Deilur fráskilinna foreldra skyldu ætíð látnar lönd og leið á fermingardegi barna og gleði fá í staðinn stærstan sess.
„Aðeins einn dagur í ævi barns heitir fermingardagur. Því þurfa foreldrar að hafa hagsmuni barns síns að leiðarljósi og setja eigin ágreining til hliðar, sé hann til staðar. Við getum haldið mörg jól og farið í mörg sumarfrí, en hvaða sögu viljum við að barn okkar segi af fermingardegi sínum? Minningarnar munu lifa og því skal hafa í huga að deilur foreldra bitna mest á börnunum,“ segir Valgerður Halldórsdóttir, félagsráðgjafi og formaður Félags stjúpfjölskyldna, spurð um heillaráð til handa foreldrum barna sem eiga tvö heimili.
„Stundum er í góðu lagi að halda tvær fermingarveislur, sé samkomulag um það, en æskilegt er að foreldrar geti staðið saman á þessum degi í lífi barnsins. Foreldrar þurfa að vera börnum sínum góð fyrirmynd því deilur fylgja kynslóð eftir kynslóð, og því þroskamerki að geta brotið odd af oflæti sínu til að ná samkomulagi um að halda skemmtilegt boð,“ segir Valgerður og útskýrir að foreldrum beri einnig að hugsa til framtíðar því börn þeirra eigi eftir að gifta sig og eignast fjölskyldu.
„Ætla þeir þá ekki að mæta í brúðkaup barna sinna eða skírn barnabarna af því fyrrverandi maki verður þar líka? Hversu lengi ætla þeir að láta börn sín líða fyrir ágreininginn? Stundum þarf að setja punkt og vinna úr samskiptavandanum ef ekki á að smita komandi kynslóðir, og ef við treystum okkur ekki til að haga okkur eins og manneskjur í einn dag þurfum við að endurskoða margt í sjálfum okkur,“ segir Valgerður, sem ráðleggur fólki að setja sig í spor hins aðilans þegar leysa á deilur.
„Gæta þarf þess að vera ekki eigingjarn þegar ákveða á hverjum og hversu mörgum á að bjóða. Ef fólk upplifir ákveðna samkeppni er skynsamlegt að nýi makinn sýni foreldrunum stuðning og gefi þeim það pláss sem þau þurfa, því fleiri tækifæri munu gefast síðar á lífsleiðinni til að sýna velvilja og stuðning,“ segir Valgerður og leggur einnig áherslu á samráð um fermingargjafir.
„Fermingargjafir eru eign barnsins sem það á að geta tekið milli heimila að vild, sem og fermingarföt sín og fleira,“ segir Valgerður, sem bendir á þriðja aðila, eins og vin, skynsaman fjölskyldumeðlim eða félagsráðgjafa, ef samráð gengur illa.
„Ferming er einstakur atburður og góð skilaboð til barns ef foreldrar geta gefið barninu gjöf saman. Auðvitað mega stjúpforeldrar vera með í gjöfinni, en líka er gott að þeir gefi sér gjöf og skapi sér þannig sérstöðu. Í sameiginlegri gjöf felast skilaboð um að mamma og pabbi séu tilbúin að standa með barni sínu þegar þarf á að halda; alveg sama hvernig hjónabandi þeirra var háttað. Börnum er nauðsynlegt að finna þetta bakland, því baklandið gliðnar oft með tilkomu stjúpfjölskyldna, jafnvel þótt fjölskyldumeðlimum fjölgi.“ -þlg
…svo í kjölfarið höfðum við samband við félagið Stjúptengsl en konan á bak við það félag er Valgerður Halldórsdóttir félagsráðgjafi , MA og höfundur bókarinnar „Hver er í fjölskyldunni? Skilnaðir og stjúptengsl.
Það er ljóst að með aukinni skilnaðartíðni og breyttu samfélagsmynstri verða fleiri og fleiri fjölskyldur ‘blandaðar’. Flestir finna sér nýja maka eftir skilnað og ljóst er að vel flestir, ef ekki allir, reka sig fljótt á hindranir þegar kemur að því að setja saman hina ‘fullkomnu’ nýju fjölskyldu.
PERSÓNULEG REYNSLA AF STJÚPUHLUTVERKI KOM ÞESSU AF STAÐ
Valgerði má kalla fremsta meðal jafninga í reynslu sinni og þekkingu á blönduðum fjölskyldum en það var persónuleg reynsla hennar af því að gerast stjúpmóðir, sem og menntun hennar, sem kom af stað því starfi sem hún rekur í dag með félagið Stjúptengsl.
Henni er mikið í mun að fræða stjúpfjölskyldur um þær fjölbreyttu stöður sem þar geta komið upp enda svo ótal margir að fást við það sama þó margir haldi að þar sé hver í sínu horni að glíma við sértæk vandamál.
Við tókum hana tali og fengum Valgerði til að segja okkur sína sögu af því að vera stjúpmóðir og eflaust kannast margar við þær tilfinningar sem hún lýsir í viðtalinu. Það eru nefninlega, eins og áður segir, margir að glíma við það sama:
“Ég var nýgift með son úr fyrri sambúð og stjúpdóttur. Samböndum okkar hjóna við foreldra barnanna var „löngu lokið“ og nú átti þetta að takast, ekki skorti okkur reynsluna. Utanfrá vorum við eins og „venjuleg fjölskylda“. Útivinnandi hjón sem bjuggu á þriðju hæð í blokk í vesturbæ Reykjavíkur með tvö börn á aldrinum 6 og 8 ára,” segir Valgerður þegar hún fer yfir upplifun sína af því að stofna til nýrrar fjölskyldu en Valgerði hafði dreymt um samhenta fjölskyldu síðan foreldrar hennar skildu.
“Ég tók því ekki vel í það þegar mér fannst tekið framfyrir hendurnar á mér og maðurinn minn samþykkti einhverjar breytingar á umgengni dótturinnar við móðurina án samráðs við mig. Hvað um mín plön? Það var eins og ég væri alger aukastærð í þessu máli. Ég fann að skortur á samráði við mig sem eiginkonu, upplifði ég sem stjórnleysi og ágreiningur sem upp kom á milli foreldrana bitnaði á samskiptum mínum og stjúpdóttur minnar. Ég var engu skárri sjálf varðandi son minn og föður hans og tók ákvarðanir án samráðs við manninn minn sem hafði hafði sínar skoðanir á málinu rétt eins og ég. Við vorum bæði einfaldlega vön því að taka ákvarðanir án samráðs og gamlar rútínur sem áður hentuðu okkur sem einhleypir foreldrar spilltu nú fyrir í sambandinu og samstöðu okkar í stjúpfjölskyldunnar,” segir Valgerður.
Ég fann hinsvegar að það komu dagar og stundir þar sem mér fannst ég vera að umturnast í þá manneskju sem ég vildi síst vera „vondu stjúpuna“! Hvernig gat þetta gerst? Mér líkaði ekki við þá manneskju enda var hún full af sektarkenndar, ráðalaus og einmanna.
SKORTUR Á SAMRÁÐI FORELDRA
“Fyrir kom að foreldra barna okkar tóku ákvarðanir sem snertu okkar fjölskyldulíf án nokkurs samráðs við hvorugt okkar. Til að mynda skráði pabbi sonar míns hann í básúnutíma þegar hann var 8 ára, útvegaði hljóðfæri og hvarf síðan aftur út á land til sinna fyrri verkefna. Mér finnst þetta nokkuð spaugilegt í dag en það veit sá sem allt veit að okkur var ekki hlátur í huga á sínum tíma. Pabbinn var velmeinandi og vildi að sonurinn fengi uppbyggilegt tónlistaruppeldi en nauðsynlegt samráð skorti. Það var nokkuð ljóst að strákurinn gat ekki séð um verkefnið einn þó ekki væri nema fyrir það hvað básúnan var stór og þung og hann of smár til að bera hana á milli heimilis og skóla, ásamt skólatösku. Okkur varð smá saman ljóst að samband við okkar fyrrverandi yrði í raun aldrei alveg „lokið“ og þeir yrðu inni í lífi okkar alltaf á einhvern hátt, við áttum jú saman börn. Það var mun vænlegra að koma á góðri foreldrasamvinnu en að láta sem að þeir skiptu ekki máli í fjölskyldulífi okkar.”
VANÞAKKLÁT STJÚPDÓTTIR – AF HVERJU GAT HÚN EKKI HLÝTT?
“Mér fannst allt ganga nokkuð vel í byrjun og steikti ég lambalæri, sendi börnin í sunnudagaskólann, takmarkaði tölvu – og sjónvarpsnotkun barnanna, aðstoðaði við heimanám, þvoði þvott og lagði mig fram við að láta fólkinu mínu líða vel eins og ég gat og kunni. Maðurinn minn vann auka- og yfirvinnuna enda tekjuhærri en ég en hann var alltaf mjög liðtækur þegar hann var heima við. Í fyrstu hefði ég sómt mér vel utan á tímaritinu „Húsfreyjan“ en ef forsíðumyndin hefði sýnt líðan mín þegar á leið, er ég hrædd um að hún hefði ekki þótt nothæf eða söluleg.”
“Við hjónin höfðum passað vel upp á að gera ekki upp á milli barnanna. Allt var keypt nákvæmlega eins handa börnunum í herbergi þeirra, nema í sitt hvorum litnum. Ég lagði mig líka fram í fyrstu við að kom eins fram við þau og ætlaðist „auðvitað“ líka til þess sama af þeim, það er að segja að þau kæmu eins fram við mig. Jafnvel ætlaðist ég aðeins meira til af stjúpdóttur minni en syni mínum þar sem það var nú langt í frá sjálfsagt að ég sinnti þeim hlutum sem ég tók að mér, já og óumbeðin eins og að kaupa á hana föt eða láta hana læra. Verkefnið var vanþakklátt. Undir niðri hafði ég átt ég von á að maðurinn minn og stjúpdóttir mín yrðu mér þakklát fyrir að koma „kvenlegu skikki“ á hlutina. Hvað var eiginlega að stjúpdóttur minni, af hverju kunni hún ekki bara að þakka fyrir eins og strákurinn minn gerði? Af hverju gat hún ekki bara hlýtt? Af hverju var hún alltaf að minna mig á hvernig var þegar þau pabbi höfðu það þegar þau voru bara tvö? Mér fannst hún vanþakklát og pabbi hennar líka sem fór alltaf í vörn fyrir hana,” segir Valgerður og bætir við að stundum hafi eiginmaðurinn hegðað sér eins og andstæðingur hennar.
“Ég gerði slíkt hið sama þegar mér fannst hann ekki sýna syni mínum sanngirni eða skilning. Á slíkum stundum fannst mér ég vera heimilislaus og velti fyrir mér hvernig mér hafi eiginlega dottið í hug að flytja inn á þau?
Ég stóð mig að því að reyna fá tíma fyrir mig og son minn þegar ég saknaði þess tíma sem við áttum tvö saman og lífið var einfaldara. Ég ræddi það hinsvegar ekki við nokkurn mann enda taldi ég það ekki „rétt“, svoleiðis gerði maður ekki. Ég var himinlifandi þegar við hjónin fengum tíma tvö ein sem mér fannst allt of sjaldan. Var í lagi með mig, ég vildi skapa samstillta fjölskyldu en þráði þó ekkert heitara en að skipta henni upp?”
Eftir á sé ég að þetta var eins og reyna spila Matador með Lúdóreglum en þar sem reglurnar í Matador eru mun flóknari en í Lúdó voru ekki miklar líkur til að við næðum þeim árangri sem við höfðum vænst.“
ÓSAMMMÁLA UM REGLUR Á HEIMILINU
“Fljótlega fann ég fyrir ýmsu smálegu sem mér líkaði ekki þegar kom að krökkunum en við vorum ekki alltaf sammála um hvaða reglur ættu að gilda t.d. við matarborðið eða varðandi nestið. Umræðan var tekin upp á staðnum og eðlilega höfðu krakkarnir sína skoðun á málinu. Ég reyndi stundum að láta sem ekkert væri þar sem mér fannst það ekki tækt að vera nýgift manni sem vildi gera allt fyrir mig og vera síðan sífellt að kvarta yfir einhverju sem auðvitað átti ekki að skipta máli,” segir Valgerður en smátt fór kvíði að sækja að henni. Henni fannst hún vera að bregðast og hafði áhyggjur af ástandinu:
“Af hverju fóru samskipti mín og stjúpdóttur minnar smá saman að valda þessum pirringi og kvíða hjá mér? Ég sem hafði hlakkað til að kynnast þessari fallegu og líflegu stelpu. Var ekki bara eitthvað að mér eða var ekki bara eitthvað að hjá henni sem þurfti að laga?”
VAR ÉG AÐ UMTURNAST Í “VONDU STJÚPUNA”?
“Ég hafði gert ráð fyrir að krakkarnir myndi rífast enda rífast flest systkini, en ekki að ég myndi ekki höndla hlutina eins og ég kaus. Þeim kom reyndar oftast mjög vel saman og voru bæði góð við litlu systur sína þegar hún fæddist. Sérstaklega stjúpdóttir mín en ég fann að fæðingarorlofið gerði okkur gott þar sem við áttum oft stundir tvær með litla skottið og náðum að kynnast og tengjast betur en áður,” segir hún. “Ég fann hinsvegar að það komu dagar og stundir þar sem mér fannst ég vera að umturnast í þá manneskju sem ég vildi síst vera „vondu stjúpuna“! Hvernig gat þetta gerst? Mér líkaði ekki við þá manneskju enda var hún full af sektarkenndar, ráðalaus og einmanna.
Það var mér mikill léttir þegar ég fór í viðtal og var bent á bók eftir frumkvöðlana Emily og John Visher á sviði rannsókna og meðferðar fyrir stjúpfjölskyldur, ég var augljóslega ekki ein á báti. Í félagsráðgjafanámi við Háskóla Íslands vann ég síðan verkefni um stjúpfjölskyldur og „stofnaði“ Stjúptengsl í einu slíkra verkefna. Því meira sem ég lærði komst ég að því að ég var meira „venjuleg“ en ég hafði gert mér áður grein fyrir. Við höfðum, rétt eins og svo margir aðrir, verið með óraunhæfar væntingar og tekið fjölskyldur þar sem öll börnin voru sameiginleg sem fyrirmynd. Eftir á sé ég að þetta var eins og reyna spila Matador með Lúdóreglum en þar sem reglurnar í Matador eru mun flóknari en í Lúdó voru ekki miklar líkur til að við næðum þeim árangri sem við höfðum vænst.”
LÍTILL STUÐNINGUR Í UMHVERFINU EN STENDUR TIL BÓTA
Valgerður segir að stundum hafi þau ráð sem vinir og vandamenn komu með ekki reynst mjög gagnleg því sjaldnast tóku þau mið af fjölskyldugerðinni.
“Í stað þess að spyrja um hlutverk okkar gagnvart börnunum hvors annars var gengið út frá því að ég væri í móðurhlutverkinu og hann í föðurhlutverkinu gagnvart báðum börnunum. Reikningar varðandi stjúpdóttur mína voru stílaðir á mig, ekki foreldra hennar og fengum við forsjá yfir barni hvors annars án þess að vita hvað það fæli í sér í raun og án þess að vera spurð hvort það væri eitthvað sem við vildum en sú regla var lögð niður í síðustu breytingum á Barnalögunum,” segir Valgerður og bætir við að þegar hún líti í baksýnisspegilinn sjái hún að þau hafi dottið í allar gryfjur sem hægt var að falla í, í stjúpfjölskyldu:
“Við byrjuðum oft á góðum hlutum en ef þeir gengu ekki strax upp var sumum hætt of fljótt, aðrir fengu að halda sér eins og héldum alltaf upp á daginn sem við kynntumst og fórum kannski með börnin út á borða eða bíó. Við reyndum að finna út úr hlutunum og stundum tókst okkur að grípa til húmorsins þegar allt annað brást – og mæli ég sérstaklega með henni enda er ekki allt jafn alvarlegt. Við þurfum að velja okkur orustur.”
Valgerður segir mikilvægt að hver og ein fjölskylda finni út hvað henni hentar til að hlutirnir gangi upp í stað þess að fara vopnuð fyrirframgefnum hugmyndum um hvernig hlutirnir „eiga að vera“.
“Það getur hjálpað að vita við hverju er að búast, koma auga á smásigra og vita hvað telst „normalt“ fyrir stjúpfjölskyldur. Stuðningur kennara og annarra sem koma að börnum og fjölskyldum þeirra skiptir einnig miklu máli ekki síst fyrir stjúpfjölskyldur sem eru að reyna finna út úr hlutunum í samfélagi sem ekki er alltaf meðvitað um sérstöðu hennar og verkefni. Stuðningur við stjúpfjölskyldur felur í sér barna- og fjölskylduvernd en með uppbyggilegum viðbrögðum út frá þekkingu og raunhæfum hugmyndum aukum við lífsgæði barna og ungmenna og fjölskyldna þeirra sem hafa upplifað missi, sum oftar en einu sinni,” segir Valgerður að lokum.
Um 66 prósent barna sem rætt er við vegna skilnaðar eða sambúðarslita foreldra þeirra, eru þegar komin með stjúpfjölskyldu þegar leysa á úr ágreiningi hjá sýslumanni, en aðeins um helmingur mála endar með sátt. Félagsráðgjafi segir biðlista eftir sáttameðferð óásættanlega því hver dagur í lífi barns skipti máli.
Samkvæmt skráningu í þjóðskrá eru í kringum 100 lögskilnaðir í hverjum mánuði og hefur sú tala haldist að mestu frá því fyrstu upplýsingar voru skráðar árið 1990. Stundum þarf að leita sátta eftir skilnað eða sambúðarslit og finna lausnir í umgengi við börnin.
Árið 2017 komu 320 umgengnismál inn á borð sýslumanns og þar af fóru 215 í sáttameðferð. Forsjár og lögheimilismál voru 760 og 258 af þeim enduðu í sáttameðferð. Skilnaðmálin voru 813 og 41 af þeim fór í sáttameðferð. En 58 prósent allra þeirra mála sem enda í sáttameðferð enda með sátt.
Börn kvarta undan sömu hlutunum
Sérfræðingur í málefnum barna hjá sýslumanni segir að auka þurfi stuðning við börn sem ganga í gegnum skilnað foreldra sinna.
„Fólk er ekkert alltaf að átta sig á því þegar það er að slíta sambúð hvað mun taka við og kannski vantar ákveðin farveg í samfélaginu. Til dæmis öfluga skilnaðarráðgjöf eða að fólk gæti bara átt aðgengi að góðri ráðgjöf áður en það hefur mál hjá sýslumanni. Þá væri jafnvel hægt að leysa mjög mörg þessara mála þannig að þau verði ekki stjórnsýslumál.," segir Valgerður Halldórsdóttir, fjölskyldu- og félagsráðgjafi.
Hún skimaði rúmlega fjörtíu viðtöl við börn hjá sýslumanninum í Reykjavík og ræddi við aðra sérfræðinga um hvaða skilaboð börnin eru með til fullorðna fólksins.
„Það eru mörg börn að kvarta undan sömu hlutunum. Sem virðast koma upp aftur og aftur. Til dæmis óhóflegur þrýstingur foreldra. Viltu ekki vera hjá mér? Viltu ekki vera hjá mér? Svona reyna að fá barnið á sitt band. Það gerir það að verkum að börn gætu forðast foreldri sitt,“ segir hún.
Valgerður bendir einnig á að fjöldi barna sé þegar komin með stjúpfjölskyldur þegar málin koma inn til sýslumanns en manneklu í embættinu jafnvel gera það að verkum að málin fái ekki nógu skjóta afgreiðslu og biðlista myndast.
„Það segir sig sjálft að þessi biðlisti er ekki boðlegur neinum. Hver dagur í lífi barns er verðmætur, þannig að það að láta börn bíða í marga mánuði er ekki boðlegt heldur,“ segir hún og bendir á að aðeins séu fjögur stöðugildi sáttamanna og sérfræðinga sem eiga að þjóna öllu landinu og eingöngu ellefu fulltrúar á fjölskyldusviði sýslumanns og því ekki margar hendur að vinna verkefnin.
Valgerður Halldórsdóttir félagsráðgjafi starfar m.a. sem sáttamaður sýslumanns í málefnum barna og segir deilur foreldra valda mikilli streitu hjá börnum.
Fagdeild félagsráðgjafa í sáttamiðlun heldur námstefnu föstudaginn 1.mars í samstarfi við Sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu en Valgerður er ein þeirra sem starfar fyrir Sýslumannsembættið sem sérfræðingur i málefnum barna og sem sáttamaður í forsjár-, lögheimilis-, umgengnis-, dagsektar- og aðfararmálum með það að markmiði að hjálpa foreldrum að gera samning um þá lausn mála sem er barni fyrir bestu.
Valgerður segir flesta foreldra takast að leysa smám saman ágreining sem gjarnan fylgir skilnaði eða sambúðarslitum en margir leiti sér ráðgjafar varðandi börnin þegar að skilnaði kemur. „Oft áttar fólk sig ekki á þeim aðstæðum sem upp kunna að koma þegar börnin eiga tvö heimili og stundum stjúpforeldra á þeim báðum. Það sem kallaðist gott foreldrasamstarf þegar foreldrar voru einhleypir getur skapað ágreining í nýju sambandi t.d. þegar ekki er átt samráð við stjúpforeldri um breytingar á umgengni.
Deilur ekki endilega tengdar sambúðaslitum eða skilnaði
Það er mjög mikilvægt að hafa í huga að lífið bæði hjá foreldrum og börnum tekur eðlilega breytingum sem geta haft áhrif á foreldrasamstarf með börn á tveimur eða fleiri heimilum. En samskipti við barnsföður eða -móður á hinu heimili barnsins er algengt ágreiningsefni í stjúpfjölskyldum. Það eru ákveðnar vísbendingar að stór hluti foreldra sem eiga mál inni hjá sýslumanni eru komnir í ný sambönd og deilur því ekki endilega í öllum tilvikum tengdar sambúðarslitum eða hjónaskilnaði. En þetta þarf að kanna miklu betur. Tölur frá sýslumanni sýna hinsvegar að þau mál sem þar eru til meðferðar varða á milli 600 til 650 börn á ári.“
Börnin eiga rétt á að tjá sig
Valgerður segir að börn eigi rétt á að tjá sig samkvæmt barnalögum og barnasáttmála SÞ í þeim málum er þau varða í samræmi við aldur og þroska. og það er hluverk sáttamanna og eftir atvikum sérfræðinga í málefnum barna að ræða við þau.
„Á námstefnunni ætla ég að fara yfir hvað fram hefur komið í viðtölum við börnin og reynslu sérfræðinga og því er ekki um eiginlega rannsókn að ræða, en efnið gefur tilefni til að kanna málið frekar.“ Valgerður segir að rannsóknir sýna að að ágreiningur foreldra sé skaðlegur. Börn sem eiga foreldra í ágreiningi upplifi mörg hver mikla streitu sem fær oft litla athygli. „Mörg hver reyna að skipta barnæsku sinni og fríum jafnt á milli foreldra – jafnvel sleppa að sinna tómstundum og hitta vini – af því þetta er „pabba eða mömmu tími.“
Heilaþvegin börn eða börn með skoðanir
Í umgengnisdeilum er ekki óalgengt að annað foreldrið, jafnvel bæði fullyrði að barninu sé innrætt neikvæð viðhorf til þess, það sé „heilaþvegið“ og hafi þar af leiðandi engar skoðanir sjálft á aðstæðum sínum. Jafnvel fullyrt að það ljúgi fyrir svokallað tálmunarforeldri. Stundum eiga slíkar athugasemdir um mögulega tálmun rétt á sér en alls ekki í öllum tilvikum.
Barn getur verið að bregðast við breyttum aðstæðum í lífi foreldra og þar með breyttum aðstæðum í lífi barnsins sjálfs. Nefna má til dæmis tilkomu nýs stjúpforeldris, flutningum, deilum á heimili, skorti á tíma og athygli foreldris eða óhóflegum þrýstingi að flytja til mömmu eða pabba. Það sjálft er að eldast og þroskast og stundum vantar aðstöðu hjá öðru foreldrinu til að taka á móti barninu. Það er vel þekkt að það hvernig barn tjáir sig tengist fjölmörgum þáttum eins aldri, þroska og tengslum.
Af hverju ræðir barnið líðan sín ekki við þig?
Það er umhugsunarvert fyrir foreldra að velta því fyrir sér af hverju barn ræðir ekki við það um sína líðan á heimili þess, heldur feli það hinu foreldrinu að miðla upplýsingum sem falla stundum í misgóðan jarðveg. Jafnvel kjósa sum börn að segja ekki neitt til að „rugga ekki bátnum“ og er það mjög einmanaleg staða fyrir barn.“
Námstefnan á föstudag er þverfagleg en frumkvæðið kemur frá fagdeild félagsráðgjafa í sáttamiðlun í samstarfi við sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu. „Við erum fimm félagsráðgjafar með viðbótarmenntun á sviðinu sem sinnum sáttamiðlun og erum einnig sérfræðingar í málefnum barna hjá embættinu. Jafnframt eru sáttamenn í einkageiranum sem sinna þessum málaflokki sem og öðrum. Viðfangsefni fjölskyldsviðs eru í senn flókin og viðkvæm en tilgangur námsþingins er að heyra í okkar fremstu sérfræðingum á þeim sviðum sem koma inn á okkar borð, fá tækifæri til að læra, spyrja og miðla.“
Valgerður Halldórsdóttir, félags- og fjölskylduráðgjafi, starfar sem sérfræðingur í málefnum barna og sáttamaður hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Hún er einnig í eigin rekstri og er hennar sérsvið skilnaðir og stjúptengsl. Málefni barna sem eiga tvö heimili eru henni hugleikin. Hún verður með erindi á námstefnu fagdeilda félagsráðgjafa í sáttamiðlun í samstarfi við sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu sem haldin verður á Grand hóteli 1. mars. Yfirskrift námstefnunnar er: Meira en mynd og grunur. Á námstefnunni ætlar Valgerður að fjalla um hvað börnin segja hjá sýslumanni.
Það er réttur barna að segja það sem þeim býr í brjósti
Valgerður segir námstefnuna aðallega fyrir fagfólk, en hún á von á að almenningur sem hefur áhuga á málefnum barna muni einnig fjölmenna.
„Í mínu erindi mun ég fara yfir hvað fram hefur komið í viðtölum við börn hjá embættinu. Ég skimaði rúmlega 40 viðtöl við börn hjá sýslumanninum í Reykjavík og ræddi við aðra sérfræðinga um hvaða skilaboð börnin eru með til okkar fullorðna fólksins. Þetta er því ekki rannsókn, en skimunin gefur fullt tilefni til að gera rannsóknir á þessu sviði.“
Valgerður segir að þeir foreldrar sem ekki ná að semja um mál barna sinna sjálfir þurfi að fara í gegnum sáttameðferð áður en úrskurðað er í málum eða farið í dómsmál.
„Samkvæmt barnalögum og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eiga börn rétt á að tjá sig í málum er þau varða og er því rætt við börn til að mynda í forsjár- og lögheimilismálum, sem og í umgengnismálum. Um 58% foreldra ná sáttum í sáttameðferð hjá embættinu sem telst góður árangur og er sambærilegur og á hinum Norðurlöndunum.“
Valgerður segir að deilur foreldra séu börnum skaðlegar, ef þeim tekst ekki að halda börnunum utan deilna.
Dæmi um börn sem sýna forðun
„Börn vilja ekki að láta þrýsta á sig þegar kemur að ákvörðun um umgengni og þau vilja ekki velja á milli heimila. Dæmi eru um að börn reyna að forðast það foreldri sem þrýstir á þau og eru sífellt að ræða ágreininginn við þau. Því miður áttar foreldri sig ekki á því að það er mögulega að skaða tengsl sín við barnið með eigin framkomu en kennir mögulega hinu foreldrinu um að barnið vilji ekki fara á milli heimila. Börn hafa oftast einhverja skoðun á því hvernig þau vilja hafa hlutina en mörg vilja ekki særa foreldra sína með því að tala hreint út.
Deilur foreldra smitast oft inn í daglegt líf barna og sum hver óttast hreinlega brottnám hafi foreldrar mætt í skóla eða á leikvöllinn óundirbúið. Sum barnanna vilja ekki mæta í skóla eftir það. Það sem börnin vilja er að foreldrar leysi málin sín á milli. Þau vilja ekki særa foreldra sína en þurfa stundum svigrúm til að vera aðeins meira hjá öðru foreldri en báðum.
Skoða þarf hvert mál fyrir sig og hollt er hverjum og einum að skoða hvað hægt er að gera til að bæta samskiptin og aðbúnað barns á eigin heimili.“
Valgerður segir að algengasta umkvörtunarefni barna í stjúpfjölskyldum vera að þau fái ekki tíma ein með foreldri sínu.
„Sum kvarta yfir að foreldrið sé alltaf að vinna og ekkert pláss á heimilinu sem þau geta kallað sitt og langt í vini. Svo vantar stundum upp á tengsl við barnið sem vinna þarf í. Sumir foreldrar glíma við alkóhólisma og aðrir beita ofbeldi.“
Valgerður segir mikilvægt að tryggja öryggi barnsins og að það fái rými til að vinna upp traust. Sem dæmi eftir áfengismeðferð foreldris. Valgerður segir að tálmun eigi sér stað einnig í samfélaginu þar sem vegið er mjög alvarlega að mikilvægustu tengslum barnsins í lífinu – þar eð tengsl við annað foreldri sem það fær ekki að umgangast.
Hún segir það einmanalega stöðu fyrir börn að vera í þegar foreldrar deila. „Þessum börnum líður ekki vel á öðru heimilinu eða báðum og treystir sér oft ekki til að ræða vanlíðan sína af ótta við að rugga bátnum. Foreldrar þurfa því oft aðstoð til að halda áfram.“
Margir foreldrar ná að setja börnin í forgrunn
Valgerður segir að í upphafi skilnaða tali sumir foreldrar stundum illa um hvort annað, þá sé stundum reiði og heift, en hún vil benda á að stór hluti foreldra reyni að vanda sig þrátt fyrir ágreining barnanna vegna. Hún segir mikilvægt að styðja við að foreldrar séu í góðum tengslum við börnin sín og að oft séu foreldrar þá báðir eða annar að gera hluti sem skaðar börnin án þess að gera sér grein fyrir því.
„Athuganir mínar sýna að deilur foreldra geta smitast yfir á öll svið í lífi barna. Börn sem eiga foreldra sem halda áfram að deila eftir skilnað þurfa að skipta barnæskunni á milli tveggja aðila. Það er þá tími móðurinnar og tími föðurins og þessir staðir verða átakasvæði og allt í kringum skipulagið verður stirt.“
Eins bendir hún á að þegar stjúpforeldrar eru komnir inn í myndina þótt vel gangi þá flækist enn þá meira veröld barnanna sem flest eru á því að þau vilji að hlutirnir gerist hægar.
Valgerður segir mikilvægt að sinna ákveðnu forvarnastarfi þegar kemur að börnum sem eiga tvö heimili og forðast hún að setja merkimiða á börn út frá hegðun foreldra. Vill hún að talað sé um börn fráskilinna foreldra í stað skilnaðarbarna eða börn alkóhólista í stað „alkabarna“ ef við teljum okkur þurfa að greina þau eftir reynslu þeirra og aðstæðum.
„Þetta eru bara venjuleg börn sem eiga tvö heimili og með reynslu sem getur sett mark sitt á þau en það má ekki gleyma því að flestum vegnar vel. Eins er mikilvægt að við áttum okkur á að það eru alls konar ástæður fyrir því að börn eiga fleiri en eitt heimili og því óþarfi að flokka börn eftir stöðu foreldra sinna á þennan hátt. Samfélagið verður hins vegar að taka mið af þessari staðreynd.“
Börn vilja gæðastundir með foreldrum sínum
Valgerður segir að ef við hugsum um velferð barnanna þarf allt efni frá skólum, samfélaginu og ríkinu að taka mið af því að fjöldinn allur af börnum eiga fleira en eitt heimili. „Ef eitt af verkefnum í skólanum er að teikna mynd af heimilinu, af hvaða heimili eiga börn sem eiga tvö heimili að teikna? Það eru um 1.200 börn árlega sem upplifa skilnað foreldra sinna. Við erum ekki að tala um nokkur börn á ári. Ef við ætlum að hafa hagmuni barna okkar að leiðarljósi, þá verðum við að skoða hvað þau eru að segja okkur. Þau vilja ekki vera öðruvísi eða á jaðrinum. Þau vilja að foreldrar setji persónulegan ágreining sinn til hliðar og að foreldrar þeirra viti að þeim geti mögulega fundist flóknara að upplifa breytingar á eigin foreldri sem komið er í nýtt ástarsambandi og mynda ný tengsl við stjúpforeldra og börn þeirra, en í gegnum skilnað foreldra sinna. Þau vilja að foreldrar fari hægt í gegnum breytingar, inn í ný sambönd og fleira í þeim dúrnum og síðan vilja þau tíma með foreldrum sínum án þess að þurfa að deila tímanum með öðrum aðila, eins og nýjum maka – öllum stundum. Það eru til góðar leiðir og lausnir í öllum málum, ef hagsmunir barnanna okkar eru settir í fyrirrúm.“
Sótt af vef mbl. https://www.mbl.is/born/frettir/2019/02/27/sattamedferd_mikilvaeg_vid_skilnad/
Í þættinum í dag fjöllum við um stjúptengsl sem geta oft verið vandasöm en líka gefandi og góð. Hvaða áskoranir mæta slíkum fjölskyldum umfram aðrar og hvaða væntingar eiga stjúpforeldrar og börn að gera til sín? Hvernig á að haga stórhátíðum í slíkum fjölskyldum? Við heyrum sögu af stjúpfjölskyldu sem hefur eytt jólunum saman í næstum þrjá áratugi. Fyrrverandi makar, núverandi makar og svo öll börnin. Og líka sögu stjúpmóður sem ætlaði að eiga bestu stjúpfjölskyldu í heimi þar sem allir yrðu glaðir en áttaði sig fljótt á því að besta er að slaka á kröfunum til að allt gangi upp. Umsjón: Viktoría Hermannsdóttir Viðmælendur: Valgerður Halldórsdóttir, Sigríður Dögg Auðunsdóttir, Björk Vilhelmsdóttir og Inga Sveinsdóttir.
Hvað og hvernig eiga foreldrar að greina börnum sínum frá skilnaði? Hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að fá skilnað? Hvernig á umgengi að vera háttað? Er eitthvað réttara en annað?
Hvernig á foreldrasamvinnu að vera háttað? Hvað má vera í foreldrasamningi? Aðlögun að stjúpfjölskyldum – hvað hefur áhrif?
Viðtal við Valgerði Halldórsdóttur félags-og fjölskylduráðgjafa hjá Stjúptengsl og sérfræðing í málefnum barna hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu og Þórdísi Rúnarsdóttur félagsráðgjafa og sérfræðing í málefnum barna hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu.
Geir, pabba Selmu fannst hún koma allt of sjaldan til þeirra Tinnu, þau sem höfðu átt svo gott samband. Áður en hann kynntist Tinnu borðuðu þau feðginin stundum snemma kvöldmat og fóru síðan í „náttfatasund“. Um helgar áttu þau kósíkvöld og horfðu á heilu sjónvarpsseríurnar. „Games of Throne” var þeirra uppáhald. Í fyrstu náðu Selma og Tinna vel saman og Geir elskaði að vera með „báðum konunum sínum, ekkert ves eins og víða“.
Hann þurfti auðvitað að taka meira tillit til Tinnu þegar þau fóru að búa saman. Í ljós kom t.d. að henni leiddust ævintýramyndir þótt hún hafi látið sig hafa það þegar þau voru að kynnast. Auk þess fannst henni það ekki ganga lengur að vera í náttfatasundi á kvöldin í miðri viku, „Selmu vegna“. Hún þyrfti sinn svefn. Innst inni langaði Tinnu líka til að eiga meiri tíma með Geir á kvöldin, en kunni ekki við að segja það eða vissi ekki hvort henni mætti finnast það. Henni þótti hins vegar vænt um að Geir tók tillit til óska hennar og gerði þær breytingar sem hún bað um.
Geir fannst Selma orðin svo pirruð þegar hann reyndi að ræða við hana um stöðuna. Hún sagðist ekki nenna lengur að tala við pabba sinn, þar sem hann „hlustaði ekki á hana“ og „hann skildi ekki neitt. Allt snerist um þessa Tinnu, Tinnu, Tinnu“. Geir gat ekki skilið af hverju Tinna fór svona í taugarnar á Selmu. Hún sem var svo yndisleg. Hann lagði sig því fram við að segja Selmu hversu fín kona Tinna væri og að hún vildi henni svo vel. Það virkaði hins vegar bara eins og að hella olíu á eld. Líklega hafði Tinna rétt fyrir sér, að Selma væri „bara afbrýðisöm“ og það ætti ekki að vera hlaupa eftir slíku. Geir fannst staðan hins vegar kolómöguleg, en hvað átti hann að gera?
Venjulega hafa börn og einhleypir foreldrar mótað sér venjur og hefðir eins og aðrar fjölskyldur sem geta hentað þeim vel, hvað svo sem öðrum kann að finnst um þær. Ósjaldan fá börn að gista uppi í hjá foreldri sínu, ráða hvað sett er í innkaupakerruna eða hvað sé gert í fríinu, sem er í góðu lagi. Hins vegar er óvíst að stjúpforeldri sé sátt við að deila rúmi með stjúpbarni sínu eða að makinn eigi meira samráð við barnið en það sjálft um innkaupin á heimilið eða annað. Það er því mikilvægt fyrir einhleypa foreldra að íhuga hvaða hefðir og venjur eru á heimilinu. Hversu auðvelt eða erfitt það yrði fyrir nýjan maka að verða hluti af því eða fyrir barnið að taka þeim breytingum sem fylgja stjúpforeldri. Þessar pælingar geta verið gagnlegar, sérstaklega í ljósi þess að flestir einhleypir foreldrar fara í samband fyrr en síðar. Hvernig við aðlögumst lífinu sem einhleypir foreldrar getur haft töluvert um það að segja hvernig aðlögun í stjúpfjölskyldunni verður. Það hjálpar því að þekkja til áskorana stjúpfjölskyldna svo sýna megi uppbyggileg viðbrögð.
Það kann að hljóma vel og spara tíma fyrir foreldri að gera „allt saman“ en líklegt er að bæði stjúpforeldri og barnið verið ósátt til lengdar. Það virkar því sjaldnast að reyna að sannfæra barnið um ágæti stjúpforeldrisins í þeim tilgangi að reyna að breyta viðhorfum þess, þegar það upplifir að það hafi misst tíma og athygli foreldrisins. Né gera lítið úr líðan barnsins og afgreiða það „bara afbrýðisamt“. Börn upplifa erfiðar tilfinningar sem ber að virða. Að upplifa sig út undan, á hvaða aldri sem er, er vond tilfinning, og skemmandi sé ekki brugðist vel við. Allir þurfa sinn tíma, bæði börn og fullorðnir. Breytingar þarf að gera í áföngum. Að gefa tíma, maður á mann samskipti og jákvæð athygli virkar vel. Smám saman geta þau upplifað að stjúpforeldri þarf ekki að vera ógn við tengsl þess við foreldrið, heldur góð viðbót í lífi þess.
Valgerður Halldórsdóttir félags- og fjölskylduráðgjafi