Skip to main content
All Posts By

valgerdur

Eru til fyrrverandi börn – eins og fyrrverandi maki?

Eftir Börn og ungmenni

Ég þoli ekki hvernig stjúpsonur minn lokar sig af inni í herbergi og vill ekki segja hvað er að þegar hann er hjá okkur. Hann stjórnar bæði manninum mínum og heimilinu með fýlu og leiðindum. Af hverju ætti hann að fá einhverja aðra athygli eða þjónustu en hin börnin á heimilinu? Ég er viss um að mamma hans talar illa um okkur.

Það sannarlega til að foreldri tali illa um stjúpforeldri og fyrrum maka í eyru barns. Illt umtal og langvarandi ágreiningur foreldra er barni skaðlegur. Líkur eru á að barn hætti að treysta foreldrum sínum fyrir líðan sinni ef það verður til þess að deilur þeirra magnast og geri hlutina jafnvel enn verri en áður. Yfirsýn foreldris yfir líf barna sinna minnkar enn frekar. Fyrir utan að börnin dvelji kannski aðra hvora viku á heimili fyrrverandi maka og hans maka eru líkur á að foreldrar fái hvorki að vita um gleðistundir eða erfiðleika sem tengjast hinu heimilinu. Börn læra að að rugga ekki bátnum „ að óþörfu“. Í stað þess að vera með puttann á hinu foreldrinu og maka þess má kannski spyrja sig, hvað er í mínu valdi til að bæta samskiptin barnanna minna vegna? Nú svo er fátt meira óspennandi og dregur allt súrefnið úr parasambandinu en deilur maka við hans/hennar fyrrverandi. Takist fólki ekki að finna út úr deilunum sjálft má alltaf leita til fagfólks.

Það getur hinsvegar verið gagnlegt að áður en „fyrrverandi“ er dreginn inn í samtalið og honum kennt um hvernig gangi að skoða með opnum huga aðstæður barna á eigin heimili. Sérstaklega í ljósi þess að það reynist mörgum börnum erfiðara að verða hluti af stjúpfjölskyldu en skilnaður foreldra. Ástæðurnar geta verið margvíslegar en jafnvel þó svo að börnum líki ágætlega við stjúpforeldri sitt upplifa þau margvíslegan missi. Algengt umkvörtunarefni barna í stjúpfjölskyldum er að þau fái sjaldan eða aldrei tíma ein með foreldri sínu, það sé ekki gert ráð fyrir þeim, stjúpforeldri grípi sífellt inni í samskipti þeirra við foreldrið sitt, foreldrið virðist vera undir hælnum á stjúpforeldrinu og hlutirnir hafi gerst allt of hratt. Settar séu nýjar reglur og venjur sem þau eigi að tileinka sér á stuttum tíma. Sumum finnst að það sé gert upp á milli þeirra og annarra barna sem tilheyra fjölskyldunni. Auk þess sem þau fái síður að vita „hvað er í gangi“ á heimilinu en hálf – og stjúpsystkini þeirra. En efinn um ást foreldris og að það standi með því þegar á þarf að halda, reynist þeim erfiðastur.

Börn láta gjarnan líðan sína í ljós með hegðun sinni. Finni þau sig velkomin og eru örugg um ást foreldrisins og vingjarnlegt viðmót stjúpforeldrisins eru meiri líkur á að þau aðlagist vel. Börn sem sýna hinsvegar erfiða hegðun lenda sum í hlutverki blórabögguls á heimilinu. Stjúpforeldri getur átt það til að réttlæta framkomu sína og slæma líðan með hegðun barnsins og leita sífellt að vísbendingum, stundum raunverulegum en oftast ímynduðum, um að eitthvað sé að barninu. Finni foreldri og stjúpforeldri ekki viðeigandi leiðir til að takast á við þessar aðstæður eða læra að fyrirbyggja þær, er hætta á að „lausn“ vandans komi hann upp, felist í stopulum samskiptum eða skorðið sé á öll tengsl við barnið. Börn þurfa fullvissu um að þau skipti foreldra sína máli og ekki sé skorið á tengslin við þau vegna erfiðra samskipta milli foreldra eða í stjúpfjölskyldunni sjálfri. Þegar horft er á hegðun og líðan barna í stjúpfjölskyldum er vert að hafa í huga að stærsti hluti þeirra hafa áður upplifað missi og breytt tengsl við foreldra sína, sérstaklega við feður.

Hvað þarf að hafa í huga í nýjum stjúpfjölskyldum – Viðtal – MBL.

Eftir Fjölskylda

„Ég hef reynt margar áskoranir stjúpfjölskyldna á eigin skinni bæði sem uppkomið stjúpbarn og stúpmóðir. Ég hélt dagbók þegar ég varð stjúpa á sínum tíma og þegar ég lít til baka sé ég að vandamálin sem ég og mín fjölskylda var að glíma við voru fremur hversdagsleg fyrir stjúpfjölskyldur, en en þau reyndu verulega á okkur á þessum tíma þar sem við kunnum ekki að takast á við þau“ segir Valgerður Halldórsdóttir, fjölskyldu- og félagsráðgjafi, sem í dag veitir stjúpfjölskyldum ráðgjöf. Hún er með heimasíðuna stjuptengsl.is

Valgerður segir að þegar kemur að því að stofna stjúpfjölskyldu skipti mestu máli að taka því rólega, kynnast vel og ná tengslum, Hún segir jafnframt að mikilvægt sé að rækta tengslin við eigin börn, auk þess að gefa sér tíma til að kynnast stjúpbörnunum vel. En skyldi hún luma á einhverjum ráðum sem geta einfaldað fólki lífið?

„Fólk heldur gjarnan að þegar það er að búa til fjölskyldu þurfi það að eyða öllum stundum saman sem hópur. Það er ekki vænleg leið þegar mynda á tengsl við hvern og einn og kynnast vel. Maður á mann samskipti mestu máli til að kynnast. Fjölskyldan þarf því bæði að eyða tíma saman, og gefa sér tíma fyrir hvern og einn Parið verður líka að gefa sér tíma fyrir sambandið,“ segir Valgerður og bætir við að þegar vandamál geri vart við sig komi oft upp úr dúrnum að fólk þekkist ekki nægilega vel.

„Það er nokkuð algengt að börn hafa aldrei eytt tíma með stjúpforeldrum sínum þó fólk er orðið meðvitaðara um mikilvægi þess eða að foreldrar hafi ekki gefið sér tíma með börnunum sínum án maka eða stjúpsystkina. Sum börn upplifa því mikla sorg og missi sem stundum er mistúlkað sem frekja og stjórnsemi. Jafnvel að hitt foreldrið sé að reyna stjórna og hindra umgengni þegar þau viljia ekki fara á milli heimila þar sem þeim finnst ekki tilheyra öðru heimilinu. Valgerður segir ennfremur að fólk átti sig ekki alltaf á því hvernig sé best að undirbúa tilvonandi sambúð.

„Sem betur fer gefa margir sér góðan tíma til þess að kynnast áður  en þeir kynna börn til sögunnar. Margir átta sig oft ekki á þeim sérstöku verkefnum sem stúpfjölskyldr þurfa að takast á við umfram aðrar fjölskyldur. Það getur því reynt verulega á í fyrstu. Í stað þess að skilja að vandamálin sem tengjast sérstöðu stjúpfjölskyldna eins og upplifað stjórnleysi og að vera útundan, óvissa um hlutverk og flækjur í agamálum eru þau persónugerð. Hætta er á t.d. að barn sem fer á milli heimila eða sem er í engri umgengni lendi í hlutverki blórabögguls og kennt er um ástandið, eða stjúpforeldri sem tekur allt of mikið að sér, jafnvel foreldri úti í bæ . Þetta eru allt vandamál sem er vel gerlegt að leysa, en fólk þarf að skilja hvernig fjölskyldan virkar,“ segir Valgerður og bætir við að algengasta umkvörtunarefni barna sé einmitt að hlutirnir gangi of hratt fyrir sig.

„Börnunum getur líkað ágætlega við stjúpforeldri sitt, en samt upplifað ákveðinn missi. Foreldrar gleyma gjarnan að þegar þeir hafa verið einhleypir í einhvern tíma fara þeir að taka allskyns ákvarðanir með börnunum sínum. Svo verða þeir ástfangnir og fókusinn fer allt annað. Þá er hætt við að foreldrið gleymi sér og hætti að sinna hlutum sem það og barnið gerðu saman áður. Svo skilja foreldrarnir ekkert í því af hverju börnin eru svona fúl.“

Börn þurfa mörk og ramma
Valgerður segir að margar þær áskoranir sem stjúpfjölskyldur þurfa að kljást við stafi af venjum sem foreldrar tileinkuðu sér þegar þeir voru einhleypir.

„Þeir fara að taka allskyns ákvarðanir með börnunum sínum, eða sleppa því að setja þeim heilbrigð mörk vegna þess þeir finna til með þeim eftir skilnaðinn. Stundum þjást foreldrar af samviskubiti, en stundum eru þeir eðlilega bara þreyttir. Börnin þurfa nefnilega bæði mörk og ramma. Líka þegar foreldrarnir eru einhleypir. Þegar fólk fer síðan aftur í sambúð vill nýr maki til dæmis ekki þurfa að eiga samráð við ungt barn um hvað á að vera í kvöldmatinn,“ segir Valgerður og bætir við að agamálin geti reynst snúin.

„Stjúpforeldrar, og þá kannski sérstaklega stjúpmæður, upplifa gjarnan mikinn vanmátt og stjórnleysi í lífinu. Börnin eiga það til að taka völdin því foreldrarnir eru óöruggir í hlutverki sínu. Auk þess eru foreldri og stjúpforeldri ekki alltaf sammála um hvað telst vera eðlilegur agi. Til að mynda fer gjarnan óskaplega í taugarnar á stjúpforeldrinu þegar barn er látið komast upp með ókurteisi, það getur reynst erfitt að búa til tengsl þegar kureisi skortir í samskipti. Gott skipulag er einnig hjálplegt. Það eralgengt að foreldrar að vinna mikið þá daga sem barnið er hjá hinu foreldrinu En hætt síðan snemma þá daga sem börnin eru á heimilinu. Þá getur stjúpforeldrið upplifað að það sé aldrei timi fyrir það eða sambandið. Pör þurfa því að læra að tileinka sér jafnvægi og gefa sér tíma með hvort öðru,“ segir Valgerður, en lumar hún á góðum ráðum þegar kemur að samskiptum við stjúpbörn. Er eitthvað sem stjúpforeldrar ættu alls ekki að gera?

„Það er ekki hægt að gea kröfu um ást en fólk ætti fyrst og fremst að sýna barninu kurteisi og virðingu. Líta á sig sem fullorðinn vin og ekki rjúka á í agamálin þó það telji þörf á því. Það þarf að vinna hlutina á ákveðinn hátt og gagnlegt að koma á námskeið og læra um stjúptengsl. Fólk ætti svo auðvitað ekki að tala illa um hitt foreldrið í eyru barnsins. Margir stjúpforeldrar, sérstaklega stjúpmæður, hafa miklar áhyggjur af áliti annarra. Sumir bíða einnig eftir viðurkenningu frá börnum eða foreldrum úti í bæ. Það er þó fyrst og fremst makinn sem á að sýna stjúpforeldrinu þakklæti fyrir framlag sitt og mikilvægt að muna það. ,“ segir Valgerður.

Ekki lengur feimnismál
Valgerður segir að stjúpforeldrar í dag séu ófeimnir við að leita sér aðstoðar ef hlutirnir gangi ekki sem skyldi.
„Það er afar skemmtilegt að vinna með stjúpfjölskyldum vegna þess að það er svo mikil von í þeim. Í dag finnst mér flestir tilbúnir að takast á við vandann, frekar en að hlaupast frá honum. Það þykir nefnilega ekkert feimnismál lengur að leita sér ráðgjafar,“ segir Valgerður.
„Auðvitað er þetta mismikil vinna, en stundum þarf að vinda ofan af ranghugmyndum sem vinna gegn fjölskyldunni. Yfirleitt gengur það þó vel fái maður góðan tíma. Það geta þó að sjálfsögðu komið upp dæmi sem ekki er hægt að leysa. Stundum hafa mjög harkalegir atburðir átt sér stað í fjölskyldulífinu, og erfitt að vinda ofan af þeim Oftast er hægt að vinna með tengls og bæta samskipti. Við verðum líka að vera raunsæ og læra að bregðast við á uppbyggilega máta. Stjúpfjölskyldur geta verið jafn góðar og gefandi og aðrar fjölskyldur ef við vitum hvernig á að bregðast við áskorunum hennar.

Ein eða tvær fermingarveislur?

Eftir Hátíðir

Helena var með kvíðahnút í maganum. Hún vissi ekki hvort hún fengi að hitta pabba sinn eða afa og ömmu að athöfn lokinni. Mamma hennar og pabbi töluðu ekki saman. Veislan var aðeins með fólkinu hennar mömmu og stjúpa. Pabbi hennar ætlaði að hafa boð helgina á eftir.

Hvernig fólk haga sínum veisluhöldum er að sjálfsögðu einkamál hvers og eins. Það er ekkert óalgengt að fólk haldi fleiri en eina afmælisveislu fyrir barn, hvort sem foreldrar búa saman eða ekki. Það eru haldin bekkjarafmæli, fjölskylduafmæli og vinaafmæli ef því er að skipta. Af hverju ætti eitthvað annað gilda um fermingarveisluna?

Halda má eina veislu eða fleiri. Aðalatriðið er að barnið og þeir sem að því standa séu sáttir. Hvað svo sem öllum öðrum finnst um fyrirkomulagið.

Óhjákvæmilega er það dýrara að hafa margar veislur en hver og einn verður að gera það upp við sig hvað hann hefur ráð á. Ætli fólki hinsvegar að halda veislu saman þarf að komast að samkomulagi um kostnað, vinnuframlag og þess háttar. Góð regla er að ráðstafa hvorki tíma né peningum annarra án samráðs við viðkomandi vilji fólk eiga góð samskipti. Muna þarf líka eftir að eiga samráð við stjúpforeldra séu þeir til staðar.

Það er örlítið flóknara með ferminguna sjálfa hvort heldur um sé að ræða kirkjulega – eða borgarlega athöfn. Ferming er einstakur atburður og verður ekki endurtekinn. Spurningin er, hvaða minningar viljum við að börnin eigi um athöfnina og það sem henni fylgir?

Rétt eins og langvarandi áhyggjur og ótti hafa neikvæð áhrif á heilsu og velferð barna og fullorðinna, þá hefur það jákvæð áhrif að finna ást og öryggi hjá þeim sem næst okkur standa. Við verðum betur í stakk búin til að takast á við þau verkefni sem lífið leggur okkur á herðar. Börn læra að verða vongóð í stað þess að líta a sig sem fórnarlömb sem lítil áhrif geta haft á líf sitt.

Skilnaður foreldra er yfirleitt börnum áfall í fyrstu en flest jafna sig smám saman nái foreldrar að leysa sín mál á uppbyggilegan máta. Takist það ekki er líklegt að mikill og langvarandi ágreiningur valdi börnunum streitu og kvíða. Á það líka við um börn sem búa með báðum foreldrum sínum. Erfið samskipti fyrrverandi maka geta líka haft áhrif á aðlögun barna í stjúpfjölskyldum þar sem koma barnsins verður kvíðvænleg vegna þeirra deilna, sem ósjaldan fylgja inn á heimilið.
Þegar deilur eru miklar er börnum stundum bannað að tengjast stjúpforeldri sínu og ræða það sem gerist á öðru heimilinu á hinu heimilinu. Ekki veit ég hvað fullorðnu fólki þætti um að mega hvorki ræða vinnunna eða vinnufélaga sína heima eða fjölskyldu sína í vinnunni? Eða það lenti í sífelldum yfirheyrslum um hvað gerðist á hvorum staðnum um sig. Hvað þá ef það mætti ekki tengjast ákveðnum vinnufélaga sem væri bara viðkunnanleg manneskja?
Hætta er á að foreldrar missi traust barna sinna og staða barnanna verður í senn einmannaleg og flókin. Hvort haldin verði ein eða tvær veislur er því kannski ekki stóra málið fyrir barnið heldur laskað traust til foreldra og stjúpforeldra séu þeir til staðar.

Þegar kemur að athöfninni sjálfri eiga börn ekki annarra kosta völ, mæti báðir foreldra og fjölskyldur, en að hafa þau á sama stað á sama tíma. Það er því mikilvægt að athöfnin sé undirbúin – og þau viti hvað bíði þeirra í stað þess að ala á kvíða og óvissu. Enn er tími til stefnu vilji fólk finna út úr hlutunum og setja má sér það markmið að enda deilur eða a.m.k. finna leið til að lágmarka áhrif þeirra á börnin. Börnin eiga líklega eftir að gifta sig og skíra í framtíðinni og æskilegt að þau séu ekki að glíma við skilnað foreldra sinna langt fram á fullorðins ár – hvað þá ófædd barnabörn.
Þeir sem sjá um athöfnina og undirbúning hennar geta gengt mikilvægu hlutverki í aðstoða forelda og börn sem eru í þessum aðstæðum – það þarf bara að opna umræðuna og sjá hvað hentar hverjum og einum.

Ættum við ekki frekar að hafa áhyggjur af kvíðahnút barnsins en hvort það fær eina eða tvær fermingarveislur?

Valgerður Halldórsdóttir fjölskyldu -og félagsráðghafi MA
www.stjuptengsl.is

boð

Koma börnin aðeins boðin?

Eftir Börn og ungmenni

„Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að segja við pabba þegar hann hringir. Það er oft svo vandræðaleg þögn í símanum þegar hann er búinn að spyrja um þetta vanalega: Hvernig er í skólanum? Alltaf í fótboltanum? Það er meira eins og að hann hringi af skyldurækni en að honum langi til þess“ sagði Palli við mömmu sína.

Einu sinni fannst honum að hann skipti pabba sinn máli en það er langt síðan. Allur tími pabba hans fór í vinnu, Heru og hennar fjölskyldu sem hann var ekki hluti af. Honum fannst pabbi sinn hafa svikið sig.

„Ég reyni að vera í sambandi við Palla, en hann er alltaf svo upptekin þegar ég hringi og ekki hringir hann í mig. Það er kannski ekki skrýtið enda á lokaári í menntaskóla og upptekinn af vinunum. Mér sýnist á feisbúkk að hann sé kominn með kærustu, en er ekki viss. Skrýtið hvernig hlutirnir þróast, við sem vorum svo nánir“ sagði pabbi Palla við Heru. Honum fannst eins og að hann væri að horfa á líf fjara út þegar hann fann hvernig tengslinn milli þeirra feðga voru að rofna. Hann varð hræddur.
Áhrif skilnaðar á tengsl uppkominna barna og foreldra

Í huga flestra eru börnin okkar eru alltaf börn okkar, líka þegar þau verða fullorðin. Hinsvegar breytast samskiptin og áhyggjurnar verða aðrar. Þó stóru börnin þurfi ekki daglega leiðsögn foreldra skiptir þau áfram máli að finna ást, hlýju og stuðning þeirra. Foreldrar uppkominn barna veita þeim oft mikilvægan tilfinningalegan – og ekki síður hagnýtan stuðning eins og húsnæði, peninga og pössun barnabarna. Fyrir utan allar góðu stundirnar sem hægt er að eiga saman. Vonandi njóta síðan foreldrar stuðnings þeirra á efri árum þegar þar að kemur. Það er hinsvegar ekki alltaf hægt að ganga að gagnkvæmum stuðningi eins vísum, ef til skilnaðar kemur.
Rannsóknir sýna að skilnaður foreldra í æsku getur haft áhrif á tengsl foreldra og barna á fullorðinsárum. Jafnvel þó skilnaðir eru jafn algengur og þeir eru, hefur tengslarof milli foreldra og barna í kjölfar skilnaðar fengið of litla athygli.

Þekktustu ástæður þess að foreldri og barn missa tengsl er þegar annað foreldrið meinar hinu að hafa samskipti við barnið með tálmunum eða þegar foreldrar eiga í miklum og langvarandi deilum eftir skilnað. Hætt er á að tengsl barna við foreldra skaðist í deilum. Þau læra smá saman að ekki er hægt að treysta þeim fyrir líðan sinn og löngunum án þess að þær virki eins og olía á eld í deilum þeirra.

Börnin láta þá gjarnan í ljós vanlíðan sína með erfiðri hegðun eða með því loka allt inni. Þetta mjög einmannaleg og skaðleg staða fyrir barn og elur á kvíða og óöruggi. Stundum langt fram á fullorðins ár. „Mig hefur alltaf dreymt um að gifta mig en satt að segja hef ég alltaf frestað því, þar sem ég veit ekki hvernig mamma og pabbi munu haga sér“ sagði ung kona við mig um daginn, sem var fórnarlamb forsjárdeilu fyrir 19 árum.

Mikilvægt er að foreldrar fái aðstoð við að leysa deilur sínar með hagsmuni barna að leiðarljósi. Ég efast hinsvegar um að að það sé heppilegast leiðin að fá lögfræðinga til að leysa samskiptavanda foreldra. Í mörgum tilvikum ætti að meðhöndla slíkar deilur sem barnaverndarmál. Andleg líðan foreldra í þessum aðstæðum er of mjög slæm og getur m.a. bitnað starfi þeirra, heilsu og foreldrahæfni. Eða eins og ein mamman sagði „ég er aldrei eins léleg mamma og þegar þegar ég hef rifist við minn fyrrverandi“.

Góð samskipti foreldra en slitrótt tengsl

Oft eiga foreldra ágæt samskipti eftir skilnað og aðlagast lífinu vel sem einhleypir foreldrar. Þegar hlutirnir róast, upplifa börn oft góðan tíma með foreldrum sínum eftir skilnað. Þau fá oft óskipta athygli og tíma foreldra. Sumir einhleypir foreldrar falla í þá gryfju að eiga ýmisskonar samráð við börn sín um hluti sem þeir áttu áður við maka sinn eins og hvað eigi að kaupa í matinn eða fara í frí. Sum taka upp á því að sofa aftur upp í, þó þau hafi verið löngu hætt því fyrir skilnað. Flest börn kunna vel að meta þessar breytingar. Hinsvegar er óvíst að þau verði jafn spennt þegar foreldri þeirra fer í nýtt sambandi og nýja kærastan eða kærastinn vill hafa eitthvað um það að segja hvað er í kvöldmatinn. Eftir skilnað verða til nýjar venjur í lífi foreldris og barna. Sund á föstudögum, bíóferðir eða göngutúr með hundin svo eitthvað sé nefnt. Svona venjum er hinsvegar mikilvægt aðl halda áfram í nýju sambandi.

Þegar barn fær tíma og athygli er engin ástæða að efast um um ást foreldris. Það finnur að það skiptir máli, er öruggt með tengslin og getur leitað til foreldris í gleði og sorg. Á þessum tímapunkti er lítið sem bendir til að tengslin sem fráskildir foreldra óttasta hvað mest að missa, geti breyst. Jafnvel þó komi að því unglingurinn vilji að vera meira á öðru heimilinu en hinu, vill hann áfram báða foreldra í lífi sínu. Það þarf bara að finna nýjan takt sem passar.

Finnum ástina – og töpum barninu?

Sem betur fer missum við ekki trú á ástinni þó svo við förum í gegnum skilnað. Flest okkar fara í samband á ný og sum fleiri en eitt. Þegar vel tekst til geta stjúptengsl verið góð viðbót og gert líf bæði foreldra og barna innihaldsríkara en ella. Rannsóknir benda reyndar til að aðlögun að stjúpfjölskyldu krefst tíma og er oft meiri áskorun fyrir börn, en að aðlagast skilnaði foreldra. Þar sem flækjustigið er töluvert hærra, mælist oft meiri streita og álag í stjúpfjölskyldum en í kjarnafjölskyldum.

Ýmsar ástæður geta legið þar að baki. Ætla má að það sem skiptir mestu máli, eru þau áhrif sem stjúptengsl geta haft á tengsl foreldra og barna. Innlendar og erlendar rannsóknir sýna að börn sem hafa upplifað skilnað foreldra sinna fá minni fjárhagslegan og tilfinningalegan stuðning en þau sem búa með báðum foreldrum sínum. Erlendar rannsóknir sýna jafnframt að fráskildir feður sem fara í samband að nýju, eiga sjaldnar samskipti við börn sín úr fyrra sambandi og veita þeim síður fjárhaglega aðstoð en fráskyldir einhleypir feður. Stundum réttlæta foreldrar og stjúpforeldrar minni stuðning og afskiptaleysi með því að börnin eru orðin svo stór eða fullorðin að þau þurfi ekki á þeim að halda. Það sama virðist ekki eiga við um sameiginleg börn þeirra eða þau sem teljast búa á heimilinu skv. rannsóknum.

Það er því ekki óeðlilegt að barn, geti efast um ást foreldrisins og um mikilvægi sitt í lífi þess þegar fókus foreldrisins fer nánast alfarið á nýjan maka , sem jafnvel tekur heimilið og foreldrið „yfir“ af mikilli röggsemi. Þau fá ekki upplýsingar eða þeim ekki boðið með í sumarfrí eða annað. Stutt er í reiði, höfnun og að barn viliji forðist aðstæður ef ekkert er að gert. Yngri börn ráða oftast engu um veru sína og þurfa að hlýða ákvörðunum foreldra sinna hvar þau eru hverju sinni. Fullorðin börn geta komið og farið að vild. Það má því velta fyrir sér, ef uppkomnu börnin okkar koma aðeins þegar þeim er boðið – hvort við megum leggja okkur meira fram við að rækta tengslin? Maður á mann samskipti eru mikilvæg, líka fullorðnum börnum.

Höfundur er Valgerður Halldórsdóttir félags- og fjölskylduráðgjafi, sáttamiðlari

 

Börn hafa plön!

Eftir Börn og ungmenni

Ertu hjá pabba þínum eða mömmu um helgina?“ spurði Anna Helgu vinkonu sína sem svaraði því til að hún yrði hjá pabba sínum frá föstudegi til fimmtudags. Anna gat ekki leynt vonbrigðum sínum og spurði hvort hún yrði að fara. „Já þetta er vikan hans pabba“ svarði Helga sem hlakkaði til að hitta hann, en hún vildi líka leika við Önnu. Hún þekkti engan í nýja hverfinu hans pabba en hann hafði kynnst konu sem átti börn og vildi hún ekki flytja úr sínu hverfi. Það gekk vel hjá börnunum hennar í skólanum og svo bjó pabbi þeirra líka í sama hverfi.

Ástin spyr ekki um skólahverfi

Ástin spyr ekki um skólahverfi barnanna en hún getur flækt veruleiki barna sem eiga foreldra á tveimur heimilum. Fyrir utan þá staðreynd að þau sjálf þurfa að aðlagast nýjum aðstæðum þá þurfa vinir þeirra að gera það líka. Það er ekki alltaf auðvelt fyrir vinina og foreldra þeirra að átta sig á hvar þau eru frá dag til dags eða við hvern á að hafa samband þegar á þarf að halda. Eiga þeir að tala við báða foreldra eða á að vera í sambandi við stjúpforeldrið – annað eða bæði?

Vinátta er mikilvæg 

Vinátta er börnum mikilvæg. Vinir eru ekki eingöngu uppspretta skemmtunar, þeir eru líka ómetanlegur stuðningur þegar á móti blæs. Þó vináttusambönd grunnskólabarna eru sterk eru þau ekki alltaf þau áreiðanlegustu. Til að vinatengslin haldi þarf sífellt að endurnýja þau. Meiri hætta er á að besti vinurinn snúi sér eitthvað annað ef aðeins er hægt að leika eftir skóla aðra hvora viku, með tilheyrandi sorg og vanlíðan. Að vera útundan í vinahópnum er vond tilfinning – en hún er líka algeng í stjúpfjölskyldum í fyrstu. Það er því mikilvægt að foreldrar styðji börn sín og auðveldi þeim að hitta reglulega vini sína óháð því hvort vinirnir eru í pabbahverfi eða mömmuhverfi. Aðeins hluti barna búa í göngufæri við báða foreldra sína en í rannsókn á íslenskum ungmennum frá 2008 kom í ljós að aðeins 20% barna bjó í göngufæri við báða foreldra sína, 45% í 10-30 mínútna akstursfjarlægð og 35% í mikilli fjarlægð.

Sum hætta íþrótta- og tómstundastarfi

 

Fjarlægðir kalla á að báðir foreldrar séu tilbúnir stundum til að skutla börnum sínum á milli hverfa og að þeir kenni þeim á strætó þegar þau hafa aldur til. Séu heimilin opin fyrir vinum barnanna og þeim stundum boðið með í heimsókn og ferðir, auðveldar það þeim að halda vináttunni gangandi og aðlögun í nýjum aðstæðum. Það þarf líka að tryggja að börn komist áfram í tómstundir og í íþróttir óháð hvar þau eru hverju sinni. Rannsóknir benda til að meiri líkur eru á því að börn hætti íþróttastarfi hafi vinir þeirra hætt að mæta svo hér hafa allir foreldrar og börn óháð fjölskyldugerð, hagsmuna að gæta.

Við þurfum að taka höndum saman. Það eru ekki bara skólar, íþróttafélög eða foreldrar sem hafa plön – börn hafa þau líka. Spurningin er hvort við áttum okkur alltaf á því?

Valgerður Halldórsdóttir félags- og fjölskylduráðgjafi

Börn með tvö heimili – hvað vilja þau að við vitum? Erindi

Eftir Námskeið

Reynsluheimur barna sem eiga tvö heimili og síðan foreldra þeirra, stjúpforeldra, kennara og annarra sem að þeim koma er nokkuð ólíkur. Fæstir hinna fullorðnu skipta reglulega um heimili tvisvar til þrisvar í mánuði eða eru sett í þá stöðu að þurfa að aðlagast ólíkum reglum á heimili sínu með reglulegu millibili svo eitthvað sé nefnt.

Flestir hinna fullorðnu leggja sig fram við að auðvelda börnum og ungmennum skipti á milli heimila og börnin ná oftast að aðlagast með tímanum.

Sumum börnum reynast þessi umskipti þó erfið og þau verða kvíðin, hvort sem þau búa hjá einhleypu foreldri (á öðru heimili sínu eða báðum) eða í stjúpfjölskyldum ( á öðru heimili sínu eða báðum). Í stjúpfjölskyldum verða foreldra oft minna innstilltir inn á þarfir barna sinna í fyrstu og það reynir á að vera einn á vakt sem einhleypt foreldri í uppeldinu. Einnig er algengt að stjúpforeldri er óvisst um sitt hlutverk.

Börnum er það mjög  mikilvægt að foreldrasamvinnan gangi vel fyrir sig sem og samvinna stjúpforeldris og foreldris á heimili – sem og stuðningur samfélagsins í heild sinni.

Börn láta gjarnan líðan sína í ljós með hegðun sem foreldarar og stjúpforeldrar geta túlkað á ólíkan hátt og eru mis umburðarlyndir fyrir. Mikilvægt er að reyna skilja stöða barna sem eiga tvö heimili og ala ekki á streitu.

Erindið er 40 mínútur og gert er ráð fyrir ráð fyrir umræðum á eftir en ekki nauðsynlegt. Þær stofnanir/fyrirtæki sem óska eftir erindinu eða öðrum hafi samband við

Valgerður Halldórsdóttir félags- og fjölskylduráðgjafi, kennari, sáttamaður í síma 6929101 eða í gegnum netfangið stjuptengsl@stjuptengsl.is

Hentar vel m.a. vel fyrir kennarafundi á öllum skólastigum, fyrir starfsdaga, sem hádegiserindi – og inn í reglulega fræðslu fyrir þá sem starfa með börnum og ungmennum og fjölskyldum.

 

Glíma stjúpur við „fæðingarþunglyndi?

Eftir Stjúpforeldrar

Erlendar rannsóknir benda til að stjúpmæður geta upplifað mikla streitu í uppeldishlutverki sínu og að þær séu vanmetnar bæði af öðrum fjölskyldumeðlimun þ.e. stjúpbörnum og maka, og samfélaginu í heild.

Flestar stjúpmæður fara í nýtt samband með góðum hug og vilja til að láta hlutina ganga með börnin, stundum of langt og á þeirra eigin kostnað. Erlendar rannsóknir benda til að stjúpmæður geta upplifað mikla streitu í uppeldishlutverki sínu og að þær séu vanmetnar bæði af öðrum fjölskyldumeðlimun þ.e. stjúpbörnum og maka, og samfélaginu í heild.fylgir ákveðin hætta á þunglyndi og margar eru einmanna í þessum mjög svo algengum sporum en um 75-80% fólks fer í ný sambönd eftir skilnað. Þó þær glími ekki við fæðingarþunglyndi í þeirri merkingu orðsins en full ástæða er til að rannsaka betur hvað það er sem veldur. Líðan stjúpmæðra bitnar ekki eingöngu á þeim sjálfum heldur benda rannsóknir til að tengsl eru á milli andlegrar heilsu umönnunaraðila eins og stjúpmæðra og andlegrar heilsu barna. Það er því mikilvægt að stjúpmæður taki ekki meira að sér en þær raunverulega treysta sér til þegar kemur að stjúpbörnunum að ótta t.d. við að vera“leiðinlegar“.

Félagslegur stuðningur er ein besta vörnin gegn streitu og þunglyndi. Samfélagið hefur hinsvegar og því miður einkennst af hálfgerðri stjúpblindu þar sem ekki er komið auga á stjúptengsl eða gert ráð fyrir þeim í rannsóknum eða stefnumótun í samfélaginu né miklum stuðningi. Jafnvel ekki hjá stjúpfjölskyldunum sjálfum og fundnar eru til ýmsar skýringar á því af hverju viðkomandi tilheyrir ekki stjúpfjölskyldu eins og að börnin búi ekki hjá viðkomandi að staðaldri, þau hafi ekki sama lögheimili eða þau séu orðin svo fullorðin. En stjúpfjölskylda er skilgreind sem fjölskylda þar sem annar eða báðir aðilar koma með barn eða börn úr öðrum samböndum.

Skortur á viðurkenningu

Þessi skortur á viðurkenningu er víða og sumri reyna að fela það að þeir búa í stjúpfjölskyldum. Sumir ganga jafnvel svo langt að segja að viðkomandi stjúpfaðir eða stjúpmóðir sé meira eins og pabbi eða mamma þar sem viðkomandi er svo góð/ur! Rétt eins og stjúpforeldar geti ekki verið góðir. Við vitum að þessi ímynd kemur úr ævintýrunum en það er ekki hægt að horfa framhjá því sem kemur fram bæði í erlendum og innlendum rannsóknir það getur reynt meira á í stjúpfjölskyldum sem kemur m.a. fram í tölum um ofbeldi innan fjölskyldunnar og ungmenni fari fyrr að heiman. Það er því mikilvægt forvarnarverkefni að styðja við stjúpforeldra og stjúpfjölskyldur í heild sem og að tryggja að börn og ungmenni haldi tengslum við báða foreldra sína eftir skilnað og líka þegar farið er í stjúpfjölskyldu.
Það er mitt mat að eitt stærsta velferðarmál samtímans sé að þétta tengslanet barna og fjölskyldna þeirra. Fordómar, óvissa og lítill félagslegur stuðningur við stjúpfjölskyldur getur gert það að verkum að þessi stuðningurinn fer oft forgörðum í stað þess að gera fjölskyldunetið ríkara þegar vel tekst til.

Stjúpuhittingur

Til að bregðast við þessari þörf sem ég þekkti sjálf vel á sínum tíma ákvað ég í í vetur eftir nokkuð hlé að bjóða upp stjúpmæðrahópa sem ganga undir nafninu „Stjúpuhittingur“ og eru konurnar frá 5-8 í hóp ásamt leiðbeinanda. En ég legg áherslu á að hóparnir séu persónulegir og allar konur fái sinn tíma til að tjá sig en það er nú oft þannig að leið og við orðum hlutina upphátt, í öruggu umhverfi og án þess að vera trufluð finnum við okkar eigin lausnir.

Í hópunum tökum fyrir ákveðin verkefni og ræðum í hópnum. Ég hef haft þá venju að biðja þær um að senda mér póst þar sem fram kemur hvað þær vilja fá út úr hópnum. Það er ótrúlega oft það sama sem þeim langar til að ræða og það sem stendur upp úr og er nánast í öllum póstum er að þeim langar að kynnast öðrum stjúpum, fá ráð frá þeim sem eru í svipuðum sporum og fá staðfestingu á því að líðan þeirra sé normal, þær séu ekki einar um að líða „svona. Mitt hlutverk er að leiða hópinn, leggja fyrir verkefni og stutt innlegg úr fræðunum þegar við á.

Hóparnir eru lokaðir og skiptir trúnaður þar öllu máli. Þetta hefur verið einstaklega gefandi og skemmtileg vinna og er bæði grátið og helgið og allt þar á milli. Á fyrsta fundi förum við m.a. yfir þessa punkta sem þær senda mér án þess að nefna hver sendi hvað og síðan fá þær heimaverkefni sem farið er í næsta tíma. Eftir fyrsta tímann er upplifa margar konur eins og þungu fari sé af þeim létt en sumar finna líka fyrir gremju yfir ýmsu sem upp hefur komið og ekki náðst að vinna úr. Það má kannski segja að vera í slíkum hóp hjálpar þeim m.a. að vinna úr hlutunum og gefur þeim kjark til að takast á við hluti milli funda eins og að setja mörk og ræða viðkvæm mál. Við áherslu á að koma auga á það sem vel gengur og gera meira af því sem virkar. Það sem mér hefur fundist skipta konurnar mestu máli er að hitta aðrar konur í öruggum aðstæðum og ræða stjúpmóðurhlutverkið sem hvílir þungt á mörgum konum. Fara í sjálfsskoðun og heyra í öðrum í sömu sporum en við lærum mikið af hvor annarri.

Vita hvað þær eiga ekki að vera!

Flestar stjúpmæður eru meðvitaðar um hvað þær eiga ekki að vera þ.e. mæður stjúpbarna sinna, enda eiga flest þeirra mæður. Þær vilja heldur ekki vera vonda stjúpan í ævintýrunum. En hvert er þá hlutverk stjúpmóðurinnar? Margar komast að því að þær hafa leyft öðrum að skilgreina það fyrir sig og það hafi ekki hjálpað að vilja ekki vera „leiðinleg“ og setja því ekki sjálfum sér og öðrum mörk. Með því að læra hvað er normalt fyrir stjúpfjölskyldur og vera með raunhæfar væntingar, velja sér sjálf það hlutverk sem hún vill vera í og prófa sig áfram, sem og taka áhættina á að „vera leiðinleg“ sem felur ekkert annað í sér en að setja viðeigandi mörk og skapast góður grunnur fyrir gott fjölskyldulíf. Það verður hinsvegar mikilvægt að taka fram að það er ekki á ábyrgð stjúpunnar einnar að bæta fjölskyldulífið en það verður nú að segjast eins og að oftast eru það konur sem draga vagninn í fjölskyldumálum. Á námskeiðinu öðlast flestar þann kraft og ekki síst sjálfsöryggi sem til þarf að fara í þá vinnu sem til þarf svo öllum líði vel í fjölskyldunni. Oftast er makinn áhugasamur um það sem fram fer og parið fer í að skoða málin meira saman – sem er lykilatriði.

 

Valgerður Halldórsdóttir, félags- og fjölskyldráðgjafi, sáttamaður

 

Instagram