Skip to main content
Skilnaður

Samstíga foreldrar – eftir skilnað

Foreldrar mínir skildu þegar ég var komin á efri unglingsárin. Það kom okkur systkinunum ekkert sérstaklega á óvart því þau voru búin að vera óhamingjusöm lengi. Það versta við þennan skilnað var ekki að þau væru að fara í sitthvora áttina heldur hversu vond þau voru hvort við annað.

Hatrið og reiðin sem bjó innra með þeim var svo mikil. Enn í dag man ég eftir tilfinningunni sem ég fékk í magann þegar mamma talaði illa um pabba eða öfugt. Það er í raun ótrúlegt hvernig svona gott fólk eins og þau bæði eru og auk þess frábærir foreldrar í alla staði, gátu breyst í skrímsli við þessar aðstæður. Sorglegasta staðreyndin er sú að nú 20 árum seinna geta þau ekki enn talast við. Ég forðast að nefna mömmu á nafn í viðurvist pabba og öfugt. Þegar mamma og pabbi skildu var fólk ekki eins upplýst og við getum verið í dag. Umræðan um mikilvægi þess að gera hlutina rétt og vel barnanna vegna var ekki eins hávær þá og nú. Það krefst mikils af manni að geta sett sjálfan sig og tilfinningar sínar í annað sæti á meðan gengið er í gegnum erfiðan tíma. Þetta er ég mjög meðvituð um. Í dag er ég ekki reið foreldrum mínum. Ég lærði af þeim að stæði ég í sömu sporum í mínu lífi færi ég aðra leið, barnanna minna vegna.

Þessi sérfræðingur sérhæfði sig í fjölskyldumálum

Svo kom að því að ég stóð í sömu sporum og foreldrar mínir; það var komið að leiðarlokum í mínu hjónabandi eftir 13 ár. Við eigum tvö yndisleg börn. Hjá okkar kynslóð bera foreldrar jafnari ábyrgð á uppeldi barna sinni. Ég var verkefnastjórinn og er enn, en á annan hátt. Það er sorgarferli að skilja. Maðurinn minn og ég vorum staðráðin í því frá byrjun að ætla að gera þetta vel fyrir börnin okkar og okkur sjálf. Við leituðum okkur aðstoðar hjá sérfræðingi sem hjálpaði okkur með þær tilfinningar sem við vorum að glíma við og hvernig best væri að hlutunum búið varðandi börnin okkar. Fyrir þá ákvörðun verð ég ævinlega þakklát. Þessi sérfræðingur sérhæfði sig í fjölskyldumálum.

Foreldrar fóru voru viku í senn á heimilinu

Við áttum eign sem þurfti að selja. Við ákváðum að búa í eigninni til skiptis viku og viku. Ég flutti inn í viku og sá um heimilið og börnin og svo flutti minn fyrrverandi inn í viku og sá um allt. Þannig gekk þetta þangað til eignin var seld og við gátum keypt okkur sitthvora minni eignina. Það var auðvitað mikið rót fyrir okkur að búa í ferðastösku í hálft ár en þetta var besta lausnin fyrir börnin. Þau fengu tíma til að aðlagast. Við vorum sammála um að búa áfram í sama hverfinu. Skilnaðurinn var að minni ósk og það olli bæði reiði og miklum sárindum hjá fyrrverandi manninum mínum. Ég verð samt ávallt þakklát fyrir það hvernig við náðum að sýna þroska og leggja okkar að mörkum til þess að minnka flækjustigið í þessu ferli. Í dag eru komin þrjú ár frá því að við seldum húsið okkar og hættum að vera kjarnafjölskylda. Ég neita því ekki, þrátt fyrir að vera afar sátt við ákvörðunina, að þetta er gífurlega erfitt ferli og það tekur mikið á sjálfsagann að vera besta útgáfan af sjálfum sér og geta sett sig í spor annarra á svona erfiðum tímum. Ég hugsaði alltaf að ég ætlaði ekki að láta börnunum mínum líða eins og mér leið þegar foreldrar mínu skildu. Þau áttu að finna fyrir því að við foreldrarnir værum samstíga.

Nýir makar 

Nú hefur lífið heldur betur tekið stakkaskiptum. Við foreldrarnir höfum fundið okkur nýja lífsförunauta og börnin okkar eru fimm systkinum ríkari. Þau eiga tvö stjúpsystkini hjá mér og þrjú hjá pabba sínum. Þau eiga tvö heimili þar sem þau dvelja viku í senn. Ég hugsa um það nánast á hverjum degi þegar ég leggst á koddann hversu þakklát ég er fyrir það hvernig þau hafa tekið þessum breytingum. Þau eru glöð. Það hafa aldrei komið upp vandamál þar sem þau vilja ekki fara til pabba síns eða ekki viljað koma til mín. Þau er svo þakklát fyrir stjúpforeldra sína og stjúpsystkini. Mig langar að nefna nokkur dæmi um hluti sem við gerðum sem ég tel að hafi gert þetta ferli auðveldara og sé ástæðan fyrir því að börnin okkar eru afar glöð og örugg hvað varðar okkur foreldrana og stjúpforeldra.

• Besta ákvörðunin var sú að leita til sérfræðings. Að skilja er flókið sorgarferli fyrir alla og það á að vera sjálfsagður hlutur að leita sér sérfræðiaðstoðar frá fagfólki með reynslu.

• Ég las mér mikið til um skilnað og stjúpfjölskyldur og hvaða áhrif það hefur á börnin.

• Við foreldrarnir erum með sameiginlegt rafrænt dagatal þar sem við skráum alla viðburði varðandi börnin, ferðalög okkar foreldra erlendis, afmæli og aðra viðburði.

• Við tölum alltaf saman á mánudögum um hvernig vikan hefur gengið, hvernig heimalærdómurinn hefur gengið, um vinasambönd barnanna og almenna hagi þeirra. Stundum eru þessi samtöl stutt en stundum vara þau í klukkutíma þar sem við spjöllum um eitthvað sem uppá hefur komið eða fyndin atvik sem við getum hlegið að saman. Þessu samtöl eru ómetanleg og hjálpa okkur mikið við að vera samstíga í daglegu amstri.

• Ég finn að foreldrar vina barna okkar finna líka að við erum í góðum samskiptum. Það veitir þeim aukið öryggi þegar kemur að því að bjóða börnunum okkar í heimsóknir og annað slíkt.

• Ég nýti hvert tækifæri sem gefst til að tala um það jákvæða sem börnin mín hafa sagt mér um stjúpmömmu sína, pabba sinn eða stjúpsystkini sín við fyrrum eiginmann minn. Hann gerir það líka.

• Óþarfa tuð skilar engu. Hlutirnir eru oft ekki gerðir nákvæmlega eins og ég vil að þeir séu gerðir. Það er líka bara allt í lagi.

• Ef eitthvað kemur uppá höfum við samband strax. Ef ég tel að eitthvað mætti betur fara vanda ég mig mjög í samskiptunum við fyrri eiginmann minn. Ég segi honum hvernig mér líður varðandi þessa hluti og fæ nánari útskýringar frá honum í stað þess að dæma strax.

• Ég tala oft um pabba barnanna minna, stjúpmömmu þeirra og stjúpsystkini í eyru barnanna. Ég tala um hluti við börnin mín sem pabbi þeirra hefur sagt mér frá í vikunni með honum. Sem dæmi má nefna gerir stjúpmamma þeirra bestu pizzu í heimi. Ég sagði við börnin að ég þyrfti nú bara að hringja í hana til þess að fá uppskriftina og það gerði ég. Ég veit að svona samskipti skipta miklu máli.

• Við erum samstíga með margar reglur en erum líka meðvituð um að ekki er hægt að hafa heimilin nákvæmlega eins. Börnin vita hins vegar að við tölum saman og að við viljum vera samstíga sem ég veit að það veitir þeim öryggi.

• Ef einungis annað okkar fer á viðburði tengdum skólanum eða öðrum tómstundum sendum við hvort örðu myndir sem við skoðum svo saman með börnunum.

• Stjúpsystkini barnanna sem þau eiga hjá pabba sínum hafa komið á mitt heimili í heimsókn þar sem afar innilegt vinasamband hefur myndast þeirra á milli.

• Við erum samstíga með afmælis- og jólagjafir og höfum oft gefið saman ef svo ber undir.

• Eins og ég talaði um hér að ofan er ég ennþá verkstjórinn og verð viðurkenna það að ég er svona meira með puttana á púlsinum hvað varðar afmæli, hvert og hvenær á að mæta hingað og þangað og það er bara allt í lagi. Ég passa mig samt á því að taka ekki ákvarðanir varðandi börnin okkar án þess að við foreldrarnir ræðum saman fyrst.

• Ég er afar meðvituð um að það er ekki á barnanna ábyrgð að passa upp á dótið sitt. Ef eitthvað gleymist á öðrum hvorum staðnum göngum við foreldrarnir í verkið. Ef börnin vilja taka eitthvað með sér á milli heimilanna sinna er það ekkert mál.

• Ég segi aldrei við börnin mín að ég hafi saknað þeirra á meðan þau voru í burtu. Ég knúsa þau ekki heldur neitt meira þegar þau fara á mánudögum í viku heldur en ég mundi gera venjulega daga þegar þau fara í skólann.

Fjölskyldan mín er ein tegund af fjölskyldu og mig langaði að gefa ykkur smá innsýn inn í okkar líf. Þetta er ekki alltaf auðvelt og auðvitað greinir okkur stundum á sem er svo sjálfagður hluti af lífinu. Við reynum okkar allra besta og höfum það að leiðarljósi að við erum öll saman í einu liði, pabbi, mamma, stjúpabbi og stjúpmamma. Sem ein heild stefnum við öll að sama markmiði. Eitt er víst: Ég veit að pabbi barnanna minna vill allt það sem er börnunum okkar fyrir bestu og hann veit að það ég vil ég líka.

Aðsend grein til Valgerðar Halldórsdóttur fjölskyldu – og félgasráðgjafi

 

Instagram