Skip to main content
All Posts By

valgerdur

60plus

Nýtt sett af afa og ömmu

Eftir Fjölskylda

Skilnaður foreldra hefur áhrif á afa og ömmur. Í kjölfarið breytast oft samskiptin við barnabörnin. Algengt er að móðurforeldrar sjái meira af þeim en föðurforeldrar. Þó skiptir miklu máli fyrir líðan og öryggi barnanna að þau fái áfram að halda tengslum við báða afa sína og ömmur. Á umrótartímum, sem skilnaður er, geta þau verið mikilvægt skjól og stuðningur við börnin. Flestir samgleðjast börnum sínum, þegar þeir finna sér nýjan maka, en tilkoma hans getur haft áhrif á sambandið við barnabörnin.

Á það sérstaklega við ef þeir hafa verið í mikilvægu stuðningshlutverki áður, ef til vill veitt bæði húsaskjól og barnapössun. Aðstæðurnar geta orðið enn flóknari ef t.d. nýja tengdadóttirin/nýi tengdasonurinn á börn úr fyrra sambandi. Kröfur eru gerðar til þess að afinn og amman aðlagist þeirri staðreynd að þau hafi eignast nýja tengdadóttur/nýjan tengdason, hugsanlega stjúpbarnabörn líka, og á sama tíma minnka jafnvel tengslin við þeirra eigin barnabörn.

En hvert er hið nýja hlutverk þeirra? Stjúpafi og stjúpamma geta gengt mikilvægu hlutverki fyrir stjúpfjölskylduna, haft uppbyggileg áhrif á hana og þjappað henni saman. Má t.d. ímynda sér að sameiginlegar hefðir fjölskyldunnar, venjur sem binda hana saman, verði líka til fyrir tilstilli elstu kynslóðarinnar og haldið við af henni. Oft eru stjúpbörn frekar tilbúin til að viðurkenna nýtt sett af afa og ömmu en nýtt stjúpforeldri. Þau lenda síður í hollustuklemmunni, sem þau geta lent í gagnvart stjúpforeldri, þ.e. það verður síður litið á það sem svik að þau tengist nýjum afa og ömmu.

Ekki eftir pöntun

Allir þurfa að gefa sér tíma til að kynnast í rólegheitunum. Það er t.d. alls ekki sjálfsagt að nýja stjúpbarnabarnið vilji kyssa stjúpömmu sína bless og faðma hana eins og hin barnabörnin. Eða að stjúpafi og stjúpamma séu alveg tilbúin að passa stjúpbarnabarnið jafn mikið og önnur barnabörn. Hreinskiptar samræður, þar sem allir fá tækifæri til að setja fram skoðanir sínar og lýsa væntingum sínum, eru best til þess fallnar að koma í veg fyrir vonbrigði og gremju. Góð byrjun er að opna umræðuna og stilla kröfum í hóf. Tilfinningar foreldra til stjúpbarna sinna rista yfirleitt ekki jafn djúpt og tilfinningarnar til eigin barna, þótt þess séu vissulega dæmi, og því er varla hægt að ætlast til þess af eldri kynslóðinni. Ást kemur ekki eftir pöntun. Þess vegna getur það verið mikill léttir fyrir stjúpafa og stjúpömmur að vita að þess sé ekki krafist að þau elski stjúpbarnabörnin jafn innilega og barnabörnin. Að þessu sögðu er samt rétt að benda á nauðsyn þess að taka tillit til þarfa og þroska barnsins. Einkum ung börn eiga bágt með að sætta sig við mismunun. Eldri börn geta sýnt því skilning að blóðtengsl séu nánari en stjúptengsl, svo framarlega sem þau finna að gert sé ráð fyrir þeim að öðru leyti og þau verði ekki fyrir meðvitaðri höfnun. Oft birtist þetta í gjöfum. Að mínu mati er æskilegast að gjafir séu á svipuðum nótum ef samskipti milli stjúpsystkina eru mikil. Það kemur í veg fyrir særindi og öfund. Gjafir þurfa ekki að vera mælikvarði elsku.

Mismunandi tengsl

Ekki þarf að vera neitt óeðlilegt við að stjúpafi og stjúpamma myndi mismunandi tengsl við barnahópinn eða að börnin í hópnum tengist þeim á mismunandi hátt. Aldur barna skipir t.a.m. máli. Litlum börnum finnst ekkert undarlegt að eiga marga afa og ömmur, – það er jafnvel auglýst eftir þeim í blöðunum til að sinna börnum í hefðbundnum kjarnafjölskyldum! –, og þótt eldri börn óski ekki sérstaklega eftir aukapari af afa og ömmu geta þau orðið góðir bakhjarlar síðar á lífsleiðinni, þegar þau fara sjálf að uppfylla jörðina. Heimsmynd lítilla barna er allt önnur en fullorðinna. Þau hafa hag af því að einfalda hlutina – og mættum við oft fara að dæmi þeirra – og hafa lítið fyrir því að eigna sér nýjan afa og ömmu, þótt þau líti ekki svo á að stjúpforeldrið sé pabbi eða mamma. Afar og ömmur hafa líka lag á að setja hagsmuni barnanna ofar öðru. Hvað sem líður hugsanlegum skilnaðarátökum eða öðrum erfiðleikum brjóta þau oft odd af oflæti sínu þegar heill barnabarnanna er í húfi, enda ættu þau frekar að geta leitt vandamálin hjá sér og reynt að standa utan við þau. Samt þarf að sýna því skilning að fyrrverandi tengdaforeldrar geti átt erfitt að tengjast nýjum maka, sem “tekur sæti” dóttur þeirra eða sonar, stjúpforeldri barnabarna þeirra. Hafa þarf í huga og virða við fyrrverandi tengdaforeldra að þeir glími við margháttaðar og andstæðar tilfinningar. Þeir hafa þörf fyrir barnabörnin sín og barnabörnin fyrir afa sinn og ömmu.

Deildaskipt fjölskylda

Með það í huga að stjúpfjölskyldan verður ekki “blönduð” eða “maukuð”, eins og áður var minnst á, getur verið gott að treysta burðarvirki hennar með því að efla þau tengsl sem fyrir eru og smám saman mynda ný tengsl. Aðferð til þess er t.d. að “deildaskipta” fjölskyldunni öðru hvoru. Það ýtir nefnilega undir átök og streitu að ætla sífellt að gera alla hluti saman. Gefa þarf afa og ömmu tækifæri til að sinna barnabörnum sínum án stjúpbarnabarnanna – og stjúpbarnabörnin þurfa líka tækifæri til að tengjast stjúpafa sínum og -ömmu án hinna barnabarnanna. Liður í að efla tengslin innan stjúpstórfjölskyldunnar felst í því að skipta henni upp af og til, en svo á auðvitað stundum að hrista hópana saman. Stjúpfjölskyldan er – svo vísað sé í sjálfan James Bond – betri “hrist” en “blönduð”.

Dæmi

  •  Af misskilinni hollustu við fráskilinn son sinn ákvað amma að umgangast barnabörn sín minna áður, þar sem þau bjuggu hjá fyrrverandi tengdadóttur hennar. Hún sá því mun meira af stjúpbarnabörnum sínum en barnabörnum sínum. Barnabörnin upplifðu það sem svik við sig.
  • Afi og amma ákváðu að gefa barnabörnunum meiri og veglegri gjafir en stjúpbarnabörnunum í þeim tilgangi að bæta þeim upp erfiðleikana í kringum stofnun nýrrar fjölskyldu. Mikill aldursmunur var á börnunum og fannst stjúpbörnunum það í góðu lagi, þótt þeirra gjafir væru minni. Þau áttu ekki von á neinu hvort sem er, þekktu stjúpafa og -ömmu lítið og gerðu ekki sömu kröfur til þeirra og sinna eigin afa og ömmu.
  • Afa og ömmu fannst það vera svik við barnabörnin að gefa þeim og stjúpbarnabörnunum jafn dýrar gjafir, þótt börnin ættu sameiginlegt hálfsystkin. Framkoma þeirra ól á afbrýðisemi í systkinahópnum og olli deilum milli maka.
  • Amma óttaðist viðbrögð barnabarnanna ef hún sýndi nýju stjúpbörnunum umhyggju. Á sama tíma óttaðist hún viðbrögð sonar síns og tengdadóttur ef hún sýndi þeim ekki nægjanlega umhyggju. Hún vissi eiginlega ekki hvernig hún ætti að haga sér. Það sem áður veitti henni gleði, olli henni áhyggjum.
  • Afi og fyrrverandi tengdasonur voru miklir mátar og hittust oft með barnabörnunum. Afinn útilokaði nýja tengdasoninn af ótta við að missa sambandið við barnabörnin. Amma óttaðist mest að nýja tengdadóttirin mundi gera upp á milli barnabarna sinna, stjúpbarna sinna, og hennar eigin barna.

e. Valgerði Halldórsdóttur, félags- og fjölskylduráðgjafi

Maðurinn minn mismunar börnunum

Eftir Börn og ungmenni

Ég á eitt barn frá fyrra hjónabandi og 9 mánaða dóttur með núverandi manninum mínum sem hann fer með eins og “prinsessu”. Hún er eina barnið hans. Hann virðist lítið vilja vera með mínu barni og það er eins og að það sé fyrir honum. Í hvert sinn sem ég reyni að ræða þetta við hann finnst honum að eina lausnin sé að við skiljum. Hvað get ég gert til að halda fjölskyldunni saman?

 

Svar:

Komdu sæl

Auðvitað langar alla, sem fara að búa saman, til að hlutirnir gangi upp, sérstaklega þegar börn eru með í spilinu. Hinsvegar liggur ekki alltaf í augum uppi hvernig best sé að skapa ánægjulegt fjölskyldulíf. Mikill munur er á því að stofna stjúpfjölskyldu, þar sem fyrir eru tengsl milli foreldra og barna, eða hefðbundna kjarnafjölskyldu, sem börnin fæðast inn í og foreldrarnir mynda tengsl við samtímis.

Stjúpfjölskyldur geta ekki fylgt sama mynstri og hefðbundnar kjarnafjölskyldur þar sem börnin eru öll afsprengi sömu foreldra. Ég hef líkt því við bílstjóra sem reynir að rata um Reykjavík eftir korti yfir Kópavog!

Raunhæfar væntingar skipta sköpum fyrir stjúpfjölskylduna. Til dæmis er ekki hægt að búast við að stjúpforeldri elski stjúpbörn sín á sama hátt og kynforeldri eða að ætlast til að það komi í stað kynforeldris barnanna – þótt það geti auðvitað átt við í sumum tilvikum.

Þú segir að maðurinn þinn fari með dóttur sína eins og „prinsessu“. Þannig erum við flest gagnvart börnum okkar sem betur fer. Hann hefur fylgst með meðgöngunni, fæðingu hennar og uppvexti frá upphafi og myndað náin tengsl við hana.

Stjúpforeldrar og stjúpbörn þurfa góðan tíma til að mynda tengsl. Almenn kurteisi er upphaf góð sambands og setur samskiptunum eðlilegan ramma. Ágæt byrjun fyrir stjúpforeldra er að haga sér eins og velviljaður ættingi.

Óskastaða flestra er að samskiptin verði ánægjuleg og gjöful og því er mikilvægt að gera sér grein fyrir við hverju sé að búast. Óraunhæfar væntingar eru uppskriftin að átökum og vonbrigðum. Fræðsla er því mikilvæg og viðurkenning.

Sumir stjúpforeldrar vilja fara hægar í sakirnar en aðrir. Kynforeldri getur túlkað slíkt viðhorf sem höfnun á börnunum. Þess háttar afstaða kynforeldris, sem er hugsanlega sprottin af óþarfa viðkvæmni, kann að auka á vandann. Parið í stjúpfjölskyldum þarf að ræða væntingar sínar varðandi börnin af hreinskilni og hreinsa loftið. Ríki gagnkvæmur skilningur er líklegra að kynforeldri og stjúpforeldri geti stutt hvort annað og forðast átök og togstreitu.

Af bréfi þínu að dæma kennir þú manninum þínum um það sem aflaga fer. Það getur vel verið rétt hjá þér. En er hugsanlegt að eitthvað vanti á samráð ykkar á milli? Það kemur ekki fram hvað barnið þitt er gamalt en því yngri sem stjúpbörnin eru þeim mun betur gengur stjúpforeldri að nálgast þau. Eldri börn hafa sjálf óskir og væntingar sem þarf að taka tillit til auk þess sem þau hafa oft vanist aðstæðum sem taka breytingum þegar kynforeldrarnir eignast nýjan maka. Breytingum fylgir oft óvissa.

Eigi að reyna að leysa vanda er ekki er vænlegt að nefna skilnað í hvert sinn sem eitthvað bjátar á. Slík viðbrögð grafa undan sambandinu og skapa óöryggi. Þau benda líka til að þið hafið um langt skeið tekist á um þetta atriði, kannski fleiri.

Ég held að það sé algert lykilatriði að þið reynið að ræða saman og ákveða að vera saman í liði í stað þess að hlaupa út af vellinum þegar illa gengur! Til að stjúpfjölskyldunni gangi vel má parið ekki gleyma að rækta samband sitt. Barnsfaðir þinn og maki þarf að endurskoða sína afstöðu og spyrja sig hvað hann sé raunverulega tilbúinn að leggja á sig til að samband ykkar gangi upp og fjölskyldan haldi velli.

Stundum er málum þannig háttað að nauðsynlegt er að ræða við fagmann s.s. félagsráðgjafa, sálfræðinga og presta til að leysa málin og draga úr þeirri spennu sem orðin er. Það er til mikils að vinna, bæði ykkar vegna og barnanna.

Með bestu kveðju Valgerður Halldórsdóttir, félags- og fjölskylduráðgjafi

Það má prófa sig áfram í hlutverkinu

Eftir Stjúpforeldrar

Algengt er að farið sé í sambúð án þess að rætt sé áður hvert eigi að vera hlutverk stjúpforeldrisins gagnvart stjúpbörnunum eða hvernig það geti tengst þeim.  Ástæðurnar geta verið margvíslegar.  Sumir telja það mjög líkt foreldrahlutverkinu og því engin ástæða til að ræða það sérstaklega og aðrir hafa bara ekki hugsað út í að þess þurfi og eru bara ástfangnir af maka sínum.

Einhverjir vilja forðast umræðuefnið og finnst óþægilegt að biðja maka sinn að taka að sér verkefni varðandi börn sem hann á ekki í eða biðja hann um að bakka út, sýni hann of mikinn ákafa í að taka að sér uppeldis- og agahlutverk. Sumir stjúpforeldrar vilja ekki særa maka sína og segja hvernig þeim líður gagnvart væntingum sem gerðar eru til þeirra. Dæmi um efni sem sumum finnst erfitt að ræða er vera kallaðir „pabbi“ eða „mamma“ stjúpbarns án nokkurs samráðs eða að það sé ætlast til að þeir borgi ýmislegt fyrir stjúpbörn sín sem þeim finnst að „hitt“ foreldrið eigi að borga.

Það er hinsvegar nauðsynlegt að ræða og komast að einhverju samkomulagi um hlutverk stjúpforeldra, rétt eins og ræða þarf fjármál. Hvorugt umræðuefnið þykir rómantískt en bæði geta drepið alla rómantík sé ekki þá þeim tekið.  Óhætt er að prófa sig áfram í hlutverkinu og sjá hvernig gengur án þess að vera búin að negla allt niður, en nauðsynlegt þó að ræða áður hvernig taka skuli á ágreiningi komi hann upp og endurskoða þá leið sem valin var í byrjun.

Valgerður Halldórsdóttir, félags- og fjölskylduráðgjafi

Finna stjúpur meira fyrir skorti á stjórn á eign lífi en stjúpar?

Eftir Stjúpforeldrar

Ætla má að ólíkar væntingar til hegðunar kynjanna hafi áhrif á viðhorf og hegðun stjúpforeldra.  Algengt er til að mynda að stjúpmæður telji sig skyldugar til að sinna foreldrahlutverkinu þegar hitt foreldrið er ekki til staðar, en ýmist draga sig út eða eru settar til hliðar þegar makinn/foreldrið er nálægt.

Þessi „spila“ og „stopp“ staða ýtir enn frekar undir tilfinningina að hafa ekki stjórn á aðstæðum sínum sem getur alið á kvíða og streitu sem síðan getur bitnar á samskiptum þeirra við stjúpbörnin.

Að upplifa sig vanmetin og vera settur til hliðar er ekki gott veganesti þegar byggja á upp jákvæð tengsl og því mikilvægt að hafa raunhæfar væntingar. Margir karlar virðast eiga auðveldara með stjúpforeldrahlutverkið en konur. Kannski gera þeir ekki eins miklar kröfur um tilfinningalega nálægð og konur, en sumar telja sig þurfa að „hoppa í og úr einskonar foreldrahlutverki eftir þörfum annarra. Erlend rannsókn sýndi t.a.m. að karlar telja sig ekki þurfa að sinna uppeldishlutverki í sama mæli og konur þótt þeir taki að sér og sinnu  ýmsu sem snýr að stjúpbörnum þeirra. Þeir völdu oftast sjálfir að takmarka hlutverk sitt, voru sérstaklega tregir til að klæða og baða stjúpbörn og töldu það hlutverk mæðra að sjá um að aga börnin.

Ólík sýn á hlutverkið getur því haft töluvert að segja hvernig tengsl er reynt að mynda við börnin. Valgerður Halldórsdóttir, félags- og fjölskylduráðgjafi

„MIKILVÆGT AÐ BÖRN EIGI ÁTAKALAUS JÓL“ Viðtal

Eftir Hátíðir

„Hvernig eigum við að hafa þetta um jólin?“ er spurning sem margir í stúptengslum þekkja vel. Valgerður Halldórsdóttir, félagsráðgjafi og formaður Félags stjúpfjölskyldna, þekkir þetta af eigin raun og í daglegu starfi sínu. Hún segir sveigjanleika og útsjónarsemi vera afar mikilvæg er kemur að samveru stjúpfjölskyldna á hátíðum eins og framundan eru.  

Fyrir marga sem gengið hafa í gegnum skilnað eða sambúðarslit minnir tómi stóllin við matarborðið á brostna drauma eða fjarveru foreldris. Með tímanum ná flestir að aðlagast breyttum aðstæðum og lífið fær nýjan lit. Í tóma stólinn er jafnvel sestur nýr aðili og kannski þarf fleiri stóla við borðið. Með breytingum fylgja nýjar hefðir sem getur tekið mislangan tíma að aðlagast. „Ég er fædd á jóladag og foreldrar mínir lögðu á það áherslu, bæði fyrir og eftir skilnað þeirra, að halda upp á afmæli mitt. Lengi vel hafði aðeins verið eitt boð í minni fjölskyldu þennan dag. Allt í einu voru þau orðin þrjú. Fjölgun jólaboðana í fyrstu hafi ekkert með það að gera að ég hafði gifst og eignast tengdafjölskyldu. Ég hafði eignast stjúpforeldra báðum megin rúmlega tvítug,“ segir Valgerður. 

Bjó til nýjar eigin hefðir

Valgerður fékk léttan kvíðahnút og samviskubit yfir því hve södd hún var, þegar hún mætti í jólaboð foreldra og stjúpforeldra sinna og hélt afmælisveislu sama daginn. Hún þakkaði fyrir í huganum að fyrrum tengdaforeldrar hennar voru enn giftir hvor öðrum og bjuggu auk þess úti á landi. „Eftir ein jólin safnaði ég í mig kjarki og sagðist framvegis vilja vera heima hjá mér á jóladag. Ef fólk vildi hitta mig á afmælisdaginn minn væri það auðvitað velkomið í heimsókn. Ég gat ekki fylgt áfram jóla- og afmælishefðum sem foreldrar mínir höfðu búið til þegar ég var barn. Það merkilega var að ég þurfti kjark til að breyta. Ég bjó bara til nýjar hefðir, mínar hefðir.“

Nýtt skipulag og sveigjanleiki

Valgerður tekur fram að ekki sé þó hægt að horfa fram hjá mikilvægi fjölskylduhefða og venja. Þær skapi samfellu í lífinu og tilfinninguna að tilheyra sem sé öllum mikilvæg. „Breytingar kalla á nýtt skipulag og sveigjanleika. Gera þarf ráð fyrir að fyrrverandi mökum og stjúpforeldrum í skipulagningu hátíða sem fólk er mistilbúið til. Það skiptir börn miklu máli að eiga átakalaus jól með sínum nánustu. Þegar börn eiga foreldra á tveimur heimilum og kannski stjúpforeldra á þeim báðum er nánast öruggt að þau skilgreina fjölskyldu sína á annan hátt en foreldar þeirra. Skoðanir og þarfir barna eru því stundum aðrar en foreldris eða stjúpforeldris þegar kemur að jólaboðunum, gjöfum og öðru. Það þarf að vera vilji til að finna lausn sem hentar öllum, ekki bara sumum. Stundum er jafnvel óskað eftir nærveru barna á fleirum en einu stað á sama tíma.“

Þarf ekki að gera allt saman

Valgerður segir að ágætt sé að hafa í huga að margar leiðir séu til að halda jól. „Það þarf að vera tilbúinn að gera breytingar til að hlutirnir gangi. Skapa góðar minningar og sýna hvert öðru umhyggju. Börn þurfa hvíld og það má líka nota alla hina daga ársins til að rækta tengsl og skapa nýjar hefðir. Hæfni til að fara í gegnum breytingar og leysa deilur á uppbyggilegan hátt er mikilvægast af öllu.“ Það séu margar leiðir til að halda jól, en fólk þurfi að vera útsjónarsamt. Það er ekki nauðsynlegt að gera alla hluti saman og í stjúpfjölskyldum er nauðsynlegt að skipta henni upp öðru hverju til að hver og einn fái sinn tíma sem hann þarf til að mynda og viðhalda tengslum. Svo er alltaf ágætt að spyrja sig: „Hvaða minningar viljum við að börnin okkar eigi um jólin?“

 Mynd/OBÞ Tekið af https://hafnfirdingur.is/

Jólaskipulagið er öðruvísi í stjúpfjölskyldum – MBL.is

Eftir Hátíðir

Gísli Ólafs­son er tveggja barna faðir sem legg­ur áherslu á að njóta jól­anna í faðmi fjöl­skyld­unn­ar. Hann seg­ir skýr­an ramma og vænt­umþykju mik­il­væga á jól­un­um og mæl­ir með því að setja börn­in í for­grunn um jól­in. Gísli býr í Laug­ar­daln­um ásamt unn­ustu sinni Helenu og börn­um þeirra tveim­ur. Gísli á son­inn Þórð Óla, sex ára, og stjúp­dótt­ur­ina Vikt­oríu, átta ára. Hann er for­stöðumaður á frí­stunda­heim­ili og hef­ur unnið með börn­um og ung­ling­um á frí­stunda­heim­il­um og fé­lags­miðstöðvum hjá Reykja­vík­ur­borg síðastliðin tíu ár. Hann seg­ir að jól­in séu fjöl­skyldu­hátíð.  Lesa má viðtalið í heild sinni hér

Stjúp­mæður reyna oft of mikið að þókn­ast öðrum – viðtal

Eftir Stjúpforeldrar

Val­gerður Hall­dórs­dótt­ir, fé­lags- og fjöl­skylduráðgjafi, rek­ur fyr­ir­tækið stjuptengsl.is. Nú er hún að fara að halda nám­skeið fyr­ir stjúp­mæður og líka fyr­ir pör í stjúp­fjöl­skyld­um. Hún seg­ir að sam­fé­lags­miðlar hafi áhrif á sam­skipti stjúp­for­eldra við stjúp­börn og það geti verið auðvelt fyr­ir börn að upp­lifa að þau séu „útund­an“ þegar verið er að pósta lát­laust þegar börn­in eru ekki með í för.

Hvers vegna ertu að halda nám­skeið fyr­ir stjúp­mæður og pör í stjúp­fjöl­skyld­um?

„Flest­ar stjúp­fjöl­skyld­ur og marg­ar stjúp­mæður upp­lifa svipaða hluti sem eru oft mjög fyr­ir­sjá­an­leg­ir en fæst­ir þekkja. Með því að læra um stjúptengsl má koma í veg fyr­ir al­geng­ar uppá­kom­ur og van­líðan sem get­ur fylgt þeim. Ég hef rekið mig á að þegar fólk þekk­ir ekki til þá er til­hneig­ing til að fólk „kenni hvað öðru um“ sem eyk­ur enn frek­ar á vand­ræðin. Flest­um finnst sjálfsagt að fara á for­eldra­nám­skeið fyr­ir verðandi for­eldra eða sækja nokk­ur hundaþjálf­un­ar­nám­skeið til að tak­ast á við nýj­ar áskor­an­ir á upp­byggi­leg­an hátt. Það sama á við um stjúptengsl,“ seg­ir Val­gerður.

Hvað er það sem stjúp­mæður eru oft að gera vit­laust?

„Að setja ekki á sig súr­efn­is­grím­una og reyna of mikið að þókn­ast öðrum á sinn eig­in kostnað. Kon­ur eru oft hrædd­ar við að „vera leiðin­leg­ar“, reyna að þókn­ast öll­um og rugla því sam­an við að setja heil­brigð mörk til dæm­is gagn­vart maka sín­um og taka of mikið að sér gagn­vart börn­un­um í fyrstu. Jafn­vel þótt eng­inn hafi beðið þær um það, sum­ar halda jafn­vel að þær eigi að vera einskon­ar mæður á heim­il­inu án þess að hafa „umboð“ til þess frá stjúp­börn­um sín­um eða maka. Nú svo get­ur mak­inn og stjúp­for­eldrið verið sam­mála en stjúp­börn­in láta óspart vita að „hún er ekki mamma mín“. Það eru til ýms­ar út­gáf­ur á þessu.

Það er líka mögu­leiki á að öll­um líki mjög vel við hana sem stjúpu og það sem hún stend­ur fyr­ir á heim­il­inu en hún sjálf er að koðna niður inn­an frá. Birt­ist það meðal ann­ars í því að all­ir vin­konu­hitt­ing­ar, sauma­klúbb­ar eða auka­vinna er sett á þann tíma sem stjúp­börn­in eru á heim­il­inu,“ seg­ir Val­gerður.

Val­gerður bend­ir á að það fylgi þessu verk­efni mik­il óvissa.

„Sér­stak­lega þegar fólk hef­ur litla sem enga hug­mynd um hvernig dýna­mík stjúp­fjöl­skyldna er. Allt of marg­ar kon­ur spyrja hvort þær megi hafa svona og hinseg­in til­finn­ing­ar gagn­vart hlut­verk­inu í stað þess að virða sín­ar til­finn­ing­ar og skoða hvað megi gera til að þeim líði bet­ur. Þessi óvissa og löng­un til að öll­um líki við hana veld­ur því m.a. að aðrir skil­greina hlut­verk stjúp­unn­ar en ekki hún sjálf. Við ræðum þessa hluti og fleira meðal ann­ars á ör­nám­skeiðinu þann 28. októ­ber. Þann 22. októ­ber verður í boði fyr­ir þær kon­ur 6 vikna nám­skeið sem kall­ast Stjúpu­hitt­ing­ur.“

Hvers vegna verða sam­skipti stjúp­mæðra og stjúp­barna oft svona stirð?

„Það vant­ar oft­ast upp á tengslamynd­un­ina milli stjúp­mæðra og barna í slík­um til­vik­um. Við þurf­um að ein­blína meira á maður á mann sam­skipti og kynn­ast hvert öðru áður en við för­um að beita okk­ur. Oft og tíðum vant­ar líka upp á sam­vinnu pars­ins t.d. um regl­ur á heim­il­inu. Stjúp­mæðrum/​feðrum finnst for­eldrið ekki vera að fylgja eft­ir regl­um heim­il­is­ins og fer þá „beint í börn­in“ sem taka því illa. En stund­um samþykk­ir for­eldrið ein­hverja reglu sem það er í raun ekki til­búið að fylgja eft­ir, í stað þess að ræða það við stjúp­for­eldrið og móta regl­ur sem henta öll­um. Skort­ur á sam­starfi bæði á milli stjúp­for­eldra og for­eldra á heim­ili og á milli heim­ila bitn­ar því mjög oft á börn­un­um. Jafn­vel finnst börn­um að stjúp­for­eldrið stjórni for­eldri þeirra og stjúp­for­eldr­inu að börn­in stýri for­eldr­inu þegar þau eru á heim­il­inu.“

Ef þú ætt­ir að gefa stjúp­móður eitt ráð, hvað væri það?

„Lærðu um stjúptengsl og hlúðu vel að sjálfri þér.“

Svo ertu líka með para­nám­skeiðið. Hvað græða pör á því að fara á svona nám­skeið?

„Það sem flest­ir segja að þeir hafi grætt mest á er að hitta önn­ur pör í svipuðum spor­um. Jafn­framt með því að læra um helstu áskor­an­ir stjúp­fjöl­skyldna er eins og að fá gott landa­kort til að fara eft­ir.

En skorti mörk, sam­starf og skiln­ing á stöðu bæði for­eldra og stjúp­for­eldra sem og barna er hætta á að pirr­ing­ur og árekstr­ar verði tíðir. Næsta para­nám­skeið byrj­ar 18. októ­ber og síðan annað þann 8. nóv­em­ber.“

Finnst þér stjúptengsl verða flókn­ari með til­komu sam­fé­lags­miðla?

„Það er stund­um viðkvæmt mál þegar stjúp­for­eldr­ar birta mynd­ir af sér með stjúp­börn­um sín­um á Face­book eða öðrum miðlum en alls ekki í öll­um til­vik­um. For­eldr­um barn­anna á hinu heim­il­inu get­ur fund­ist að sér vegið sem for­eldri en við þurf­um sjaldn­ast að ótt­ast að börn skipti for­eldr­um sín­um út fyr­ir stjúp­for­eldra.

Í öðrum til­vik­um birt­ist mynd af for­eldri með stjúp­börn­um sín­um, og fer það fyr­ir brjóstið á börn­un­um á hinu heim­il­inu sem ekki eru með. Stund­um hafa ung­menni lokað á stjúp­for­eldra sína á sam­fé­lags­miðlum án út­skýr­inga af þeirri ein­földu ástæðu að slík­ar mynd­ir geta sært. Til­finn­ing­in að vera „útund­an“ er sterk.

Sam­fé­lags­miðlar geta líka auðveldað fólki að fá yf­ir­sýn yfir líf barna sinna og stjúp­barna, sem gjarna glat­ast við það að eiga börn sem til­heyra tveim­ur heim­il­um,“ seg­ir Val­gerður.

Hægt er að fá nán­ari upp­lýs­ing­ar á stjuptengsl@stjuptengsl.is.

 

Sterkari saman – paranámskeið 9. til 10 apríl, 20. apríl 2021

Eftir Námskeið

Um 94% fráskilinna íslenskra foreldra töldu þörf á sértækri ráðgjöf og fræðslu um stjúptengsl.

 

Þrátt fyrir margbreytileika stjúpfjölskyldna benda rannsóknir til að þær eigi margt sameignlegt. Algengt er að hlutverk stjúpforeldra vefjist fyrir þeim sjálfum og foreldrum sem eru óvissir um hvaða kröfur eigi eða megi gera til stjúpforeldra. Samskipti við núverandi maka sem og fyrrverandi maka (barnsföður/barnsmóður) valda víða streitu og álagi. Bæði börn og fullorðnir geta upplifað sig á jaðri fjölskyldunnar. Spurningar eins og hver á að borga fyrir hvern og hvern er hægt að biðja um aðstoð eru algengar, sem og hver má aga hvern.

Fjallað verður m.a. um:

  • Helstu áskoranir stjúpfjölskyldna
  • Samskipti og samstarf stjúpforeldris og foreldris á heimilin
  • Sorg og missir sem mikilvæg er að koma auga á – stjórnun breytinga
  • Hlutverk stjúpforeldra – þáttur foreldra – aðkoma að agamálum
  • Hefðir – venjur og heimilisreglur
  • Fjármál
  • Tengsl stjúpforeldr og barna, tengsl foreldra og barna
  • Foreldrasamvinnan – innan og utan fjölskyldunnar
  • Persónulega færni

Umsagnir þátttakenda

Allir þátttakendur voru ánægðir með námskeiðið í heild sinni og gátu mælt með því við aðra.

  •  „Námskeiðið ætti að vera skyldunámskeið fyrir alla!“
  • „Gott að fá tækifæri til að ræða við makann á þessum forsendum – fara yfir mögulegar lausnir á vandamálum“
  • „Margir gagnlegir punktar sem munu nýtast vel – og ekki síður áhugavert að fá innsýn í reynslu annarra í svipuðum sporum“
  • „Námskeiðið í heild var áhugavert. Gott að fá áminningu hvernig við búum til „við“
  • „Fá upplýsingar og dæmi og læra hvað er eðlilegt í stjúpfjölskyldum – og gera ekki kröfur á sig að vera eins og kjarnafjölskylda“
  • „Tímalengdin fín – gott að hafa námskeiðið um helgi, minna stress og fjöldinn passlegur til að geta rætt hlutina“
  • „Mig langar á framhaldssnámskeið!“
  • Umhverfið kom skemmtilega á óvart – sem gerði það að verkum að maður upplifiði hlutina svo eðlilega“

Kennslufyrirkomulag:  Stutt erindi, verkefni, umræður, myndir og heimaverkefni.

Fjöldi þátttakenda: Hámarksfjöldi 6 pör í einu. Hópurinn er lokaður

Leiðbeinandi er Valgerður Halldórsdóttir er félags- og fjölskylduráðgjafi, MA. Hún hefur einnig lokið BA prófi í stjórnmálafræði og kennslu – og uppeldisfræði til starfsréttinda  og sáttamiðlun.

Hvenær:

  • Námskeiðið verður haldið 9. apríl 2021  til 10. apríl  og 20.  apríl 2021 á höfuðborgarsvæðinu. Föstudagskvöld frá kl. 18 til 21, laugardagur 9 til 14.00 og síðan miðvikudaginn 20. april kl. 19.30 til 21.30.
  • Verð: 24000 kr. á mann. Flest stéttarfélög greiða niður námskeið og viðtöl fyrir félagsmenn sína.

 

Samstíga foreldrar – eftir skilnað

Eftir Skilnaður

Foreldrar mínir skildu þegar ég var komin á efri unglingsárin. Það kom okkur systkinunum ekkert sérstaklega á óvart því þau voru búin að vera óhamingjusöm lengi. Það versta við þennan skilnað var ekki að þau væru að fara í sitthvora áttina heldur hversu vond þau voru hvort við annað.

Hatrið og reiðin sem bjó innra með þeim var svo mikil. Enn í dag man ég eftir tilfinningunni sem ég fékk í magann þegar mamma talaði illa um pabba eða öfugt. Það er í raun ótrúlegt hvernig svona gott fólk eins og þau bæði eru og auk þess frábærir foreldrar í alla staði, gátu breyst í skrímsli við þessar aðstæður. Sorglegasta staðreyndin er sú að nú 20 árum seinna geta þau ekki enn talast við. Ég forðast að nefna mömmu á nafn í viðurvist pabba og öfugt. Þegar mamma og pabbi skildu var fólk ekki eins upplýst og við getum verið í dag. Umræðan um mikilvægi þess að gera hlutina rétt og vel barnanna vegna var ekki eins hávær þá og nú. Það krefst mikils af manni að geta sett sjálfan sig og tilfinningar sínar í annað sæti á meðan gengið er í gegnum erfiðan tíma. Þetta er ég mjög meðvituð um. Í dag er ég ekki reið foreldrum mínum. Ég lærði af þeim að stæði ég í sömu sporum í mínu lífi færi ég aðra leið, barnanna minna vegna.

Þessi sérfræðingur sérhæfði sig í fjölskyldumálum

Svo kom að því að ég stóð í sömu sporum og foreldrar mínir; það var komið að leiðarlokum í mínu hjónabandi eftir 13 ár. Við eigum tvö yndisleg börn. Hjá okkar kynslóð bera foreldrar jafnari ábyrgð á uppeldi barna sinni. Ég var verkefnastjórinn og er enn, en á annan hátt. Það er sorgarferli að skilja. Maðurinn minn og ég vorum staðráðin í því frá byrjun að ætla að gera þetta vel fyrir börnin okkar og okkur sjálf. Við leituðum okkur aðstoðar hjá sérfræðingi sem hjálpaði okkur með þær tilfinningar sem við vorum að glíma við og hvernig best væri að hlutunum búið varðandi börnin okkar. Fyrir þá ákvörðun verð ég ævinlega þakklát. Þessi sérfræðingur sérhæfði sig í fjölskyldumálum.

Foreldrar fóru voru viku í senn á heimilinu

Við áttum eign sem þurfti að selja. Við ákváðum að búa í eigninni til skiptis viku og viku. Ég flutti inn í viku og sá um heimilið og börnin og svo flutti minn fyrrverandi inn í viku og sá um allt. Þannig gekk þetta þangað til eignin var seld og við gátum keypt okkur sitthvora minni eignina. Það var auðvitað mikið rót fyrir okkur að búa í ferðastösku í hálft ár en þetta var besta lausnin fyrir börnin. Þau fengu tíma til að aðlagast. Við vorum sammála um að búa áfram í sama hverfinu. Skilnaðurinn var að minni ósk og það olli bæði reiði og miklum sárindum hjá fyrrverandi manninum mínum. Ég verð samt ávallt þakklát fyrir það hvernig við náðum að sýna þroska og leggja okkar að mörkum til þess að minnka flækjustigið í þessu ferli. Í dag eru komin þrjú ár frá því að við seldum húsið okkar og hættum að vera kjarnafjölskylda. Ég neita því ekki, þrátt fyrir að vera afar sátt við ákvörðunina, að þetta er gífurlega erfitt ferli og það tekur mikið á sjálfsagann að vera besta útgáfan af sjálfum sér og geta sett sig í spor annarra á svona erfiðum tímum. Ég hugsaði alltaf að ég ætlaði ekki að láta börnunum mínum líða eins og mér leið þegar foreldrar mínu skildu. Þau áttu að finna fyrir því að við foreldrarnir værum samstíga.

Nýir makar 

Nú hefur lífið heldur betur tekið stakkaskiptum. Við foreldrarnir höfum fundið okkur nýja lífsförunauta og börnin okkar eru fimm systkinum ríkari. Þau eiga tvö stjúpsystkini hjá mér og þrjú hjá pabba sínum. Þau eiga tvö heimili þar sem þau dvelja viku í senn. Ég hugsa um það nánast á hverjum degi þegar ég leggst á koddann hversu þakklát ég er fyrir það hvernig þau hafa tekið þessum breytingum. Þau eru glöð. Það hafa aldrei komið upp vandamál þar sem þau vilja ekki fara til pabba síns eða ekki viljað koma til mín. Þau er svo þakklát fyrir stjúpforeldra sína og stjúpsystkini. Mig langar að nefna nokkur dæmi um hluti sem við gerðum sem ég tel að hafi gert þetta ferli auðveldara og sé ástæðan fyrir því að börnin okkar eru afar glöð og örugg hvað varðar okkur foreldrana og stjúpforeldra.

• Besta ákvörðunin var sú að leita til sérfræðings. Að skilja er flókið sorgarferli fyrir alla og það á að vera sjálfsagður hlutur að leita sér sérfræðiaðstoðar frá fagfólki með reynslu.

• Ég las mér mikið til um skilnað og stjúpfjölskyldur og hvaða áhrif það hefur á börnin.

• Við foreldrarnir erum með sameiginlegt rafrænt dagatal þar sem við skráum alla viðburði varðandi börnin, ferðalög okkar foreldra erlendis, afmæli og aðra viðburði.

• Við tölum alltaf saman á mánudögum um hvernig vikan hefur gengið, hvernig heimalærdómurinn hefur gengið, um vinasambönd barnanna og almenna hagi þeirra. Stundum eru þessi samtöl stutt en stundum vara þau í klukkutíma þar sem við spjöllum um eitthvað sem uppá hefur komið eða fyndin atvik sem við getum hlegið að saman. Þessu samtöl eru ómetanleg og hjálpa okkur mikið við að vera samstíga í daglegu amstri.

• Ég finn að foreldrar vina barna okkar finna líka að við erum í góðum samskiptum. Það veitir þeim aukið öryggi þegar kemur að því að bjóða börnunum okkar í heimsóknir og annað slíkt.

• Ég nýti hvert tækifæri sem gefst til að tala um það jákvæða sem börnin mín hafa sagt mér um stjúpmömmu sína, pabba sinn eða stjúpsystkini sín við fyrrum eiginmann minn. Hann gerir það líka.

• Óþarfa tuð skilar engu. Hlutirnir eru oft ekki gerðir nákvæmlega eins og ég vil að þeir séu gerðir. Það er líka bara allt í lagi.

• Ef eitthvað kemur uppá höfum við samband strax. Ef ég tel að eitthvað mætti betur fara vanda ég mig mjög í samskiptunum við fyrri eiginmann minn. Ég segi honum hvernig mér líður varðandi þessa hluti og fæ nánari útskýringar frá honum í stað þess að dæma strax.

• Ég tala oft um pabba barnanna minna, stjúpmömmu þeirra og stjúpsystkini í eyru barnanna. Ég tala um hluti við börnin mín sem pabbi þeirra hefur sagt mér frá í vikunni með honum. Sem dæmi má nefna gerir stjúpmamma þeirra bestu pizzu í heimi. Ég sagði við börnin að ég þyrfti nú bara að hringja í hana til þess að fá uppskriftina og það gerði ég. Ég veit að svona samskipti skipta miklu máli.

• Við erum samstíga með margar reglur en erum líka meðvituð um að ekki er hægt að hafa heimilin nákvæmlega eins. Börnin vita hins vegar að við tölum saman og að við viljum vera samstíga sem ég veit að það veitir þeim öryggi.

• Ef einungis annað okkar fer á viðburði tengdum skólanum eða öðrum tómstundum sendum við hvort örðu myndir sem við skoðum svo saman með börnunum.

• Stjúpsystkini barnanna sem þau eiga hjá pabba sínum hafa komið á mitt heimili í heimsókn þar sem afar innilegt vinasamband hefur myndast þeirra á milli.

• Við erum samstíga með afmælis- og jólagjafir og höfum oft gefið saman ef svo ber undir.

• Eins og ég talaði um hér að ofan er ég ennþá verkstjórinn og verð viðurkenna það að ég er svona meira með puttana á púlsinum hvað varðar afmæli, hvert og hvenær á að mæta hingað og þangað og það er bara allt í lagi. Ég passa mig samt á því að taka ekki ákvarðanir varðandi börnin okkar án þess að við foreldrarnir ræðum saman fyrst.

• Ég er afar meðvituð um að það er ekki á barnanna ábyrgð að passa upp á dótið sitt. Ef eitthvað gleymist á öðrum hvorum staðnum göngum við foreldrarnir í verkið. Ef börnin vilja taka eitthvað með sér á milli heimilanna sinna er það ekkert mál.

• Ég segi aldrei við börnin mín að ég hafi saknað þeirra á meðan þau voru í burtu. Ég knúsa þau ekki heldur neitt meira þegar þau fara á mánudögum í viku heldur en ég mundi gera venjulega daga þegar þau fara í skólann.

Fjölskyldan mín er ein tegund af fjölskyldu og mig langaði að gefa ykkur smá innsýn inn í okkar líf. Þetta er ekki alltaf auðvelt og auðvitað greinir okkur stundum á sem er svo sjálfagður hluti af lífinu. Við reynum okkar allra besta og höfum það að leiðarljósi að við erum öll saman í einu liði, pabbi, mamma, stjúpabbi og stjúpmamma. Sem ein heild stefnum við öll að sama markmiði. Eitt er víst: Ég veit að pabbi barnanna minna vill allt það sem er börnunum okkar fyrir bestu og hann veit að það ég vil ég líka.

Aðsend grein til Valgerðar Halldórsdóttur fjölskyldu – og félgasráðgjafi

 

Á lyfjum aðra hvora viku – viðtal

Eftir Foreldrasamvinna

Sífellt algengara er að upp komi mál þar sem foreldrar sem fara sameiginlega með forsjá barns greini á um greiningar og lyfjagjöf barna sinna.

Til eru dæmi þess að börn séu á lyfjum aðra hverja viku með tilheyrandi afleiðingum. Sjá meira https://timarit.is/page/6392192?iabr=on#page/n9/mode/1up

 

 

 

Instagram