Skip to main content
Börn og ungmenni

Sorg og missir mistúlkuð sem frekja – viðtal

„Ég hef reynt marg­ar áskor­an­ir stjúp­fjöl­skyldna á eig­in skinni, bæði sem upp­komið stjúp­barn og stjúp­móðir. Ég hélt dag­bók þegar ég varð stjúpa á sín­um tíma og þegar ég lít til baka sé ég að vanda­mál­in sem ég og mín fjöl­skylda vor­um að glíma við voru frem­ur hvers­dags­leg fyr­ir stjúp­fjöl­skyld­ur, en þau reyndu veru­lega á okk­ur á þess­um tíma þar sem við kunn­um ekki að tak­ast á við þau,“ seg­ir Val­gerður Hall­dórs­dótt­ir, fjöl­skyldu- og fé­lags­ráðgjafi, sem í dag veit­ir stjúp­fjöl­skyld­um ráðgjöf, en hún held­ur úti heimasíðunni www.stjuptengsl.is.

Val­gerður seg­ir að þegar kem­ur að því að stofna stjúp­fjöl­skyldu skipti mestu máli að taka því ró­lega, kynn­ast vel og ná tengsl­um. Hún seg­ir jafn­framt að mik­il­vægt sé að rækta tengsl­in við eig­in börn, auk þess að gefa sér tíma til að kynn­ast stjúp­börn­un­um vel. En skyldi hún luma á ein­hverj­um ráðum sem geta ein­faldað fólki lífið?„Fólk held­ur gjarn­an að þegar það er að búa til fjöl­skyldu þurfi það að eyða öll­um stund­um sam­an sem hóp­ur. Það er ekki væn­leg leið þegar mynda á tengsl við hvern og einn og kynn­ast vel. Maður á mann sam­skipti skipta mestu máli til að kynn­ast. Fjöl­skyld­an þarf því bæði að eyða tíma sam­an og gefa sér tíma fyr­ir hvern og einn. Parið verður líka að gefa sér tíma fyr­ir sam­bandið,“ seg­ir Val­gerður og bæt­ir við að þegar vanda­mál geri vart við sig komi oft upp úr dúrn­um að fólk þekk­ist ekki nægi­lega vel.

„Það er nokkuð al­gengt að börn hafa aldrei eytt tíma með stjúp­for­eldr­um sín­um þótt fólk sé orðið meðvitaðra um mik­il­vægi þess. Eða að for­eldr­ar hafi ekki gefið sér tíma með börn­un­um sín­um án maka eða stjúp­systkina. Sum börn upp­lifa því mikla sorg og missi sem stund­um er mistúlkað sem frekja og stjórn­semi. Jafn­vel að hitt for­eldrið sé að reyna að stjórna og hindra um­gengni þegar þau vilja ekki fara á milli heim­ila þar sem þeim finnst þau ekki til­heyra öðru heim­il­inu.“

Val­gerður seg­ir enn frem­ur að fólk átti sig ekki alltaf á því hvernig sé best að und­ir­búa til­von­andi sam­búð.

„Sem bet­ur fer gefa marg­ir sér góðan tíma til þess að kynn­ast áður en þeir kynna börn til sög­unn­ar. Marg­ir átta sig oft ekki á þeim sér­stöku verk­efn­um sem stjúp­fjöl­skyld­ur þurfa að tak­ast á við um­fram aðrar fjöl­skyld­ur. Það get­ur því reynt veru­lega á í fyrstu. Í stað þess að skilja að vanda­mál­in sem tengj­ast sér­stöðu stjúp­fjöl­skyldna, eins og að upp­lifa stjórn­leysi, vera út und­an, eða upp­lifa óvissu eða flækju í aga­mál­um, eru þau per­sónu­gerð. Til dæm­is er hætta á að barn sem fer á milli heim­ila, eða er í engri um­gengni við hitt for­eldrið, lendi í hlut­verki blóra­bögg­uls og sé kennt um ástandið. Eða þá að stjúp­for­eldri, eða for­eldri úti í bæ, sé kennt um vand­ann. Þetta eru allt vanda­mál sem er vel ger­legt að leysa, en fólk þarf að skilja hvernig fjöl­skyld­an virk­ar,“ seg­ir Val­gerður og bæt­ir við að al­geng­asta umkvört­un­ar­efni barna sé ein­mitt að hlut­irn­ir gangi of hratt fyr­ir sig.

„Börn­un­um get­ur líkað ágæt­lega við stjúp­for­eldri sitt, en samt upp­lifað ákveðinn missi. For­eldr­ar gleyma gjarn­an að þegar þeir hafa verið ein­hleyp­ir í ein­hvern tíma fara þeir að taka alls kyns ákv­arðanir með börn­un­um sín­um. Svo verða þeir ást­fangn­ir og fókus­inn fer allt annað. Þá er hætt við að for­eldrið gleymi sér og hætti að sinna hlut­um sem það og barnið gerðu sam­an áður. Svo skilja for­eldr­arn­ir ekk­ert í því af hverju börn­in eru svona fúl.“

Börn þurfa mörk og ramma

Val­gerður seg­ir að marg­ar þær áskor­an­ir sem stjúp­fjöl­skyld­ur þurfa að kljást við stafi af venj­um sem for­eldr­ar til­einkuðu sér þegar þeir voru ein­hleyp­ir.

„Þeir fara að taka alls kyns ákv­arðanir með börn­un­um sín­um, eða sleppa því að setja þeim heil­brigð mörk vegna þess þeir finna til með þeim eft­ir skilnaðinn. Stund­um þjást for­eldr­ar af sam­visku­biti, en stund­um eru þeir eðli­lega bara þreytt­ir. Börn­in þurfa nefni­lega bæði mörk og ramma. Líka þegar for­eldr­arn­ir eru ein­hleyp­ir. Þegar fólk fer síðan aft­ur í sam­búð vill nýr maki til dæm­is ekki þurfa að eiga sam­ráð við ungt barn um hvað á að vera í kvöld­mat­inn,“ seg­ir Val­gerður og bæt­ir við að aga­mál­in geti reynst snú­in.

„Stjúp­for­eldr­ar, og þá kannski sér­stak­lega stjúp­mæður, upp­lifa gjarn­an mik­inn van­mátt og stjórn­leysi í líf­inu. Börn­in eiga það til að taka völd­in því for­eldr­arn­ir eru óör­ugg­ir í hlut­verki sínu. Auk þess eru for­eldri og stjúp­for­eldri ekki alltaf sam­mála um hvað telst vera eðli­leg­ur agi. Til að mynda fer gjarn­an óskap­lega í taug­arn­ar á stjúp­for­eldr­inu þegar barn er látið kom­ast upp með ókurt­eisi, það get­ur reynst erfitt að búa til tengsl þegar kurt­eisi skort­ir í sam­skipt­um. Gott skipu­lag er einnig hjálp­legt. Það er al­gengt að for­eldr­ar vinni mikið þegar barnið er hjá hinu for­eldr­inu, en hætti síðan snemma þá daga sem börn­in eru á heim­il­inu. Þá get­ur stjúp­for­eldrið upp­lifað að það sé aldrei tími fyr­ir það eða sam­bandið. Pör þurfa því að læra að til­einka sér jafn­vægi og gefa sér tíma með hvort öðru,“ seg­ir Val­gerður, en lum­ar hún á góðum ráðum þegar kem­ur að sam­skipt­um við stjúp­börn. Er eitt­hvað sem stjúp­for­eldr­ar ættu alls ekki að gera?

„Það er ekki hægt að gera kröfu um ást, en fólk ætti fyrst og fremst að sýna barn­inu kurt­eisi og virðingu. Líta á sig sem full­orðinn vin og ekki rjúka í aga­mál­in þótt þeir telji þörf á því. Það þarf að vinna hlut­ina á ákveðinn hátt og gagn­legt er að koma á nám­skeið um stjúptengsl. Fólk ætti svo auðvitað ekki að tala illa um hitt for­eldrið í eyru barns­ins. Marg­ir stjúp­for­eldr­ar, sér­stak­lega stjúp­mæður, hafa mikl­ar áhyggj­ur af áliti annarra. Sum­ir bíða einnig eft­ir viður­kenn­ingu frá börn­um eða for­eldr­um úti í bæ. Það er þó fyrst og fremst mak­inn sem á að sýna stjúp­for­eldr­inu þakk­læti fyr­ir fram­lag sitt og mik­il­vægt að muna það,“ seg­ir Val­gerður.

Ekki leng­ur feimn­is­mál

Val­gerður seg­ir að stjúp­for­eldr­ar í dag séu ófeimn­ir við að leita sér aðstoðar ef hlut­irn­ir gangi ekki sem skyldi.

„Það er afar skemmti­legt að vinna með stjúp­fjöl­skyld­um vegna þess að það er svo mik­il von í þeim. Í dag finnst mér flest­ir til­bún­ir að tak­ast á við vand­ann, frek­ar en að hlaup­ast frá hon­um. Það þykir nefni­lega ekk­ert feimn­is­mál leng­ur að leita sér ráðgjaf­ar,“ seg­ir Val­gerður.

„Auðvitað er þetta mis­mik­il vinna, en stund­um þarf að vinda ofan af rang­hug­mynd­um sem vinna gegn fjöl­skyld­unni. Yf­ir­leitt geng­ur það þó vel fái maður góðan tíma. Það geta þó að sjálf­sögðu komið upp dæmi sem ekki er hægt að leysa. Stund­um hafa mjög harka­leg­ir at­b­urðir átt sér stað í fjöl­skyldu­líf­inu, og erfitt að vinda ofan af þeim. Oft­ast er hægt að vinna með tengsl og bæta sam­skipti. Við verðum líka að vera raun­sæ og læra að bregðast við á upp­byggi­leg­an máta. Stjúp­fjöl­skyld­ur geta verið jafn góðar og gef­andi og aðrar fjöl­skyld­ur ef við vit­um hvernig á að bregðast við áskor­un­um þeirra.“

https://www.mbl.is/smartland/born/2017/10/01/sorg_og_missir_mistulkad_sem_frekja/

Smart­land Mörtu Maríu | Börn | Morg­un­blaðið | 1.10.2017 | 12:00
Instagram