Skip to main content
Börn og ungmenni

Sýnum börnunum og ungmennum sveigjanleika í umgengni

Sýnum börnunum sveigjanleika í umgengni

  • Börn eiga auðveldara með að aðlagast eftir skilnað ef þau hafa greiðan aðgang að báðum foreldrum. Samvistur við báða foreldra eru þeim mikilvæg.
  • Þegar foreldrar hefja nýja sambúð, upplifa börn oft missi og breytingu á samskiptum við foreldra sína.  Foreldrið er nú upptekið af nýja makanum og mörgum börnum finnst eins og þeim sé ýtt til hliðar. Í íslenskri rannsókn kom fram að ungmenni sem reynt höfðu skilnað foreldra fanst þau síður metin að verðleikum, síður vera þátttakendur og frekar utanveltu en þau sem ekki höfðu reynt skilnað foreldra.  Þegar þau voru spurð um hverja þau töldu til sinnar allra nánustu og hversu náin þeir voru,  töldu  95% ungmenna móður sína til sinna allra nánustu fjölskyldu en þau sem reynt höfðu skilnað foreldra voru ólíklegri en þau sem ekki höfðu þá reynslu,  að að nefna föður sinn
  • Mikilvægt er að foreldrar gefi sér tíma til samvista með börnum sínum svo að þeim finnist sér ekki vera hafnað. Maður á mann samskipti eru þeim mikilvæg.  Góð tengsl við báða foreldra er verndandi þáttur fyrir börn og ungmenni.
  • Hjálpum börnum að verða hluti af heimili beggja foreldra og fjölskyldulífinu með því t.d. að veita þeim rými, sem þau geta eignað sér, jafnvel þó það séu ekki nema skúffur í kommóðu.
  • Það er börnunum í hag ef foreldar þeirra búa nálægt hvort öðru. Það nærir þá tilfinningu að þau hafi aðgang að báðum foreldrum og dregur úr óöryggi sem fylgir því að hafa enga stjórn á atburðarásinni. Það auðveldar líka barninu að vera í reglulegu sambandi við vini og skólafélaga og stunda nám og félagsstörf.
  • Vanmetum ekki þörf barna fyrir vini sína, sérstaklega þegar farið er í gegnum miklar breytingar
  • Sveigjanleiki er sérstaklega mikilvægur í stjúptengslum. Börn, einkum unglingar, þurfa sveigjanleika í umgengni við kynforeldra. Samningar, sem foreldrar gera um umgengni þegar börnin eru lítil, s.s. um heimsóknir aðra hverja helgi, þurfa ekki að gilda um alla eilífð. Þarfir barnanna breytast. Þá er mikilvægt að allir séu reiðubúnir að endurskoða stöðuna og finna út hvað er hentugast á hverjum tíma.
  • Við þurfum að vera viðbúin því að endurskoða samninga um umgengni þegar börnin verða unglingar. Unglingar vilja verja meiri tíma með vinum sínum en áður og verða að fá tækifæri til þess. Það getur líka verið góð tilbreyting og auðveldað aðlögun, fái börn og unglingar að hafa vini sína með í umgengni við það foreldri, sem þau/þeir búa ekki hjá að staðaldri.
  • Unglingsárunum fylgir löngun til aukins sjálfstæðis. Á því skeiði ævinnar eru börn að losa um tengslin við fullorðna fólkið og reyna að standa á eigin fótum. Þetta er nauðsynlegt að hafa í huga bæði hvað varðar umgengnina og tengslamyndun. Samverustundirnar, sem fylgja umgengninni, eru mikilvægar á þessu þroskaskeiði eins og öðrum, en hugsanlega má fækka næturgistingum, ef það hentar unglingnum betur.
  • Mikilvægt er að foreldrarnir séu í góðu sambandi hvort við annað og fylgjast með hegðun unglingsins og hvar hann er hverju sinni

E. Valgerði Halldórsdóttur

Heimild 1 : Sigrún Júlíusdóttir, Jóhanna Rósa Arnardóttir og Guðlaug Magnúsdóttir (2008). Ungmenni og ættartengsl: Rannsókn um reynslu og sýn skilnaðarungmenna. Reykjavík: Rannsóknarsetur í barna- og fjölskylduvernd og Háskólaútgáfan.

Instagram