Við skilnað þurfa misupplagðir foreldar að taka mikilvægar ákvarðanir er varðar börn þeirra. Hvar á lögheimilið að vera? Hvernig á samvistum barna og foreldra að vera háttað? Hver borgar hvað og fyrir hvern og ekki síst hvernig tryggja megi velferð barnanna sem best?
Eins og staðan er í dag er lögheimi hjá mæðrum í um 90% tilvika. Hvað varðar búsetu barna velja foreldrar við skilnað eða sambúðarslit í vaxandi mæli jafna búsetu þ.e. að börnin búi til jafns hjá þeim báðum. Stjórnvöld hafa lagt blessun sína yfir þetta fyrirkomulag og hafa sýslumenn heimild til að ákveða umgengi 7 daga af hverjum 14 dögum. Kerfið hefur hinsvegar ekki fylgt eftir nægilega vel á öðrum sviðum. Enn er foreldri sem ekki hefur lögheimili með barni sínu gert að greiða meðlag þó búsetja barna sé jöfn.
Þetta ósamræmi hefur valdið víða óþarfa ágreiningi foreldra og eðlilega blandast makar þeirra inn í málin, fjármál eru ekki einkamál annars aðilans í sambandinu. Á öðru heimilinu fær foreldri barnabætur hafi það sama lögheimili og barnið. Það sama á við um maka hans, stjúpforeldri barnsins sem venjulega er án forsjár. Hitt foreldrið sem greiðir meðlag og er með sameiginlega forsjá með því fyrrnefnda, sem og maki hans sem jafnframt er líka stjúpforeldri barnsins, telst hinsvegar “barnlaust par“. Að auki þegar verið er að ákvarða hvort meðlagsgreiðandi eigi að greiða viðbótarmeðlag með barni er aðeins tekið mið af tekjum hans, en tekjur þess sem tekur við meðlaginu virðast ekki skipta neinu máli né tekjur maka hans. Kannski ekki skrýtið þó einhverjir verða pirraðir og upplifi ósanngirni.
Á hverju strandar veit ég ekki , varla þarf að breyta lögheimilislögum til að laga bótakerfið og reglur um meðlag. Nái foreldrar að semja sín á milli, ætti að vera hægt koma á móts við þá með skiptingu bóta og meðlags. Það má kalla slíka samninga „Foreldrasamning“ þar sem foreldrar semja sín á milli um samskiptareglur, veru barna á hvoru heimili um sig, kostnaðarskiptingu og annað er varðar hagsmuni barna þeirra. En að sjálfsögðu þarf sífellt að endurskoða slíka samninga í takt við aldur og þroska barna og breyttra aðstæðna.
Fáir efast um mikilvægi beggja foreldra í lífi barna og breytir skilnaður þar engu um. Í barnalögum er kveðið á um að umgengni barns við foreldri skuli vera reglubundin en það er hinsvegar ekki sagt til um hversu mikil samskiptin eigi að vera. Úr því þarf fólk að finna sjálft. Skiptar skoðanir eru um ágæti jafnar búsetu barna í samfélaginu. Óhætt er að fullyrða að margir hafa jákvæða reynslu af því fyrirkomulagi, bæði börn og fullorðnir. Rannsóknir hafa m.a. sýnt að samskipti barna við foreldra í jafnri búsetu virðast jafn góð og barna foreldra sem búa saman. Unglingar lýsa betri líðan, segja að meiri eftirfylgni sé af hálfu foreldra og þeir séu í meiri samvistum við þá en aðrir unglingar fráskilinna foreldra. Sumir feður virðast jafnvel eiga meiri tíma með börnum sínum en þegar þeir bjuggu með móður þeirra.
Aðrir hafa sýnar efasemdir um ágæti hennar og benda á rótleysi í lífi barna og ungmenna með tilheyrandi kvíða. Hinsvegar fái foreldrar „barnlausan“ tíma sem sumum finnst kostur. Jafnframt að það vanti rannsóknir á ástæðu „brottfalls“ barna úr hópnum en með auknum aldri virðist þeim fækka sem eru í skiptri búsetu. Er ánægja barna og ungmenna þá eins mikil eins og sumir vilja láta? Rannsóknir hafa sýnt að þetta fyrirkomulag geti haft neikvæð áhrif samskipti við vini og notkun kannabisefna sé svipuð og hjá unglingum sem búa hjá einhleypu foreldri. Enn aðrir hafa líka bent á að sum börn og ungmenni segjast hvorki tilheyra heimili föður eða móður og eru því hálf landlaus.
Ljóst er að jöfn búseta hefur reynst sumum börnum vel en öðum síður. Það er kannski ágætt að hafa í huga að það sem er börnum fyrir bestu getur verið mismunandi – og því ber að skoða hverju sinni hvað hentar hverju barni um sig.
Valgerður Halldórsdóttir, félags- og fjölskylduráðgjafi