Skip to main content
Skilnaður

Hver borgar hvað fyrir hvern?

„Mér finnst svo ósanngjarnt að við skulum vera látin borga tvöfalt meðlag með stráknum sem er aðra hvora viku hjá okkur. Það er ekkert pælt í því hvaða tekjur mamma hans hefur eða maðurinn hennar,  en þau eru mun betur stæð en við“.

Óhætt er að fullyrða að flestir foreldrar vilja sjá um framfærslu barna sinna og margir stjúpforeldrar greiða ýmislegt fyrir stjúpbörn sín eins og tómstundir, sumarfrí,  fatnað og mat og fleira.  Jafnvel þó bæði innlendar og erlendar rannsóknir sýni að stjúpforeldrar  séu síður tilbúnir til þess að styðja stjúpbörn sín en eigin börn.  Ef tengsl stjúpforeldra og stjúpbarna eru  góð er líklegra að þeim langi til að veita þeim  fjárhagslega stuðning en ef þau eru erfið eða engin.

Foreldrum ber lagalega skylda til að framfleyta börnum sínum.  Skiptir engu hvort þeir fari með forsjá þeirra eða ekki. Annað á við um stjúpforeldra og í raun hefur minnihluti þeirra framfærsluskyldu gagnvart stjúpbörnum sínum. Ástæðan er sú að um 90% foreldra fara með sameignlega forsjá við skilnað.  Þýðir það að minnihluti stjúpforeldra hefur forsjá stjúpbarna sinna.  Hafi þeir hana,  fellur hún niður við skilnað.

Því er hinsvegar ekki að neita ákveðnar væntingar eru til stjúpforeldra um framfærslu stjúpbarna.   Hvað varðar hið opinbera þá virðist sem að lögheimili barns sé látið ráða en ekki hvort stjúpforeldrið hafi forsjá þess eða ekki. Eða er hið opinbera ekki að  gera  ráð fyrir því að stjúpforeldri sem á  sama lögheimili og stjúpbarn  taki þátt í framfærslu barnsins,  þar sem  bætur tengdar börnum skerðast og  afsláttur fellur niður þegar breytingar verða á hjúskaparstöðu foreldrisins?

Ég er að reyna átta mig á þessu en  það virðist einhver önnur hugsun í gangi þegar kemur að stjúpforeldri sem er maki meðlagsgreiðanda.   Í  því tilviki virðast tekjur stjúpforeldrisins ekki skipta máli  þegar verið er að ákvarða hvort foreldri geti greitt eitthvað umfram einfalt meðlag með barni sínu eða ekki.   Auk þess sem það foreldri telst ekki  foreldri samkvæmt skattalögum og nýtur engra bóta tengda börnum  sem greitt er með meðlag, jafnvel þó það dvelji hjá því aðra hvora viku.   Ég velti fyrir mér af hverju sumir telja það þurfi að breyta lögheimilislögum  til að jafna betur opinberar bætur á milli heimila. Af hverju eru umgengnissamningar eða foreldrasamningar eins og ég kýs að kalla þá,  ekki látnir ráða?

Meðal almennings eru skiptar skoðanir um það hvort stjúpforeldri eigi að sjá um framfærslu stjúpbarna sinna eða ekki.  Í könnun sem send var út á vegum Félags stjúpfjölskyldna í fyrra taldi 52% svarenda að stjúpforeldrar ættu að borga til jafns við foreldra fyrir þau börn sem eru búsett á heimilinu.

En þegar tölurnar voru greindar nánar kom í ljós mikill munur á afstöðu fólks til þessa máls eftir samsetningu stjúpfjölskyldunnar.  En 65% þeirra sem áttu börn saman og báðir komu með börn í sambandið voru sammála jafnri framfærslu forelda og stjúpforeldra en aðeins 25% stjúpforeldra sem ekki átti börn sjálfir.  Tölurnar benda til þess að eignast barn saman skipti töluverðu um afstöðu bæði foreldra og stjúpforeldra varðandi þátttöku  stjúpforeldris í kostnaði vegna barna sem búsett eru á heimilinu.  Önnur afstaða virðist vera gagnvart börnum sem koma í „umgengni“ samkvæmt upplýsingum í nýlegri MA ritgerð í félagsráðgjöf. Þau börn virðast fá minni fjárhagslega aðstoð en börnin sem teljast búsett á heimilinu.  En hvenær teljast börn búa á heimili og hvenær eru þau í umgengni?

Jafnframt kom í ljós í fyrrgreindri  könnun  sem send var út á vegum Félags stjúpfjölskyldna að 25% svarenda voru þeirra skoðunar að foreldri ætti ekki að borga meðlag með barni sem býr með foreldri og stjúpforeldri. Þessi hugmynd hefur ekki farið hátt í umræðunni um meðlagsmál hér á landi – enda spurning hversu raunhæf eða sanngjörn hún er.

Hvað sem því líður þarf að skoða framfærslu  barna sem eiga foreldra á tveimur heimilum  svo tryggja megi þeim góð lífsskilyrði óháð hjúskaparstöðu foreldra og draga úr deilum sem kerfið skapar. Líklega þarf að endurskoða  kerfið frá grunni sem virðist taka mið af öðrum veruleika en við búum við í dag.

Valgerður Halldórsdóttir, félags- og fjölskylduráðgjafi

Instagram