Það var einu sinni kóngur og drottning í ríki sínu og áttu sér ekkert barn og varð af því sundurþykkja á milli þeirra; kenndi hvort öðru. Einu sinni gekk drottning út á skóg í snjóföli so að henni blæddi nasir. Þá sagði hún: „Það vildi ég ætti mér fallega dóttur eins hvíta og snjórinn og eins rjóða í kinnum og blóðið og eins svarta á hár og íbenholt.“ Þá heyrir hún sagt í skógnum: „og þú gætir ekki dáið fyr en þú legðir á hana þrjár þrautir og það sé að drepa mann, brenna borg og eiga barn í lausaleik.“ So fer drottning heim. So líða fram stundir þangað til drottning á meybarn og er látið heita Hildur; hún ólst upp í ríkinu og var eins og drottning óskaði.
Einu sinni leggst drottning veik og hugsa allir hún muni deyja. Þá biður hún að lofa sér að sjá Hildi dóttur sína og það er gert; en þegar Hildur kemur til hennar þá rís hún upp og segir til Hildar: „Mæli ég um og legg ég á að þú skalt drepa mann, brenna borg og eiga barn í lausaleik.“ Síðan leggst hún niður og deyr og kóngur er mikið aumur af þessu. So ráðgjafarnir segja hvort þeir eigi ekki að leita hönum kvonfangs, það dugi ekki að liggja í víl. Hann þiggur það. So sigla þeir í eitt land og finna þar kóng sem á eina dóttir, og hét Hildur. Þeir biðja hennar til handa kónginum. Hildur segir hún geri það ekki öðru móti en hún fái að vera ógift í þrjú ár og ráða öllu. Þeir lofa því. So fara þeir með Hildi og sigla heim í ríkið. Kóngur gengur til skips og segir að allt sé tilbúið í veizluna, en þá segir Hildur að hún vilji vera ógift í þrjú ár og ráða öllu. Kóngur lætur það eftir henni og fer í hernað á meðan og so fer hún heim og fer nú að skoða í öll hús og so kemur hún að skemmu Hildar kóngsdóttir og biður að ljúka upp og það er gert. Hún sér að Hildur kóngsdóttir er dauf. Hún spyr hana af hvurju hún sé dauf; hún segir henni það ekki. Hún biður hana að ganga með sér út á skóg; hún gerir það. So fara þær og ganga lengi þangað til þær koma að stórum viðarrunna. Þar rífur hún upp hríslu og segist skuli hýða hana milli hæls og hnakka ef hún segi sér ekki hvað að henni gangi. So hún segir að hún móður sín hafi lagt á sig þrjár þrautir: að drepa mann, brenna borg og eiga barn í lausaleik. Hún segir að Karkur þræll kóngsins mundi hafa gert það og skyldi hún ekki vera dauf. So fóru þær heim. En so var þar vinnu skipað að hjá eldakellingunni var einn þræll sem átti að sækja vatnið og skyldi hún hafa fataskipti við kellinguna sem Karkur væri hjá; en það væri brunnur sem hann ætti að sækja í vatnið og væri fyrst gengið niður tröppur og so á meðan er verið að sökka í skjólunum heldur kellingin í festina. En þegar Karkur væri farinn að sökka í þá skyldi hún sleppa. So fer hún og hefur fataskipti við kellinguna. Karkur verður illur og segir hún muni dáltið halda sér. Hún segist skuli bera sig að því. So fer hann að sækja vatn og fer niður tröppurnar. So þegar hann er að sökka í skjólunum þá sleppir hún og fer so og segir Hildi drottningarefni. Hún læzt verða ill við hana og slá í hana og segir hún muni hafa gert það óviljandi, það dugi ekki að tala um það fyrst so sé komið. Lesa má söguna í heild sinni hér