Skilnaður
Hvaða atriði þarf leiða til lykta áður en unnt er að veita skilnaðarleyfi
Forsjá barna
Ef hjón eiga saman börn yngri en 18 ára þarf að ákveða hvort þeirra skuli fara með forsjá (foreldraábyrgð) eða hvort hún skuli að vera sameiginleg. Ef foreldra greinir á um forsjá getur sýslumaður boðið upp á sérfræðiráðgjöf til þess að leysa ágreininginn. Ekki þarf að greiða fyrir þessa ráðgjöf. Einnig er hægt að fá sérfræðiráðgjöf hjá sjálfstætt starfandi sérfræðingum og þarf að greiða fyrir þá ráðgjöf.
Sé ágreiningur um forsjá og lögheimili þurfa foreldrar að fara í sáttameðferð annað hvort hjá sýslumanni eða sjálfstætt starfandi sáttamönnum. Ef foreldrar geta ekki leyst ágreining sinn um forsjá verður að leita til dómstóla til þess að leysa úr honum. Skilnaðarleyfi verður ekki gefið út nema fyrir liggi samkomulag um forsjá eða fyrir liggi að ágreiningur hafi verið lagður fyrir dómstóla.
Umgengni
Það er ekki skilyrði fyrir útgáfu skilnaðarleyfis að ákveðið hafi verið hvernig umgengni foreldra og barns skuli hagað. Hinsvegar er gagnlegt að komast að samkomulagi við skilnað/sambúðarslit um það hvernig umgengi barns skuli háttað við foreldra. Hægt er að fá aðstoð við gerð umgengnissamings/ foreldrasamning.
Sumir foreldrar gera ekki strax umgengnisamninga/foreldrasamninga við sambúðarslit/skilnað eða þegar foreldri er einhleypt við fæðingu barns. Þörfun kann að skapast síðar þegar reynir á samskiptin.
Meðlagsgreiðslur
Við skilnað ber hjónum að ákveða hvernig meðlagsgreiðslum með börnum skuli háttað.Ef ágreiningur er um meðlagsgreiðslur getur sýslumaður úrskurðað um slíkan ágreining. Úrskurð sýslumanns um meðlag má kæra til dómsmálaráðuneytisins. Sjá nánari umfjöllun um meðlag.
Fjárskipti hjóna
Hjón þurfa að gera með sér skriflegan fjárskiptasamning og leggja hann fram og staðfesta samkomulag við fyrirtöku skilnaðarmálsins hjá sýslumanni. Ef hjón eru ekki sammála um fjárskiptin þarf að bera málið undir héraðsdóm og óska þess að opinber skipti á búinu fari fram til fjárslita.
Sýslumaður getur ekki veitt skilnaðarleyfi nema annaðhvort liggi fyrir samningur hjóna um fjárskipti eða úrskurður héraðsdóms um að opinber skipti skuli fara fram.
Ef bæði hjón eru eignalaus er yfirlýsing þeirra þess efnis færð í gerðabók sýslumanns og þarf þá ekki að leggja fram fjárskiptasamning.
Framfærsla hjóna
Hjón eru framfærsluskyld hvort við annað og við skilnað að borði og sæng þarf að taka afstöðu til þess hvort annað hjóna skuli greiða hinu framfærslueyri eða lífeyri, enda er hin gagnkvæma framfærsluskylda milli hjónanna við lýði allt fram til þess að lögskilnaður er veittur. Komi í ljós ágreiningur um greiðslu framfærslueyris eða lífeyris úrskurðar sýslumaður í því máli og má kæra úrskurð sýslumanns til dómsmálaráðuneytisins.
Gagnkvæm framfærsluskylda er á milli hjóna allt til þess að lögskilnaður er veittur. Eftir lögskilnað verður öðru hjóna því ekki gert að greiða hinu lífeyri nema alveg sérstaklega standi á.
Tilkynning um skilnað til Þjóðskrár
Sýslumaður sendir Þjóðskrá tilkynningu um skilnað, heimilisföng aðila og skipan forsjár barna. Eru þá upplýsingar um hjúskaparstöðu aðila, lögheimili þeirra og barna þeirra skráðar í samræmi við þær upplýsingar í þjóðskrá.
Skylda Tryggingastofnunar ríkisins til greiðslu meðlags
Í leyfisbréfi til skilnaðar að borði og sæng eða lögskilnaðar er getið um skipan meðlagsgreiðslna með börnum. Rétthafi meðlagsgreiðslna getur snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og óskað eftir því að stofnunin greiði því meðlag samkvæmt leyfisbréfinu. Það ber að athuga að Tryggingastofnun greiðir foreldri aðeins einfalt meðlag með hverju barni. Sjá umsókn um slíkar greiðslur á vef Tryggingastofnunar. Hafi foreldrar samið um eða verið úrskurðað viðbótarmeðlag og meðlagsskylt foreldri greiðir það ekki verður það foreldri sem á rétt á greiðslunni sjálft að annast innheimtu þess.
Lagaákvæði um stofnun og slit hjúskapar, fjármál hjóna, framfærsluskyldu og fleira er að finna í hjúskaparlögum nr. 31/1993.
Lagaákvæði um forsjá og meðlag eru í barnalögum nr. 76/2003 og í greinargerð með lögunum er einnig að finna umfjöllun um efni þeirra.