getur því skipt sköpum og verið mikilvægur stuðningur fyrir fjölskyldur sem glíma við óvæntar uppákomur í lífinu.

Um daginn spurði ég nokkrar stjúpmæður um hvað þeim fannst gott og hvað betur mætti fara í samskiptum við leikskóla stjúpbarna þeirra en töluverð umræða hafi verið um það í hópnum hvort þær mættu mæta á svokallaða „mömmumorgna“ eða ekki.

Svörin létu ekki á sér standa. Ein kunni vel að meta það frumkvæði leikskólakennarans að bjóða henni að vera á póstlista skólans. Önnur nefndi að skólinn stæði sig vel í því að koma skilaboðum á bæði heimila barnsins og boðið væri upp á tvenn foreldraviðtöl . Taldi hún það  mikilvægt í ljósi þess að samskipti foreldrana voru ekki góð.  Aðrar kvörtuðu hinsvegar undan því að engar upplýsingar bærust nema á lögheimili barnsins. Það hefði orðið til þess að ein mætti með barnið  í leikskólann á „dótadegi“ án nokkurs  leikfangs með tilheyrandi vonbrigðum fyrir barnið.  Margar tóku það nærri sér að engar gjafir voru stílaðar á þær, bara pabbann og svo virtist sem að enginn gerði ráð fyrir þeim á skemmtanir  tengda börnunum. Boðin væru oftast stíluð á foreldra og forráðamenn. Fannst þeim það skrýtið þar sem flestir foreldrar í dag færu sameiginlega með forsjá barna sinna. Þær væru því ekki forráðamenn þeirra.

Aðspurðum  um þetta  mál fannst flestum kennurum það sjálfsagt  að þær mættu  á þær skemmtanir og annað í skólanum  sem þær vildu,  þó það sé ekki tekið sérstaklega fram.  Það ætti jafnvel ekki að þurfa þess heldur.  En í ljósi þess að hlutverk stjúpforeldra er oft óljóst í fyrstu þá kann það að vera nauðsynlegt.  Annars er hætta á að stjúpan upplifi sig í hlutverki Öskubusku – hún má strita við uppeldi og umönnun stjúpbarna sinna en fær ekki boð á „ballið“.  Hvað gera álfkonur þá?

Valgerður Halldórsdóttir, félags- og fjölskylduráðgjafi

Tengslamyndun tekur tíma

Eftir Fjölskylda

„Við erum búin að búa saman í þrjá mánuði og mér finnst ekkert ganga að kynnst dóttur hans. Ég eiginlega veit ekki hvað ég get gert meira“

Flestir eru meðvitaðir um mikilvægi góðra tengsla  fyrir almenna velferð og andlegt heilbrigði. Það er því ekki að ástæðulausu að sérstaklega er fylgst með nýbökuðum  mæðrum í því skyni að kanna hvort tengslamyndun  við barnið gangi eðlilega fyrir sig og gripið er inn í ef ástæða þykir til.

Í stjúpfjölskyldum þarf sérstaklega að vinna í því að búa til tengsl milli stjúpforeldris og barns svo stuðla megi að góðri líðan og heilbrigði fjölskyldunnar. Finna þarf hlutverk fyrir stjúpforeldri í lífi barns sem hefur kannski enga sérstaka þörf fyrir það, en getur verið góð viðbót í lífi þess þegar vel tekst til. Flestir stjúpforeldar vilja til tengjast börnunum. Það getur því verulega reynt á takist ekki eins vel til óskað er eða ef stjúpforeldrið upplifir höfnun af hálfu barnsins. Hætta er á að hlutirnir  vindi upp á sig og stjúpforeldrið jafnvel hætti að reyna tengjast barninu, taki fólk framkomu þess of persónulega.

En það er ýmislegt sem getur haft áhrif á að allt gangi ekki alveg að óskum í byrjun.  En bæði börn og fullorðnir eru með fortíð og töluverður munur á að mæta inn í ”mitt leikrit” eða taka þátt í að semja  það.  Ef  stutt er liðið frá skilnaði  eru börn oft ekki tilbúin til að kynnast stjúpforeldri , jafnvel þó það leggi sig af alúð við að reyna tengjast því.  Stundum eru börn afbrýðissöm út í stjúpforeldra sína sem þeim finnst fá „alla“ athygli foreldrisins og halda jafnvel  þau ekki eins mikilvæg í augum foreldrisins og áður.  En er algengt umkvörtunarefni barna í stjúpfjölskyldum er að þau fái  ekki  tíma ein með foreldri sínu eins og áður –   og oft er það rétt. Samveran er hinsvegar mikilvæg bæði til rækta tengsl og takast á við missinn sem fylgir skilnaði og breytingum sem er hluti af lífinu í stjúpfjölskyldunni.  Jafnvel þó þær séu taldar af hinu góða og börn séu mjög sátt við stjúpforeldra sína.

Í sumum tilvikum vantar líka upp á tengsl foreldris og barns séu náin. Stundum endurspeglast sá skortur í því að foreldrið treystir sér illa til að vera eitt með barninu og vill að stjúpforeldrið sé til staðar öllum stundum sem barnið er á heimilinu. Þó það geti létt á streitunni  í einhvern tíma hjálpar það ekki til við tengslamyndin  til lengri tíma. Við þurfum að eiga maður á mann samskipti bæði til að rækta tengsl og skapa ný. Það er líka hætta á að stjúpforeldrið upplifað aðstæður sínar íþyngjandi fái það of stóran skammt af samveru við barnið í einu í stað þess að fá smá saman að kynnast því og tengjast á eign forsendum.

Tengslamyndun er flókið fyrirbæri og ekki er hægt að gera ráð fyrir að tengslamyndun í stjúpfjölskyldum sé jafn einföld og að laga „skyndikaffi“ eða „ Neskaffi“ sem krefst ekki mikillar hugsunar, ein skeið í bollann og heitt vatn út í og þá er það komið.

Vinna þarf í því að búa til tengsl milli stjúpforeldris og barns þar sem  þau verða ekki til við það eitt að stjúpforeldrið taki upp samband við foreldri barnsins eða deila saman heimili einhverja daga í mánuði.   Hvorki börn né fullorðnir eru  einsleitir hópar. Finna þarf út hvað hverjum og einum hentar til að útkoman verði eins og best verður á kosið.   Stjúpforeldrið  þarf að finna smám saman út hvernig tengjast má barninu og hjálpar mikið að foreldrið sé styðjandi og leiðbeini ef á þarf að halda. Það dregur úr kvíða barna að aðrir fjölskyldumeðlimir séu til staðar til að byrja með. Þó að mikilvægt sé fyrir tengsl stjúpforeldris og barns að þeim sé gefinn tími saman án annarra,  meta þarf aðstæður hvenær það er tímabært.  Hæfilegur áhugi og  reyna að vera vakandi fyrir því hvað vekur áhuga stjúpbarnsins hjálpar.  Til að vera áhugaverð þurfum við að sýna áhuga. Góður hlutir gerast hægt – og  á það sérstaklega vel við í stjúpfjölskyldum. Nú svo má alltaf gera meira af því sem vel gengur.

 

Valgerður Halldórsdóttir, félags- og fjölskylduráðgjafi, MA

 

Glíma stjúpur við „fæðingarþunglyndi“

Eftir Fjölskylda

Erlendar rannsóknir benda til að stjúpmæður geta upplifað mikla streitu í uppeldishlutverki sínu og að þær séu vanmetnar bæði af öðrum fjölskyldumeðlimun þ.e. stjúpbörnum og maka, og samfélaginu í heild.

 

Flestar stjúpmæður fara í nýtt samband með góðum hug og vilja til að láta hlutina ganga með börnin, stundum of langt og á þeirra eigin kostnað. Erlendar rannsóknir benda til að stjúpmæður geta upplifað mikla streitu í uppeldishlutverki sínu og að þær séu vanmetnar bæði af öðrum fjölskyldumeðlimun þ.e. stjúpbörnum og maka, og samfélaginu í heild.fylgir ákveðin hætta á þunglyndi og margar eru einmanna í þessum mjög svo algengum sporum en um 75-80% fólks fer í ný sambönd eftir skilnað. Þó þær glími ekki við fæðingarþunglyndi í þeirri merkingu orðsins en full ástæða er til að rannsaka betur hvað það er sem veldur. Líðan stjúpmæðra bitnar ekki eingöngu á þeim sjálfum heldur benda rannsóknir til að tengsl eru á milli andlegrar heilsu umönnunaraðila eins og stjúpmæðra og andlegrar heilsu barna. Það er því mikilvægt að stjúpmæður taki ekki meira að sér en þær raunverulega treysta sér til þegar kemur að stjúpbörnunum að ótta t.d. við að vera“leiðinlegar“.

 

Félagslegur stuðningur er ein besta vörnin gegn streitu og þunglyndi. Samfélagið hefur hinsvegar og því miður einkennst af hálfgerðri stjúpblindu þar sem ekki er komið auga á stjúptengsl eða gert ráð fyrir þeim í rannsóknum eða stefnumótun í samfélaginu né miklum stuðningi. Jafnvel ekki hjá stjúpfjölskyldunum sjálfum og fundnar eru til ýmsar skýringar á því af hverju viðkomandi tilheyrir ekki stjúpfjölskyldu eins og að börnin búi ekki hjá viðkomandi að staðaldri, þau hafi ekki sama lögheimili eða þau séu orðin svo fullorðin. En stjúpfjölskylda er skilgreind sem fjölskylda þar sem annar eða báðir aðilar koma með barn eða börn úr öðrum samböndum.

Skortur á viðurkenningu

Þessi skortur á viðurkenningu er víða og sumri reyna að fela það að þeir búa í stjúpfjölskyldum. Sumir ganga jafnvel svo langt að segja að viðkomandi stjúpfaðir eða stjúpmóðir sé meira eins og pabbi eða mamma þar sem viðkomandi er svo góð/ur! Rétt eins og stjúpforeldar geti ekki verið góðir. Við vitum að þessi ímynd kemur úr ævintýrunum en það er ekki hægt að horfa framhjá því sem kemur fram bæði í erlendum og innlendum rannsóknir það getur reynt meira á í stjúpfjölskyldum sem kemur m.a. fram í tölum um ofbeldi innan fjölskyldunnar og ungmenni fari fyrr að heiman. Það er því mikilvægt forvarnarverkefni að styðja við stjúpforeldra og stjúpfjölskyldur í heild sem og að tryggja að börn og ungmenni haldi tengslum við báða foreldra sína eftir skilnað og líka þegar farið er í stjúpfjölskyldu.
Það er mitt mat að eitt stærsta velferðarmál samtímans sé að þétta tengslanet barna og fjölskyldna þeirra. Fordómar, óvissa og lítill félagslegur stuðningur við stjúpfjölskyldur getur gert það að verkum að þessi stuðningurinn fer oft forgörðum í stað þess að gera fjölskyldunetið ríkara þegar vel tekst til.

Stjúpuhittingur

Til að bregðast við þessari þörf sem ég þekkti sjálf vel á sínum tíma ákvað ég í í vetur eftir nokkuð hlé að bjóða upp stjúpmæðrahópa sem ganga undir nafninu „Stjúpuhittingur“ og eru konurnar frá 5-8 í hóp ásamt leiðbeinanda. En ég legg áherslu á að hóparnir séu persónulegir og allar konur fái sinn tíma til að tjá sig en það er nú oft þannig að leið og við orðum hlutina upphátt, í öruggu umhverfi og án þess að vera trufluð finnum við okkar eigin lausnir.

Í hópunum tökum fyrir ákveðin verkefni og ræðum í hópnum. Ég hef haft þá venju að biðja þær um að senda mér póst þar sem fram kemur hvað þær vilja fá út úr hópnum. Það er ótrúlega oft það sama sem þeim langar til að ræða og það sem stendur upp úr og er nánast í öllum póstum er að þeim langar að kynnast öðrum stjúpum, fá ráð frá þeim sem eru í svipuðum sporum og fá staðfestingu á því að líðan þeirra sé normal, þær séu ekki einar um að líða „svona. Mitt hlutverk er að leiða hópinn, leggja fyrir verkefni og stutt innlegg úr fræðunum þegar við á.

Hóparnir eru lokaðir og skiptir trúnaður þar öllu máli. Þetta hefur verið einstaklega gefandi og skemmtileg vinna og er bæði grátið og helgið og allt þar á milli. Á fyrsta fundi förum við m.a. yfir þessa punkta sem þær senda mér án þess að nefna hver sendi hvað og síðan fá þær heimaverkefni sem farið er í næsta tíma. Eftir fyrsta tímann er upplifa margar konur eins og þungu fari sé af þeim létt en sumar finna líka fyrir gremju yfir ýmsu sem upp hefur komið og ekki náðst að vinna úr. Það má kannski segja að vera í slíkum hóp hjálpar þeim m.a. að vinna úr hlutunum og gefur þeim kjark til að takast á við hluti milli funda eins og að setja mörk og ræða viðkvæm mál. Við áherslu á að koma auga á það sem vel gengur og gera meira af því sem virkar. Það sem mér hefur fundist skipta konurnar mestu máli er að hitta aðrar konur í öruggum aðstæðum og ræða stjúpmóðurhlutverkið sem hvílir þungt á mörgum konum. Fara í sjálfsskoðun og heyra í öðrum í sömu sporum en við lærum mikið af hvor annarri. 

Vita hvað þær eiga ekki að vera!

Flestar stjúpmæður eru meðvitaðar um hvað þær eiga ekki að vera þ.e. mæður stjúpbarna sinna, enda eiga flest þeirra mæður. Þær vilja heldur ekki vera vonda stjúpan í ævintýrunum. En hvert er þá hlutverk stjúpmóðurinnar? Margar komast að því að þær hafa leyft öðrum að skilgreina það fyrir sig og það hafi ekki hjálpað að vilja ekki vera „leiðinleg“ og setja því ekki sjálfum sér og öðrum mörk. Með því að læra hvað er normalt fyrir stjúpfjölskyldur og vera með raunhæfar væntingar, velja sér sjálf það hlutverk sem hún vill vera í og prófa sig áfram, sem og taka áhættina á að „vera leiðinleg“ sem felur ekkert annað í sér en að setja viðeigandi mörk og skapast góður grunnur fyrir gott fjölskyldulíf. Það verður hinsvegar mikilvægt að taka fram að það er ekki á ábyrgð stjúpunnar einnar að bæta fjölskyldulífið en það verður nú að segjast eins og að oftast eru það konur sem draga vagninn í fjölskyldumálum. Á námskeiðinu öðlast flestar þann kraft og ekki síst sjálfsöryggi sem til þarf að fara í þá vinnu sem til þarf svo öllum líði vel í fjölskyldunni. Oftast er makinn áhugasamur um það sem fram fer og parið fer í að skoða málin meira saman – sem er lykilatriði.

Valgerður Halldórsdóttir, félags- og fjölskylduráðgjafi

 

Endurspeglast viðhorf í hamingjuóskum og gjöfum?

Eftir Fjölskylda

„Mig langaði svo að færa vinkonu minni kort og óska henni til hamingju með stjúpdótturina  en það var bara ekkert slíkt kort til í bókabúðinni, ótrúlegt eins og stjúpfjölskyldur eru algengar“

Yfirleitt ríkir spenna og eftirvænting hjá væntanlegum foreldrum, vinum og ættingjum þeirra  þegar von er á fjölgun í fjölskyldunni.  Fólkið veltur fyrir sér kyn barnsins og útliti og aðstandendum finnst eðlilegt að fá upplýsingar um leið og barnið er fætt, helst um leið og hríðir byrja.

Yfirleitt eru þeir tilbúnir til að hjálpa til við undirbúninginn, redda vöggu, vagni og þess háttar hlutum svo taka megi sem best á móti nýja fjölskyldumeðlimi.  Það þykir líka eðlilegt að verðandi foreldrar  undirbúi sig undir komu barnsins og sæki námskeið um fæðingu og þroska barns. Þrátt fyrir góðan undirbúning og eftirvæntingu sem fylgir komu þess getur eðlilegur kvíði gert vart við sig hjá foreldrum varðandi fæðinguna, heilbrigði barnsins og hvernig til takist að sinna foreldrahlutverkinu þar þar að kemur.

Að vita hvað sé eðlilegt og við hverju megi búast er gagnlegt og dregur úr kvíða.  Það er þó aldrei hægt að undirbúa allt og getur ósjálfbjarga hvítvoðungar reynt verulega á samband foreldra, sérstaklega þegar svefnlausra nætur eru margar. Stokka þarf upp fyrri venjur bæði innan og utan heimilisins og koma á verkaskiptingu sem hentar nýjum aðstæðum.

Vinir og ættingjar eru oftast tilbúnir til að hlaupa undir bagga með pössun og aðstoða nýbakaða foreldra eins og þarf.  Móður og barni færa þeir gjafir á sængina og ekki telja þeir það eftir sér að koma með fleiri pakka við skírn eða í nafnaveislu barnsins. Sumri stofna bankabók í nafni barnsins svo tryggja megi fjárhagslega afkomu þess í framtíðinni.  Löngunin til að umvefja barnið er fölskvalaus.

Viðbrögð vina og ættingja þegar stjúpbörn bætast í hópinn eru ekki jafn fyrirsjáanleg. Sumir taka þeim fagnandi og finnst fjölskyldan ríkari en áður, á meðan öðrum finnst það miður og tala um foreldri með „pakka“.  Fæstir spyrja um fæðingardag stjúpbarnsins en venjulega er fólk forvitið um aldur þeirra.  Sjaldnast er stjúpbörnum færðar sérstakar gjafir eða heillaóskir  í tilefni þess að þau verða hluti af lífi stjúpforeldra sinna og eini „pakkinn“ sem fer á milli eru þau sjálf.  Tilfinningar barnanna sjálfra geta verið blendnar. Sum eru ánægð með að foreldrar þeirra séu hamingjusamir og eru glöð með að vera hluti af „alvöru“ fjölskyldu á meðan önnur eru ósátt og höfðu gert sér jafnvel von um að foreldrar þeirra tækju saman að nýju.

Hvernig eða hvort eigi að bregðast við á einhvern sérstakan hátt þegar stjúpforeldri eignast stjúpbarn eða stjúpbarn eignast stjúpforeldri er óvíst í hugum margra.  Kannski vegna ráðandi hugmynda í samfélaginu um hvað  telst eftirsóknarvert og hvað ekki.

Ef marka má hillur bókaverslana þá telst engin ástæða til að selja hamingjuóskakort fyrir nýbakaða stjúpforeldra eða „fæðingardagbók“ stjúpbarnsins. Hinsvegar má finna vörur sem ala á fordómum gagnvart stjúpfjölskyldum og sérstaklega stjúpmæðrum,  eins og barbídúkkan í líki vondu stjúpmóðurinnar.  Einnig litabækur, servéttur, glös,  pappadiska, töskur, pennaveski, strokleður og dvd-myndir, þar sem Öskubuska, Hans og Gréta, Mjallhvít og dvergunum sjö koma við sögu.  Í ljósi þessa þarf líklega engan að undra þó fimm ára gutti hafi spurt hvort að stjúpmæður og skrímsli væru í alvöru til eða vera hissa á stúlkunni sem neitaði að fara heim til skólasystur sinni þar sem hún bjó með pabba sínum og stjúpu.

Ljóst er að fordómar geta mótast  snemma á lífsleiðinni og þeir eru skaðlegir. Óhætt er að fullyrða að stjúpmæður verða sérstaklega fyrir barðinu á þeim.  Vert er að hafa í huga að stjúpfjölskyldur og fjölskyldur einhleypra foreldra hafa sömu verkefni og aðrar fjölskyldur en að auki hafa þær verkefni sem eru sérstök fyrir þær.  Börnin sem þeim tilheyra eiga oftast tvö heimili sem taka þarf tillit  til.  Það er einfaldlega flóknara að vera í stjúpfjölskyldu eða einn á vakt sem einhleypt foreldri.  Það er vert að hafa í huga að fordómar beinast ekki aðeins að öðrum þeir geta líka beinst gagnvart okkur sjálfum og sjálfsmynd okkar.  Það er því ómetanlegt fyrir þær mörg þúsund stjúpfjölskyldur sem og fjölskyldur einhleypra foreldra  hér á landi að finna stuðning og viðurkenningu samfélagins.

Valgerður Halldórsdóttir, félags- og fjölskylduráðgjafi

Stjúpum líður betur eftir námskeiðið

Eftir Námskeið

Það er áhugavert að skoða niðurstöður námskeiðsmats „Stjúpuhittings“ síðasta vetrar en í ljós kemur að lang flestum líður betur eftir námskeiðið. Jafnframt kom í ljós að margar sögðu sjálfstraust sitt hafa aukis eða 36% mjög mikið, 45,45% mikið og 18,18 voru hvori sammála né ósammála. Auk þess kom fram að 78,26 voru mjög sammála og 21,74% stjúpmæðra voru sammála fullyrðingunni „Ég var mjög sátt við reynslu mína af því að vera í hóp með öðrum konum“. Að heyra í öðrum er bæði græðandi og fræðandi og finnst flestum gott að geta deilt reynslu sinni af hlutverkinu. Þegar konurnar voru spurðar um lengd námskeiðsins kom í ljós að kom í  ljós að enginn var mjög sammála fullyrðingunni „Ég var tilbúin að hætta á námskeiðinu þegar því lauk, 17,39 voru sammála, 43,48 voru hvorki sammála eða ósammála, 30,43 voru ósammála og 8,70 voru mjög ósammál.  Í ljósi þess var ákveðið að lengja námskeiðið og bjóða sína í framhaldið upp á þriggja mánaða framhaldsnámskeið þar sem konurnar hittast tvisvar í mánuði undir haldleiðslu leiðbeinanda.

Valgerður Halldórsdóttir, félags- og fjölskylduráðgjafi

Þú vissir að ég ætti börn!

Eftir Stjúpforeldrar

„Þú vissir að ég ætti börn“ hreytti Almar út úr sér pirraður við Erlu sambýliskonu sína þegar hún lét í ljós óánægju sína með að börnin yrðu hjá þeim um helgina. Mamma þeirra hafði ákveðið að skella sér norður með vinkonum sínum og beðið hann fyrir þau þó þetta væri „hennar vika“. Almari fannst  ekkert sjálfsagðara en að vera með börnin.

Hann átti bágt með að skilja um hvað ósætti eða geðvonska Erlu snérist því  þau voru ekki  með sérstök plön um helgina.  Almari fannst hún  breytt frá því upphafi sambandsins því í  fyrstunni  virtist hún vera mjög  sátt við börnin og allt hafði gengið vel fram að þessu.  Hann hætti klukkan fjögur í vinnunni  þá daga sem hann var með börnin en vann oft lengur þá daga sem þau voru hjá mömmu sinni.  Honum fannst þetta fyrirkomulag fínt og börnin virtust mjög sátt.

Óhætt er að fullyrða að flestir stjúpforeldrar fara í sambönd með góðum hug og vilja til að láta hlutina ganga. Þeir átta sig á að foreldrar þurfa að eiga tíma með börnum sínum og þarfir þeirra geta ekki alltaf verið í fyrsta sæti þegar farið er í samband með fólki sem á börn. Sumir  reyna jafnvel að aðlaga sig einhliða venjum og hefðum sem maki þeirra í samráði við sinn  fyrrverandi maka hafa mótað eins og þeim hentar.  Fæstir stjúpforeldrar eru  hinsvegar sáttir í slíkum aðstæðum til lengdar og kalla oft á breytingar þar sem gert er meira ráð fyrir þeim og sambandsaðilinn og fyrrverandi maki  virðast ekki taka tillit til eða virða.

Sumir vilja ekki vera með nein „leiðindi“ og reyna að „halda í sér“ sérstaklega þegar öllum öðrum  virðist líða vel.  Í óöryggi  bíða þeir lengur en góðu hófi gegnir með að láta óánægju sína í ljós, leyfa öðrum að skilgreina hlutverk sitt og taka jafnvel meira að sér en þeir raunverulega ráða við.  Í stað þess að vera í þeirri stöðu  að bjóða smá saman fram aðstoð með börnin draga þeir sig í hlé og samveran verður kvíðvænleg.

Betra er að gera ráð fyrir breytingum þegar nýr maki kemur til sögunnar en stjúpforeldar eins og annað fólk  vill hafa áhrif í sitt daglega líf og finna að gert sé ráð fyrir þeim.  Yfirvinna „barnlausu“ vikuna kann að henta einhleypu foreldri en í nýju sambandi getur það farið illa í stjúpforeldrið sem upplifir að lítið svigrúm sé til þess að rækta sambandið án barna.  Ekki bætir það stöðuna þegar ráðstafað er tíma þess eða rými án samráðs við það.
Að hreyta í maka sinn  „þú vissir að ég ætti barn eða börn“ þegar hann kvartar undan tímaleysi makans eða hvernig fyrrverandi maki vill stjórna öllu og , hjálpar jafnvel ekki.   Þvert á móti eru meiri líkur á að stjúpforeldrið upplifi sig útundan og reitt sem grefur undan löngun þess til að „fórna“ sér og tíma sínum fyrir stjúpbörnin og að foreldrið fái það svigrúm sem það þarf til að sinna börnum sínum.
Það á að vera sjálfsagt  mál að leita til fyrrverandi maka þegar aðstoð þarf með börnin en báðir foreldrar þurfa að taka mið af stjúpforeldrinu þegar breyta þarf tímasetningum  eða skipulagi vilji þeir að börnum líði vel.  Óánægja í stjúpfjölskyldum bitnar ekki síður á börnum þeirra en samskiptum þeirra fullorðnu.
Allir þurfa að upplifa sanngirni og að gert sé ráð fyrir þeim á einhvern hátt. Fái stjúpforeldri þörfum sínum fyrir athygli og tíma fullnægt eins og aðrir í fjölskyldunni eru meiri líkur á að hollusta þess gagnvart henni eflist og það verði viljugra til að láta þarfir stjúpbarnanna ganga fyrir sínum eigin þegar nauðsyn krefur. Það þykir kannski ekki rómantískt en er nauðsynlegt, þegar hlutirnir krefjast mikils samráðs og samhæfingar, að hafa stundaskrár þar sem teknir eru frá tímar til að rækta sambandið.
Valgerður Halldórsdóttir félags- og fjölskylduráðgjafi, MA,

Gerum ráð fyrir breytingum og lífið verður léttara

Eftir Hátíðir

Óhjákvæmilega breytist jólahaldið þegar fólk skilur og stofnar stjúpfjölskyldur,  rétt eins og þegar það fer í sambúð, eignast börn, tengdaforeldra eða tengdabörn. Stokkar þarf upp venjur og hefðir sem fólk er misviljugt eða tilbúið til að takast á við og  búa þarf til nýjar með fólki sem þekkir illa sögu hvers annars. Með sögur lærum við að kynnast okkur sjálfum og öðrum og sköpum líka samfellu og tilfinninguna að tilheyra.

Hvernig eigum við að hafa jólin?

Í sambúð þarf fólk að finna út úr öllum mögulegum og ómögulegum hlutum og ætla má að margir sem eru nú saman sín fyrstu jól velti því fyrir sér hvort og þá hvar eigi að vera á aðfangadagskvöld eða að aðra hátíðisdag?  Að öllum líkindum vill það halda í eitthvað af sínum jólahefðum s.s. að borðaðar eru rjúpurnar sem pabbi skaut eða hnetusteikina hennar mömmu þar sem „ engin jól eru án hennar!“
Stórfjölskyldan hefur líka sínar hugmyndir um hvar parið á að vera um jólin og ætli einhver að bregða út af vananum er hætt á að sumir fái að heyra  „við erum alltaf hjá ömmu á jóladag, þú getur ekki sleppt því að koma“ eða „Ætlar þú að vera eina systkinið sem ekki ert hjá okkur á aðfangadag?“
Málið getur flækst töluvert ef sambýlingarnir eiga báðir fráskilda foreldra og stjúpforeldra sem líka gera kröfur um að haldið sé í „hefðirnar“  (spurning er síðan hvenær?).  Nú ef sambýlingarnir eiga að auki börn úr öðrum samböndum og koma þarf á móts við foreldra og stjúpforeldra barnanna á hinum heimilum,  krefst jólahaldið líklega doktorsgráðu í sáttamiðlum og verkefnastjórnun ef reyna á að koma á móts við þarfir allra um að halda vilja  í hefðirnar.
Það er ekki hægt að horfa fram hjá mikilvægi fjölskylduhefða og venja í lífi fólks. Þær veita okkur öryggi, skapa samfellu í lífinu og tilfinninguna  „að tilheyra“  sem reynst mörgum stjúpfjölskyldum erfitt í fyrstu enda á fólk ólíka sögu sem það þekkir misvel.  Hinsvegar geta þær virkað eins og „þröng og óþægileg peysa“ ef ekki er gert ráð fyrir að „barnið stækki“ eða með öðrum orðum að hlutirnir breytist – alveg óháð fjölskyldugerð.

Sveigjanleiki er lykillinn

Til að geta tekist á við breytingar sem er eðlilegur hluti af lífinu þurfum við að geta sýnt sveigjanleika sem felur í sér þá hæfni til að breyta og breytast til að hlutirnir gangi upp og fólki líði vel – ekki bara sumum.  Að festast í þrasi um hvaða hefð er rétt eða best um jólin kemur fólki ekkert áfram og skemmir fyrir aðlögun stjúpfjölskyldunnar sem og annarra fjölskyldna sem eru að fara í gegnum breytingar.  Stundum þurfum við að sætta okkur við aðra eða þriðju skástu lausnina. En ef fólk hefur það í huga að einn af þeim þáttum sem spáir fyrir um hvort samband verði langlíft eða ei er ekki hvort upp komi ágreiningur heldur hæfnin að fara í gegnum breytingar og leysa deilur á uppbyggilegan hátt ætti það að vera verðugt áskorunarefni að takast á við að breyta hefðum sem ekki henta lengur.
Verkefnið er stærra hjá stjúpfjölskyldum en mörgum öðrum og mikilvægt er að hafa í huga að halda í þær hefðir sem hægt er að halda í, breyta öðrum og skapa nýjar fyrir stjúpfjölskylduna. Ef það þýðir tvíréttað á aðfangadag eða ef  pabbi og mamma vilja áfram  gefa börnum sínum saman jólagjafir þrátt fyrir að þau eru komin með nýja maka þá er það í góðu lagi. Sumir hafa „gamlárskvöldið“ á þrettándanum  og jólaboðin á aðventunni. Stjúpfjölskyldur rétt eins og aðrar fjölskyldur geta notað alla daga ársins til að skapa hefðir sem þétta hópinn – það er hinsvegar lykilatriði að muna að mörg börn eiga tvö heimili sem taka þarf tillit til sama á hvaða tíma ársins það er. Ef við höfðum það í huga að jólin koma og það eru til margar leiðir til að halda og skapa hefðir – verður lífið bæði léttara og skemmtilegra!

Munum að breytingar eru hluti af lífinu og því eðlilegt að hefðir breytast og nýjar verða til.

• Hvernig við höldum upp á jól og aðrar hátíðir – er valkvætt.
• Leyfum okkur að prófa – höldum í það sem okkur líkar en sleppum örðu.
• Í stjúpfjölskyldum eru nokkur „við“ sem er fullkomlega eðlilegt – sérstaklega í fyrstu.
• Kynnum okkur sögu hvers annars – það má gera með því t.d. að setja spurningar undir diska í jólaboðunum eða hafa myndaalbúmin aðgengileg.  Við munum komast að mörgu óvæntu og skemmtilegu.
• Hefðir eru mikilvægur þáttur í að takast á við sorg og missi, þau eru græðandi og  það sama á við um nýjar hefðir í nýjum aðstæðum.
• Höldum í þær hefðir sem hjálpa og sleppum öðrum.

Valgerður Halldórsdóttir félags-og fjölskylduráðgjafi, MA

Af hverju ráðgjöf og fræðsla fyrir stjúpfjölskyldur?

Eftir Ráðgjöf

1. Í íslenskri rannsókn kom fram að 94% svarenda töldu þörf á fræðslu og sértækri ráðgjöf fyrir stjúpfjölskyldur þ.e. 60% mikla þörf og 34% nokkra þörf.

2. Margir halda fast í hefðbundnar hugmyndir um kjarnafjölskylduna og átta sig ekki á vaxandi margbreytileika í  fjölskyldusamsetningu okkar samfélags. Mikilvægt er að vekja athygli á margbreytileikanum svo hver og ein fjölskylda fái að vaxa og dafna á eigin forsendum eins og hún hefur alla burði til.

3. Algengt er að fólk fari í fleiri en eina sambúð eða gangi að ný í hjónaband eftir skilnað. Í mörgum tilvikum á annar eða báðir aðilar barn eða börn úr öðrum samböndum.

4. Stór hluti Íslendinga þekkja til stjúpfjölskyldna á einn eða annan hátt. Nákvæm tölfræði um heildarfjölda þeirra sem tengjaststjúpfjölskyldum er ekki til.

5. Stjúpfjölskyldur eru flóknari heldur en kjarnafjölskyldur þ.e. fjölskyldur þar sem öll börn eru sameiginleg parinu sem hana stofna og verkefnin því annarskonar að mörgu leyti. Margir átta sig ekki á þessum mun og reyna að nota kjarnafjölskylduna sem fyrirmynd sem getur skapað vandamál sem hægt er að komast hjá.

6. Heilbrigðar fyrirmyndir stjúpfjölskyldna eru fágætar í fjölmiðlum og samfélagsleg gildi og viðmið ógreinileg varðandi hlutverk í stjúpfjölskyldum.  Þessvegna er mikilvægt fyrir stjúpfjölskyldur að vinna saman að reglum og hlutverkaskipan í fjölskyldunni.

7. Stuðningur við stjúpfjölskyldur er af skornum skammti hjá opinberum aðilum og samfélagslegum stofnunum.

8. Óuppgerð mál og samskipti við fyrrverandi maka sem snúast ekki um börnin geta haft töluverð áhrif á stjúpfjölskylduna.

9. Í stjúpfjölskyldum eru einstaklingar með ólíkan bakgrunn og fjölskyldusögu og því er mikilvægt að ýta undir skilning og samkennd með réttri ráðgjöf og viðeigandi upplýsingum.

10. Stjúpfjölskyldur hafa alla burði til að vegna vel, rétt eins og aðrar fjölskyldur.

 

60plus

Nýtt sett af afa og ömmu

Eftir Fjölskylda

Skilnaður foreldra hefur áhrif á afa og ömmur. Í kjölfarið breytast oft samskiptin við barnabörnin. Algengt er að móðurforeldrar sjái meira af þeim en föðurforeldrar. Þó skiptir miklu máli fyrir líðan og öryggi barnanna að þau fái áfram að halda tengslum við báða afa sína og ömmur. Á umrótartímum, sem skilnaður er, geta þau verið mikilvægt skjól og stuðningur við börnin. Flestir samgleðjast börnum sínum, þegar þeir finna sér nýjan maka, en tilkoma hans getur haft áhrif á sambandið við barnabörnin.

Á það sérstaklega við ef þeir hafa verið í mikilvægu stuðningshlutverki áður, ef til vill veitt bæði húsaskjól og barnapössun. Aðstæðurnar geta orðið enn flóknari ef t.d. nýja tengdadóttirin/nýi tengdasonurinn á börn úr fyrra sambandi. Kröfur eru gerðar til þess að afinn og amman aðlagist þeirri staðreynd að þau hafi eignast nýja tengdadóttur/nýjan tengdason, hugsanlega stjúpbarnabörn líka, og á sama tíma minnka jafnvel tengslin við þeirra eigin barnabörn.

En hvert er hið nýja hlutverk þeirra? Stjúpafi og stjúpamma geta gengt mikilvægu hlutverki fyrir stjúpfjölskylduna, haft uppbyggileg áhrif á hana og þjappað henni saman. Má t.d. ímynda sér að sameiginlegar hefðir fjölskyldunnar, venjur sem binda hana saman, verði líka til fyrir tilstilli elstu kynslóðarinnar og haldið við af henni. Oft eru stjúpbörn frekar tilbúin til að viðurkenna nýtt sett af afa og ömmu en nýtt stjúpforeldri. Þau lenda síður í hollustuklemmunni, sem þau geta lent í gagnvart stjúpforeldri, þ.e. það verður síður litið á það sem svik að þau tengist nýjum afa og ömmu.

Ekki eftir pöntun

Allir þurfa að gefa sér tíma til að kynnast í rólegheitunum. Það er t.d. alls ekki sjálfsagt að nýja stjúpbarnabarnið vilji kyssa stjúpömmu sína bless og faðma hana eins og hin barnabörnin. Eða að stjúpafi og stjúpamma séu alveg tilbúin að passa stjúpbarnabarnið jafn mikið og önnur barnabörn. Hreinskiptar samræður, þar sem allir fá tækifæri til að setja fram skoðanir sínar og lýsa væntingum sínum, eru best til þess fallnar að koma í veg fyrir vonbrigði og gremju. Góð byrjun er að opna umræðuna og stilla kröfum í hóf. Tilfinningar foreldra til stjúpbarna sinna rista yfirleitt ekki jafn djúpt og tilfinningarnar til eigin barna, þótt þess séu vissulega dæmi, og því er varla hægt að ætlast til þess af eldri kynslóðinni. Ást kemur ekki eftir pöntun. Þess vegna getur það verið mikill léttir fyrir stjúpafa og stjúpömmur að vita að þess sé ekki krafist að þau elski stjúpbarnabörnin jafn innilega og barnabörnin. Að þessu sögðu er samt rétt að benda á nauðsyn þess að taka tillit til þarfa og þroska barnsins. Einkum ung börn eiga bágt með að sætta sig við mismunun. Eldri börn geta sýnt því skilning að blóðtengsl séu nánari en stjúptengsl, svo framarlega sem þau finna að gert sé ráð fyrir þeim að öðru leyti og þau verði ekki fyrir meðvitaðri höfnun. Oft birtist þetta í gjöfum. Að mínu mati er æskilegast að gjafir séu á svipuðum nótum ef samskipti milli stjúpsystkina eru mikil. Það kemur í veg fyrir særindi og öfund. Gjafir þurfa ekki að vera mælikvarði elsku.

Mismunandi tengsl

Ekki þarf að vera neitt óeðlilegt við að stjúpafi og stjúpamma myndi mismunandi tengsl við barnahópinn eða að börnin í hópnum tengist þeim á mismunandi hátt. Aldur barna skipir t.a.m. máli. Litlum börnum finnst ekkert undarlegt að eiga marga afa og ömmur, – það er jafnvel auglýst eftir þeim í blöðunum til að sinna börnum í hefðbundnum kjarnafjölskyldum! –, og þótt eldri börn óski ekki sérstaklega eftir aukapari af afa og ömmu geta þau orðið góðir bakhjarlar síðar á lífsleiðinni, þegar þau fara sjálf að uppfylla jörðina. Heimsmynd lítilla barna er allt önnur en fullorðinna. Þau hafa hag af því að einfalda hlutina – og mættum við oft fara að dæmi þeirra – og hafa lítið fyrir því að eigna sér nýjan afa og ömmu, þótt þau líti ekki svo á að stjúpforeldrið sé pabbi eða mamma. Afar og ömmur hafa líka lag á að setja hagsmuni barnanna ofar öðru. Hvað sem líður hugsanlegum skilnaðarátökum eða öðrum erfiðleikum brjóta þau oft odd af oflæti sínu þegar heill barnabarnanna er í húfi, enda ættu þau frekar að geta leitt vandamálin hjá sér og reynt að standa utan við þau. Samt þarf að sýna því skilning að fyrrverandi tengdaforeldrar geti átt erfitt að tengjast nýjum maka, sem “tekur sæti” dóttur þeirra eða sonar, stjúpforeldri barnabarna þeirra. Hafa þarf í huga og virða við fyrrverandi tengdaforeldra að þeir glími við margháttaðar og andstæðar tilfinningar. Þeir hafa þörf fyrir barnabörnin sín og barnabörnin fyrir afa sinn og ömmu.

Deildaskipt fjölskylda

Með það í huga að stjúpfjölskyldan verður ekki “blönduð” eða “maukuð”, eins og áður var minnst á, getur verið gott að treysta burðarvirki hennar með því að efla þau tengsl sem fyrir eru og smám saman mynda ný tengsl. Aðferð til þess er t.d. að “deildaskipta” fjölskyldunni öðru hvoru. Það ýtir nefnilega undir átök og streitu að ætla sífellt að gera alla hluti saman. Gefa þarf afa og ömmu tækifæri til að sinna barnabörnum sínum án stjúpbarnabarnanna – og stjúpbarnabörnin þurfa líka tækifæri til að tengjast stjúpafa sínum og -ömmu án hinna barnabarnanna. Liður í að efla tengslin innan stjúpstórfjölskyldunnar felst í því að skipta henni upp af og til, en svo á auðvitað stundum að hrista hópana saman. Stjúpfjölskyldan er – svo vísað sé í sjálfan James Bond – betri “hrist” en “blönduð”.

Dæmi

  •  Af misskilinni hollustu við fráskilinn son sinn ákvað amma að umgangast barnabörn sín minna áður, þar sem þau bjuggu hjá fyrrverandi tengdadóttur hennar. Hún sá því mun meira af stjúpbarnabörnum sínum en barnabörnum sínum. Barnabörnin upplifðu það sem svik við sig.
  • Afi og amma ákváðu að gefa barnabörnunum meiri og veglegri gjafir en stjúpbarnabörnunum í þeim tilgangi að bæta þeim upp erfiðleikana í kringum stofnun nýrrar fjölskyldu. Mikill aldursmunur var á börnunum og fannst stjúpbörnunum það í góðu lagi, þótt þeirra gjafir væru minni. Þau áttu ekki von á neinu hvort sem er, þekktu stjúpafa og -ömmu lítið og gerðu ekki sömu kröfur til þeirra og sinna eigin afa og ömmu.
  • Afa og ömmu fannst það vera svik við barnabörnin að gefa þeim og stjúpbarnabörnunum jafn dýrar gjafir, þótt börnin ættu sameiginlegt hálfsystkin. Framkoma þeirra ól á afbrýðisemi í systkinahópnum og olli deilum milli maka.
  • Amma óttaðist viðbrögð barnabarnanna ef hún sýndi nýju stjúpbörnunum umhyggju. Á sama tíma óttaðist hún viðbrögð sonar síns og tengdadóttur ef hún sýndi þeim ekki nægjanlega umhyggju. Hún vissi eiginlega ekki hvernig hún ætti að haga sér. Það sem áður veitti henni gleði, olli henni áhyggjum.
  • Afi og fyrrverandi tengdasonur voru miklir mátar og hittust oft með barnabörnunum. Afinn útilokaði nýja tengdasoninn af ótta við að missa sambandið við barnabörnin. Amma óttaðist mest að nýja tengdadóttirin mundi gera upp á milli barnabarna sinna, stjúpbarna sinna, og hennar eigin barna.

e. Valgerði Halldórsdóttur, félags- og fjölskylduráðgjafi

Instagram