All Posts By

valgerdur

Lúdó

Í Matdador með Lúdóreglur?

Eftir Fjölskylda

Fjölskyldur eru mismunandi – og það á líka við um stjúpfjölskyldur þar sem parið á börn úr öðrum samböndum. Það getur verið á framhaldsskólaaldri með ung börn eða á gamals aldri eins og afi minn sem flutti út af elliheimilinu og hóf sambúð að nýju við mismikla gleði aðstandenda. Fólk getur verið gagnkynhneigt eða samkynhneigt af íslenskum eða erlendum uppruna svo eitthvað sé nefnt. Þrátt fyrir margbreytileika þeirra benda rannsóknir til að að þær eiga margt sameignlegt og glíma við svipaðar áskoranir.

Útundan

Að upplifa sig útundan er algeng tilfinning bæði hjá börnum og fullorðum sem getur haft óheppileg áhrif á fjölskyldulífið sé ekki brugðist við á uppbyggilegan máta. Gegnir kynforeldri þar lykilhlutverki að tengja saman börn og maka, miðla upplýsingum og tryggja góð samskipti við fyrrverandi maka eða barnsföður/móður.

Algengt er hlutverk stjúpforeldra vefjist fyrir fólki og upp komi óraunhæfar hugmyndir um að hægt sé að endurskapa kjarnafjölskylduna. Jafnvel að stjúpforeldrið geti alfarið komið í staðinn fyrir það foreldri sem ekki er búsett á heimilinu. Það býður hættunni heim, sérstaklega ef stjúpforeldri tekur að sér agamálin án þess að tengsl hafi náð að myndast við börnin. Óhjákvæmilega fylgja líka nýjar hefðir og venjur nýju fólki sem deilir saman heimili og á sér aðra sögu. Hvort á að gera ráð fyrir að börnin sjái sjálf um nestið eins og mín börn eða smyrja fyrir þau eins og hann/hún gerir fyrir sín börn? Er nauðsynlegt að samræma hlutina? Sætaskipan við eldhúsborðið breytist þegar börnin eru aðeins viku í senn á heimilinu og foreldrar reyna gjarnan að aðlaga vinnutíma sinn svo þeir geti sinnt börnunum þann tíma sem þau eru hjá þeim. Hvað gerist þegar parið eignast síðan sameignlegt barn?

Foreldrið „úti í bæ“

Fyrrverandi maki eða barnsfaðir/móðir getur líka haft sín áhrif á fjölskyldulífið, bæði viljandi og óviljandi með hegðun sinni og unnið gegn aðlögun barna sinna að stjúpfjölskyldunni með sífelldri truflunum og inngripi í aðstæður á hinu heimilinu. Þegar tekist er á við missi og breyttar aðstæður hjálpar að hafa ríflegan skammt af þolinmæði og sveigjanleika sem virkar eins höggdeyfir. Líkt og brjóskið í líkamanum. Öll samskipti verða liprari og viðnám minna hjá fjölskyldumeðlimum sem eru kannski ekki eins spenntir fyrir stjúpfjölskyldulífinu í fyrstu og parið.

Það eflir stjúpfjölskyldur að vita hvað eru klassísk verkefni fyrir þær í stað þess að reyna nota kjarnafjölskyldur sem fyrirmynd. Sé það reynt er það eins og að spila Matador með Lúdóreglum. Vænta má fleiri stórsigra í Matador, en einfaldar lúdóreglur duga ekki til.

Valgerður Halldórsdóttir félags- og fjölskylduráðgjafi,  MA, sáttamaður.

Stjúp­mæður reyna oft of mikið að þókn­ast öðrum – Marta María Mbl.is

Eftir Stjúpforeldrar

Val­gerður Hall­dórs­dótt­ir, fé­lags- og fjöl­skylduráðgjafi, rek­ur fyr­ir­tækið stjuptengsl.is. Nú er hún að fara að halda nám­skeið fyr­ir stjúp­mæður og líka fyr­ir pör í stjúp­fjöl­skyld­um. Hún seg­ir að sam­fé­lags­miðlar hafi áhrif á sam­skipti stjúp­for­eldra við stjúp­börn og það geti verið auðvelt fyr­ir börn að upp­lifa að þau séu „útund­an“ þegar verið er að pósta lát­laust þegar börn­in eru ekki með í för.

Hvers vegna ertu að halda nám­skeið fyr­ir stjúp­mæður og pör í stjúp­fjöl­skyld­um?

„Flest­ar stjúp­fjöl­skyld­ur og marg­ar stjúp­mæður upp­lifa svipaða hluti sem eru oft mjög fyr­ir­sjá­an­leg­ir en fæst­ir þekkja. Með því að læra um stjúptengsl má koma í veg fyr­ir al­geng­ar uppá­kom­ur og van­líðan sem get­ur fylgt þeim. Ég hef rekið mig á að þegar fólk þekk­ir ekki til þá er til­hneig­ing til að fólk „kenni hvað öðru um“ sem eyk­ur enn frek­ar á vand­ræðin. Flest­um finnst sjálfsagt að fara á for­eldra­nám­skeið fyr­ir verðandi for­eldra eða sækja nokk­ur hundaþjálf­un­ar­nám­skeið til að tak­ast á við nýj­ar áskor­an­ir á upp­byggi­leg­an hátt. Það sama á við um stjúptengsl,“ seg­ir Val­gerður.

Hvað er það sem stjúp­mæður eru oft að gera vit­laust?

„Að setja ekki á sig súr­efn­is­grím­una og reyna of mikið að þókn­ast öðrum á sinn eig­in kostnað. Kon­ur eru oft hrædd­ar við að „vera leiðin­leg­ar“, reyna að þókn­ast öll­um og rugla því sam­an við að setja heil­brigð mörk til dæm­is gagn­vart maka sín­um og taka of mikið að sér gagn­vart börn­un­um í fyrstu. Jafn­vel þótt eng­inn hafi beðið þær um það, sum­ar halda jafn­vel að þær eigi að vera einskon­ar mæður á heim­il­inu án þess að hafa „umboð“ til þess frá stjúp­börn­um sín­um eða maka. Nú svo get­ur mak­inn og stjúp­for­eldrið verið sam­mála en stjúp­börn­in láta óspart vita að „hún er ekki mamma mín“. Það eru til ýms­ar út­gáf­ur á þessu.

Það er líka mögu­leiki á að öll­um líki mjög vel við hana sem stjúpu og það sem hún stend­ur fyr­ir á heim­il­inu en hún sjálf er að koðna niður inn­an frá. Birt­ist það meðal ann­ars í því að all­ir vin­konu­hitt­ing­ar, sauma­klúbb­ar eða auka­vinna er sett á þann tíma sem stjúp­börn­in eru á heim­il­inu,“ seg­ir Val­gerður.

Val­gerður bend­ir á að það fylgi þessu verk­efni mik­il óvissa.

„Sér­stak­lega þegar fólk hef­ur litla sem enga hug­mynd um hvernig dýna­mík stjúp­fjöl­skyldna er. Allt of marg­ar kon­ur spyrja hvort þær megi hafa svona og hinseg­in til­finn­ing­ar gagn­vart hlut­verk­inu í stað þess að virða sín­ar til­finn­ing­ar og skoða hvað megi gera til að þeim líði bet­ur. Þessi óvissa og löng­un til að öll­um líki við hana veld­ur því m.a. að aðrir skil­greina hlut­verk stjúp­unn­ar en ekki hún sjálf. Við ræðum þessa hluti og fleira meðal ann­ars á ör­nám­skeiðinu þann 28. októ­ber. Þann 22. októ­ber verður í boði fyr­ir þær kon­ur 6 vikna nám­skeið sem kall­ast Stjúpu­hitt­ing­ur.“

Hvers vegna verða sam­skipti stjúp­mæðra og stjúp­barna oft svona stirð?

„Það vant­ar oft­ast upp á tengslamynd­un­ina milli stjúp­mæðra og barna í slík­um til­vik­um. Við þurf­um að ein­blína meira á maður á mann sam­skipti og kynn­ast hvert öðru áður en við för­um að beita okk­ur. Oft og tíðum vant­ar líka upp á sam­vinnu pars­ins t.d. um regl­ur á heim­il­inu. Stjúp­mæðrum/​feðrum finnst for­eldrið ekki vera að fylgja eft­ir regl­um heim­il­is­ins og fer þá „beint í börn­in“ sem taka því illa. En stund­um samþykk­ir for­eldrið ein­hverja reglu sem það er í raun ekki til­búið að fylgja eft­ir, í stað þess að ræða það við stjúp­for­eldrið og móta regl­ur sem henta öll­um. Skort­ur á sam­starfi bæði á milli stjúp­for­eldra og for­eldra á heim­ili og á milli heim­ila bitn­ar því mjög oft á börn­un­um. Jafn­vel finnst börn­um að stjúp­for­eldrið stjórni for­eldri þeirra og stjúp­for­eldr­inu að börn­in stýri for­eldr­inu þegar þau eru á heim­il­inu.“

Ef þú ætt­ir að gefa stjúp­móður eitt ráð, hvað væri það?

„Lærðu um stjúptengsl og hlúðu vel að sjálfri þér.“

Svo ertu líka með para­nám­skeiðið. Hvað græða pör á því að fara á svona nám­skeið?

„Það sem flest­ir segja að þeir hafi grætt mest á er að hitta önn­ur pör í svipuðum spor­um. Jafn­framt með því að læra um helstu áskor­an­ir stjúp­fjöl­skyldna er eins og að fá gott landa­kort til að fara eft­ir.

En skorti mörk, sam­starf og skiln­ing á stöðu bæði for­eldra og stjúp­for­eldra sem og barna er hætta á að pirr­ing­ur og árekstr­ar verði tíðir. Upplýsingar um námskeið er að finna á www.stjuptengsl.is

Finnst þér stjúptengsl verða flókn­ari með til­komu sam­fé­lags­miðla?

„Það er stund­um viðkvæmt mál þegar stjúp­for­eldr­ar birta mynd­ir af sér með stjúp­börn­um sín­um á Face­book eða öðrum miðlum en alls ekki í öll­um til­vik­um. For­eldr­um barn­anna á hinu heim­il­inu get­ur fund­ist að sér vegið sem for­eldri en við þurf­um sjaldn­ast að ótt­ast að börn skipti for­eldr­um sín­um út fyr­ir stjúp­for­eldra.

Í öðrum til­vik­um birt­ist mynd af for­eldri með stjúp­börn­um sín­um, og fer það fyr­ir brjóstið á börn­un­um á hinu heim­il­inu sem ekki eru með. Stund­um hafa ung­menni lokað á stjúp­for­eldra sína á sam­fé­lags­miðlum án út­skýr­inga af þeirri ein­földu ástæðu að slík­ar mynd­ir geta sært. Til­finn­ing­in að vera „útund­an“ er sterk.

Sam­fé­lags­miðlar geta líka auðveldað fólki að fá yf­ir­sýn yfir líf barna sinna og stjúp­barna, sem gjarna glat­ast við það að eiga börn sem til­heyra tveim­ur heim­il­um,“ seg­ir Val­gerður.

Sótt af MBL.is

Þarf ég að gefa dóttur kærustu sonar míns jólagjöf?

Eftir Hátíðir

„Ég veit ekki hvort og þá hvað á að gefa dóttur Selmu, nýju kærustu Kela í jólagjöf. Ég er ekki viss hvort hún teljist sem barnabarn eða ekki, en hún er orðin 12 ára og á bara sínar ömmur. Hvað finnst þér?“, sagði Sigrún í áhyggjufullum tón við Helgu vinkonu sína í þeirra reglulegu kóvít göngu í Elliðaárdalnum.

Sigrún fann hvað það gerði henni gott að hitta vinkonu sína reglulega á röltinu og spjalla. Satt að segja þá öfundaði hún Helgu pínulítið af því að eiga engin fyrrverandi tengdabörn né aukabörn sem fylgdu nýjum tengdabörnum. Skilnaður Kela, sonar hennar hafði breytt miklu varðaði aðgengi hennar barnabörnunum. Þau voru nú í viku hjá honum og svo viku hjá Fjólu, mömmu sinni. Keli var á móti því að Fjóla leitaði til mömmu hans með pössun eða væri að koma til hennar í heimsókn “í tíma og ótíma“ en Sigrúnu sjálfri hafði þótt vænt um það. Barnabörnin voru alltaf barnabörnin hennar, óháð því hjá hvoru foreldrinu þau voru hverju sinni. En Kela fannst það „ekki í lagi að þau Selma væru kannski að hitta Fjólu hjá henni“. Sigrún beið ekki eftir svari Helgu og bætti við „Finnst þér ég þurfi að gefa dóttur Selmu gjafir eins og mínum eigin barnabörnum?“
Óhætt er að segja að skilnaður uppkominna barna hristir oft upp í tilveru afa og ömmu . Í kjölfarið breytast oft samskiptin við barnabörnin sem eiga tvö heimili í stað eins, og nýjar spurningar vakna. Má bjóða þeim í mat eða á skauta þegar þau eru hjá fyrrverandi tengdadóttur eða bara þegar þau eru hjá syninum? Mega þau gista eins og áður? Í sjálfu sér þarf eldri kynslóðin ekki leyfi uppkominna barna til að bjóða fyrrverandi tengdadóttur eða -syni í mat með barnabörnin, eða hvort hún megi leyfa þeim að gista að beiðni fyrrverandi tengdadóttur. Hinsvegar á meðan sumum kann að finnast það bara skemmtileg og góð hugmynd, finnst öðrum uppkomnum börnum það vera svik við sig og vilja að haft sé samráð við þau varðandi börn þeirra og samskipti við fyrrverandi maka. Sérstaklega ef samskipti þess við hitt foreldrið eru ekki góð. Það þarf því að finna einhverjar leikreglur sem allir eru sáttir við, en er það efni i annan pistil. En skapist mikill ágreiningur milli uppkominna barna og foreldra er hætta á að samskiptin verða minni við barnabörnin, jafnvel engin í sumum tilvikum. Sem er mikill missir fyrir alla.

Ný tengdabörn með börn

Flestir samgleðjast uppkomnum börnum sínum þegar þeir finna sér nýjan maka, en sumir telja að hlutirnir gerast oft ansi hratt. Stundum eru kröfur gerðar um skjóta aðlögun að nýjum tengdabörnum með börn, á sama tíma og tengsl við eigin barnabörn hafa jafnvel minnkað. Það þurfa allir tíma, bæði börn og fullorðnir til að aðlagast nýjum aðstæðum og til að viðhalda eldri tengslum og búa til ný tengsl. Það er því alls ekki sjálfsagt að nýja stjúpbarnabarnið vilji kyssa og faðma stjúpömmu eða -afa bless eins og hin barnabörnin gera eða amma og afi vilji eyða meiri tíma með stjúpbarnbarni en barnabarni. Gefa þarf eldri kynslóðinni tækifæri til að sinna barnabörnum sínum án stjúpbarnabarnanna – og stjúpbarnabörnin þurfa líka tækifæri til að tengjast stjúpafa sínum og -ömmu án hinna barnabarnanna. Liður í að efla tengslin innan stjúpstórfjölskyldunnar felst í því að skipta henni upp af og til, og stundum að hrista hópana saman. Þegar fólk hefur myndað tengsl við stjúpbarnabörnin er sjaldnast efi í huga þess hvort það eigi að gefa þeim gjafir eða ekki.
Viðurkenning virkar vel – bæði á fullorðna og börn
Það þarf engin að gefa jólagjafir eða aðrar gjafir, en flestum langar til að gefa barnabörnum sínum gjafir hvort sem þau búa á einu eða tveimur heimilum. Hvað varðar stjúpbarnabörnin, þá er það ekki nokkur vafi í huga margra að þau eigi að fá gjafir eins og hin börnin í fjölskyldunni en aðrir er óvissir, sérstaklega þegar tengsl eru lítið sem engin. Sumum kann að finnast það vera svik við barnabörnin að gefa þeim og stjúpbarnabörnunum jafn dýrar gjafir, jafnvel þótt börnin eigi sameiginlegt hálfsystkini. Hætta er á að slík viðhorf geti ali á afbrýðisemi í systkinahópnum og deilum milli uppkomins barns og maka þess, sem og milli þess og foreldra.

Ræðum saman

Séum við óviss, má ræða málið við uppkomið barn og tengdabarn. Slíkt samtal gæti mögulega afhjúpað þeirra eigin óvissu um hvort þau/þær/þeir ætli að gefa börnum hvors annars saman eða sitt í hvoru lagi. Jafnvel áfram með hinu foreldrinu „eins og þau hafa alltaf gert“.
Allt er í sjálfu sér „leyfilegt“ en með því að gefa stjúpbarnabarni gjöf, felst viðurkenning á tilvist þess í fjölskyldunni, sem okkur öllum er mikilvægt. Deili börnin jólunum saman er vænlegra að hafa gjafirnar af svipuðum toga. Þegar mikill aldursmunur er á börnunum er ekki víst að stjúpbörnin ætlist til að fá gjafir eða sambærilegar gjafir og hin börnin frá nýjum stjúpöfum og -ömmum.
Besta gjöfin er hinsvegar sú að einsetja sér að gefa stjúpbarnabörnum tíma og athygli, sem og eigin barnabörnum á komandi ári- og þessar áhyggjur eru frá um næstu jól!

Valgerður Halldórsdóttir, félags-og fjölskylduráðgjafi, Birt á Mannlif.is

60plus

Geta aðstoðað barnabörnin við skilnað

Eftir Skilnaður

Tíðni hjónaskilnaða hefu aukist síðustu áratugi og skilnaðir hafa mikil áhrif á börn og foreldra þeirra. En stundum upplifa afar og ömmur einnig að samband þeirra við barnabörnin breytist þegar foreldrar þeirra skilja. Þegar börnin eru aðra hvora viku hjá hvoru foreldri, þýðir það þá líka að afar og ömmur hafi einungis samband við þau aðra hvora viku, eða þá vikuna sem þau eru hjá þeirra „barni“? Þannig þarf það ekki að vera.

Erfitt að biðja fyrrverandi tengdaforeldra

Valgerður Halldórsdóttir félagsráðgjafi hefur sérhæft sig í stjúptengslum. Hún gerði könnun fyrir tveimur árum, en í henni kom fram að um 40% fráskilinna forelda þætti ekki alltaf auðvelt að biðja fyrrverandi tengdaforeldra um aðstoð með börnin. Það kom einnig fram í könnuninni að fólki þótti heldur ekki auðvelt að biðja eigin foreldra um aðstoð með stjúpbörn, þar sem þeim er til að dreifa.

Reyna að fókusera á barnabörnin

„Það er tilhneiging í þá átt að stuðningsnet fjölskyldunnar gisnar við skilnað og ný stjúptengsl geta gert það enn götóttara en áður“, segir Valgerður. Hún segir að ástæðurnar fyrir þessu geti verið margvíslegar en það sé mikilvægt að blanda sér ekki í deilur fólks sem er að skilja og reyna að fókusera á börnin. „Afi og amma geta skapað mikilvæga festu og samfellu í lífi barna sem eru að fara í gegnum skilnað foreldra sinna og það gerir þeim gott“.

Ekki láta samskiptin „frjósa“

Og Valgerður heldur áfram „Besta leiðin til að tryggja aðkomu að barnabörnum er að halda sig fyrir utan deilur og vera í góðu sambandi bæði við eigin börn og fyrrverandi tengdabörn. Þau stýra aðkomu að barnabörnunum. Þó það sé ákveðið umrót í kringum skilnaði og ýmislegt sé látið flakka er mikilvæg að láta samskiptin ekki „frjósa“ í áratugi, eða taka upp þykkjuna fyrir hönd eign barna og skera á samband við fyrrum tengdabörn, þó eðlilega breytist það . Það er alltaf hægt að bæta samskipti“, segir hún.

Eldri kynslóðin þarf að sýna frumkvæði

Hún segir að eldri kynslóðin þurfi líka að eiga frumkvæði og bjóða fram aðstoð og stuðning með barnabörnin, þar sem fyrrum tengdabörn eigi oft í erfiðleikum með að biðja um hann. Það þurfi að taka umræðuna um þetta, en það sé afar mikilvægt fyrir afa og ömmur að fara ekki frammúr eigin börnum. Það sé rétt að segja þeim frá því að ætlunin sé að hafa samband við fyrrverandi maka þeirra, fá barnabörnin í heimsókn, bíltúr og svo framvegis. Þetta sé sérstaklega mikilvægt ef mikið ósætti sé á milli foreldra barnabarnanna .

 

 

Jól í stjúpfjölskyldum

Eftir Hátíðir

 Stjúptengsl segja ekkert til um gæði tengsla heldur hvernig þau eru til komin.

Jól og áramót er spennandi tími fyrir marga. Skipts er á litríkum pökkun,  farið er í heimsóknir og matarboð til vina og  ættingja, flugeldar sprengdir þegar gamla árið kvatt og nýju ári fagnað.  Fyrir aðra fylgja honum blendnar tilfinningar, jafnvel kvíði. Tómi stóllinn sem fyrrverandi maki átti  við  matarborðið minnir á brostna drauma og fjarveru foreldris. Með tímanum ná flestir að aðlagast breyttum aðstæðum og lífið fær nýjan lit. Í tóma stólinn er sestur nýr maki, stundum með börn af fyrra sambandi sem kallar á nýtt skipulag eigi og ekki síst sveigjanleika sem er allt annað en eftirgjöf í mínum huga. Sveigjanleiki er hæfni til að breyta þegar nauðsynlegt er til að hlutirnir gangi en með eftirgjöf erum  við að gefa eftir geng betri vitund og fórnum okkur fyrir friðinn.  Hætta er á að það muni koma í bakið á fólki fyrr eða síðar.

Gera þarf ráð fyrir fyrrverandi maka og stjúpforeldri barnanna í skipulagningu jólanna og áramóta en flest börn sem ekki búa með báðum foreldrum eiga tvö heimili,  sem mikilvægt er að mun bæði um jól og á öðrum árstíma. Jafnvel þó fyrrverandi makar skilgreini ekki hvort annað sem hluti af fjölskyldu þeirra eru þeir í fjölskyldu sameignlegra barna.  Í stað þess. Sum börn eiga tvær stjúpfjölskyldur og nokkur setta af öfum og ömmum. Stundum eiga þau líka stjúpafa og – ömmur sem geri skipulag jólasamveru enn flóknara eigi að reyna að koma fyrir matarboðum og heimsóknum til allra.

Samskipti foreldra

Allt þetta kallar á gott samstarf og samráð milli heimila barsins. Mörgum gengur þetta mjög vel og er í raun ekki neitt eitt rétt hvernig á að haga þessu tíma eða hvar börnin eigi að vera. Aðalmálið er að samkomulag sé til staðar og allir leggi sig fram við að gera þennan tíma sem bestan fyrir börnin og þau viti hvað er framundan. Gott að ákveða fyrirfram hvernig hlutirnir verða  og að börnunum sagt frá því „Við mamma þín höfum ákveðið eða …“   eða „Við pabbi þinn höfum ákveðið að …..

Ágætt er að þeir foreldrar sem eiga í erfiðleikum með samskipti sín leiti aðstoðar vina og ættingja til að ferja börnin milli staða ef þeir treysta sér ekki til þess sjálf án þess að neikvæð orðaskipti eigi sér stað. Stundum er nauðsynlegt að leita aðstoðar  fagfólks.  Það  er ágætt að hafa í huga að börn telja ekki  daga og mínútur eins og algengt er hjá foreldrum sem deila, heldur meta þau góð samskipti foreldra númer eitt, tvö og þrjú.

Samráð nauðsynlegt

Stundum truflar það samskiptamynstur sem var á milli einhleypra fyrrverandi maka aðlögunar stjúpfjölskyldunnar. Nefna má dæmi um mikla vináttu þar sem varla er pláss fyrir nýja makann í sambandinu eða þegar öll mál eru leyst þeirra á milli án samráðs við makann. Eins og hver eigi að vera hvar, og hvenær um jól og áramót? Algengt er að ef skorti slíkt samráð finni fólk fyrir stjórnleysi í lífinu sem sem elur á pirringi og reiði, stundum vonleysi sem er ekki holt veganesti eigi að byggja upp tengsl milli stjúpforeldis og barns.  Verkefnið getur verið nógu flókið fyrir stjúpfjölskyldur að koma á skipulagi sem hentar svo ekki sé verið að flækja það með því að flaska á því grundvallaratriði að eiga samráð við maka.

Hver á að gefa hverjum jólagjöf?

Fyrsta reglan er auðvitað að gefa eftir efnum og það er engin ástæða til að fara í samkeppni við hitt foreldrið um jólagjafirnar. Stundum gefa foreldrar saman gjafir þó svo þeir búa ekki saman og í sjálfu sér engin ástæða til að hætt því komi nýr maki til sögunnar sé um það samkomulag.  Það þekkja það margir stjúpforeldrar að eyða lögnum tíma í að velja jólagjafirnar handa stjúpbörnum sínum en þegar þau eru spurð segja þau að gjöfin sé bara frá pabba eða mömmu í stað „pabba og Siggu“ eða „mömmu og Stebba“.  Það er ekki laust við að sumir stjúpforeldrar upplifi vanþakklæti stjúpbarna sinna.  Sumir stjúpforeldrar hafa kosið að gefa stjúpbörnum sínum sér gjöf og skapað sér með því sérstöðu í pakkaflóðinu. Í sumum tilvikum gefa báðir foreldrar og stjúpforeldrar saman stærri gjafir sem er auðvitað líka í góðu lagi.

Afa og ömmukynslóðin getur verið mikilvæg fyrir aðlögun stjúpfjölskyldunnar en það þykir í góðu lagi að eiga nokkur sett af öfum og ömmum. En það getur flækst fyrir stjúpættingjum hvor þeir eigi að gefa börnum gjafir og þá hve stórar. Ágætt er að eiga samráð við foreldra og stjúpforeldra barnanna um jólagjafirnar en ósjaldan getur vanhugsuð ákvörðun um að gefa ekki stjúpbarnabarninu á heimilinu gjöf eða allt annars konar gjöf,   valdið særindum að óþörfum.  Það má kannski segja að það sé ágæt regla gefa börnum sem eru á sama staða á sama tíma og á svipuðum aldrei sambærilegar gjafir. Það þarf að bæta upp fjarveru foreldra eða afa og ömmu í lífi barna með meiri samveru en ekki gjöfum.  Auðvitað skiptir aldur barna máli og eiga eldri börn auðveldra með að skilja að þau fái ekki eins og hin börnin þar sem þau eigi eftir fá gjafir frá hinni fjölskyldunni.  Þau kunna hinsvegar að meta að tekið sé eftir þeim og þurfa ekki að fá allt eins. Sumir kjósa að  gefa stjúpbörnum fyrrverandi maka smá pakka. Það er hinsvegar aldrei hægt að koma í veg fyrir mismunun og kannski ekki ástæða til þar sem börnin eigi tvær ólíkar fjölskyldur. Mikilvægt er hinsvegar að þau upplifi sanngirni í þeim báðum.

Skilyrðislausar gjafir og jólaföt

Okkur þætti líklega óeðlilegt ef vinkona  gæfu okkur geisladisk eða peysu sem við mættum bara nota þegar við værum með henni. Stundum eru börn sett í þá stöðu að mega ekki fara með gjafir á milli heimila og þeim jafnvel ætlað að skilja eftir jólafötin eftir á öðru heimilinu. Oft er ástæða fyrir því að fólk grípi til þessa ráðs þegar föt eða hlutir sjást ekki aftur á heimilu og börnin jafnvel send illa klædd til baka.  Auðvitað getur um einfalda gleymsku að ræða en sé um síendurtekna hegðun er ástæða til að bregðast við of finna leið til að bæta samskipti milli heimila. Í slíkum aðstæðum sem öðrum þar sem samskipti eru slæm og jaðrar við „kalt stríð“  bitnar það á líðan barnsins. Ágreiningur foreldra og samviskubit bitnar líka á buddu foreldra en það kostar sitt að eiga tvennskonar gallabuxur eða ipod á tveimur heimilum sem tilheyra sama barni.

Í hvaða jólaboð á að fara?

Það er eins og með annað þá þarf að skipuleggja þessa daga með hagsmuni barnsins að leiðarljósi en það má ekki gleyma því að þau þurfa hvíld eins og aðrir og ekki nauðsynlegt að öll samskipti við vini og ættingja eigi sér stað á örfáum jóladögum. Við höfum líka hina 360 dagana á árinu til þess og margar leiðir eru til að halda jól. Ljóst er að ekki er hægt að vera á sama tíma á tveimur stöðum í einu  en það má borða ákveðinn mat, opna pakka eða sprengja flugelda á hvaða degi sem er. Þeim stjúpfjölskyldum sem gengur best sýna sveigjanleika og opna pakka á jóladag þegar barnið er hjá  þeim og hafa sitt „gamlárskvöld“  á þrettándanum. Þurfi að velja á milli boða til dæmis hvort barnið fari í jólaboð til nýju tengdaforeldra móður sinnar eða föðurafa og ömmu þá er tel ég eðlilegar að barnið fari til föðurfólksins en nýju stjúpafa –og  ömmu. Það má nota aðra tíma til að rækta þau tengsl og svo má líka hafa í huga að þó eitthvað sé með ákveðnum hætti þessi jól þurfi það ekki að vera með sama hætti næstu jól. Mikilvægt er að við séum jafnupptekin af því að styrkja fjölskyldubönd barna og þá um leið tengslanet þeirra,  rétt eins og fullorðinna.

Þar er hjálplegt að að láta sér vera meira á sama hvað öðrum finnst að „eigi“ að vera eða gera þegar kemur að stjúpfjölskyldum. Hver og ein stjúpfjölskylda verður að fá að finna út það fjölskyldulíf sem henni hentar og  fjölskyldum barna þeirra sem oftast eru tvær. Það þurfa allar fjölskyldur óháð gerð þeirra öðru hvoru að stokka upp í hefðum sínum til að mynda þegar börnin eignast maka og eigin börn.  Hefðir eru okkur mikilvægar og skapa tilfinningu fyrir samfellu í lífinu og að við tilheyrum ákveðum hópi. Það er því ekki vænlegt að skipta öllum eldri hefðum út fyrir nýjar í stjúpfjölskyldum á það við um jólahefðir sem aðrar.

Hvaða matur?

Margir eru með ákveðnar hugmyndir hvað sé jólamatur og hvað ekki. Það er ekkert að því í stjúpfjölskyldum að hafa tvíréttað um jólin sé fólk sátt. Ætla má að það sé meira virði en að annar barnahópurinn upplifi sig útundan þar sem ekkert af þeirra jólahefðum séu virtar og framandleikinn verði allsráðandi. Það má frekar reyna sameinast um nýjan desert eða forrétt – eða hafa forréttinn eins og annar aðilinn hefur alltaf haft það og desertinn eins og hinn aðilinn  kýs.

Það eru margar leiðir til að halda jól, en fólk þarf að vera útsjónarsamt og tilbúið til að gera breytingar til að hlutirnir gangi. Það er ekki nauðsynlegt að gera alla hluti saman, og í stjúpfjölskyldum er nauðsynlegt að skipta henni upp öðru hvoru til að hver og einn fái sinn tíma sem hann þarf til að mynda og viðhalda tengslum.

Það er kannski ágætt að spyrja sig „Hvaða minningar viljum við að börnin okkar eigi um jólin?“

Valgerður Halldórsdóttir félags- og fjölskylduráðgjafi

 

 

Bara einn fermingardagur – viðtal

Eftir Hátíðir

Deilur fráskilinna foreldra skyldu ætíð látnar lönd og leið á fermingardegi barna og gleði fá í staðinn stærstan sess.

„Aðeins einn dagur í ævi barns heitir fermingardagur. Því þurfa foreldrar að hafa hagsmuni barns síns að leiðarljósi og setja eigin ágreining til hliðar, sé hann til staðar. Við getum haldið mörg jól og farið í mörg sumarfrí, en hvaða sögu viljum við að barn okkar segi af fermingardegi sínum? Minningarnar munu lifa og því skal hafa í huga að deilur foreldra bitna mest á börnunum,“ segir Valgerður Halldórsdóttir, félagsráðgjafi og formaður Félags stjúpfjölskyldna, spurð um heillaráð til handa foreldrum barna sem eiga tvö heimili.

„Stundum er í góðu lagi að halda tvær fermingarveislur, sé samkomulag um það, en æskilegt er að foreldrar geti staðið saman á þessum degi í lífi barnsins. Foreldrar þurfa að vera börnum sínum góð fyrirmynd því deilur fylgja kynslóð eftir kynslóð, og því þroskamerki að geta brotið odd af oflæti sínu til að ná samkomulagi um að halda skemmtilegt boð,“ segir Valgerður og útskýrir að foreldrum beri einnig að hugsa til framtíðar því börn þeirra eigi eftir að gifta sig og eignast fjölskyldu.

„Ætla þeir þá ekki að mæta í brúðkaup barna sinna eða skírn barnabarna af því fyrrverandi maki verður þar líka? Hversu lengi ætla þeir að láta börn sín líða fyrir ágreininginn? Stundum þarf að setja punkt og vinna úr samskiptavandanum ef ekki á að smita komandi kynslóðir, og ef við treystum okkur ekki til að haga okkur eins og manneskjur í einn dag þurfum við að endurskoða margt í sjálfum okkur,“ segir Valgerður, sem ráðleggur fólki að setja sig í spor hins aðilans þegar leysa á deilur.

„Gæta þarf þess að vera ekki eigingjarn þegar ákveða á hverjum og hversu mörgum á að bjóða. Ef fólk upplifir ákveðna samkeppni er skynsamlegt að nýi makinn sýni foreldrunum stuðning og gefi þeim það pláss sem þau þurfa, því fleiri tækifæri munu gefast síðar á lífsleiðinni til að sýna velvilja og stuðning,“ segir Valgerður og leggur einnig áherslu á samráð um fermingargjafir.

„Fermingargjafir eru eign barnsins sem það á að geta tekið milli heimila að vild, sem og fermingarföt sín og fleira,“ segir Valgerður, sem bendir á þriðja aðila, eins og vin, skynsaman fjölskyldumeðlim eða félagsráðgjafa, ef samráð gengur illa.

„Ferming er einstakur atburður og góð skilaboð til barns ef foreldrar geta gefið barninu gjöf saman. Auðvitað mega stjúpforeldrar vera með í gjöfinni, en líka er gott að þeir gefi sér gjöf og skapi sér þannig sérstöðu. Í sameiginlegri gjöf felast skilaboð um að mamma og pabbi séu tilbúin að standa með barni sínu þegar þarf á að halda; alveg sama hvernig hjónabandi þeirra var háttað. Börnum er nauðsynlegt að finna þetta bakland, því baklandið gliðnar oft með tilkomu stjúpfjölskyldna, jafnvel þótt fjölskyldumeðlimum fjölgi.“ -þlg

Mér fannst hún vanþakklát og pabbi hennar líka” – Viðtal

Eftir Stjúpforeldrar
Fyrir skemmstu birtist hér á Pjattinu pistill sem bar yfirskriftina “10 setningar sem stjúpmömmur ættu aldrei að láta út úr sér“. Pistillinn vakti mikla athygli og umræður inni á Facebook síðu okkar Pjattrófa.

…svo í kjölfarið höfðum við samband við félagið Stjúptengsl en konan á bak við það félag er Valgerður Halldórsdóttir félagsráðgjafi , MA og höfundur bókarinnar „Hver er í fjölskyldunni? Skilnaðir og stjúptengsl.

Það er ljóst að með aukinni skilnaðartíðni og breyttu samfélagsmynstri verða fleiri og fleiri fjölskyldur ‘blandaðar’. Flestir finna sér nýja maka eftir skilnað og ljóst er að vel flestir, ef ekki allir, reka sig fljótt á hindranir þegar kemur að því að setja saman hina ‘fullkomnu’ nýju fjölskyldu.

PERSÓNULEG REYNSLA AF STJÚPUHLUTVERKI KOM ÞESSU AF STAÐ

Valgerði má kalla fremsta meðal jafninga í reynslu sinni og þekkingu á blönduðum fjölskyldum en það var persónuleg reynsla hennar af því að gerast stjúpmóðir, sem og menntun hennar, sem kom af stað því starfi sem hún rekur í dag með félagið Stjúptengsl. 

Henni er mikið í mun að fræða stjúpfjölskyldur um þær fjölbreyttu stöður sem þar geta komið upp enda svo ótal margir að fást við það sama þó margir haldi að þar sé hver í sínu horni að glíma við sértæk vandamál.

Við tókum hana tali og fengum Valgerði til að segja okkur sína sögu af því að vera stjúpmóðir og eflaust kannast margar við þær tilfinningar sem hún lýsir í viðtalinu. Það eru nefninlega, eins og áður segir, margir að glíma við það sama:

“Ég var nýgift með son úr fyrri sambúð og stjúpdóttur. Samböndum okkar hjóna við foreldra barnanna var „löngu lokið“ og nú átti þetta að takast, ekki skorti okkur reynsluna. Utanfrá vorum við eins og „venjuleg fjölskylda“. Útivinnandi hjón sem bjuggu á þriðju hæð í blokk í vesturbæ Reykjavíkur með tvö börn á aldrinum 6 og 8 ára,” segir Valgerður þegar hún fer yfir upplifun sína af því að stofna til nýrrar fjölskyldu en Valgerði hafði dreymt um samhenta fjölskyldu síðan foreldrar hennar skildu.

“Ég tók því ekki vel í það þegar mér fannst tekið framfyrir hendurnar á mér og maðurinn minn samþykkti einhverjar breytingar á umgengni dótturinnar við móðurina án samráðs við mig. Hvað um mín plön? Það var eins og ég væri alger aukastærð í þessu máli. Ég fann að skortur á samráði við mig sem eiginkonu, upplifði ég sem stjórnleysi og ágreiningur sem upp kom á milli foreldrana bitnaði á samskiptum mínum og stjúpdóttur minnar. Ég var engu skárri sjálf varðandi son minn og föður hans og tók ákvarðanir án samráðs við manninn minn sem hafði hafði sínar skoðanir á málinu rétt eins og ég. Við vorum bæði einfaldlega vön því að taka ákvarðanir án samráðs og gamlar rútínur sem áður hentuðu okkur sem einhleypir foreldrar spilltu nú fyrir í sambandinu og samstöðu okkar í stjúpfjölskyldunnar,” segir Valgerður.

Ég fann hinsvegar að það komu dagar og stundir þar sem mér fannst ég vera að umturnast í þá manneskju sem ég vildi síst vera „vondu stjúpuna“! Hvernig gat þetta gerst? Mér líkaði ekki við þá manneskju enda var hún full af sektarkenndar, ráðalaus og einmanna.

SKORTUR Á SAMRÁÐI FORELDRA

“Fyrir kom að foreldra barna okkar tóku ákvarðanir sem snertu okkar fjölskyldulíf án nokkurs samráðs við hvorugt okkar. Til að mynda skráði pabbi sonar míns hann í básúnutíma þegar hann var 8 ára, útvegaði hljóðfæri og hvarf síðan aftur út á land til sinna fyrri verkefna. Mér finnst þetta nokkuð spaugilegt í dag en það veit sá sem allt veit að okkur var ekki hlátur í huga á sínum tíma. Pabbinn var velmeinandi og vildi að sonurinn fengi uppbyggilegt tónlistaruppeldi en nauðsynlegt samráð skorti. Það var nokkuð ljóst að strákurinn gat ekki séð um verkefnið einn þó ekki væri nema fyrir það hvað básúnan var stór og þung og hann of smár til að bera hana á milli heimilis og skóla, ásamt skólatösku. Okkur varð smá saman ljóst að samband við okkar fyrrverandi yrði í raun aldrei alveg „lokið“ og þeir yrðu inni í lífi okkar alltaf á einhvern hátt, við áttum jú saman börn. Það var mun vænlegra að koma á góðri foreldrasamvinnu en að láta sem að þeir skiptu ekki máli í fjölskyldulífi okkar.”

VANÞAKKLÁT STJÚPDÓTTIR – AF HVERJU GAT HÚN EKKI HLÝTT?

“Mér fannst allt ganga nokkuð vel í byrjun og steikti ég lambalæri, sendi börnin í sunnudagaskólann, takmarkaði tölvu – og sjónvarpsnotkun barnanna, aðstoðaði við heimanám, þvoði þvott og lagði mig fram við að láta fólkinu mínu líða vel eins og ég gat og kunni. Maðurinn minn vann auka- og yfirvinnuna enda tekjuhærri en ég en hann var alltaf mjög liðtækur þegar hann var heima við. Í fyrstu hefði ég sómt mér vel utan á tímaritinu „Húsfreyjan“ en ef forsíðumyndin hefði sýnt líðan mín þegar á leið, er ég hrædd um að hún hefði ekki þótt nothæf eða söluleg.”

“Við hjónin höfðum passað vel upp á að gera ekki upp á milli barnanna. Allt var keypt nákvæmlega eins handa börnunum í herbergi þeirra, nema í sitt hvorum litnum. Ég lagði mig líka fram í fyrstu við að kom eins fram við þau og ætlaðist „auðvitað“ líka til þess sama af þeim, það er að segja að þau kæmu eins fram við mig. Jafnvel ætlaðist ég aðeins meira til af stjúpdóttur minni en syni mínum þar sem það var nú langt í frá sjálfsagt að ég sinnti þeim hlutum sem ég tók að mér, já og óumbeðin eins og að kaupa á hana föt eða láta hana læra. Verkefnið var vanþakklátt. Undir niðri hafði ég átt ég von á að maðurinn minn og stjúpdóttir mín yrðu mér þakklát fyrir að koma „kvenlegu skikki“ á hlutina. Hvað var eiginlega að stjúpdóttur minni, af hverju kunni hún ekki bara að þakka fyrir eins og strákurinn minn gerði? Af hverju gat hún ekki bara hlýtt? Af hverju var hún alltaf að minna mig á hvernig var þegar þau pabbi höfðu það þegar þau voru bara tvö? Mér fannst hún vanþakklát og pabbi hennar líka sem fór alltaf í vörn fyrir hana,” segir Valgerður og bætir við að stundum hafi eiginmaðurinn hegðað sér eins og andstæðingur hennar.

FAMILI

“Ég gerði slíkt hið sama þegar mér fannst hann ekki sýna syni mínum sanngirni eða skilning. Á slíkum stundum fannst mér ég vera heimilislaus og velti fyrir mér hvernig mér hafi eiginlega dottið í hug að flytja inn á þau?
Ég stóð mig að því að reyna fá tíma fyrir mig og son minn þegar ég saknaði þess tíma sem við áttum tvö saman og lífið var einfaldara. Ég ræddi það hinsvegar ekki við nokkurn mann enda taldi ég það ekki „rétt“, svoleiðis gerði maður ekki. Ég var himinlifandi þegar við hjónin fengum tíma tvö ein sem mér fannst allt of sjaldan. Var í lagi með mig, ég vildi skapa samstillta fjölskyldu en þráði þó ekkert heitara en að skipta henni upp?”

Eftir á sé ég að þetta var eins og reyna spila Matador með Lúdóreglum en þar sem reglurnar í Matador eru mun flóknari en í Lúdó voru ekki miklar líkur til að við næðum þeim árangri sem við höfðum vænst.“

ÓSAMMMÁLA UM REGLUR Á HEIMILINU

fam

“Fljótlega fann ég fyrir ýmsu smálegu sem mér líkaði ekki þegar kom að krökkunum en við vorum ekki alltaf sammála um hvaða reglur ættu að gilda t.d. við matarborðið eða varðandi nestið. Umræðan var tekin upp á staðnum og eðlilega höfðu krakkarnir sína skoðun á málinu. Ég reyndi stundum að láta sem ekkert væri þar sem mér fannst það ekki tækt að vera nýgift manni sem vildi gera allt fyrir mig og vera síðan sífellt að kvarta yfir einhverju sem auðvitað átti ekki að skipta máli,” segir Valgerður en smátt fór kvíði að sækja að henni. Henni fannst hún vera að bregðast og hafði áhyggjur af ástandinu:

“Af hverju fóru samskipti mín og stjúpdóttur minnar smá saman að valda þessum pirringi og kvíða hjá mér? Ég sem hafði hlakkað til að kynnast þessari fallegu og líflegu stelpu. Var ekki bara eitthvað að mér eða var ekki bara eitthvað að hjá henni sem þurfti að laga?”

VAR ÉG AÐ UMTURNAST Í “VONDU STJÚPUNA”?

“Ég hafði gert ráð fyrir að krakkarnir myndi rífast enda rífast flest systkini, en ekki að ég myndi ekki höndla hlutina eins og ég kaus. Þeim kom reyndar oftast mjög vel saman og voru bæði góð við litlu systur sína þegar hún fæddist. Sérstaklega stjúpdóttir mín en ég fann að fæðingarorlofið gerði okkur gott þar sem við áttum oft stundir tvær með litla skottið og náðum að kynnast og tengjast betur en áður,” segir hún. “Ég fann hinsvegar að það komu dagar og stundir þar sem mér fannst ég vera að umturnast í þá manneskju sem ég vildi síst vera „vondu stjúpuna“! Hvernig gat þetta gerst? Mér líkaði ekki við þá manneskju enda var hún full af sektarkenndar, ráðalaus og einmanna.

Það var mér mikill léttir þegar ég fór í viðtal og var bent á bók eftir frumkvöðlana Emily og John Visher á sviði rannsókna og meðferðar fyrir stjúpfjölskyldur, ég var augljóslega ekki ein á báti. Í félagsráðgjafanámi við Háskóla Íslands vann ég síðan verkefni um stjúpfjölskyldur og „stofnaði“ Stjúptengsl í einu slíkra verkefna. Því meira sem ég lærði komst ég að því að ég var meira „venjuleg“ en ég hafði gert mér áður grein fyrir. Við höfðum, rétt eins og svo margir aðrir, verið með óraunhæfar væntingar og tekið fjölskyldur þar sem öll börnin voru sameiginleg sem fyrirmynd. Eftir á sé ég að þetta var eins og reyna spila Matador með Lúdóreglum en þar sem reglurnar í Matador eru mun flóknari en í Lúdó voru ekki miklar líkur til að við næðum þeim árangri sem við höfðum vænst.”

kids

LÍTILL STUÐNINGUR Í UMHVERFINU EN STENDUR TIL BÓTA

Valgerður segir að stundum hafi þau ráð sem vinir og vandamenn komu með ekki reynst mjög gagnleg því sjaldnast tóku þau mið af fjölskyldugerðinni.

“Í stað þess að spyrja um hlutverk okkar gagnvart börnunum hvors annars var gengið út frá því að ég væri í móðurhlutverkinu og hann í föðurhlutverkinu gagnvart báðum börnunum. Reikningar varðandi stjúpdóttur mína voru stílaðir á mig, ekki foreldra hennar og fengum við forsjá yfir barni hvors annars án þess að vita hvað það fæli í sér í raun og án þess að vera spurð hvort það væri eitthvað sem við vildum en sú regla var lögð niður í síðustu breytingum á Barnalögunum,” segir Valgerður og bætir við að þegar hún líti í baksýnisspegilinn sjái hún að þau hafi dottið í allar gryfjur sem hægt var að falla í, í stjúpfjölskyldu:

“Við byrjuðum oft á góðum hlutum en ef þeir gengu ekki strax upp var sumum hætt of fljótt, aðrir fengu að halda sér eins og héldum alltaf upp á daginn sem við kynntumst og fórum kannski með börnin út á borða eða bíó. Við reyndum að finna út úr hlutunum og stundum tókst okkur að grípa til húmorsins þegar allt annað brást – og mæli ég sérstaklega með henni enda er ekki allt jafn alvarlegt. Við þurfum að velja okkur orustur.”

Valgerður segir mikilvægt að hver og ein fjölskylda finni út hvað henni hentar til að hlutirnir gangi upp í stað þess að fara vopnuð fyrirframgefnum hugmyndum um hvernig hlutirnir „eiga að vera“.

“Það getur hjálpað að vita við hverju er að búast, koma auga á smásigra og vita hvað telst „normalt“ fyrir stjúpfjölskyldur. Stuðningur kennara og annarra sem koma að börnum og fjölskyldum þeirra skiptir einnig miklu máli ekki síst fyrir stjúpfjölskyldur sem eru að reyna finna út úr hlutunum í samfélagi sem ekki er alltaf meðvitað um sérstöðu hennar og verkefni. Stuðningur við stjúpfjölskyldur felur í sér barna- og fjölskylduvernd en með uppbyggilegum viðbrögðum út frá þekkingu og raunhæfum hugmyndum aukum við lífsgæði barna og ungmenna og fjölskyldna þeirra sem hafa upplifað missi, sum oftar en einu sinni,” segir Valgerður að lokum.

Instagram