All Posts By

valgerdur

Börn tapa á erfiðum samskiptum foreldra eftir samvistarslit Erla Dóra Magnúsdóttir DV

Eftir Börn og ungmenni, Skilnaður

Á vefsíðunni Stjúptengsl má finna ýmsan fróðleik sem getur verið foreldrum gagnlegur.  Valgerður Halldórsdóttir, fjölskyldu- og félagsráðgjafi, birti þar athyglisverðan pistil um mikilvægi þess að viðhalda samskiptum við börnin þrátt fyrir skilnað eða sambandsslit, því annars er hætt á að börnin upplifi mikla höfnun. 

Valgerður Halldórsdóttir er fjölskyldu- og félagsráðgjafi, ritstjóri vefsíðunnar Stjúptengsl og formaður félags stjúpforeldra. Á vefsíðunni má finna fróðleik um fjölskyldur en síðunni er ætlað að aðstoða blandaðar fjölskyldur við að styrkja fjölskyldutengslin og stuðla að opnari umræðu um stjúpforeldra. Í pistli á síðunni með fyrirsögninni: Hefur þú heyrt í barninu þínu? fjallar Valgerður um samskipti foreldra við börn í kjölfar samvistaslita.

„Óhætt er að fullyrða að aðal áhyggjuefni foreldra við skilnað og sambandsslit snúa að börnum þeirra. Hvernig megi lágmarka áhrif skilnaðarins á líðan barnanna er þeim ofarlega í huga. Góð samskipti foreldra og regluleg samvera foreldra og barna skiptir þar öllu máli. Í sumum tilvikum verða samskiptin hinsvegar mjög lítil, jafnvel engin um lengri tíma.“

„Óútskýrð fjarvera foreldra veldur börnum sorg og þau upplifa höfnun. Að auki hafa þau tilhneigingu til að kenna sér um hluti sem þau hafa ekkert með að gera eins og skilnað eða drykkju foreldra og því hætta á að bagginn verði enn þungbærari fái þau ekki viðunandi skýringu á framferðinu“  Lesa má viðtalið hér í heild sinni.

Málin varða rúmlega 600 börn á ári Björk Eiðsdóttir Fréttablaðið

Eftir Sáttamiðlun, Skilnaður

Valgerður Halldórsdóttir félagsráðgjafi starfar m.a. sem sáttamaður sýslumanns í málefnum barna og segir deilur foreldra valda mikilli streitu hjá börnum. Fagdeild félagsráðgjafa í sáttamiðlun heldur námstefnu föstudaginn 1. mars í samstarfi við Sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu en Valgerður er ein þeirra sem starfa fyrir Sýslumannsembættið sem sérfræðingur í málefnum barna og sem sáttamaður í forsjár-, lögheimilis-, umgengnis-, dagsekta- og aðfararmálum með það að markmiði að hjálpa foreldrum að gera samning um þá lausn mála sem er barni fyrir bestu.

Valgerður segir að flestum foreldrum takist að leysa smám saman ágreining sem gjarnan fylgir skilnaði eða sambúðarslitum en margir leiti sér ráðgjafar varðandi börnin þegar að skilnaði kemur. „Oft áttar fólk sig ekki á þeim aðstæðum sem upp kunna að koma þegar börnin eiga tvö heimili og stundum stjúpforeldra á þeim báðum. Það sem kallaðist gott foreldrasamstarf þegar foreldrar voru einhleypir getur skapað ágreining í nýju sambandi t.d. þegar ekki er haft samráð við stjúpforeldri um breytingar á umgengni. Það er mjög mikilvægt að hafa í huga að lífið bæði hjá foreldrum og börnum tekur eðlilega breytingum sem geta haft áhrif á foreldrasamstarf með börn á tveimur eða fleiri heimilum. En samskipti við barnsföður eða -móður á hinu heimili barnsins er algengt ágreiningsefni í stjúpfjölskyldum. Það eru ákveðnar vísbendingar um að stór hluti foreldra sem eiga mál inni hjá sýslumanni er kominn í ný sambönd og deilur því ekki endilega í öllum tilvikum tengdar sambúðarslitum eða hjónaskilnaði. En þetta þarf að kanna miklu betur. Tölur hjá sýslumanni sýna hins vegar að þau mál sem þar eru til meðferðar varða á milli 600 og 650 börn ári.“ Lesa má viðtalið í heild sinni hér.

Samfélagið líður fyrir stjúpblindu Valgerður Halldórsdóttir og Steinunn Bergman RUV

Eftir Hljóð/Mynd
Stór hluti íslenskra barna á aðild að stjúpfjölskyldu en samfélagið er blint á það. Stjúptengsl eru ekki skráð hjá hinu opinbera og félagslegur stuðningur við stjúpfjölskyldur er ónægur. Þetta segir Valgerður Halldórsdóttir, félagsráðgjafi sem hefur sérhæft sig í stjúptengslum. Stjúpbörnum er hlutfallslega oftar beint í sértæk úrræði á vegum Barnaverndarstofu en öðrum börnum.
 Stór hluti barna tilheyrir stjúpfjölskyldum

„Ég var að skoða tölur yfir tímabilið frá 1994 til 2011 og þar kemur í ljós að 41,8% barna hafa fæðst hjá einhleypri móður, farið í gegnum sambúðarslit með foreldrum eða skilnað. Það er svipað hlutfall milli þessara þriggja þátta. VIð getum því gert ráð fyrir því að mjög stór hluti barna hér á landi tilheyri stjúpfjölskyldum. Ef við skoðum þetta frá annarri hlið, þá vitum við að skilnaðir hér eru nokkuð algengir og fólk fer tiltölulega fljótt í ný sambönd. Það er íslensk rannsókn, reyndar frá 2008, sem sýnir að fjórðungur fólks er kominn í samband innan árs og um 70% innan fjögurra ára. Þannig að það eru mjög margir sem tengjast stjúptengslum á einn eða annan hátt,“ segir Valgerður.  Lesa má og hlusta á viðtalið í heild hér.

Stjúpmæður upplifa höfnun og vanþakklæti Fréttatíminn Björk Eiðsdóttir

Eftir Stjúpforeldrar

Félagsráðgjafinn og fjölskyldufræðingurinn Valgerður Halldórsdóttir er einn okkar fremstu sérfræðinga þegar kemur að tengslum stjúpfjölskyldna. Hún segir okkur geta verið mikið betur undir stjúpforeldrahlutverkið búin.

Valgerður Halldórsdóttir heldur úti vefsíðunni stjúptengsl.is og býður bæði upp á námskeið og viðtöl fyrir stjúfjölskyldur. Í síðustu viku fór af stað nokkurra þátta samstarf hennar og Viðju uppeldisfærni sem halda úti hlaðvarpinu Uppeldisspjallið.

„Þar er að finna aðgengilega uppeldisráðgjöf sem uppeldisfræðingar og sálfræðingur veita. Í ljós kom að það var mikið hlustað á þáttinn og þörfin fyrir hendi. Við ákváðum því að gera nokkra þætti saman sem snúa að börnum. Hlustendur geta sent inn spurningar sem ég ætla að reyna svara. Með vorinu mun hlaðvarpið „Stjúptengsl“ fara í loftið en fólk í stjúpfjölskyldum er á öllum aldri og viðfangsefnin óþrjótandi,“ segir Valgerður en þættirnir eru aðgengilegir í gegnum Soundcloud. Viðtalið má lesa í heild HÉR

 

Hver er í fjölskyldunni?

Eftir Fjölskylda

Stundum hreykir fólk sér af frændsemi og tengslum við aðra sem þótt hefur skara fram úr. Hafi viðkomandi til dæmis unnið til verðlauna vegna andlegs atgerfis eða útlits er hann gjarnan „meira“ tengdur viðkomandi, en sá sem hefur sýnt hegðun sem ekki þykir til eftirbreytni. Það er þó ekki algilt frekar en annað. Kannski skiptir tíminn einhverju máli í því samhengi. Það þykir til að mynda frekar fínt í Ástralíu að geta rakið ættir sínar til „glæpamannanna“ sem Bretar losuðu sig við á sínum tíma. Stundum var eini „glæpur“ þeirra, fátækt.

Þegar kemur að því að velta fyrir okkur hver tilheyrir frændgarði okkar og fjölskyldu vefst það síður fyrir fólki sem ekki hefur reynslu af skilnað eða sambandsslitum en þeim sem hafa þá reynslu í farteskinu. Börnin, hvort sem þau eru ung eða fullorðin, tilheyra fjölskyldu foreldra sinna og foreldarnir fjölskyldu barna sinna. Ef einhver þykir hafa sýnt óviðeigandi lífsstíl eða hegðun er hann í versta falli talinn vera „svarti sauðurinn“ í fjölskyldunni og fáir myndu gera athugasemd við það þó hann vildi vera með á fjölskyldumyndinni á ættarmótinu fyrir austan. Makar, tengdaforeldrar og tengdabörn, teljast líka venjulega til fjölskyldunnar hvort sem samskiptin þykja góð og uppbyggileg eða erfið og niðurrífandi.

Endurskilgreinum fjölskyldutengsl

Óhjákvæmilega fylgja breytingar skilnaði og nýju sambandi. Sumar eru nokkuð fyrirsjáanlegar en aðrar koma á óvart eins og að börn og foreldrar skilgreina fjölskyldu sína á annan hátt en áður. Ástæðan er sú að sjaldnast nefna fyrrverandi makar hvorn annan sem hluta af fjölskyldu sinni en tilheyra þó oftast áfram fjölskyldu barna sinna. Þegar foreldrar fara í nýja sambúð eða hjónaband bætist við maki og stundum börn hans, sem verður til þess að margir skilgreina fjölskyldu sína upp á nýtt.

Er stjúpforeldrið í fjölskyldunni?

Það er hinsvegar ekki sjálfgefið að þótt fólk deili heimili að það telji hvort annað til fjölskyldu sinnar. Ef börnum líkar til að mynda ekki við stjúpforeldri sitt eða ef stjúpforeldrið hefur ekki náð að tengjast stjúpbarninu eru minni líkur á að viðkomandi teljist til fjölskyldu þess en ella. Að upplifa sig útundan er vond tilfinning, á það bæði við um börn og fullorðna. Við þurfum öll á viðurkenningu að halda. Það kann að koma sumum á óvart að viðkenning stjúpbarna skiptir stjúpforeldra máli og að þeir hafa trú á því í fyrstu að stjúpfjölskyldur verði nánari með tímanum. Börn eru hinsvegar mistilbúin til þess í fyrstu að taka þeim og þá er hætta á að stjúpforeldri sem reynt hefur eftir bestu geti að tengjast þeim, upplif höfnun séu þau ekki reiðbúin. Séu samskipti maka stjúpforeldrisins við fyrrverandi maka líka erfið eru meiri líkur á að stjúpforeldrið finnist barnið og allt sem því viðkemur smá saman verða vandamál og vill sem minnst af því vita. Jafnframt fylgir streita þessum aðstæðum sem bitnar bæði á börnum og fullorðnum. Hætta er á að sá stuðningur sem mögulega var fyrir hendi í fyrstu minnki eða hverfi en tengsl segja til um hversu mikinn eða lítils stuðnings er að vænta af viðkomandi og hvort fólk treysti sér til að leita eftir honum þegar á þarf að halda.

Ólík en jafngild

Stjúpfjölskyldur þurfa stuðning og að vita hvað er normalt fyrir þær, í stað þess að reyna bera sig saman við fjölskyldur þar sem öll börn eru sameiginleg. Jafnfram þarf að vinna í að koma á góðum samskiptum við fyrrverandi maka/barnsföður eða –móður,  séu þau ekki í lagi.

Meiri líkur eru á að stjúpforeldrar – og börn fái stuðning og veiti stuðning séu góð tengsl fyrir hendi. Stundum þarf fólk að læra hvað hjálpar þannig að þétta megi tengslanetið og fleiri fái að tilheyra fjölskyldu viðkomandi. Það ber því að fagna þeirri vinnu sem farin er af stað hjá hinu opinbera að móta fjölskyldustefnu sem tekur mið af margbreytileikanum – og ekki síst auknum áhuga almennings á málefninu.

Valgerður Halldórsdóttir félags- og fjölskylduráðgjafi MA, sáttamaður

Hver borgar hvað fyrir hvern?

Eftir Fjölskylda

„Mér finnst svo ósanngjarnt að við skulum vera látin borga tvöfalt meðlag með stráknum sem er aðra hvora viku hjá okkur. Það er ekkert pælt í því hvaða tekjur mamma hans hefur eða maðurinn hennar, en þau eru mun betur stæð en við“.

Óhætt er að fullyrða að flestir foreldrar vilja sjá um framfærslu barna sinna og margir stjúpforeldrar greiða ýmislegt fyrir stjúpbörn sín eins og tómstundir, sumarfrí, fatnað og mat og fleira. Jafnvel þó bæði innlendar og erlendar rannsóknir sýni að stjúpforeldrar séu síður tilbúnir til þess að styðja stjúpbörn sín en eigin börn. Ef tengsl stjúpforeldra og stjúpbarna eru góð er líklegra að þeim langi til að veita þeim fjárhagslega stuðning en ef þau eru erfið eða engin.

Lagaleg skylda 

Foreldrum ber lagalega skylda til að framfleyta börnum sínum. Skiptir engu hvort þeir fari með forsjá þeirra eða ekki. Annað á við um stjúpforeldra og í raun hefur minnihluti þeirra framfærsluskyldu gagnvart stjúpbörnum sínum. Ástæðan er sú að um 90% foreldra fara með sameignlega forsjá við skilnað. Þýðir það að minnihluti stjúpforeldra hefur forsjá stjúpbarna sinna. Hafi þeir hana, fellur hún niður við skilnað.

Því er hinsvegar ekki að neita ákveðnar væntingar eru til stjúpforeldra um framfærslu stjúpbarna. Hvað varðar hið opinbera þá virðist sem að lögheimili barns sé látið ráða en ekki hvort stjúpforeldrið hafi forsjá þess eða ekki. Eða er hið opinbera ekki að gera ráð fyrir því að stjúpforeldri sem á sama lögheimili og stjúpbarn taki þátt í framfærslu barnsins, þar sem bætur tengdar börnum skerðast og afsláttur fellur niður þegar breytingar verða á hjúskaparstöðu foreldrisins?

Ég er að reyna átta mig á þessu en það virðist einhver önnur hugsun í gangi þegar kemur að stjúpforeldri sem er maki meðlagsgreiðanda. Í því tilviki virðast tekjur stjúpforeldrisins ekki skipta máli þegar verið er að ákvarða hvort foreldri geti greitt eitthvað umfram einfalt meðlag með barni sínu eða ekki. Auk þess sem það foreldri telst ekki foreldri samkvæmt skattalögum og nýtur engra bóta tengda börnum sem greitt er með meðlag, jafnvel þó það dvelji hjá því aðra hvora viku. Ég velti fyrir mér af hverju sumir telja það þurfi að breyta lögheimilislögum til að jafna betur opinberar bætur á milli heimila. Af hverju eru umgengnissamningar eða foreldrasamningar eins og ég kýs að kalla þá, ekki látnir ráða?

Skiptar skoðanir 

Meðal almennings eru skiptar skoðanir um það hvort stjúpforeldri eigi að sjá um framfærslu stjúpbarna sinna eða ekki. Í könnun sem send var út á vegum Félags stjúpfjölskyldna í fyrra taldi 52% svarenda að stjúpforeldrar ættu að borga til jafns við foreldra fyrir þau börn sem eru búsett á heimilinu.

En þegar tölurnar voru greindar nánar kom í ljós mikill munur á afstöðu fólks til þessa máls eftir samsetningu stjúpfjölskyldunnar. En 65% þeirra sem áttu börn saman og báðir komu með börn í sambandið voru sammála jafnri framfærslu forelda og stjúpforeldra en aðeins 25% stjúpforeldra sem ekki átti börn sjálfir. Tölurnar benda til þess að eignast barn saman skipti töluverðu um afstöðu bæði foreldra og stjúpforeldra varðandi þátttöku stjúpforeldris í kostnaði vegna barna sem búsett eru á heimilinu. Önnur afstaða virðist vera gagnvart börnum sem koma í „umgengni“ samkvæmt upplýsingum í nýlegri MA ritgerð í félagsráðgjöf. Þau börn virðast fá minni fjárhagslega aðstoð en börnin sem teljast búsett á heimilinu. En hvenær teljast börn búa á heimili og hvenær eru þau í umgengni?

Jafnframt kom í ljós í fyrrgreindri könnun sem send var út á vegum Félags stjúpfjölskyldna að 25% svarenda voru þeirra skoðunar að foreldri ætti ekki að borga meðlag með barni sem býr með foreldri og stjúpforeldri. Þessi hugmynd hefur ekki farið hátt í umræðunni um meðlagsmál hér á landi – enda spurning hversu raunhæf eða sanngjörn hún er.

Hvað sem því líður þarf að skoða framfærslu barna sem eiga foreldra á tveimur heimilum svo tryggja megi þeim góð lífsskilyrði óháð hjúskaparstöðu foreldra og draga úr deilum sem kerfið skapar. Líklega þarf að endurskoða kerfið frá grunni sem virðist taka mið af öðrum veruleika en við búum við í dag.

Valgerður Halldórsdóttir félags- og fjölskylduráðgjafi MA, sáttamaður.

Áður birt 2015

Instagram