Skip to main content
Flokkur

Börn og ungmenni

Það er stríðsástand heima – sjónarhorn barns

Eftir Börn og ungmenni

Þannig er að mamma og pabbi skildu fyrir um 6 árum og þau eiga saman 3 börn. Mamma tók saman við annan mann stuttu seinna sem kom með ungan son sinn með sér á heimilið.Heimilisástandið hefur verið mjög brösótt síðan. Strákurinn  og mamma þola ekki hvort annað.

Hann reynir allt til að gera henni lífið leitt og ögrar henni þangað til húsið er  fokhelt  þannig að  mamma og stjúpi minn talast ekki við svo dögum skiptir. Þannig vill hann hafa það, því að þá hefur hann pabba sinn alveg útaf fyrir sig.

Þetta er það slæmt að þau oft ræða skilnað og þess háttar en samt segjast þau elska hvort annað. Það er búið að margreyna að tala saman og gera reglur en svo rífast þau alltaf um að þitt barn gerir þetta og þitt barn gerir hitt . Guð minn góður, maður getur bara bilast af að hlusta á þetta!

Strákurinn er að springa úr frekju og bara yfir öllu sem til er. Hvað er hægt að gera til að laga þetta? Er það hægt? Ég get ekki einu sinni lýst almennilega því stríðsástandi sem ríkir oft á heimilinu.

Bless Bjössi

Svar:

Komdu sæll

Mikið álag er augljóslega á heimilinu og ætla má að það sé erfitt að búa við sífellda umræðu um mögulegan skilnað. Þeir fullorðnu taka ákvörðun um hvort þeir ætli að búa saman, gifta sig eða skilja – og börnin eru sjaldnast spurð álits. En ákvörðun þeirra snertir börnin á heimilinu sem fá stundum áhyggjur af því t.d. hvar þau eigi að búa, hvort þau fái áfram að vera í sama skóla, hvað verði um vini þeirra og hvort þau fái áfram að vera í samskiptum við stjúpforeldrið. Stundum átta þeir fullorðnu sig ekki á því hvaða áhrif orð þeirra hafa á börn.

Hvað varðar stjúpbróður þinn efast ég nú um að honum líði vel í þessum aðstæðum frekar en þér. Hann er augljóslega að prófa mörkin, þ.e. hvað hann kemst upp með. Kannski þyrfti bæði stjúpi þinn sem og mamma þín að gefa hverju og einum tíma til að kynnast betur.  Oft heyrist að krökkum langi ekki til að hlýða neinum sem bara skammast í þeim og þau þekkja ekki neitt. Auk þess sem flestum krökkum langar að fá tíma ein með foreldrum sínum.

Af bréfi þínu að dæma virðist sem móðir þín og stjúpi þurfi að skoða samskiptin sín á milli og finna út hvernig þau geti bætt líðan fjölskyldunnar. Að þegja þunnu hljóði hjálpar lítið.Stundum þarf fólk einhvern utanaðkomandi til að hjálpa sér að finna út úr málunum. Það geta verið verið góðir vinir og fjölskylda eða fagaðilar eins og félagsráðgjafar, prestar, geðlæknar og sálfræðingar.

Hægt að bæta öll samskipti, en það er ekki á þína ábyrgð eða stjúpbróður þíns að koma í veg fyrir skilnað. Ábyrgðin er þeirra fullorðnu. Þú getur hinsvegar lagt þitt af mörkum til að eiga góð samskipti innan fjölskyldunnar. Tekur þú eftir því sem stjúpbróðir þinn er góður í eða gerir vel? Lætir þú hann vita, hrósar honum, eða fær hann bara að heyra frá þér gagnrýni þegar eitthvað er að? Við þurfum öll hrós og athygli, líka frá stjúpsystkinum okkar og stjúpforeldrum. Ræddu við móður þína og stjúpa, segðu þeim hvernig þér líður, ef til vill eru þau þá tilbúin að leita sér aðstoðar og gera úrbætur. Hugsanlega vita þau ekki hvar þau eiga að byrja. Sýndu þeim kannski bréfið þitt.

Það eru töggur í þér, það þarf sterka persónu til að viðurkenna vanda sinn og leita sér aðstoðar!

Gangi þér vel 🙂

Valgerður Halldórsdóttir, félags- og fjölskylduráðgjafi

Börin óttast að missa athygli móður og tíma föður

Eftir Börn og ungmenni

Tilhugalífið er spennandi tími, ekkert síður fyrir einhleypa foreldra en annað fólk. Eðlilega vilja þeir deila spennunni og gleðinni með börnunum og verða því oft hissa þegar því er fálega tekið. Fyrir börnin þýðir nýr aðili í lífi foreldranna þeirra breytingu – aftur!  Ýmsar spurningar vakna í huga þeirra. Þarf ég að flytja? Hvernig mun mér líka við stjúpforeldrið mitt?

Þarf ég að deila herbergi með börnunum sem maðurinn hennar mömmu á? Hvað ætli mömmu finnist um að pabbi eignast nýja konu? Í rannsókna Constance Ahrons (2004) sem hún gerði á uppkomnum skilnaðarbörnum kom í ljós að börn brugðust mjög mismunandi við þegar foreldrar þeirra fóru í ný sambönd. Aldur barna og sá tími sem liðinn var frá skilnaði kynforeldra skiptir m.a. máli. Afstaða þeirra var líka mismunandi að vissu marki eftir því hvort það var pabbinn eða mamman sem fór í samband að nýju.

Móðirin

Í rannsókninni kemur fram að aldur barna skiptir máli upp á það hvernig þau tóku breytingum. Ung börn á aldrinum 5 til -10 ára hafa tilhneigingu til að vera eigingjörn á móður sína. Þeim fannst sér ógnað og vildu ekki deila henni með nýjum aðila. “Ég vildi ekki hafa hann í húsinu, þetta var mitt og mömmu hús, ekki hans. Hann reyndi að tengjast mér en ég gerði honum það erfitt fyrir.” Tíminn frá skilnaði skiptir máli og óskuðu sum börn að foreldrar þeirra tækju saman að nýju og þau litu á nýjan kærasta móður þeirra sem ógn við þann möguleika. “Ég hataði að sjá mömmu með öðrum manni, vildi að hann færi svo að pabbi gæti komið aftur.” Sum barnanna í rannsókninni skiptu um skoðun á kærastanum þegar meiri alvara færðist í samband móðurinnar og hans. Fengu þau þá tækifæri til að kynnast honum betur sjálf og sáu þá oft kostina við nýjan aðila, m.a. meiri tíma. Eldri börnum og unglingum fannst erfitt að sjá móður sína sýna öðrum karlmanni ástúð og vildu ekki þurfa að horfa upp á ástaratlot þeirra. “Ég þoldi ekki þegar þau létu eins og krakkar. Í hvert skipti sem ég fór út úr herberginu kysstust þau. Hún virtist vera svo vitlaus í kringum hann og mig langaði til að biðja hana að hætta því.” Mörgum eldri krökkum fannst það í góðu lagi að sjá mömmu sína með nýjum manni. Sérstaklega ef langt var um liðið frá skilnaðnum. Gátu þau vel unnt henni þess að eignast sitt einkalíf og sjá hana ánægða að nýju. Einnig átti þetta stundum við ef hjónaband foreldra þeirra hefur verið einstaklega erfitt.

Faðirinn

Börnin í rannsókninni brugðust oft verr við því þegar feður þeirra eignuðust nýjar kærustur en þegar móðir þeirra eignaðist kærasta. Ástæðan var sú að þau vildu fá meira tíma með feðrum sínum en þau fengu og ný kærasta þýddi að sá tími yrði enn takmarkaðir en áður. Samkeppnin um tíma hans varð meiri! Sum börnin urðu miður sín vegna móður sinnar. Óánægju hennar með nýjan maka fyrrverandi eignmannsins, hafði tilhneigingu til að smitast til barnanna. Mörgum þeirra fannst það einnig bein móðgun við móður sína að faðir þeirra laðaðist að annarri konu en móðir þeirra. Þessar tilfinningar urðu enn sterkari ef þau töldu að nýja konan hefði valdið skilnaðinum. Börnin urði afbrýðisöm, reið og særð þegar takmarkaður tími með pabba varð enn minni með tilkomu nýju konunnar en áður. “ÉG vildi bara hafa hann fyrir mig, svo að ég þóttist bara vera veikur þegar hann ætlaði eitthvað út.” Börnin vildu oftast lítið eða ekkert vita af einkalífi einhleyps föður. “Hann var mjög tillitsamur við okkur systkinin. Þær helgar sem við vorum hjá honum gaf hann okkur allan sinn tíma. Ég hitti aldrei neinar konur sem hann var með.” Sum börnin urðu glöð þegar faðir þeirra eignaðist nýjan maka þar sem þau gátu þá m.a. þá hætt að hafa áhyggjur af honum.

Goðsögn?

Í rannsókninni var það einungis lítill hópur barna sem var verulega ósáttur við að foreldrar þeirra hittu aðra aðila. Sá hópur vildi að foreldrar þeirra tækju saman að nýju. Samkvæmt Ahrons, þá kom henni þessi niðurstaða á óvart, þ.e. hve þessi hópur var í raun lítill. Þótt svo að ung börn hafi þessa afstöðu þá virðist hún ekki eiga við um meirihluta þeirra skilnaðarbarna sem þátt tóku í rannsókninni. Hún bendir reyndar á að minni mannsins hafi sína takmarkanir. Í rannsókninni sé rætt við fullorðin skilnaðarbörn. Ef til vill hafi löngun þeirra verið meiri til þess að foreldrar þeirra tækju saman að nýju þegar þau voru börn en þau gera sér grein fyrir í dag.Engu verði þó slegið á föstu um það.

Skilaboð uppkominna skilnaðarbarna

Börn upplifa margvíslegar tilfinningar þegar foreldrar þeirra fella hugi til annarra aðila. Þau vilja að foreldrar þeirra hagi sér eins og foreldrar en ekki eins og kærasta eða kærasti eða m.ö.o. ekki eins og ástfangnir unglingar! Enginn virðist þó vera alveg viss um hvernig foreldrar eigi að haga sér, en það hjálpi börnum þegar þeir geri ekki ráð fyrir eða ætlist ekki til að þau séu mjög spennt yfir þessum nýja aðila. Foreldrar eiga hinsvegar ekki að þola börnum sínum dónaskap. Þeir geta látið börnin vita að þeir geri sér grein fyrir hvernig þeim líði og þau ætlist til þess að börnin sýni kurteisi nýja manninum eða nýju konunni.

Valgerður Halldórsdóttir þýddi.

Sýnum börnunum og ungmennum sveigjanleika í umgengni

Eftir Börn og ungmenni

Sýnum börnunum sveigjanleika í umgengni

  • Börn eiga auðveldara með að aðlagast eftir skilnað ef þau hafa greiðan aðgang að báðum foreldrum. Samvistur við báða foreldra eru þeim mikilvæg.
  • Þegar foreldrar hefja nýja sambúð, upplifa börn oft missi og breytingu á samskiptum við foreldra sína.  Foreldrið er nú upptekið af nýja makanum og mörgum börnum finnst eins og þeim sé ýtt til hliðar. Í íslenskri rannsókn kom fram að ungmenni sem reynt höfðu skilnað foreldra fanst þau síður metin að verðleikum, síður vera þátttakendur og frekar utanveltu en þau sem ekki höfðu reynt skilnað foreldra.  Þegar þau voru spurð um hverja þau töldu til sinnar allra nánustu og hversu náin þeir voru,  töldu  95% ungmenna móður sína til sinna allra nánustu fjölskyldu en þau sem reynt höfðu skilnað foreldra voru ólíklegri en þau sem ekki höfðu þá reynslu,  að að nefna föður sinn
  • Mikilvægt er að foreldrar gefi sér tíma til samvista með börnum sínum svo að þeim finnist sér ekki vera hafnað. Maður á mann samskipti eru þeim mikilvæg.  Góð tengsl við báða foreldra er verndandi þáttur fyrir börn og ungmenni.
  • Hjálpum börnum að verða hluti af heimili beggja foreldra og fjölskyldulífinu með því t.d. að veita þeim rými, sem þau geta eignað sér, jafnvel þó það séu ekki nema skúffur í kommóðu.
  • Það er börnunum í hag ef foreldar þeirra búa nálægt hvort öðru. Það nærir þá tilfinningu að þau hafi aðgang að báðum foreldrum og dregur úr óöryggi sem fylgir því að hafa enga stjórn á atburðarásinni. Það auðveldar líka barninu að vera í reglulegu sambandi við vini og skólafélaga og stunda nám og félagsstörf.
  • Vanmetum ekki þörf barna fyrir vini sína, sérstaklega þegar farið er í gegnum miklar breytingar
  • Sveigjanleiki er sérstaklega mikilvægur í stjúptengslum. Börn, einkum unglingar, þurfa sveigjanleika í umgengni við kynforeldra. Samningar, sem foreldrar gera um umgengni þegar börnin eru lítil, s.s. um heimsóknir aðra hverja helgi, þurfa ekki að gilda um alla eilífð. Þarfir barnanna breytast. Þá er mikilvægt að allir séu reiðubúnir að endurskoða stöðuna og finna út hvað er hentugast á hverjum tíma.
  • Við þurfum að vera viðbúin því að endurskoða samninga um umgengni þegar börnin verða unglingar. Unglingar vilja verja meiri tíma með vinum sínum en áður og verða að fá tækifæri til þess. Það getur líka verið góð tilbreyting og auðveldað aðlögun, fái börn og unglingar að hafa vini sína með í umgengni við það foreldri, sem þau/þeir búa ekki hjá að staðaldri.
  • Unglingsárunum fylgir löngun til aukins sjálfstæðis. Á því skeiði ævinnar eru börn að losa um tengslin við fullorðna fólkið og reyna að standa á eigin fótum. Þetta er nauðsynlegt að hafa í huga bæði hvað varðar umgengnina og tengslamyndun. Samverustundirnar, sem fylgja umgengninni, eru mikilvægar á þessu þroskaskeiði eins og öðrum, en hugsanlega má fækka næturgistingum, ef það hentar unglingnum betur.
  • Mikilvægt er að foreldrarnir séu í góðu sambandi hvort við annað og fylgjast með hegðun unglingsins og hvar hann er hverju sinni

E. Valgerði Halldórsdóttur

Heimild 1 : Sigrún Júlíusdóttir, Jóhanna Rósa Arnardóttir og Guðlaug Magnúsdóttir (2008). Ungmenni og ættartengsl: Rannsókn um reynslu og sýn skilnaðarungmenna. Reykjavík: Rannsóknarsetur í barna- og fjölskylduvernd og Háskólaútgáfan.

Þú ert ekki pabbi minn!

Eftir Börn og ungmenni

Þú ert ekki pabbi minn” Móðurinni sárnaði þessi athugasemd 15 ára dóttur sinnar. Hún vildi að sambýlismaður hennar gengi stúlkunni í föðurstað. Sjálfur hafði hann lítið velt því fyrir sér en reynt að verða við óskum konunnar, t.d. með því að setja stjúpdóttur sinni reglur um útivistartíma og hvetja hana til heimanáms. Reyndar fannst honum stjúpdóttir sín vera fremur erfið, þótt hann nefndi það sjaldnast.

Hún ætti það til að vera með útúrsnúninga og derring þegar hann bað hana um að ganga frá í eldhúsinu eða koma heim á ákveðnum tíma. Satt að segja hafði hann ekki kynnst svona löguðu áður og verið uppáhaldsfrændi hjá smáfólkinu í fjölskyldunni.

Stjúpi í stað pabba?

Ágreiningur milli stjúpforeldra og stjúpbarna á sér oft rætur í óraunhæfum hugmyndum og ólíkum skoðunum þeirra á því hvert hlutverk stjúpforeldrisins er. Sumir stjúpforeldrar beita sér í foreldrahlutverkinu af fullum þunga þegar kemur að aga og umönnun. Góður hugur fylgir og löngun til að hlutirnir gangi vel. “Þær eru bara stelpurnar okkar,” sagði stjúpfaðir tveggja unglinga á aldrinum 12 og 15 ára, til þriggja ára: “Ég er bara eins við þær eins og ég eigi þær.” En þegar stjúpbörnin eru ekki sama sinnis og hafna t.d. afskiptum stjúpforeldris af samskiptum þeirra við kynforeldrið er hætta á átökum milli þeirra. Aldur barnanna getur t.d. haft áhrif. Algengara er að ung börn eigi auðveldara en unglingar með að viðurkenna að stjúpforeldrið hafi rétt á að beita þau aga.

Kynforeldrar og stjúpforeldrar geta líka haft mismunandi hugmyndir um hlutverk stjúpforeldrisins gagnvart stjúpbörnunum. Kynforeldri sem gerir kröfur um að stjúpforeldri “hoppi” undir eins inn í foreldrahlutverkið er líklegt til að túlka hugsanlega andspyrnu stjúpforeldrisins sem höfnun á barninu eða skorti á stuðningi við foreldrahlutverkið. Stjúpforeldri getur færst of mikið í fang og tekið að sér meiri umönnun en það raunverulega ræður við. Ástæðan er oft mikil vinna kynforeldrisins.

Börn sem koma í umgengni eru þá einnig í erfiðri stöðu. Þau koma til að vera í samvistum við kynforeldra sína en eru meira og minna með stjúpforeldri sínu. Í sjálfu sér er ekkert slæmt við að stjúpforeldrar og stjúpbörn verji tíma saman og styrki tengslin en það má ekki ofgera hlutunum. Þótt stjúpforeldið reyni að gera heimsóknina ánægjulega er hætta á að það þreytist og barnið verði fyrir vonbrigðum og það komi niður á samskiptum þeirra. Það vita allir sem reynt hafa að umburðarlyndi gagnvart eigin börnum er meira en gagnvart börnum annarra. Löngunin til að standa sig í hlutverkinu verður oft til þess að mál eru síður rædd og ekki leitað eftir stuðningi þótt hann kunni að vera til staðar, t.d. hjá fyrrverandi tengdafjölskyldu kynforeldris eða stjúpömmu og -afa. Helgarheimsóknir má líka nota til að styrkja tengslin við stórfjölskylduna og þétta um leið stuðningsnetið þegar kynforeldrið er ekki viðlátið.

Góðir hlutir gerast hægt!

Stjúpforeldrar, sem eiga hvað auðveldast með samskipti við stjúpbörn sín og eru í góðum tengslum við þau, taka hlutina rólega, sýna þeim hlýju og stuðning. Vinátta er grundvöllur fyrir góðum tengslum milli stjúpforeldra og stjúpbarna. Að ætla að beita sér of snemma og of mikið getur sett samskipti, sem hafa allar forsendur til að verða bæði góð og gefandi fyrir alla, í hnút. Orð eru til alls fyrst. Foreldrar í stjúpfjölskyldum ættu að ræða hugmyndir sínar um stjúpforeldrahlutverkið og gera sér grein fyrir hverju er hægt að búast við hvað varðar vald og ábyrgð á umönnun barnanna og málum sem þau snerta.

Þegar við gerum okkur grein fyrir hvaða hugmyndir maki okkar og við sjálf höfum um hlutverk stjúpforeldra og látum ekki óraunhæfar væntingar eða ósögð orð stýra samskiptum okkar eru betri líkur á ánægjulegu fjölskyldulífi. Í langflestum tilvikum er ástæðulaust fyrir stjúpforeldrið að reyna að gerast staðgengill kynforeldris eða gera þá kröfu til stjúpforeldrisins.

Börnin eiga yfirleitt ágæta foreldra þótt þeir vilji ekki búa saman. Stundum verður samband stjúpforeldra og stjúpbarna jafnnáið og milli kynforeldra og barna, stundum ekki. Það er ekkert rétt eða rangt í þeim efnum. Þó að stjúpforeldri komi ekki í stað kynforeldris getur það verið góð viðbót í lífi stjúpbarnanna. Samskiptin og tengslin verða hins vegar að fá að þróast og taka m.a. mið af aldri barnanna. Ef til vill getur verið ágætt að setja sig í stellingar góðviljaðar frænku eða frænda þegar unglingar eru annars vegar! Þannig má hugsanlega afstýra árekstrum eins og þeim sem lýst er í byrjun þessarar greinar.

Eftir Valgerði Halldórsdóttur  (áður birt í Uppeldi 2.tbl. 18. árg. vor 2005)

Mamma segir að mér megi ekki þykja vænt um þig

Eftir Börn og ungmenni

Ég er mjög ung stjúpmamma finnst mér. Ég kynntist manni rétt eftir tvítugsafmælið mitt og við fórum að hittast … ég ætlaði nú samt aldrei að enda með honum, því að, ég meina, hann var fimm árum eldri en ég og átti barn og ég vissi það.

Ég hitti hann í tæpt ár án þess að hitta barnið nokkurn tímann. Við ákváðum það í sameiningu að best væri að dóttir hans myndi ekki vita af mér fyrr en við vissum hvað við vildum.
Svo kom að því að við byrjuðum að búa og rétt áður en það skall á hitti ég stelpuna hans nokkrum sinnum. Ég hélt að þetta yrði ekkert mál og vissi ekki að hann væri ekki með það fastsett hvenær hann væri með barnið og hvenær ekki. Hann vinnur mjög lengi í einu og er í burtu í nokkrar vikur í senn og þegar hann er heima þá er hann með barnið eða eins og ég upplifði það framan af, hvenær sem barnsmóðirin þurfti pössun.

Og aðalvandamálið í mínu tilviki hefur verið barnsmóðirin. Hún getur ekki sætt sig við að ég sé komin til að vera. Eftir að ég kom til sögunnar þá getur hún ekki fengið pössun og pening hvenær sem er. Maðurinn borgar auðvitað meðlag og tekur barnið meira en helgarpabbar gera, þó að lengra líði á milli. Hún hefur margoft gengið upp að mér og sagt mér að hún þoli mig ekki og hún hefur sent honum sms og hótað honum að hann fái ekki barnið aftur ef hann hættir ekki með mér.

Ég veit að þetta hljómar núna eins og ég sé vond við barnið og einhver sorastelpa en ég hef ekkert gert rangt. Mér er vel við barnið og hún dýrkar mig. Hún leitar meira í mig en pabba sinn þegar hún er hjá okkur. Ég hef reynt að gera allt rétt en alltaf þarf barnsmóðirin að gera mér lífið leitt.

Þetta hefur haft þau áhrif á mig að ég er farin að bremsa mig af í samskiptum við barnið og ég reyni að halda því frá mér svo að mamman verði ekki öfundssjúk því að barnið kemur stundum til okkar og segist ekki mega þykja vænt um mig því að mamman banni það og að hún megi ekki hlýða mér því að ég ráði engu.

Þetta hefur líka þau áhrif á samband mitt við manninn minn að ég fer alltaf í fýlu þegar hún hringir og ég verð alveg brjáluð ef skipulagið riðlast ……

Svar:

Komdu sæl, unga stjúpa

Það hvarflar ekki að mér að þú sért „sorastelpa“ eins og þú orðar það sjálf.  Frekar ung kona sem tekst á við verkefni sem hún er ekki búin undir og að reyna bregðast við eftir bestu getu. Annars hafa viðbrögð þín ekkert með aldur þinn að gera, fólk á öllum aldri bregst við með þeim hætti að draga sig í hlé, þegar aðstæður verða þeim erfiðar.

Samskipti við X

Samskipti við fyrrverandi maka ganga oft ekki þrautalaust. Mörgum finnst erfitt að sleppa því sem þeir telja sig einhvern tíma hafa átt. Í þínu tilviki bitnar það bæði á ykkar sambandi og barninu. Mér sýnist þið hafa reynt að taka tillit til tilfinninga barnsins með því að blanda því ekki inn í samband ykkar fyrr en þið vissuð sjálf hvað þið vilduð. Þú virðist hafa náð góðum tengslum við barnið, það sést best á því að það leitar til þín þegar það er í umgengni.

Það er nokkuð ljóst að framkoma móðurinnar gerir hvorki þér né barninu auðvelt fyrir. Ætla má að því fylgi mikil streita fyrir barnið að fá þau skilaboð frá móður sinni að það megi hvorki hlýða þér né þykja vænt um þig, sem það virðist þó gera. Hvernig á það eiginlega að haga sér í þessum aðstæðum? Barnið getur orðið bæði óöruggt og kvíðið í samskiptum við ykkur. Ég efast hinsvegar um að það hafi verið ætlun móðurinnar, líklega hugsunarleysi og/eða vanþekking.

Vertu þú sjálf

Hvað getur þú gert? Þú segist hafa valið þá leið að bremsa þig af í samskiptum við barnið til að móðirin verði ekki öfundsjúk. Það er erfitt fyrir þig að stýra því hvað móðirin upplifir. Hinsvegar getur þú ráðið miklu um hvernig þú bregst við. Til lengdar er óásættanlegt að standa sífellt á bremsunni, það græðir enginn á því. Hættu því, hugsaðu um sjálfa þig, samband þitt og barnið.  Haltu áfram að vera þú sjálf, sú sama og barnið náði tengslum við og líkaði við. Sú leið virðist hafa skilað ykkar sambandi góðum árangri hingað til.

Sjónarhorn barnsins

Margir stjúpforeldrar hrökkva í baklás og upplifa mikla höfnun þegar þeir fá neikvæð skilaboð í gegnum börnin, finnst þeim vera misboðið og verkefni þeirra vanþakklátt. Annarsvegar sé ætlast til að þeir komi fram við börnin eins og þau væru þeirra eigin, hinsvegar megi hvorki þeir né stjúpbörn þeirra tengjast  tilfinningalega eða sýna gagnkvæma væntumþykju.

Mikilvægt er að horfa á málið í dálítilli fjarlægð og út frá sjónarhorni barnsins. Heimurinn getur orðið ruglingslegur þegar fullorðna fólkið, sem annast það, hegðar sér á óskiljanlegan hátt. Barnið áttar sig áreiðanlega ekki á hvaða áhrif orð þess hafa á þig. Ætlun þess hefur tæplega verið að hrinda þér frá sér.

„Má ekki þykja vænt um þig“

En hverju er hægt að svara þegar barnið segir að því megi ekki þykja vænt um stjúpforeldri sitt eða hlýða því? Mikilvægt er fyrir barnið að hinir fullorðnu sýni ábyrga hegðun og nálgist það út frá því sem barninu er fyrir bestu. Það hefur ekkert upp á sig að fara út í umræður eða deilur við 4 ára barn um hvað mamma þess eða pabbi segir eða sagði. Ef við erum ósátt við þau skilaboð sem barnið kemur með inn á heimilið, þá ræðum við það við maka okkar og reynum að finna einhvern flöt á málinu.

Sjálfsagt er hægt er að svara barninu á marga vegu, eins og eftirfarandi dæmi sýnir. Lítil stúlka reyndi að átta sig á aðstöðu sinni eftir að foreldrar hennar skildu og pabbi hennar tók saman við aðra konu. Hún lýsti því yfir við stjúpu sína að hún væri ekki „í fjölskyldunni hennar“. „En má ég vera vinkona þín?“ spurði stjúpan. Þannig náðu þær að tengjast. Agamál má nálgast út frá aðstæðum sem barnið þekkir annars staðar: „Hér á heimilinu eru reglur, sem verður að fylgja, eins og t.d. á leikskólanum þínum ….“ o.s.frv. Hvað varðar aga almennt í stjúpfjölskyldum eru börn yfirleitt ekki tilbúin til að hlýða fyrr en vinátta og virðing hefur myndast. Æskilegt er að kynforeldrarnir sjá um agamálin í upphafi.

Þú getur verið mikilvægur stuðningsaðili fyrir barnið, verið því góð fyrirmynd, eins og hver annar fullorðinn, með því sem þú segir og gerir. Ekki grafa undan sjálfri þér og sambandinu með afskiptaleysi. Vertu þú sjálf!

Makasambandið mikilvægt

Í lok bréfs þíns segirðu að þú farir alltaf í fýlu núorðið þegar barnsmóðir mannsins þíns hringir. Ég geri ráð fyrir að fýlan valdi árekstrum á heimilinu. Ég held að það sé mikilvægt að þú lítir ekki á þennan vanda sem einvígi milli þín og barnsmóður hans um manninn þinn. Þú getur ekki frekar en hann borið ábyrgð á hennar hegðun. Þið getið eingöngu ráðið því hvernig þið sjálf bregðist við.

Í sjálfu sér þarf ekkert að vera óeðlilegt við að kynforeldri óski eftir aukinni umgengni eða fjárframlögum. Að vera einn á vakt með barn eða börn er oft afar krefjandi og því er mikilvægt að hægt sé að leita til kynforeldris barna sinna um stuðning. Æskilegt er að hafa reglu á umgengninni en það þarf líka að vera hægt að sýna sveigjanleika þegar við á.

Hinsvegar tel ég það eðlilegt að maðurinn þinn beri slíkar ákvarðanir undir þig og hafi þig með í ráðum. Þið þurfið að geta rætt þessi mál af hreinskilni og ef til vill þarf hann að breyta sinni hegðun sinni gagnvart barnsmóður sinni. Gefur hann henni skýr skilaboð? Setur hann henni eðlileg mörk?

Hvað varðar framkomu hennar við þig, hefur þú um nokkrar leiðir að velja. Ef ég á að ráðleggja eitthvað í þeim efnum myndi ég segja: Láttu hana ekki draga þig inn í átökin og reyndu að vera kurteis, þú hagnast mest á því.

Mundu að allar fjölskyldur lenda einhvern tíma í erfiðleikum, en það sem greinir m.a. á milli sterkra fjölskyldna og hinna er hvernig þær takast á við vandamál sem upp koma. Standið saman í þessu í stað þess að láta vandann stía ykkur í sundur.

Gangi þér vel og með bestu kveðju Valgerður Halldórsdóttir ,

Látum foreldra annast agamál í byrjun

Eftir Börn og ungmenni
  • Foreldri ætti að sjá um agamál barna sinna í fyrstu eða þangað til tengsl hafa myndast við stjúpforeldri. Ólíklegt er að börn sjái ástæðu til að þýðast stjúpforeldri sem það hefur ekki tengst og öðlast virðingu fyrir.
  • Snemmbærar tilraunir til að beita stjúpbörn aga geta leitt til fjandskapar og hunsunar, ekki aðeins af hálfu barnanna heldur einnig af hálfu maka.
  • Því meiri tíma sem við verjum með stjúpbörnum okkar, þeim mun meiri líkur eru á að við öðlumst viðurkenningu þeirra og virðingu. Fyrr verður ekki tekið fullt mark á okkur.
  •  Fyrst um sinn  er árangursríkast er fyrir stjúpforeldra og stjúpbörn að einblína á tengsl og eiga í vinsamlegu vináttusambandi.  Þegar slíkt er til staðar er mun líklega að barnið sé tilbúið til að virða aga og þau mörk sem stjúpforeldrið setur . Ef stjúpforeldri er ætlað, eða það ætlar sér, of stórt hlutverk í agamálum og að refsa stjúpbörnum án þess að þau líti svo á að það hafi þann rétt, er hætta á mikilli mótstöðu. Foreldrar eru með lögmætt vald í huga þeirra sem stjúpforeldrið skortir.
  • Vænlegra er að viðurkenna þá staðreynd að börn telja sig ekki þurfa að hlýða stjúpforeldri sínu í fyrstu. Í stað þess að reyna að aga stjúpbörnin, jafnvel þótt sumum finnist ekki vanþörf á, ætti stjúpforeldrið að einblína á að byggja upp tengsl við börnin og vera einskonar framlenging á valdi foreldirsins þegar kemur að agamálum.
  • Unglingar eru sérstaklega viðkvæmir, enda á því þroskaskeiði þar sem sumir efast um rétt eigin foreldra til að setja mörk, hvað þá að eiga að gangast undir aga og refsingar nýrra stjúpforeldra.
  • Sé góður tími gefinn í kynnast börnum og tengjast, fær stjúpforeldri smám saman aukið valdog áhrif í lífi stjúpbarnanna. Nákvæmlega hvaða hlutverki stjúpforeldrið mun gegna síðan,  ræðst af því hvort það er talið hafa einhverskonar foreldrastöðu eða ekki

Valgerði Halldórsdóttur, félags- og fjölskylduráðgjafi

 

Samskipti foreldra og barna í stjúpfjölskyldum

Eftir Börn og ungmenni

Skilnaði fylgja ýmsar breytingar bæði fyrir börn og fullorðna þ.á.m. breytast tengsl foreldara og barna. Það er ekki óalgengt að börn fái meiri ábyrgð á heimili og gagnvart yngri systkinum en í mörgum tilvikum fá þau líka meiri áhrif. Ákvarðanir sem áður voru teknar í samráði við maka eins og hvað eigi að vera í helgarmatinn eða gera í sumarfríinu eru nú teknar í samráði við börnin.

 

Smá saman verður til nýjar hefðir og venjur á heimilium þeirra sem þau eiga annarsvegar með móður og hinsvegar föður. Í stað þess að hafa nammi- og sjónvarpskvöld kvöld á föstudagskvöldum þá færist það kannski yfir á laugardagkvöld vegna breyttra aðstæðna og pabbi og/eða mamma leyfa þeim að sofna í sófanum fyrir framan sjónvarpið eða upp í rúmi hjá þeim, eitthvað sem ekki var leyft áður. Skilnaður er einmannalegur og oft er börnum ætlað að fylla upp í það tómarúm sem myndast. Það er t.d. ekki sjálgefið að börn sætti sig við að þurfa hlýta þeim reglum að sofa í sínu herbergi þegar nýr maki kemur til sögunnar eða ekki höfð með í samráði þegar ákveða á sunnudagmatinni eða sumarfríið.

Það kemur því morgum á óvart að heyra að mikið af þeim „verkefnum“ sem margar stjúpfjölskyldur eru að takast á við í upphafi á rætur sínar að rekja til hvernig aðlögun eftir skilnað hefur tekist. (Hvort fyrrverandi makar hafi komið á starfhæfu sambandi sín á milli sem snýst um börnin en ekki um að sinna gömlum „skyldum“ sem fylgdi hjónabandinu eins og að skipta um dekk, þvo þvotta eða annað. Reyndar er ekki óalgengt að samband foreldra sem hafði verið í góðu lagi breytist þegar nýr aðiðili kemur til sögunnar m.a. af ótta við að vera skipt út sem foreldraímynd en stunda batna samskiptin líka við það foreldri sem barnið býr ekki með að staðaldri– en það er nú efni í aðra grein

Sambambandið við börnin breytist – ójafnvægi í fyrstu!

Algengt er að samskipti foreldra og barna breytist þegar foreldri fer í nýja sambúð og stjúpfjölskylda verður til. Margir foreldrar eru með  óraunhæfar væntingar um hvað sé framundan í stjúpfjölskyldunni s.s. að stjúpforeldri til skammas tíma geti tekið að sér að aga ungling án þess að tengsl hafi náð að myndst. Það er óvíst að nýi makinn kæri sig um það hlutverk og þó svo væri er mjög ólíklegt að unglingurinn kæri sig um það. Samræður eru mikilvægar um væntingar allra aðila.

Stjórnsemi eða sorg?

En algengt er að foreldrar upplifi aukna erfiðleika í uppeldinu og eru þeir í sumum tilvikum minna innstilltir á þarfir barna sinna á þessu tímabili. Sum börn upplifa að þau þurfi að keppa um tíma og athygli foreldra sinna. Oft upplifir foreldri sig á milli steins og sleggju þegar kemur að sætta ólík sjónarmið barna sinna og svo maka. Sá tími sem notaður er í byrjun í börnin skilar sér í betri aðlögun en algengt era að þau kvarti undan kröfu um skjóta aðlögun. Sumum finnt sem að foreldri þeirra hafa yfirgefið þau á einhvern hátt og þau séu minna mikilvæg fyrir foreldra sína. Hætta er á að þau finni fyrir reiði, verða stressuð og sýnt erfiða hegðun sem allt of oft er túlkuð af fullornu fólki, bæði foreldrum og sjúpforeldrum sem stjórnsemi. Fólk getur kannski sett sig í spror þeirra ef það hefur upplifað makan fjarlægjast og það óöryggi sem því getur fylgt

Ég hitti 15 ára stúlku sem hafi farið að heima nokkrum vikum áður. Móðir hennar og stjúpi til 9 mánaða sögðu að þau gætu ekki haft hana, þar sem hún hlustaði ekki á þau og hún var mjög ókurteis við stjúpann.  Stjúpanum fanst hún illa upp alin og taldi sig geta bætt úr. Mamma hennar ver henni reið þar sem hún taldi dóttur sína meðvitað vera reyna að eyðileggja samband hennar við nýja kærastann. Í samtali við stelpuna var hún mjög reið móður sinni þar sem mamma hennar hafði falið honum agahlutverkið á heimilinu og nú þurfti hún að spyrja hann hvort hún mætti gista hjá vinkonu sinni eða kaupa föt og annað sem hún hafði áður rætt við móður sina. Hún saknaði þess sem þær höfðu átt á sama tíma og hún var mömmu sinni mjög reið. Stjúpann þoldi hún ekki

Startið var ekki gott hjá þeim. Erlend rannsókn benti til að samskipti móður og barna einkenndust af meiri átökum í stjúpfjölskyldu en í kjarnafjölskyldum. Hinsvegar kom jafnframt í ljós að jafnvægi komst oftast á eftir tvö ár og það var þá lítill munur og á mæðrum gagnvart börnum í stjúpfjölskyldum og þeim sem  ekki höfðu skilið.

Flókin staða foreldra

Það er getur verið flókin staða að vera í senn foreldri og stjúpforeldri bæði fyrir foreldra sem búa með börnum sínum að staðaldri og svo þeirra sem búa sjaldnar með þeim.

Ég man eftir einni móður sem hélt aftur að sér að eyða tíma með sínum börnum eða kaupa á þau föt og anna til að gera ekki upp á milli barna sinn og stjúpbarna. Börnin hennar upplifðu fjarlægt móður sinna og voru henni reið á sama tíma og hún fann fyrir vaxandi pirringi gagnvart stjúpbörnum sínum sem henni fannst stoppa sig af. Þjökuð af sektarkennd og pirringi fór hún að „stelast“ til að eyða tíma með börnunum einfaldlega í stað þess að ræða málið  við maka sinn og skipa fjölskyldunni upp eins öðru hvoru sem nauðsynlegt er í stjúpfjölskyldum. Við þurfum ekki bara að vinna að því að búa til ný tengsl – líka að styðja við eldir tengsl.

Erlendar rannsóknir benda til að unglingar í stjúpfjölskyldum eru líklegri til að fara fyrr að heiman en aðrir unglingar og eru átök á heimili oft ástæðan. Þau eru jafnframt minna heima hjá sér. Náist að koma á stöðugleika í fjölskyldunni er útkoma barna í stjúpfjölskyldum svipuð og í kjarnafjölskyldum.

Hver á trúnað hvers?

Hollustuklemma getu skapast þegar foreldri og barn eru ekki sammála um hve mikið eigi að segja  stjúpforeldri um ákveðin mál er þau varða. Þó svo að foreldrið treysti nýja makanum fyrir fyrir upplýsingum um barnið t.d. að það  pissi undir, að það hafi fallið í prófi eða það sé í  ástarsorg er langt í frá sjálfgefið að barnið kæri sig um að slíkar upplýsingar séu veittar fyrr en tengsl hafa myndast.  Það tekur tíma að mynda góð tengsl – og ekki er óalgegnt að börn upplifi stjúpforeldrið sem ekki hluta af fjölskyldunni. Það er því mikilvægt að foreldrar hafi þetta í huga í samskiptum við börn sín áður en þeir ætlast til að barn þeirra t.d. hlýði stjúpforeldri sínu.

Það ber að varast að alhæfa um stjúpfjölskyldur – þær eru langt í frá einsleitur hópur.  Börn og ungmenni geta aðlagast breytingum með tímanum. Þegar vel er staðið að þeim og með hagsmuni þeirra í huga, eru líkur á að aðlögun viðr auðveldari og tengsl við foreldra haldist. Að læra um stjúpfjölskyldu og skoða hversu raunhæfar hugmyndir mann eru hjálpar.

Valgerður Halldórsdóttir félags- og fjölskylduráðgjafi, MA

Systkinatengsl í stjúpfjölskyldum – reynsla nemenda

Eftir Börn og ungmenni

Er munur á að eignast al,- hálf- og/eða stjúpsystkini. Nemendur í áfanganum: Stjúpfjölskyldur, skilaður og endurgerð fjölskyldusamskipta veltu fyrir sér mismunandi systkinatengslum  og hvað er það sem hjálpaði þeim að tengjast hvert öðru?

Þeir nemendur sem áttu stjúpsystkini sögðu að aldur barnanna skiptir máli þegar stjúpfjölskyldurnar myndast . Eftir því sem að börnin voru eldri var erfiðara að mynda tengsl, og ef þau tengdust ekki stjúpmóður voru minni líkur á að þau tengdust börnum hennar. Það kom einnig fram að meiri líkur væru á því að systkini að sama kyni eiga það frekar til í að tengjast en af gagnstæðu kyni. Rætt var um mögulega kynferðisleg spenna milli stjúpsystkina og það gæti flækt hlutina.

Tengsl við stjúpforeldri skipir máli. Þau sem áttu hálfsystkini voru sammála um að það skipti máli hvort systkinin ólust upp saman og  bjuggu á sama stað eða hvort að það hittist bara á umgengistíma hjá foreldrinu. Því að því meira sem þau eyddu tíma með viðkomandi því meiri líkur voru á betri og nánari tengslum. Einnig töldu þau að stjúpforeldrið hefði á sama hátt áhrif á tengsl þeirra við hálfsystkini sín eins og við stjúpsystkini þe. ef samband þeirravið stjúpforeldrið  var gott hafði það jákvæð áhrif á  hálfsystkinatengslin annars ekki.Í umræðunni kom jafnframt fram að samband kynforeldra gæti haft áhrif á systkinatengslin, ef það er ekki nógu gott smitað út frá sér.

Mikilvægt sé þegar barn eignast hálfsystkini að það finni fyrir öryggi og að það sé gert ráð fyrir því sem hluta af fjölskyldunni. Barninu getur liðið eins og það sé ekki lengur mikilvægt  í lífi foreldris  því hálfsystkinið sé ríkara og mikilvægara þar sem báðir foreldrarnir á heimilinu eru kynforeldrar þess.

Engin mynd af mér á heimilinu?Einnig kom fram að litlir hlutir í augum eins fjölskyldumeðlims  getur verið stórir hlutir í annars fjölskyldumeðlims. Að það sé ekki mynd af viðkomandi barni á fjölskylduveggnum bara hálf- og/eða stjúpsystkinum getur virkað illa á barn og á líðan þess. Litlu hlutirnir geta skipt börn miklu málí eins og að vera með mynd  af því upp á vegg ásamt hinum systkinunum, að fá að halda á systkini við skírn eða  fá að vera með þegar það er verið að baða það o.s.fv.  Að líða eins og partur af fjölskyldunni, hvort sem það er hjá foreldri sem barnið býr með að staðaldir eða hjá foreldri sem það hittir reglulega er mikilvægt. Þeir nemendur sem áttu hálfsystkini sögðu að það væri mjög mismunandi hvernig tengsl þeirra væri háttað við hálfsyskini sín. Sum voru mjög náin en aðrir þekktu þau lítið.

Alsystkinahópurinn var sammála því að aldurinn skipti líka máli og því nær sem systkinin eru í aldri því nánari eru þau. Ef mikið aldursbil er á milli systkinanna er það ekki fyrr en um og  eftir menntaskóla sem að systkinin fara að verða vinir því þá eru þau komin á sama þroskastig og ná því að tengjast betur. Einnig töldu þau að ef aldursbilið var mikið,  var meiri samkeppni milli systkinanna. Þau voru sammála því að það skipti máli að fá að taka þátt í lífi systkina sinna, fá að annast þau sem yngri voru en það gerði það að verkum að þeim fannst þau betur tilheyra fjölskyldu sinni. Þeir nemendur sem fengu að halda á systkini sínu undir skírn þóttu mjög vænt um það.

Nýbakaðar mæðir eru ólíkar gagnvar eigin börnum en stjúpbörnum Sumar mæður í hópnum greindu frá því að þegar þær áttu sitt annað settu þær eldra barnið aðeins til hliðar í fyrstu vegna þess að nýja ungabarnið þarfnaðist meiri umönnunar.Þær fegnu hinsvegar meira samviskubit gagnvart stjúpbarni sínu en eldra barni sínu. Þær sögðu  sig tengdari sínu eigin barni en stjúpbarni og treystir meira á ást barna sinna í þessum nýju aðstæðum. Þær komu öðru vísi fram við stjúpbarn en eigin barn, til dæmir voru kurteisari við stjúpbarn sitt og væntu meiri skilnings á aðstæðum frá eigin barni

Nemendur voru sammála um vegna eigin reynslu og með því að hlusta á hvert annað að það margt sem getur skipt máli þegar kemur að tengslamyndun fjölskyldna og því stundum erfitt að sjá hvað hefur áhrif og hvað ekki. En þau voru sammála um að það skipir öllum máli að fá að vera með og líða eins og þeir sú partur af heildinni.Þegar farið var yfir hvaða þætti væru sameignlegir öllum systkinhópunum þ.e. al-,hálf og stjúpsystkinum var það að aldurinn virtist skipta máli og hversu mikinn tíma þau eyddu saman.

Höfundar: Guðný Helga Grímsdóttir, Svanhildur Anna Gestdóttir, nemendur á áfanganum: Stjúpfjölskyldur, skilnaður og endurgerð fjölskyludsamskipta Hí,  vor 2011

Instagram