Skip to main content
Börn og ungmenni

Þú ert ekki pabbi minn!

Þú ert ekki pabbi minn” Móðurinni sárnaði þessi athugasemd 15 ára dóttur sinnar. Hún vildi að sambýlismaður hennar gengi stúlkunni í föðurstað. Sjálfur hafði hann lítið velt því fyrir sér en reynt að verða við óskum konunnar, t.d. með því að setja stjúpdóttur sinni reglur um útivistartíma og hvetja hana til heimanáms. Reyndar fannst honum stjúpdóttir sín vera fremur erfið, þótt hann nefndi það sjaldnast.

Hún ætti það til að vera með útúrsnúninga og derring þegar hann bað hana um að ganga frá í eldhúsinu eða koma heim á ákveðnum tíma. Satt að segja hafði hann ekki kynnst svona löguðu áður og verið uppáhaldsfrændi hjá smáfólkinu í fjölskyldunni.

Stjúpi í stað pabba?

Ágreiningur milli stjúpforeldra og stjúpbarna á sér oft rætur í óraunhæfum hugmyndum og ólíkum skoðunum þeirra á því hvert hlutverk stjúpforeldrisins er. Sumir stjúpforeldrar beita sér í foreldrahlutverkinu af fullum þunga þegar kemur að aga og umönnun. Góður hugur fylgir og löngun til að hlutirnir gangi vel. “Þær eru bara stelpurnar okkar,” sagði stjúpfaðir tveggja unglinga á aldrinum 12 og 15 ára, til þriggja ára: “Ég er bara eins við þær eins og ég eigi þær.” En þegar stjúpbörnin eru ekki sama sinnis og hafna t.d. afskiptum stjúpforeldris af samskiptum þeirra við kynforeldrið er hætta á átökum milli þeirra. Aldur barnanna getur t.d. haft áhrif. Algengara er að ung börn eigi auðveldara en unglingar með að viðurkenna að stjúpforeldrið hafi rétt á að beita þau aga.

Kynforeldrar og stjúpforeldrar geta líka haft mismunandi hugmyndir um hlutverk stjúpforeldrisins gagnvart stjúpbörnunum. Kynforeldri sem gerir kröfur um að stjúpforeldri “hoppi” undir eins inn í foreldrahlutverkið er líklegt til að túlka hugsanlega andspyrnu stjúpforeldrisins sem höfnun á barninu eða skorti á stuðningi við foreldrahlutverkið. Stjúpforeldri getur færst of mikið í fang og tekið að sér meiri umönnun en það raunverulega ræður við. Ástæðan er oft mikil vinna kynforeldrisins.

Börn sem koma í umgengni eru þá einnig í erfiðri stöðu. Þau koma til að vera í samvistum við kynforeldra sína en eru meira og minna með stjúpforeldri sínu. Í sjálfu sér er ekkert slæmt við að stjúpforeldrar og stjúpbörn verji tíma saman og styrki tengslin en það má ekki ofgera hlutunum. Þótt stjúpforeldið reyni að gera heimsóknina ánægjulega er hætta á að það þreytist og barnið verði fyrir vonbrigðum og það komi niður á samskiptum þeirra. Það vita allir sem reynt hafa að umburðarlyndi gagnvart eigin börnum er meira en gagnvart börnum annarra. Löngunin til að standa sig í hlutverkinu verður oft til þess að mál eru síður rædd og ekki leitað eftir stuðningi þótt hann kunni að vera til staðar, t.d. hjá fyrrverandi tengdafjölskyldu kynforeldris eða stjúpömmu og -afa. Helgarheimsóknir má líka nota til að styrkja tengslin við stórfjölskylduna og þétta um leið stuðningsnetið þegar kynforeldrið er ekki viðlátið.

Góðir hlutir gerast hægt!

Stjúpforeldrar, sem eiga hvað auðveldast með samskipti við stjúpbörn sín og eru í góðum tengslum við þau, taka hlutina rólega, sýna þeim hlýju og stuðning. Vinátta er grundvöllur fyrir góðum tengslum milli stjúpforeldra og stjúpbarna. Að ætla að beita sér of snemma og of mikið getur sett samskipti, sem hafa allar forsendur til að verða bæði góð og gefandi fyrir alla, í hnút. Orð eru til alls fyrst. Foreldrar í stjúpfjölskyldum ættu að ræða hugmyndir sínar um stjúpforeldrahlutverkið og gera sér grein fyrir hverju er hægt að búast við hvað varðar vald og ábyrgð á umönnun barnanna og málum sem þau snerta.

Þegar við gerum okkur grein fyrir hvaða hugmyndir maki okkar og við sjálf höfum um hlutverk stjúpforeldra og látum ekki óraunhæfar væntingar eða ósögð orð stýra samskiptum okkar eru betri líkur á ánægjulegu fjölskyldulífi. Í langflestum tilvikum er ástæðulaust fyrir stjúpforeldrið að reyna að gerast staðgengill kynforeldris eða gera þá kröfu til stjúpforeldrisins.

Börnin eiga yfirleitt ágæta foreldra þótt þeir vilji ekki búa saman. Stundum verður samband stjúpforeldra og stjúpbarna jafnnáið og milli kynforeldra og barna, stundum ekki. Það er ekkert rétt eða rangt í þeim efnum. Þó að stjúpforeldri komi ekki í stað kynforeldris getur það verið góð viðbót í lífi stjúpbarnanna. Samskiptin og tengslin verða hins vegar að fá að þróast og taka m.a. mið af aldri barnanna. Ef til vill getur verið ágætt að setja sig í stellingar góðviljaðar frænku eða frænda þegar unglingar eru annars vegar! Þannig má hugsanlega afstýra árekstrum eins og þeim sem lýst er í byrjun þessarar greinar.

Eftir Valgerði Halldórsdóttur  (áður birt í Uppeldi 2.tbl. 18. árg. vor 2005)

Instagram