Skip to main content
Hátíðir

„MIKILVÆGT AÐ BÖRN EIGI ÁTAKALAUS JÓL“ Viðtal

„Hvernig eigum við að hafa þetta um jólin?“ er spurning sem margir í stúptengslum þekkja vel. Valgerður Halldórsdóttir, félagsráðgjafi og formaður Félags stjúpfjölskyldna, þekkir þetta af eigin raun og í daglegu starfi sínu. Hún segir sveigjanleika og útsjónarsemi vera afar mikilvæg er kemur að samveru stjúpfjölskyldna á hátíðum eins og framundan eru.  

Fyrir marga sem gengið hafa í gegnum skilnað eða sambúðarslit minnir tómi stóllin við matarborðið á brostna drauma eða fjarveru foreldris. Með tímanum ná flestir að aðlagast breyttum aðstæðum og lífið fær nýjan lit. Í tóma stólinn er jafnvel sestur nýr aðili og kannski þarf fleiri stóla við borðið. Með breytingum fylgja nýjar hefðir sem getur tekið mislangan tíma að aðlagast. „Ég er fædd á jóladag og foreldrar mínir lögðu á það áherslu, bæði fyrir og eftir skilnað þeirra, að halda upp á afmæli mitt. Lengi vel hafði aðeins verið eitt boð í minni fjölskyldu þennan dag. Allt í einu voru þau orðin þrjú. Fjölgun jólaboðana í fyrstu hafi ekkert með það að gera að ég hafði gifst og eignast tengdafjölskyldu. Ég hafði eignast stjúpforeldra báðum megin rúmlega tvítug,“ segir Valgerður. 

Bjó til nýjar eigin hefðir

Valgerður fékk léttan kvíðahnút og samviskubit yfir því hve södd hún var, þegar hún mætti í jólaboð foreldra og stjúpforeldra sinna og hélt afmælisveislu sama daginn. Hún þakkaði fyrir í huganum að fyrrum tengdaforeldrar hennar voru enn giftir hvor öðrum og bjuggu auk þess úti á landi. „Eftir ein jólin safnaði ég í mig kjarki og sagðist framvegis vilja vera heima hjá mér á jóladag. Ef fólk vildi hitta mig á afmælisdaginn minn væri það auðvitað velkomið í heimsókn. Ég gat ekki fylgt áfram jóla- og afmælishefðum sem foreldrar mínir höfðu búið til þegar ég var barn. Það merkilega var að ég þurfti kjark til að breyta. Ég bjó bara til nýjar hefðir, mínar hefðir.“

Nýtt skipulag og sveigjanleiki

Valgerður tekur fram að ekki sé þó hægt að horfa fram hjá mikilvægi fjölskylduhefða og venja. Þær skapi samfellu í lífinu og tilfinninguna að tilheyra sem sé öllum mikilvæg. „Breytingar kalla á nýtt skipulag og sveigjanleika. Gera þarf ráð fyrir að fyrrverandi mökum og stjúpforeldrum í skipulagningu hátíða sem fólk er mistilbúið til. Það skiptir börn miklu máli að eiga átakalaus jól með sínum nánustu. Þegar börn eiga foreldra á tveimur heimilum og kannski stjúpforeldra á þeim báðum er nánast öruggt að þau skilgreina fjölskyldu sína á annan hátt en foreldar þeirra. Skoðanir og þarfir barna eru því stundum aðrar en foreldris eða stjúpforeldris þegar kemur að jólaboðunum, gjöfum og öðru. Það þarf að vera vilji til að finna lausn sem hentar öllum, ekki bara sumum. Stundum er jafnvel óskað eftir nærveru barna á fleirum en einu stað á sama tíma.“

Þarf ekki að gera allt saman

Valgerður segir að ágætt sé að hafa í huga að margar leiðir séu til að halda jól. „Það þarf að vera tilbúinn að gera breytingar til að hlutirnir gangi. Skapa góðar minningar og sýna hvert öðru umhyggju. Börn þurfa hvíld og það má líka nota alla hina daga ársins til að rækta tengsl og skapa nýjar hefðir. Hæfni til að fara í gegnum breytingar og leysa deilur á uppbyggilegan hátt er mikilvægast af öllu.“ Það séu margar leiðir til að halda jól, en fólk þurfi að vera útsjónarsamt. Það er ekki nauðsynlegt að gera alla hluti saman og í stjúpfjölskyldum er nauðsynlegt að skipta henni upp öðru hverju til að hver og einn fái sinn tíma sem hann þarf til að mynda og viðhalda tengslum. Svo er alltaf ágætt að spyrja sig: „Hvaða minningar viljum við að börnin okkar eigi um jólin?“

 Mynd/OBÞ Tekið af https://hafnfirdingur.is/

Instagram