Skip to main content
Stjúpforeldrar

Finnum okkur hlutverk en ofleikum ekki 

  • Flestir eru sammála um að stjúpforeldri geti verið ágæt viðbót í lífi barna þegar góð tengsl ná að myndast og samstaða er um hlutverk þess á heimilinu.  Það getur jafnframt verið breytilegtfrá einum tíma til annars.Í flestum tilvikum er því ástæðulaust er stjúpforeldra þá að reyna gerast staðgengill  þess foreldris sem ekki er búsett á heimilinu. Mun vænlegra er að stuðla að góðum tengslum barna við báða foreldra sína og leyfa stjúpforeldrinu að móta sitt eigið hlutverk í samráði við maka og börn.
  •  Það vill engin koma í staðinn fyrir einhvern annan í sambandi, Við viljum fá að vera við sjálf og fullgild á okkar eigin forsendum,  hvort heldur sem um er að ræða börn eða fullorðna. Flest börn sýna  kynforeldrum sínum mikla hollustu, hvort sem við teljum þau góða eða slæma foreldra. Förum ekki í samkeppni við kynforeldra barnanna um ást þeirra og athygli. Við þurfum ekki að vera ofurstjúppabbar eða -stjúpmömmur. Verum við sjálf!
  • Verkefnið er að finna hlutverk fyrir stjúpforeldrið sem allir aðilar eru þokkalega sáttir við og gera ráð fyrir að það breytist. Lykilatriði er því  að sýna þolinmæði og sætta sig við að búa þarf til tengsl áður en „hoppað“ er í einhverskonar foreldrahlutverk gagnvart börnum.  Jafnvel þarf að horfa á þann möguleika að viðkomandi fari aldrei í neitt foreldrahlutverk gagnvart stjúpbarni sínu og líkist meira barnapíu, eða frænku eða frænda þess.
  • Það er sorglegt að vita til þess að fullorðnum sem hafa gaman af börnum og virðast vera tilvaldir stjúpforeldrar eru stundum útilokaðir eða þeim hafnað af stjúpbörnum sínum. Börnum getur fundist þau svíkja á einhvern hátt það foreldri sem ekki er á staðnum ef það sýnir stjúpforeldri sínu væntumþykju og hlýju.
  • Sýnum börnunum áhuga en kæfum þau ekki í athygli. Ef stjúpbarn krefst mikils rýmis, veitum því það, þótt það feli í sér að það hafi lítið samneyti við okkur. Við getum gert kröfu um að okkur sé sýnd kurteisi. Við getum ekki gert kröfu um að við séum elskuð.
  • Sleppum aðfinnslum og neikvæðum athugasemdum eins og unnt er. Við munum ekki sjá eftir því. Flest okkar umbera slíkt frá foreldrum, en fæst okkar frá stjúpforeldrum, einkum og sér í lagi áður en tengsl hafa skapast.
  • Sé samstaða er um hlutverkið skiptir ekki öllu máli hvert það er. Ætli fólk sér hinsvegar of mikið á skömmum tíma, getur það unnið gegn sambandi stjúpforeldris og barns sem hefur alla möguleika til að vera góð og gefandi, sé rétt að því staðið.
  •  E. Valgerði Halldórsdóttur, félags- og fjölskylduráðgjafa
Instagram