Skip to main content
Börn og ungmenni

Koma börnin aðeins boðin?

boð

„Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að segja við pabba þegar hann hringir. Það er oft svo vandræðaleg þögn í símanum þegar hann er búinn að spyrja um þetta vanalega: Hvernig er í skólanum? Alltaf í fótboltanum? Það er meira eins og að hann hringi af skyldurækni en að honum langi til þess“ sagði Palli við mömmu sína.

Einu sinni fannst honum að hann skipti pabba sinn máli en það er langt síðan. Allur tími pabba hans fór í vinnu, Heru og hennar fjölskyldu sem hann var ekki hluti af. Honum fannst pabbi sinn hafa svikið sig.

„Ég reyni að vera í sambandi við Palla, en hann er alltaf svo upptekin þegar ég hringi og ekki hringir hann í mig. Það er kannski ekki skrýtið enda á lokaári í menntaskóla og upptekinn af vinunum. Mér sýnist á feisbúkk að hann sé kominn með kærustu, en er ekki viss. Skrýtið hvernig hlutirnir þróast, við sem vorum svo nánir“ sagði pabbi Palla við Heru. Honum fannst eins og að hann væri að horfa á líf fjara út þegar hann fann hvernig tengslinn milli þeirra feðga voru að rofna. Hann varð hræddur.
Áhrif skilnaðar á tengsl uppkominna barna og foreldra

Í huga flestra eru börnin okkar eru alltaf börn okkar, líka þegar þau verða fullorðin. Hinsvegar breytast samskiptin og áhyggjurnar verða aðrar. Þó stóru börnin þurfi ekki daglega leiðsögn foreldra skiptir þau áfram máli að finna ást, hlýju og stuðning þeirra. Foreldrar uppkominn barna veita þeim oft mikilvægan tilfinningalegan – og ekki síður hagnýtan stuðning eins og húsnæði, peninga og pössun barnabarna. Fyrir utan allar góðu stundirnar sem hægt er að eiga saman. Vonandi njóta síðan foreldrar stuðnings þeirra á efri árum þegar þar að kemur. Það er hinsvegar ekki alltaf hægt að ganga að gagnkvæmum stuðningi eins vísum, ef til skilnaðar kemur.
Rannsóknir sýna að skilnaður foreldra í æsku getur haft áhrif á tengsl foreldra og barna á fullorðinsárum. Jafnvel þó skilnaðir eru jafn algengur og þeir eru, hefur tengslarof milli foreldra og barna í kjölfar skilnaðar fengið of litla athygli.

Þekktustu ástæður þess að foreldri og barn missa tengsl er þegar annað foreldrið meinar hinu að hafa samskipti við barnið með tálmunum eða þegar foreldrar eiga í miklum og langvarandi deilum eftir skilnað. Hætt er á að tengsl barna við foreldra skaðist í deilum. Þau læra smá saman að ekki er hægt að treysta þeim fyrir líðan sinn og löngunum án þess að þær virki eins og olía á eld í deilum þeirra.

Börnin láta þá gjarnan í ljós vanlíðan sína með erfiðri hegðun eða með því loka allt inni. Þetta mjög einmannaleg og skaðleg staða fyrir barn og elur á kvíða og óöruggi. Stundum langt fram á fullorðins ár. „Mig hefur alltaf dreymt um að gifta mig en satt að segja hef ég alltaf frestað því, þar sem ég veit ekki hvernig mamma og pabbi munu haga sér“ sagði ung kona við mig um daginn, sem var fórnarlamb forsjárdeilu fyrir 19 árum.

Mikilvægt er að foreldrar fái aðstoð við að leysa deilur sínar með hagsmuni barna að leiðarljósi. Ég efast hinsvegar um að að það sé heppilegast leiðin að fá lögfræðinga til að leysa samskiptavanda foreldra. Í mörgum tilvikum ætti að meðhöndla slíkar deilur sem barnaverndarmál. Andleg líðan foreldra í þessum aðstæðum er of mjög slæm og getur m.a. bitnað starfi þeirra, heilsu og foreldrahæfni. Eða eins og ein mamman sagði „ég er aldrei eins léleg mamma og þegar þegar ég hef rifist við minn fyrrverandi“.

Góð samskipti foreldra en slitrótt tengsl

Oft eiga foreldra ágæt samskipti eftir skilnað og aðlagast lífinu vel sem einhleypir foreldrar. Þegar hlutirnir róast, upplifa börn oft góðan tíma með foreldrum sínum eftir skilnað. Þau fá oft óskipta athygli og tíma foreldra. Sumir einhleypir foreldrar falla í þá gryfju að eiga ýmisskonar samráð við börn sín um hluti sem þeir áttu áður við maka sinn eins og hvað eigi að kaupa í matinn eða fara í frí. Sum taka upp á því að sofa aftur upp í, þó þau hafi verið löngu hætt því fyrir skilnað. Flest börn kunna vel að meta þessar breytingar. Hinsvegar er óvíst að þau verði jafn spennt þegar foreldri þeirra fer í nýtt sambandi og nýja kærastan eða kærastinn vill hafa eitthvað um það að segja hvað er í kvöldmatinn. Eftir skilnað verða til nýjar venjur í lífi foreldris og barna. Sund á föstudögum, bíóferðir eða göngutúr með hundin svo eitthvað sé nefnt. Svona venjum er hinsvegar mikilvægt aðl halda áfram í nýju sambandi.

Þegar barn fær tíma og athygli er engin ástæða að efast um um ást foreldris. Það finnur að það skiptir máli, er öruggt með tengslin og getur leitað til foreldris í gleði og sorg. Á þessum tímapunkti er lítið sem bendir til að tengslin sem fráskildir foreldra óttasta hvað mest að missa, geti breyst. Jafnvel þó komi að því unglingurinn vilji að vera meira á öðru heimilinu en hinu, vill hann áfram báða foreldra í lífi sínu. Það þarf bara að finna nýjan takt sem passar.

Finnum ástina – og töpum barninu?

Sem betur fer missum við ekki trú á ástinni þó svo við förum í gegnum skilnað. Flest okkar fara í samband á ný og sum fleiri en eitt. Þegar vel tekst til geta stjúptengsl verið góð viðbót og gert líf bæði foreldra og barna innihaldsríkara en ella. Rannsóknir benda reyndar til að aðlögun að stjúpfjölskyldu krefst tíma og er oft meiri áskorun fyrir börn, en að aðlagast skilnaði foreldra. Þar sem flækjustigið er töluvert hærra, mælist oft meiri streita og álag í stjúpfjölskyldum en í kjarnafjölskyldum.

Ýmsar ástæður geta legið þar að baki. Ætla má að það sem skiptir mestu máli, eru þau áhrif sem stjúptengsl geta haft á tengsl foreldra og barna. Innlendar og erlendar rannsóknir sýna að börn sem hafa upplifað skilnað foreldra sinna fá minni fjárhagslegan og tilfinningalegan stuðning en þau sem búa með báðum foreldrum sínum. Erlendar rannsóknir sýna jafnframt að fráskildir feður sem fara í samband að nýju, eiga sjaldnar samskipti við börn sín úr fyrra sambandi og veita þeim síður fjárhaglega aðstoð en fráskyldir einhleypir feður. Stundum réttlæta foreldrar og stjúpforeldrar minni stuðning og afskiptaleysi með því að börnin eru orðin svo stór eða fullorðin að þau þurfi ekki á þeim að halda. Það sama virðist ekki eiga við um sameiginleg börn þeirra eða þau sem teljast búa á heimilinu skv. rannsóknum.

Það er því ekki óeðlilegt að barn, geti efast um ást foreldrisins og um mikilvægi sitt í lífi þess þegar fókus foreldrisins fer nánast alfarið á nýjan maka , sem jafnvel tekur heimilið og foreldrið „yfir“ af mikilli röggsemi. Þau fá ekki upplýsingar eða þeim ekki boðið með í sumarfrí eða annað. Stutt er í reiði, höfnun og að barn viliji forðist aðstæður ef ekkert er að gert. Yngri börn ráða oftast engu um veru sína og þurfa að hlýða ákvörðunum foreldra sinna hvar þau eru hverju sinni. Fullorðin börn geta komið og farið að vild. Það má því velta fyrir sér, ef uppkomnu börnin okkar koma aðeins þegar þeim er boðið – hvort við megum leggja okkur meira fram við að rækta tengslin? Maður á mann samskipti eru mikilvæg, líka fullorðnum börnum.

Höfundur er Valgerður Halldórsdóttir félags- og fjölskylduráðgjafi, sáttamiðlari

 

Instagram