Skip to main content

Ég þoli ekki hvernig stjúpsonur minn lokar sig af inni í herbergi og vill ekki segja hvað er að þegar hann er hjá okkur. Hann stjórnar bæði manninum mínum og heimilinu með fýlu og leiðindum. Af hverju ætti hann að fá einhverja aðra athygli eða þjónustu en hin börnin á heimilinu? Ég er viss um að mamma hans talar illa um okkur.

Það sannarlega til að foreldri tali illa um stjúpforeldri og fyrrum maka í eyru barns. Illt umtal og langvarandi ágreiningur foreldra er barni skaðlegur. Líkur eru á að barn hætti að treysta foreldrum sínum fyrir líðan sinni ef það verður til þess að deilur þeirra magnast og geri hlutina jafnvel enn verri en áður. Yfirsýn foreldris yfir líf barna sinna minnkar enn frekar. Fyrir utan að börnin dvelji kannski aðra hvora viku á heimili fyrrverandi maka og hans maka eru líkur á að foreldrar fái hvorki að vita um gleðistundir eða erfiðleika sem tengjast hinu heimilinu. Börn læra að að rugga ekki bátnum „ að óþörfu“. Í stað þess að vera með puttann á hinu foreldrinu og maka þess má kannski spyrja sig, hvað er í mínu valdi til að bæta samskiptin barnanna minna vegna? Nú svo er fátt meira óspennandi og dregur allt súrefnið úr parasambandinu en deilur maka við hans/hennar fyrrverandi. Takist fólki ekki að finna út úr deilunum sjálft má alltaf leita til fagfólks.

Það getur hinsvegar verið gagnlegt að áður en „fyrrverandi“ er dreginn inn í samtalið og honum kennt um hvernig gangi að skoða með opnum huga aðstæður barna á eigin heimili. Sérstaklega í ljósi þess að það reynist mörgum börnum erfiðara að verða hluti af stjúpfjölskyldu en skilnaður foreldra. Ástæðurnar geta verið margvíslegar en jafnvel þó svo að börnum líki ágætlega við stjúpforeldri sitt upplifa þau margvíslegan missi. Algengt umkvörtunarefni barna í stjúpfjölskyldum er að þau fái sjaldan eða aldrei tíma ein með foreldri sínu, það sé ekki gert ráð fyrir þeim, stjúpforeldri grípi sífellt inni í samskipti þeirra við foreldrið sitt, foreldrið virðist vera undir hælnum á stjúpforeldrinu og hlutirnir hafi gerst allt of hratt. Settar séu nýjar reglur og venjur sem þau eigi að tileinka sér á stuttum tíma. Sumum finnst að það sé gert upp á milli þeirra og annarra barna sem tilheyra fjölskyldunni. Auk þess sem þau fái síður að vita „hvað er í gangi“ á heimilinu en hálf – og stjúpsystkini þeirra. En efinn um ást foreldris og að það standi með því þegar á þarf að halda, reynist þeim erfiðastur.

Börn láta gjarnan líðan sína í ljós með hegðun sinni. Finni þau sig velkomin og eru örugg um ást foreldrisins og vingjarnlegt viðmót stjúpforeldrisins eru meiri líkur á að þau aðlagist vel. Börn sem sýna hinsvegar erfiða hegðun lenda sum í hlutverki blórabögguls á heimilinu. Stjúpforeldri getur átt það til að réttlæta framkomu sína og slæma líðan með hegðun barnsins og leita sífellt að vísbendingum, stundum raunverulegum en oftast ímynduðum, um að eitthvað sé að barninu. Finni foreldri og stjúpforeldri ekki viðeigandi leiðir til að takast á við þessar aðstæður eða læra að fyrirbyggja þær, er hætta á að „lausn“ vandans komi hann upp, felist í stopulum samskiptum eða skorðið sé á öll tengsl við barnið. Börn þurfa fullvissu um að þau skipti foreldra sína máli og ekki sé skorið á tengslin við þau vegna erfiðra samskipta milli foreldra eða í stjúpfjölskyldunni sjálfri. Þegar horft er á hegðun og líðan barna í stjúpfjölskyldum er vert að hafa í huga að stærsti hluti þeirra hafa áður upplifað missi og breytt tengsl við foreldra sína, sérstaklega við feður.

Instagram