Skip to main content
All Posts By

valgerdur

Hlutverk stjúpmæðra – Örnámskeið 7. apríl 2021

Eftir Námskeið

Stjúpmóðurhlutverkið vefst fyrir mörgum, á sumum sviðum gengur vel en á öðrum reynir verulega á.

Óvissa um hvað „eigi og megi“ t.d. þegar kemur að börnunum og fyrrverandi maka makans veldur oft streitu og kvíða í annars góðu sambandi. Á örnámskeiðinu verður stuttlega farið yfir helstu áskoranir stjúpmæðra og hvað getur hjálpað til að takast á við og mótað hlutverkið.

Hvenær? 7. apríl 2021

Hvar? Merkurgötu 2b, Hafnarfirði

Klukkan hvað? kl. 18.00 til 21.00

Kennari: Valgerður Halldórsdóttir félagsráðgjafi, MA

 

Örnámskeið fyrir stjúpfeður

Eftir Námskeið

Stjúpföðurhlutverkið vefst fyrir mörgum, á sumum sviðum gengur vel en á ððrum reynir verulega á. Óvissa um hvað „eigi og megi“ t.d. þegar kemur að uppeldi stjúpbarna og samskipti við fyrrverandi maka sé hann til staðar. Sumir velta fyrir sér hvernig megi að tryggja góð tengsl við börn sín úr fyrra sambandi nýjum í stjúpfjölskyldum.

Á örnámskeiðinu verður stuttlega farið yfir helstu áskoranir stjúpfeðra og hvað getur hjálpað til að takast á við verkefnin ´á uppbyggilegan máta og mótað hlutverkið.

Námskeiðið er 3 tímar frá kl. 18.00 til 21.00 Skráning er á stjuptengsl @stjuptengsl.is
Kennari: Valgerður Halldórsdóttir félagsráðgjafi, MA

Samráð um fjármál – tekjumissir

Eftir Skilnaður

Covit og  önnur veikindi, atvinnuleysi eða annað sem skerðir tekjur eða eykur útgjöld getur haft veruleg áhrif á fjármál heimila og bregðast margar fjölskyldur við með því að reyna draga saman á öðrum sviðum.

Slíkar breytingar á öðru heimili barnsins getur haft áhrif á fjárhagsáætlanir á hinu heimili þess, sérstaklega ef skortur er á samráði milli heimila. Ákvörðun annars foreldris t.d. um fatakaup eða tónlistarnám sem hitt foreldrið „á“ að borga með viðkomandi, getur skapað ágreining milli heimila, vanti samráð.  Eins og með aðrar deilur bitnar sá pirringur ósjaldan á börnunum.

Stella, 37 ára móðir og stjúpmóðir

„Ég verð að viðurkenna að ég læt stelpuna fara í taugarnar á mér þegar hún kemur með „innkaupalista“ eða einhverjar fyrirskipanir frá mömmu  sinni,  um að við eigum að borga hitt eða þetta núna af því mamma hennar er komin í nám, eins og það sér  okkar mál.  Ég hef ekki einu sinni ráð á að fara í nám sjálf og við eigum nóg með okkur“

Mikilvægt er þegar verið að taka ákvarðanir sem snerta tíma eða buddur annarra en okkar eigin er að eiga samráð,  sem er lykilatriði vilji fólk eiga góð samskipti – barnanna vegna.

Flest verða þau stjúpbörn – viðtal

Eftir Börn og ungmenni

„Umræðan um börnin endar oft við skilnaðinn en flestir foreldrar fara í ný sambönd, og sumir mjög fljótt, þannig að börnin verða stjúpbörn og foreldrar þeirra stjúpforeldrar. Fólk áttar sig ekki á því til að mynda eiga um 70% barna sem rætt er við hjá sýslumanni stjúpfjölskyldur  hjá öðru eða báðum foreldrum sínum.

„Þegar foreldrar fara fljótt í ný sambönd getur það haft áhrif á aðlögun barna að skilnaðnum og að stjúpfjölskyldunni en algengasta umkvörtunarefni er barna er þeim finnst hlutirninr gerast allt of fljótt og þau fái ekki tíma ein með foreldri sínu“.  Séu foreldrar í miklum ágreiningi verður þetta allt miklu erfiðara fyrir þau og  líka oft mjög einmannalega staða þar sem þau treysta kannski ekki foreldrum sínum fyrir líðan sinni þar sem allt verður að ágreiningi á milli þeirra. Hún segir flestum foreldrum koma á óvart hvaða breyting getur orið á foreldrahlutverkið breytist við skilnað. „Verkefninin verða fleiri, barnið  á  lífi sem foreldri hefur ekki eða minni aðgang að, það þekkir jafnvel ekki vini sem barnið umgengst á hinu heimilinu eða stjúpættinga þess.  en  það er óþægileg tilfinning að missa yfirsýn yfir líf barnins.  En ef foreldrar reyna hvað þeir geta til að hafa samskiptin sín á milli í lagi, sem er svo mikilvægt, þá verður auðveldara að halda yfirsýninni.“

Að sögn Valgerðar eru börn misvel undir það búin að vera komin með tvö heimili. „Þau eru jafnvel ennþá að jafna sig á skilnaðinum og hafa ekki fengið tækifæri til að ræða tilfinningar sínar í kringum hann. Sorgin í kringum skilnað foreldra kemur mjög oft upp þegar ég ræði við börn í ráðgjöf um stjúptengsl. Foreldra vantar oft skilning og innsæi á þroska og þörfum barna í þessu ferli. Börnin eru sorgmædd og leið og þurfa á foreldrum sínum að halda en geta jafnvel ekki sagt það upphátt og láta sum líðan sína í ljós með hegðun sinni.“ Að standa í skilnaði á sama tíma og verið er að búa til stjúpfjölskyldu er ansi flókið verkefni sem auðvelt er að misstíga sig.

Viðtalið er hægt að lesa í heild sinni í Vikunni https://www.man.is/vikan/segir-staerstu-mistokin-ad-lata-sig-hverfa-ur-lifi-barnanna/

Ég ráðlegg fólki að hætta að reyna fá viðurkenningu frá fyrrverandi maka – viðtal

Eftir Fjölskylda

„Það getur verið erfitt að flytja inn á heimili þar sem aðrir eru fyrir, jafnvel þótt það sé búið að útbúa sérherbergi með góðum vilja og hvaðeina,“ segir fjölskyldu- og félagsráðgjafinn Valgerður Halldórsdóttir sem prýðir forsíðu Vikunnar að þessu sinni.

„Það getur meira að segja verið erfitt fyrir foreldrið að flytja inn á heimili þar sem aðrir eru fyrir og kannski upplifir það sig aldrei eiga fullkomlega heima þar sjálft. Stundum er líka krafist aðlögunar í aðra áttina. Við konur segjum líka oft: „Á mínu heimili …“ og börnin velta þá fyrir sér hvort þau og pabbi þeirra eigi heima þar líka. Þau fá það á tilfinninguna að stjúpmóðirin ráði öllu, sem stundum er raunin. Stundum eru foreldri og stjúpforeldri ekki sammála um hvort barnið eigi heima á heimilinu eða hvort það sé gestur. Þegar barn segir: „Mér finnst ég ekki eiga heima hérna“ eða: „Ég er ekki í fjölskyldunni“ er algengt að það sé leiðrétt og látið vita að víst eigi það heima þarna eða auðvitað sé það í fjölskyldunni í stað þess að svara tilfinningu þess. Hvað þarf að gera til að barninu líði eins og heima hjá sér eða til að því líði eins og það tilheyri fjölskyldunni?“

Óumbeðin uppeldisráð stjúpforeldris óvinsæl
Blaðamaður hugsar upphátt og spyr Valgerði hvort nauðsynlegt sé að foreldri, þ.e. fyrrverandi maki, og stjúpforeldri hafi einhver samskipti sín á milli en hún hristir höfuðið. „Ég held að það sé ekki nauðsynlegt að hafa mikil samskipti, það er nóg að geta hist og að vera kurteis í samskiptum í aðstæðum eins og afmælum, útskriftum og þess háttar. Stundum vill fólk ekki vera í neinum samskiptum og það getur truflað fyrrverandi maka að stjúpforeldrið sé inni í öllum tölvupóstssamskiptum foreldra. Hann hafi hvorki áhuga á að tala við viðkomandi né veita tilvist hans einhverja sérstaka viðurkenningu. Gæti jafnvel ekki verið meira sama. Ég ráðlegg fólki að hætta að reyna að fá viðurkenningu frá fyrrverandi maka sé hann ekki tilbúinn að veita hana. Besta viðurkenningin er í rauninni sú að finna það að barnið vilji vera hjá þér og að þið séuð í góðum tengslum.“

Blaðamaður nefnir dæmi úr nærumhverfi sínu þar sem stjúpmóðir sendi móðurinni óumbeðin uppeldisráð og spyr hvort það sé eitthvað sem vert sé að leggja sig fram við. „Nei,“ svarar Valgerður hlæjandi, „ég myndi aldrei mæla með því. Maður fer ekki að senda einhverju fólki sem maður er í engum tengslum við óumbeðin uppeldisráð. Hins vegar gæti verið óskað eftir samtali um eitthvað, til dæmis vandamál varðandi tölvunotkun sem ætti auðvitað að vera sjálfsagt. En óumbeðin uppeldisráð eru ekki til þess fallin að slá í gegn og skapa engar vinsældir.“

Viðtalið í heild má lesa í nýjasta tölublaði Vikunnar.

https://www.man.is/vikan/eg-radlegg-folki-ad-haetta-ad-reyna-ad-fa-vidurkenningu-fra-fyrrverandi-maka/

Hver er í fjölskyldunni?

Eftir Fjölskylda

Stundum hreykir fólk sér af frændsemi  og tengslum við aðra sem þótt hefur skara fram úr.   Hafi viðkomandi  til dæmis unnið til verðlauna vegna andlegs atgerfis  eða útlits er hann gjarnan „meira“ tengdur  viðkomandi,  en sá sem hefur sýnt hegðun sem ekki þykir til eftirbreytni.  Það er þó ekki algilt frekar en annað.  Kannski skiptir tíminn einhverju máli í því samhengi.  Það þykir til að mynda frekar fínt í Ástralíu að geta rakið ættir sínar til „glæpamannanna“ sem Bretar losuðu sig við á sínum tíma.  Stundum var eini „glæpur“  þeirra, fátækt.

Þegar kemur að því að velta fyrir okkur hver tilheyrir frændgarði  okkar og fjölskyldu vefst það síður  fyrir fólki sem ekki hefur reynslu af skilnað eða sambandsslitum en þeim sem hafa þá reynslu í farteskinu.  Börnin, hvort sem þau eru ung eða fullorðin, tilheyra fjölskyldu foreldra sinna og foreldarnir  fjölskyldu barna sinna.   Ef einhver þykir hafa sýnt óviðeigandi lífsstíl eða hegðun er hann í versta falli  talinn vera „svarti sauðurinn“ í fjölskyldunni og fáir myndu gera athugasemd við það þó hann vildi vera með á fjölskyldumyndinni á ættarmótinu fyrir austan.  Makar,  tengdaforeldrar og tengdabörn,  teljast líka venjulega til fjölskyldunnar  hvort sem samskiptin þykja  góð og uppbyggileg eða erfið og niðurrífandi.

Óhjákvæmilega fylgja breytingar skilnaði og nýju sambandi. Sumar eru nokkuð fyrirsjáanlegar en aðrar koma á óvart eins og  að börn og foreldrar skilgreina fjölskyldu sína á annan hátt en áður. Ástæðan er sú að sjaldnast nefna fyrrverandi makar hvorn annan sem hluta af fjölskyldu sinni en tilheyra þó oftast áfram fjölskyldu barna sinna.  Þegar foreldrar fara í nýja sambúð eða hjónaband bætist við maki og stundum börn hans,  sem verður til þess að margir skilgreina fjölskyldu sína upp á nýtt. Það er hinsvegar ekki  sjálfgefið að þótt fólk deili heimili að það telji hvort annað til fjölskyldu sinnar. Ef börnum líkar til að mynda ekki við stjúpforeldri sitt eða ef stjúpforeldrið hefur ekki náð að tengjast stjúpbarninu eru minni líkur á að viðkomandi teljist til fjölskyldu þess en ella.  Að upplifa sig útundan er vond tilfinning, á það bæði við um börn og fullorðna. Við þurfum öll á viðurkenningu að halda. Það kann að koma sumum á óvart að viðkenning stjúpbarna skiptir stjúpforeldra máli og að þeir hafa trú á því í fyrstu að stjúpfjölskyldur verði nánari með tímanum.  Börn eru hinsvegar mistilbúin til þess í fyrstu að taka þeim og þá er hætta á að stjúpforeldri sem reynt hefur eftir bestu geti að tengjast þeim,  upplif höfnun séu þau ekki reiðbúin.   Séu samskipti maka stjúpforeldrisins við fyrrverandi maka líka erfið eru meiri líkur á að stjúpforeldrið finnist  barnið og allt sem því  viðkemur smá saman verða vandamál og vill sem minnst af því vita. Jafnframt fylgir streita þessum aðstæðum sem  bitnar bæði á börnum og fullorðnum. Hætta er á að sá stuðningur sem mögulega var fyrir hendi í fyrstu minnki eða hverfi en tengsl segja til um hversu mikinn eða lítils stuðnings er að vænta af viðkomandi og hvort fólk treysti sér til að leita eftir honum þegar á þarf að halda.

Stjúpfjölskyldur þurfa stuðning og að vita hvað er normalt fyrir þær, í stað þess að reyna bera sig saman við fjölskyldur þar sem öll börn eru sameiginleg. Jafnfram þarf að vinna í að koma á góðum samskiptum við fyrrverandi maka/barnsföður eða –móður,  séu þau ekki í lagi.

Meiri líkur eru á að stjúpforeldrar – og börn fái stuðning og veiti stuðning séu góð tengsl fyrir hendi. Stundum þarf fólk að læra hvað hjálpar þannig að þétta megi tengslanetið og fleiri fái að tilheyra fjölskyldu viðkomandi. Það ber því að fagna þeirri vinnu sem farin er af stað hjá hinu opinbera að móta fjölskyldustefnu sem tekur mið af margbreytileikanum – og ekki síst auknum áhuga almennings á málefninu.

Valgerður Halldórsdóttir, félags- og fjölskylduráðgjafi

Börn skipta foreldrum ekki út fyrir stjúpforeldra

Eftir Fjölskylda

Óhjákvæmilegar fylgja breytingar á daglegum venjum og hefðum við skilnað. Margir upplifa missi sem fylgja brostnum draumum, minni tilfinningalegan og efnahagslegan stuðning,   aukið álag og breytt samskipti foreldra og barna.  Í ljósi þess að um 36% hjónabanda endi með skilnaði hér á landi, tíðni sambúðarslita há og að yfirgnæfandi meirihluti er kominn í ný sambönd innan fjögurra ára er í raun merkilegt hvað fjölskyldumálin fá litla athygli.

Löggjafinn hefur enn ekki séð ástæðu til að tryggja fólki ráðgjöf við skilnað eða við stofnun stjúpfjölskyldna. Það ber þó að þakka að Félag stjúpfjölskyldna hlaut styrk á dögunum frá Félags- og tryggingaráðuneytinu sem gerir því m.a. mögulegt að halda úti símaráðgjöf og vera með fræðsluerindi og námskeið sem ber heitið „Sterkari stjúpfjölskyldur“ fyrir félagsmenn sína. Áhugasamir geta fengið frekari upplýsingar á stjuptengsl.is.

Þó flestir fari í ný sambönd virðast margir ekki nægjanlega undirbúnir undir þær breytingar sem oft fylgja eins og breytt foreldrasamvinna og samskipti foreldra og barna. Í stað þess að foreldrar ákveði alla hluti þarf nú að taka tillit til fólks sem annar aðilinn veit kannski lítil eða engin deili á eða er jafnvel mjög ósáttur við. En ólíkt því þegar börn fá nýjan kennara eða íþróttaþjálfara þá þykir það ekki jafn eðlilegt að báðir foreldrar kynnast nýju stjúpforeldri barna sinna, jafnvel þó  barnið sé í umsjá þess aðra hvora viku. Séu samskipti erfið milli foreldra er jafnvel litið á allar tilraunir foreldris til að fá upplýsingar um hvernig gengur sem eftirlit með fyrrverandi  í stað umhyggju fyrir börnunum.

Oftast vekur nýi maki fyrrverandi makans eðlilega forvitni en sé stutt liðið frá sambandsslitum og fólk ekki náð að jafna sig er meiri möguleiki á að viðkomandi finni fyrir tilfinningum eins reið og sorg.  Ýmsar ástæður geta legið þar að baki en sumir voru kannski ósáttir við skilnaðinn og höfðu jafnvel vonast til að hann væri tímabundinn. Aðrir óttast að missa tengslin við börnin sín og að þau hafi ekki lengur sömu þörf fyrir þá og áður þegar þau eignast stjúpforeldri eða þau taki stjúpforeldrana fram yfir þá sjálfa.  Tilfinningin að halda sig „hreinan óþarfa“ í lífi barna sinna er vond en það fjarri sanni að halda að foreldri skipti minna máli en áður. Börn þurfa á báðum foreldrum sínum að halda, jafnvel meira en áður.

Ótti foreldra við að börn þeirra „skipti þeim út“ fyrir stjúpforeldri eða foreldri sé ekki samkeppnisfært við það er oftast ástæðulaus.  Hvorki stjúpforeldrar né foreldrar þurfa eða eiga að vera í samkeppni um börnin. Börn skipta ekki út einni foreldrafyrirmynd fyrir aðra, heldur geta þau átt margar. Ást og væntumþykja kemur ekki í takmörkuðu upplagi og börn græða á góðum samskiptum við alla aðila. Stjúpforeldrar geta verið ágæt viðbót.

 Valgerður Halldórsdóttir, félags-og fjölskylduráðgjafi

Fjölskyldustefna innan – sem utan heimilis

Eftir Fjölskylda

Þegar fólk er komið á efri ár er það gjarnan beðið um að líta yfir farin veg og segja hvað það hefði viljað gera öðruvísi í lífinu ef það fengi tækifæri til að lifa því upp á nýtt.  Ýmislegt er týnt til. Margir segjast hafa viljað ferðast meira, verið óhræddari við að standa með sjálfu sér eða hafa átt meiri tíma með fjölskyldunni og unnið minna.  Óhætt er að segja að sumir eiga fárra kosta völ og neyðast til að vinna mikið, jafnvel langtímum saman fjarri fjölskyldu sinni til að geta séð fyrir sér og sínum.  Margir Íslendingar þekkja vel þungar greiðslubyrðar af lánum.  Aðrir kjósa að helga sig vinnunni  og láta fjölskyldu og vini mæta afgangi vegna“ aðkallandi verkefna“ sem engan enda virðist taka.

Bæði ríki og mörg sveitarfélög, fyrirtæki og stofnanir hafa komið sér upp fjölskyldustefnu og sýnt vilja til að reyna koma á móts við þarfir foreldra á vinnumarkaði s.s. með samræmdum starfsdögum í leik- og grunnskóla og með sveigjanlegum vinnutíma sem er hið besta mál.

Stundum geta þó ákvarðanir þessara aðila skapað vanda fyrir fjölskyldur sem hafa þá lítið svigrúm til að ákveða hvað hentar þeim sjálfum.  Nefna má sem dæmi þegar fólk er skikkað í sumarfrí á ákveðnum tíma, sumarlokanir leikskóla og ákvarðanir íþróttafélaga, stundum án samráðs  við foreldra um að keppa eigi á Selfossi um helgina og svo á Seltjarnarnesi helgina þar á eftir.  Auðvitað er allt gott og blessað við að börn fái sumarfrí og taki þátt í íþróttum  en þurfi allir að vera í fríi á sama tíma og af hverju þarf allar þessar keppnir, sérstaklega fyrir yngri deildirnar?  Eins og með annað finnst sumum þessar keppnir bæði ómissandi og bráðskemmtilegar og sumarfrístíminn hentar þeim vel sem og sumarlokanir leikskóla.  Aðrir hafa minni áhuga og langar að gera eitthvað allt annað með börnunum um helgar eða taka frí á öðrum tíma með þeim,  en láta sig hafa það að taka þátt og þegja þunnu hljóð af ótta við að vera álitnir fremur lélegir foreldrar.

Flestir foreldrar vera með börnum sínum í sumarfríi og hvetja þau áfram í íþróttum eða í tómstundum en vilja hinsvegar fá að hafa eitthvað um það að segja hvar og hvenær. Það er ekki sjálfgefið að foreldrar, stjúpforeldrar eða fósturforeldrar geti fengið sumarfrí eða mætt á mót á þeim tíma sem bæjarstjórn eða íþróttafélagið ákveður hverju sinni.  Fjölskyldur þurfa að geta átt meira val um hvernig þær ráðstafa tíma sínum og peningum. Með reglulegum könnunum er hægt að  komast að hvað hentar – og hvernig er hægt að koma á móts við ólíkar þarfir fólks.   Ólíklegt er að hægt sé að koma á móts við þær allar – en það er gott að geta átt val og taka þann kost sem hentar best.

Stundum virðist okkur líka skorta fjölskylduvæna stefnu á heimilinu sem gerir ráð fyrir óskiptri athygli fjölskyldumeðlima og þar er lítið við aðra að sakast nema þá  okkur sjálf.  Víða eru mörkin milli einkalífs og starfs  óljós. Við getum látið sem við séum að taka þátt í samræðum eða að horfa á sjónvarpið með fjölskyldunni með því að muldra reglulega „aha“  og brosað en verið í raun andlega fjarverandi – á kafi í  excelskjalinu eða verið að svara „aðkallandi“ tölvupóstum.  Fólk getur líka verið andlega fjarverandi á heimili þó það sé ekki á kafi í vinnu en auðvelt er að týna sér í feisbúkk, kandíkruss eða tölvuleikjum vanti sjálfsstjórn.

Samkeppni barna um óskipta athygli foreldra og  foreldra um athygli barna sem og maka getur því stundum verið hörð vanti stefnu á heimilinu um tölvunotkun.   Mörgum hefur reynst vel að ákveða saman  í fjölskyldunni hve miklum tíma fólk  ver í  tölvunni og þá hvar og hvenær. Svo getur verið hjálplegt að hver og einn segi til um hvernig hann vilji láta minna sig á  – hafi hann gleymt sér.   Í stað þess að líta á umkvartanir sem nöldur sem vert er að reyna leiða hjá sér –  má líta á þær sem tækifæri til umbóta. Upphaf að einhverju nýju.   Fjölskyldustefna er því ekki bara eitthvað sem aðrir eiga að sjá um – hún er líka í höndum okkar sjálfra.

Valgerður Halldórsdóttir félags- og fjölskylduráðgjafi

Orð skipta máli – eða „eþakki“?

Eftir Fagfólk

„Já ég er alveg sammála þér, mér finnst þetta orð „umgengnisforeldri“ leiðinlegt. Það er eitthvað svo niðurlægjandi eins og maður sé annars flokks foreldri“.  Á vefnum syslumenn.is er að finna mikið af gagnlegum upplýsingum, meðal annars um svokallaða umgengni og fyrrnefnda umgengnisforeldra en það eru þeir foreldrar sem ekki eiga sama lögheimili og börn þeirra.  Þar segir að tilgangur umgengninnar sé að tryggja að barn fái að umgangast og halda sambandi við það foreldri sitt sem það býr ekki hjá. Jafnframt að það sé réttur foreldris að fá að umgangast barn sitt og á því hvílir skylda að sinna umgengni við barnið.

Flestir foreldrar vilja mikil samskipti við börn sín óháð því hvar lögheimili þeirra er skráð og gera það sem þeir geta til að börnin geti átt samvistir við báða foreldra sína, jafnvel þeir sem eiga í persónulegum deilum. Því miður á það ekki við um alla foreldra. Sumir foreldrar  ákveða að vera ekki inni í lífi barna sinna frá upphafi en aðrir láta sig smá saman hverfa úr lífi þeirra. Algengar ástæður þess að foreldrar draga úr tengslum við börn sín eftir skilnað eða skera á þau,  er að þeir geta átt erfitt með að þola þann sársauka sem fylgir að vera ekki lengur í daglegum samskiptum við þau, erfið samskipti við fyrrverandi maka eða vegna misskilinnar tillitssemi þ.e. til að skapa rými fyrir stjúpforeldri í lífi barnanna. Stundum er skorðið á tengsl við eigin börn vegna erfiðra stjúptengsla  í stað þess að reyna bæta og læra nýjar leiðir. Ef foreldri sinnir ekki börnum sínum hefur það engar lagalegar afleiðingar en fátt er erfiðara börnum en höfnun foreldra, sama hvaða ástæðu þeir gefa sér. Það er líklega ekki að ástæðulausu að sum börn upplifi sig minna metin að verðleikum en önnur börn.

Hið fyrrnefnda „umgengnisforeldri“ er ekki að finna á vef Hagstofunnar og því ekki sýnilegt í opinberum tölum hennar nema sem „einstaklingur“. Ef það komið í sambúð að nýju er það „hjón eða óvígð sambúð með börn“ séu börn með lögheimili á heimilinu eða „hjón eða óvígð sambúð án barna“ hvernig svo sem menn komast að þeirri niðurstöðu.   Þar má hinsvegar finna „einstætt foreldri“ og „einhleypt foreldri“, „kona með barn“ og „karl með barn“. Kannski að það ætti að vera „karl (eða kona) með lögheimili barns“ ef ég skil þetta rétt þar sem ekki er verið að vísa í foreldra almennt.  Á vefnum kemur líka fram að hugtakið lögheimili sé „tölfræðilegt“ hugtak. Það þýðir líklega að nota eigi hugtakið til mælinga en það er verra þegar það er notað til að skilgreina hverjir eru foreldrar og ekki foreldar samkvæmt Hagstofunni. En þegar rætt er um einhleypa foreldra hér á landi er líklega aðeins eiga við um títtnefnda lögheimilisforeldra en fjöldi þeirra árið 2013, voru um þrettán þúsund manns og yfirgnæfandi meirihluti konur.

Svo virðist sem að litið sé á að lögheimili feli í sér „fasta búsetu“ og börn fari í „umgengni“. En hvað er föst búseta? Hún á að vera einhverskonar bækistöð okkar, þar sem við dveljumst að jafnaði í tómstundum okkar, höfum heimilismuni okkar og svefnstað þegar við erum ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika.  Ég velti því þá fyrir mér hvort barn sem dvelur viku og viku hjá hvoru foreldri um sig uppfylli skilyrði fastar búsetu? Ef svo er, á það þá ekki við um bæði heimilin? Nú hvað með börn sem eru 10 daga á heimili móður og 20 daga á heimili föður ef þau eiga sambærilega hluti á báðum stöðum og foreldrar deila ábyrgð og umönnun nokkuð jafnt?

Spurning hvort við þurfum ekki ný viðmið til að fá fram upplýsingar um fjölskyldugerðir sem gefi betri mynd af  veruleikanum og hugtök sem endurspegla sameignlega ábyrgð foreldra. Kannski má kalla umgengnissamninga „foreldrasamninga“ þar sem fram kemur hvernig þeir ætla að sinna hlutverki sínu og tryggja rétt barna sinna. Ef til vill er orðið „samvistir“ meira lýsandi og viðeigandi orð en  „umgengni“  og  kostnaðarskiptingu jákvæðara en meðlag. Börn þurfa á því að halda að samfélagið styðji við báða foreldra þeirra, geri þá sýnilega og líti  á þá sem jafn mikilvæga í lífi þeirra með aðgerðum sínum og orðum – er eftir einhverju að bíða?

 

Valgerður Halldórsdóttir, félags- og fjölskylduráðgjafi

 

 

Sorg og missir mistúlkuð sem frekja – viðtal

Eftir Börn og ungmenni

„Ég hef reynt marg­ar áskor­an­ir stjúp­fjöl­skyldna á eig­in skinni, bæði sem upp­komið stjúp­barn og stjúp­móðir. Ég hélt dag­bók þegar ég varð stjúpa á sín­um tíma og þegar ég lít til baka sé ég að vanda­mál­in sem ég og mín fjöl­skylda vor­um að glíma við voru frem­ur hvers­dags­leg fyr­ir stjúp­fjöl­skyld­ur, en þau reyndu veru­lega á okk­ur á þess­um tíma þar sem við kunn­um ekki að tak­ast á við þau,“ seg­ir Val­gerður Hall­dórs­dótt­ir, fjöl­skyldu- og fé­lags­ráðgjafi, sem í dag veit­ir stjúp­fjöl­skyld­um ráðgjöf, en hún held­ur úti heimasíðunni www.stjuptengsl.is.

Val­gerður seg­ir að þegar kem­ur að því að stofna stjúp­fjöl­skyldu skipti mestu máli að taka því ró­lega, kynn­ast vel og ná tengsl­um. Hún seg­ir jafn­framt að mik­il­vægt sé að rækta tengsl­in við eig­in börn, auk þess að gefa sér tíma til að kynn­ast stjúp­börn­un­um vel. En skyldi hún luma á ein­hverj­um ráðum sem geta ein­faldað fólki lífið?„Fólk held­ur gjarn­an að þegar það er að búa til fjöl­skyldu þurfi það að eyða öll­um stund­um sam­an sem hóp­ur. Það er ekki væn­leg leið þegar mynda á tengsl við hvern og einn og kynn­ast vel. Maður á mann sam­skipti skipta mestu máli til að kynn­ast. Fjöl­skyld­an þarf því bæði að eyða tíma sam­an og gefa sér tíma fyr­ir hvern og einn. Parið verður líka að gefa sér tíma fyr­ir sam­bandið,“ seg­ir Val­gerður og bæt­ir við að þegar vanda­mál geri vart við sig komi oft upp úr dúrn­um að fólk þekk­ist ekki nægi­lega vel.

„Það er nokkuð al­gengt að börn hafa aldrei eytt tíma með stjúp­for­eldr­um sín­um þótt fólk sé orðið meðvitaðra um mik­il­vægi þess. Eða að for­eldr­ar hafi ekki gefið sér tíma með börn­un­um sín­um án maka eða stjúp­systkina. Sum börn upp­lifa því mikla sorg og missi sem stund­um er mistúlkað sem frekja og stjórn­semi. Jafn­vel að hitt for­eldrið sé að reyna að stjórna og hindra um­gengni þegar þau vilja ekki fara á milli heim­ila þar sem þeim finnst þau ekki til­heyra öðru heim­il­inu.“

Val­gerður seg­ir enn frem­ur að fólk átti sig ekki alltaf á því hvernig sé best að und­ir­búa til­von­andi sam­búð.

„Sem bet­ur fer gefa marg­ir sér góðan tíma til þess að kynn­ast áður en þeir kynna börn til sög­unn­ar. Marg­ir átta sig oft ekki á þeim sér­stöku verk­efn­um sem stjúp­fjöl­skyld­ur þurfa að tak­ast á við um­fram aðrar fjöl­skyld­ur. Það get­ur því reynt veru­lega á í fyrstu. Í stað þess að skilja að vanda­mál­in sem tengj­ast sér­stöðu stjúp­fjöl­skyldna, eins og að upp­lifa stjórn­leysi, vera út und­an, eða upp­lifa óvissu eða flækju í aga­mál­um, eru þau per­sónu­gerð. Til dæm­is er hætta á að barn sem fer á milli heim­ila, eða er í engri um­gengni við hitt for­eldrið, lendi í hlut­verki blóra­bögg­uls og sé kennt um ástandið. Eða þá að stjúp­for­eldri, eða for­eldri úti í bæ, sé kennt um vand­ann. Þetta eru allt vanda­mál sem er vel ger­legt að leysa, en fólk þarf að skilja hvernig fjöl­skyld­an virk­ar,“ seg­ir Val­gerður og bæt­ir við að al­geng­asta umkvört­un­ar­efni barna sé ein­mitt að hlut­irn­ir gangi of hratt fyr­ir sig.

„Börn­un­um get­ur líkað ágæt­lega við stjúp­for­eldri sitt, en samt upp­lifað ákveðinn missi. For­eldr­ar gleyma gjarn­an að þegar þeir hafa verið ein­hleyp­ir í ein­hvern tíma fara þeir að taka alls kyns ákv­arðanir með börn­un­um sín­um. Svo verða þeir ást­fangn­ir og fókus­inn fer allt annað. Þá er hætt við að for­eldrið gleymi sér og hætti að sinna hlut­um sem það og barnið gerðu sam­an áður. Svo skilja for­eldr­arn­ir ekk­ert í því af hverju börn­in eru svona fúl.“

Börn þurfa mörk og ramma

Val­gerður seg­ir að marg­ar þær áskor­an­ir sem stjúp­fjöl­skyld­ur þurfa að kljást við stafi af venj­um sem for­eldr­ar til­einkuðu sér þegar þeir voru ein­hleyp­ir.

„Þeir fara að taka alls kyns ákv­arðanir með börn­un­um sín­um, eða sleppa því að setja þeim heil­brigð mörk vegna þess þeir finna til með þeim eft­ir skilnaðinn. Stund­um þjást for­eldr­ar af sam­visku­biti, en stund­um eru þeir eðli­lega bara þreytt­ir. Börn­in þurfa nefni­lega bæði mörk og ramma. Líka þegar for­eldr­arn­ir eru ein­hleyp­ir. Þegar fólk fer síðan aft­ur í sam­búð vill nýr maki til dæm­is ekki þurfa að eiga sam­ráð við ungt barn um hvað á að vera í kvöld­mat­inn,“ seg­ir Val­gerður og bæt­ir við að aga­mál­in geti reynst snú­in.

„Stjúp­for­eldr­ar, og þá kannski sér­stak­lega stjúp­mæður, upp­lifa gjarn­an mik­inn van­mátt og stjórn­leysi í líf­inu. Börn­in eiga það til að taka völd­in því for­eldr­arn­ir eru óör­ugg­ir í hlut­verki sínu. Auk þess eru for­eldri og stjúp­for­eldri ekki alltaf sam­mála um hvað telst vera eðli­leg­ur agi. Til að mynda fer gjarn­an óskap­lega í taug­arn­ar á stjúp­for­eldr­inu þegar barn er látið kom­ast upp með ókurt­eisi, það get­ur reynst erfitt að búa til tengsl þegar kurt­eisi skort­ir í sam­skipt­um. Gott skipu­lag er einnig hjálp­legt. Það er al­gengt að for­eldr­ar vinni mikið þegar barnið er hjá hinu for­eldr­inu, en hætti síðan snemma þá daga sem börn­in eru á heim­il­inu. Þá get­ur stjúp­for­eldrið upp­lifað að það sé aldrei tími fyr­ir það eða sam­bandið. Pör þurfa því að læra að til­einka sér jafn­vægi og gefa sér tíma með hvort öðru,“ seg­ir Val­gerður, en lum­ar hún á góðum ráðum þegar kem­ur að sam­skipt­um við stjúp­börn. Er eitt­hvað sem stjúp­for­eldr­ar ættu alls ekki að gera?

„Það er ekki hægt að gera kröfu um ást, en fólk ætti fyrst og fremst að sýna barn­inu kurt­eisi og virðingu. Líta á sig sem full­orðinn vin og ekki rjúka í aga­mál­in þótt þeir telji þörf á því. Það þarf að vinna hlut­ina á ákveðinn hátt og gagn­legt er að koma á nám­skeið um stjúptengsl. Fólk ætti svo auðvitað ekki að tala illa um hitt for­eldrið í eyru barns­ins. Marg­ir stjúp­for­eldr­ar, sér­stak­lega stjúp­mæður, hafa mikl­ar áhyggj­ur af áliti annarra. Sum­ir bíða einnig eft­ir viður­kenn­ingu frá börn­um eða for­eldr­um úti í bæ. Það er þó fyrst og fremst mak­inn sem á að sýna stjúp­for­eldr­inu þakk­læti fyr­ir fram­lag sitt og mik­il­vægt að muna það,“ seg­ir Val­gerður.

Ekki leng­ur feimn­is­mál

Val­gerður seg­ir að stjúp­for­eldr­ar í dag séu ófeimn­ir við að leita sér aðstoðar ef hlut­irn­ir gangi ekki sem skyldi.

„Það er afar skemmti­legt að vinna með stjúp­fjöl­skyld­um vegna þess að það er svo mik­il von í þeim. Í dag finnst mér flest­ir til­bún­ir að tak­ast á við vand­ann, frek­ar en að hlaup­ast frá hon­um. Það þykir nefni­lega ekk­ert feimn­is­mál leng­ur að leita sér ráðgjaf­ar,“ seg­ir Val­gerður.

„Auðvitað er þetta mis­mik­il vinna, en stund­um þarf að vinda ofan af rang­hug­mynd­um sem vinna gegn fjöl­skyld­unni. Yf­ir­leitt geng­ur það þó vel fái maður góðan tíma. Það geta þó að sjálf­sögðu komið upp dæmi sem ekki er hægt að leysa. Stund­um hafa mjög harka­leg­ir at­b­urðir átt sér stað í fjöl­skyldu­líf­inu, og erfitt að vinda ofan af þeim. Oft­ast er hægt að vinna með tengsl og bæta sam­skipti. Við verðum líka að vera raun­sæ og læra að bregðast við á upp­byggi­leg­an máta. Stjúp­fjöl­skyld­ur geta verið jafn góðar og gef­andi og aðrar fjöl­skyld­ur ef við vit­um hvernig á að bregðast við áskor­un­um þeirra.“

https://www.mbl.is/smartland/born/2017/10/01/sorg_og_missir_mistulkad_sem_frekja/

Smart­land Mörtu Maríu | Börn | Morg­un­blaðið | 1.10.2017 | 12:00
Instagram