Skip to main content
Flokkur

Sáttamiðlun

Málin varða rúmlega 600 börn á ári Björk Eiðsdóttir Fréttablaðið

Eftir Sáttamiðlun, Skilnaður

Valgerður Halldórsdóttir félagsráðgjafi starfar m.a. sem sáttamaður sýslumanns í málefnum barna og segir deilur foreldra valda mikilli streitu hjá börnum. Fagdeild félagsráðgjafa í sáttamiðlun heldur námstefnu föstudaginn 1. mars í samstarfi við Sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu en Valgerður er ein þeirra sem starfa fyrir Sýslumannsembættið sem sérfræðingur í málefnum barna og sem sáttamaður í forsjár-, lögheimilis-, umgengnis-, dagsekta- og aðfararmálum með það að markmiði að hjálpa foreldrum að gera samning um þá lausn mála sem er barni fyrir bestu.

Valgerður segir að flestum foreldrum takist að leysa smám saman ágreining sem gjarnan fylgir skilnaði eða sambúðarslitum en margir leiti sér ráðgjafar varðandi börnin þegar að skilnaði kemur. „Oft áttar fólk sig ekki á þeim aðstæðum sem upp kunna að koma þegar börnin eiga tvö heimili og stundum stjúpforeldra á þeim báðum. Það sem kallaðist gott foreldrasamstarf þegar foreldrar voru einhleypir getur skapað ágreining í nýju sambandi t.d. þegar ekki er haft samráð við stjúpforeldri um breytingar á umgengni. Það er mjög mikilvægt að hafa í huga að lífið bæði hjá foreldrum og börnum tekur eðlilega breytingum sem geta haft áhrif á foreldrasamstarf með börn á tveimur eða fleiri heimilum. En samskipti við barnsföður eða -móður á hinu heimili barnsins er algengt ágreiningsefni í stjúpfjölskyldum. Það eru ákveðnar vísbendingar um að stór hluti foreldra sem eiga mál inni hjá sýslumanni er kominn í ný sambönd og deilur því ekki endilega í öllum tilvikum tengdar sambúðarslitum eða hjónaskilnaði. En þetta þarf að kanna miklu betur. Tölur hjá sýslumanni sýna hins vegar að þau mál sem þar eru til meðferðar varða á milli 600 og 650 börn ári.“ Lesa má viðtalið í heild sinni hér.

Sáttameðferð mikilvæg við skilnað – Viðtal

Eftir Sáttamiðlun

Val­gerður Hall­dórs­dótt­ir, fé­lags- og fjöl­skylduráðgjafi, starfar sem sér­fræðing­ur í mál­efn­um barna og sáttamaður hjá sýslu­mann­in­um á höfuðborg­ar­svæðinu. Hún er einnig í eig­in rekstri og er henn­ar sér­svið skilnaðir og stjúptengsl. Mál­efni barna sem eiga tvö heim­ili eru henni hug­leik­in. Hún verður með er­indi á nám­stefnu fag­deilda fé­lags­ráðgjafa í sáttamiðlun í sam­starfi við sýslu­mann­inn á höfuðborg­ar­svæðinu sem hald­in verður á Grand hót­eli 1. mars. Yf­ir­skrift nám­stefn­unn­ar er: Meira en mynd og grun­ur. Á nám­stefn­unni ætl­ar Val­gerður að fjalla um hvað börn­in segja hjá sýslu­manni.

Það er rétt­ur barna að segja það sem þeim býr í brjósti

Val­gerður seg­ir nám­stefn­una aðallega fyr­ir fag­fólk, en hún á von á að al­menn­ing­ur sem hef­ur áhuga á mál­efn­um barna muni einnig fjöl­menna.

„Í mínu er­indi mun ég fara yfir hvað fram hef­ur komið í viðtöl­um við börn hjá embætt­inu. Ég skimaði rúm­lega 40 viðtöl við börn hjá sýslu­mann­in­um í Reykja­vík og ræddi við aðra sér­fræðinga um hvaða skila­boð börn­in eru með til okk­ar full­orðna fólks­ins. Þetta er því ekki rann­sókn, en skimun­in gef­ur fullt til­efni til að gera rann­sókn­ir á þessu sviði.“

Val­gerður seg­ir að þeir for­eldr­ar sem ekki ná að semja um mál barna sinna sjálf­ir þurfi að fara í gegn­um sáttameðferð áður en úr­sk­urðað er í mál­um eða farið í dóms­mál.

„Sam­kvæmt barna­lög­um og Barna­sátt­mála Sam­einuðu þjóðanna eiga börn rétt á að tjá sig í mál­um er þau varða og er því rætt við börn til að mynda í for­sjár- og lög­heim­il­is­mál­um, sem og í um­gengn­is­mál­um. Um 58% for­eldra ná sátt­um í sáttameðferð hjá embætt­inu sem telst góður ár­ang­ur og er sam­bæri­leg­ur og á hinum Norður­lönd­un­um.“

Val­gerður seg­ir að deil­ur for­eldra séu börn­um skaðleg­ar, ef þeim tekst ekki að halda börn­un­um utan deilna.

Dæmi um börn sem sýna forðun

„Börn vilja ekki að láta þrýsta á sig þegar kem­ur að ákvörðun um um­gengni og þau vilja ekki velja á milli heim­ila.  Dæmi eru um að börn reyna að forðast það for­eldri sem þrýst­ir á þau og eru sí­fellt að ræða ágrein­ing­inn við þau. Því miður átt­ar for­eldri sig ekki á því að það er mögu­lega að skaða tengsl sín við barnið með eig­in fram­komu en kenn­ir mögu­lega hinu for­eldr­inu um að barnið vilji ekki fara á milli heim­ila. Börn hafa oft­ast ein­hverja skoðun á því hvernig þau vilja hafa hlut­ina en mörg vilja ekki særa for­eldra sína með því að tala hreint út.

Deil­ur for­eldra smit­ast oft inn í dag­legt líf barna og sum hver ótt­ast hrein­lega brott­nám hafi  for­eldr­ar mætt í skóla eða á leik­völl­inn óund­ir­búið. Sum barn­anna vilja ekki mæta í skóla eft­ir það. Það sem börn­in vilja er að for­eldr­ar leysi mál­in sín á milli. Þau vilja ekki særa for­eldra sína en þurfa stund­um svig­rúm til að vera aðeins meira hjá öðru for­eldri en báðum.

Skoða þarf hvert mál fyr­ir sig og hollt er hverj­um og ein­um að skoða hvað hægt er að gera til að bæta sam­skipt­in og aðbúnað barns á eig­in heim­ili.“

Val­gerður seg­ir að al­geng­asta umkvört­un­ar­efni barna í stjúp­fjöl­skyld­um vera að þau fái ekki tíma ein með for­eldri sínu.

„Sum kvarta yfir að for­eldrið sé alltaf að vinna og ekk­ert pláss á heim­il­inu sem þau geta kallað sitt og langt í vini. Svo vant­ar stund­um upp á tengsl við barnið sem vinna þarf í. Sum­ir for­eldr­ar glíma við alkó­hól­isma og aðrir beita of­beldi.“

Val­gerður seg­ir mik­il­vægt að tryggja ör­yggi barns­ins og að það fái rými til að vinna upp traust. Sem dæmi eft­ir áfeng­is­meðferð for­eldr­is. Val­gerður seg­ir að tálm­un eigi sér stað einnig í sam­fé­lag­inu þar sem vegið er mjög al­var­lega að mik­il­væg­ustu tengsl­um barns­ins í líf­inu – þar eð tengsl við annað for­eldri sem það fær ekki að um­gang­ast.

Hún seg­ir það ein­mana­lega stöðu fyr­ir börn að vera í þegar for­eldr­ar deila. „Þess­um börn­um líður ekki vel á öðru heim­il­inu eða báðum og treyst­ir sér oft ekki til að ræða van­líðan sína af ótta við að rugga bátn­um. For­eldr­ar þurfa því oft aðstoð til að halda áfram.“

Marg­ir for­eldr­ar ná að setja börn­in í for­grunn

Val­gerður seg­ir að í upp­hafi skilnaða tali sum­ir for­eldr­ar stund­um illa um hvort annað, þá sé stund­um reiði og heift, en hún vil benda á að stór hluti for­eldra reyni að vanda sig þrátt fyr­ir ágrein­ing barn­anna vegna. Hún seg­ir mik­il­vægt að styðja við að for­eldr­ar séu í góðum tengsl­um við börn­in sín og að oft séu for­eldr­ar þá báðir eða ann­ar að gera hluti sem skaðar börn­in án þess að gera sér grein fyr­ir því.

„At­hug­an­ir mín­ar sýna að deil­ur for­eldra geta smit­ast yfir á öll svið í lífi barna. Börn sem eiga for­eldra sem halda áfram að deila eft­ir skilnað þurfa að skipta barnæsk­unni á milli tveggja aðila. Það er þá tími móður­inn­ar og tími föður­ins og þess­ir staðir verða átaka­svæði og allt í kring­um skipu­lagið verður stirt.“

Eins bend­ir hún á að þegar stjúp­for­eldr­ar eru komn­ir inn í mynd­ina þótt vel gangi þá flæk­ist enn þá meira ver­öld barn­anna sem flest eru á því að þau vilji að hlut­irn­ir ger­ist hæg­ar.

Val­gerður seg­ir mik­il­vægt að sinna ákveðnu for­varn­a­starfi þegar kem­ur að börn­um sem eiga tvö heim­ili og forðast hún að setja merkimiða á börn út frá hegðun for­eldra. Vill hún að talað sé um börn frá­skil­inna for­eldra í stað skilnaðarbarna eða börn alkó­hólista í stað „alka­barna“ ef við telj­um okk­ur þurfa að greina þau eft­ir reynslu þeirra og aðstæðum.

„Þetta eru bara venju­leg börn sem eiga tvö heim­ili og með reynslu sem get­ur sett mark sitt á þau en það má ekki gleyma því að flest­um vegn­ar vel. Eins er mik­il­vægt að við átt­um okk­ur á að það eru alls kon­ar ástæður fyr­ir því að börn eiga fleiri en eitt heim­ili og því óþarfi að flokka börn eft­ir stöðu for­eldra sinna á þenn­an hátt. Sam­fé­lagið verður hins veg­ar að taka mið af þess­ari staðreynd.“

Börn vilja gæðastund­ir með for­eldr­um sín­um

Val­gerður seg­ir að ef við hugs­um um vel­ferð barn­anna þarf allt efni frá skól­um, sam­fé­lag­inu og rík­inu að taka mið af því að fjöld­inn all­ur af börn­um eiga fleira en eitt heim­ili. „Ef eitt af verk­efn­um í skól­an­um er að teikna mynd af heim­il­inu, af hvaða heim­ili eiga börn sem eiga tvö heim­ili að teikna? Það eru um 1.200 börn ár­lega sem upp­lifa skilnað for­eldra sinna. Við erum ekki að tala um nokk­ur börn á ári. Ef við ætl­um að hafa hag­muni barna okk­ar að leiðarljósi, þá verðum við að skoða hvað þau eru að segja okk­ur. Þau vilja ekki vera öðru­vísi eða á jaðrin­um. Þau vilja að for­eldr­ar setji per­sónu­leg­an ágrein­ing sinn til hliðar og að for­eldr­ar þeirra viti að þeim geti mögu­lega fund­ist flókn­ara að upp­lifa breyt­ing­ar á eig­in for­eldri sem komið er í nýtt ástar­sam­bandi og mynda ný tengsl við stjúp­for­eldra og börn þeirra, en í gegn­um skilnað for­eldra sinna. Þau vilja að for­eldr­ar fari hægt í gegn­um breyt­ing­ar, inn í ný sam­bönd og fleira í þeim dúrn­um og síðan vilja þau tíma með for­eldr­um sín­um án þess að þurfa að deila tím­an­um með öðrum aðila, eins og nýj­um maka – öll­um stund­um. Það eru til góðar leiðir og lausn­ir í öll­um mál­um, ef hags­mun­ir barn­anna okk­ar eru sett­ir í fyr­ir­rúm.“

 

Sótt af vef mbl. https://www.mbl.is/born/frettir/2019/02/27/sattamedferd_mikilvaeg_vid_skilnad/

 

 

Instagram