Skip to main content
Börn og ungmenni

Sama hegðun – ólíkt mat

„Mér finnst stundum eins og stjúpsonur minn vilji ekkert með mig hafa og hann stjórni öllu heimilinu. Hann hefur frekar fyrir því að finna pabba sinn, til að biðja hann um eitt eða annað,  en að leita til mín sé ég nálægt.  “

Sjálfsagt eru börn misvel undir það búin að eignast stjúpforeldra.  Sumum finnst það hið besta mál að á meðan önnur eru ósátt.  Stuttur tími frá skilnaði foreldra eða ónæmni foreldrar á þörfum barnsins í nýjum aðstæðum hefur sín áhrif.  Foreldrar gegna lykilhlutverki en stundum líður þeim eins og þeir eru á milli steins og sleggju viti þeir ekki hvernig þeir geti komið á móts við ólíkar þarfir makans og barnsins. Foreldri er því ekki síður óöruggt en stjúpforeldrið í upphafi. Að vita við hverju er að búast, hjálpar. Á heimasíðunni www.stjuptengsl.is má finna ýmislegt sem gæti gagnast.

Það kann að koma sumum á óvart, sem alist hefur upp við ævintýrin um vondu stjúpuna, að flestir stjúpforeldar vilja góð samskipti við stjúpbörn sín og viðurkenning þeirra skiptir þá máli. Í nýlegri íslenskri könnun á stjúpfjölskyldum kom til að mynda í ljós að um 77% stjúpforeldra voru mjög/sammála fullyrðingunni „Viðurkenning barna maka míns skiptir mig máli“.  Það getur því reynt verulega á stjúpforeldrana séu börnin ekki tilbúin og þeir vita ekki við hverju má búast.   Í könnuninni kom einnig fram að stjúpbörn leituðu frekar til foreldra sinna en í stjúpforeldra en aðeins 35% stjúpforeldra sögu stjúpbörn leita jafnt til þeirra og foreldra sinna.  Það er því óvíst að stjúpforeldrar fái alltaf þá viðurkenningu frá börnunum sem þeir óska.

Rétt eins og fordómar geta komið  í veg fyrir að stjúpforeldrar njóta sannmælis og stuðnings í krefjandi hlutverki þá er sumum stjúpbörnum ætlaðir eiginleikar sem ekki er ætlað börnum almennt. Í stað þess að horfa á erfiða hegðun þeirra sem viðleitni í að halda tengslum og ná tengslum við foreldra sína sem geta verið eins og áður segir ónæmir á þarfir þeirra, eru sum stimpluð stjórnsöm og undirförul. Ef fimm ára gutti ýtir mömmu sinni frá pabba sínum þar sem þau kúra í sófanum og segist eiga pabba einn þykir hann krútt og foreldrunum finnst hann skemmtilegur. Ef hann hinsvegar ýtir stjúpmóður sinni til hliðar og segist eiga pabba einn er hætta á að hann sé talinn stjórnsamur, stjúpan upplifi höfnun og pabbinn vandræðagang,  taki fólk hegðun hans of persónulega.

Ef við kjósum að túlka hegðun barns sem  „diss“ gagnvart stjúpforeldri,  leiti það frekar til foreldrisins en þess fyrrnefnda, er hætta á að við lendum í ógöngum í samskiptum með tilheyrandi vanlíðan.  Börn eiga nefnilega ýmislegt sameiginlegt með fullorðnum. Flestum þykir eðlilegra að biðja góðan vin um lán fyrir kaffibolla en vin hans,  sem við getum þó verið ágætlega kunnug.  Af hverju ætti börnum að líða á annan hátt séu þau ekki jafn nánum tengslum við stjúpforeldrið og við foreldrið?  Hvernig myndu samskiptin þróast ef vinur vinarins tæki það mjög persónulega að hann væri ekki beðinn um lán fyrir bollanum og  túlkaði það sem svo að við værum að reyna útiloka hann á einhvern hátt? Jafnvel skemma vináttu hans við sameignlegan vin? Í hvaða sporum væri sameignlegi vinurinn?

Það má líka hafa í huga að framkoma stjúpforeldra er oft dæmd harðar en foreldra, sérstaklega  þegar kemur að agamálum. Við beinum sjónum okkar að vondu stjúpmóðurinni í Hans og Grétu en faðirinn sem fer með börnin sín út í skóg og skilur þau eftir, ekki einu sinni heldur tvívegis sleppur við alla fordæmingu samfélagsins. Hann er álitin fórnarlamb eiginkonu sinnar rétt eins og börnin hans.

Stundum er nauðsynlegt að setja hegðun og viðhorf okkar í víðara samhengi. Við þurfum að muna að góðir hlutir gerast hægt og tengslamyndun tekur tíma.   Þegar við höfum tengst fólki langar okkur frekar að koma á móts við óskir þess en ella – það sama á við um börn. Það getur því stundum verið gagnlegt í stjúpfjölskyldum að spyrja sig – hvað myndum við hugsa eða gera ef við ættum þessi börn saman?

Instagram