Skip to main content
Börn og ungmenni

Börin óttast að missa athygli móður og tíma föður

Tilhugalífið er spennandi tími, ekkert síður fyrir einhleypa foreldra en annað fólk. Eðlilega vilja þeir deila spennunni og gleðinni með börnunum og verða því oft hissa þegar því er fálega tekið. Fyrir börnin þýðir nýr aðili í lífi foreldranna þeirra breytingu – aftur!  Ýmsar spurningar vakna í huga þeirra. Þarf ég að flytja? Hvernig mun mér líka við stjúpforeldrið mitt?

Þarf ég að deila herbergi með börnunum sem maðurinn hennar mömmu á? Hvað ætli mömmu finnist um að pabbi eignast nýja konu? Í rannsókna Constance Ahrons (2004) sem hún gerði á uppkomnum skilnaðarbörnum kom í ljós að börn brugðust mjög mismunandi við þegar foreldrar þeirra fóru í ný sambönd. Aldur barna og sá tími sem liðinn var frá skilnaði kynforeldra skiptir m.a. máli. Afstaða þeirra var líka mismunandi að vissu marki eftir því hvort það var pabbinn eða mamman sem fór í samband að nýju.

Móðirin

Í rannsókninni kemur fram að aldur barna skiptir máli upp á það hvernig þau tóku breytingum. Ung börn á aldrinum 5 til -10 ára hafa tilhneigingu til að vera eigingjörn á móður sína. Þeim fannst sér ógnað og vildu ekki deila henni með nýjum aðila. “Ég vildi ekki hafa hann í húsinu, þetta var mitt og mömmu hús, ekki hans. Hann reyndi að tengjast mér en ég gerði honum það erfitt fyrir.” Tíminn frá skilnaði skiptir máli og óskuðu sum börn að foreldrar þeirra tækju saman að nýju og þau litu á nýjan kærasta móður þeirra sem ógn við þann möguleika. “Ég hataði að sjá mömmu með öðrum manni, vildi að hann færi svo að pabbi gæti komið aftur.” Sum barnanna í rannsókninni skiptu um skoðun á kærastanum þegar meiri alvara færðist í samband móðurinnar og hans. Fengu þau þá tækifæri til að kynnast honum betur sjálf og sáu þá oft kostina við nýjan aðila, m.a. meiri tíma. Eldri börnum og unglingum fannst erfitt að sjá móður sína sýna öðrum karlmanni ástúð og vildu ekki þurfa að horfa upp á ástaratlot þeirra. “Ég þoldi ekki þegar þau létu eins og krakkar. Í hvert skipti sem ég fór út úr herberginu kysstust þau. Hún virtist vera svo vitlaus í kringum hann og mig langaði til að biðja hana að hætta því.” Mörgum eldri krökkum fannst það í góðu lagi að sjá mömmu sína með nýjum manni. Sérstaklega ef langt var um liðið frá skilnaðnum. Gátu þau vel unnt henni þess að eignast sitt einkalíf og sjá hana ánægða að nýju. Einnig átti þetta stundum við ef hjónaband foreldra þeirra hefur verið einstaklega erfitt.

Faðirinn

Börnin í rannsókninni brugðust oft verr við því þegar feður þeirra eignuðust nýjar kærustur en þegar móðir þeirra eignaðist kærasta. Ástæðan var sú að þau vildu fá meira tíma með feðrum sínum en þau fengu og ný kærasta þýddi að sá tími yrði enn takmarkaðir en áður. Samkeppnin um tíma hans varð meiri! Sum börnin urðu miður sín vegna móður sinnar. Óánægju hennar með nýjan maka fyrrverandi eignmannsins, hafði tilhneigingu til að smitast til barnanna. Mörgum þeirra fannst það einnig bein móðgun við móður sína að faðir þeirra laðaðist að annarri konu en móðir þeirra. Þessar tilfinningar urðu enn sterkari ef þau töldu að nýja konan hefði valdið skilnaðinum. Börnin urði afbrýðisöm, reið og særð þegar takmarkaður tími með pabba varð enn minni með tilkomu nýju konunnar en áður. “ÉG vildi bara hafa hann fyrir mig, svo að ég þóttist bara vera veikur þegar hann ætlaði eitthvað út.” Börnin vildu oftast lítið eða ekkert vita af einkalífi einhleyps föður. “Hann var mjög tillitsamur við okkur systkinin. Þær helgar sem við vorum hjá honum gaf hann okkur allan sinn tíma. Ég hitti aldrei neinar konur sem hann var með.” Sum börnin urðu glöð þegar faðir þeirra eignaðist nýjan maka þar sem þau gátu þá m.a. þá hætt að hafa áhyggjur af honum.

Goðsögn?

Í rannsókninni var það einungis lítill hópur barna sem var verulega ósáttur við að foreldrar þeirra hittu aðra aðila. Sá hópur vildi að foreldrar þeirra tækju saman að nýju. Samkvæmt Ahrons, þá kom henni þessi niðurstaða á óvart, þ.e. hve þessi hópur var í raun lítill. Þótt svo að ung börn hafi þessa afstöðu þá virðist hún ekki eiga við um meirihluta þeirra skilnaðarbarna sem þátt tóku í rannsókninni. Hún bendir reyndar á að minni mannsins hafi sína takmarkanir. Í rannsókninni sé rætt við fullorðin skilnaðarbörn. Ef til vill hafi löngun þeirra verið meiri til þess að foreldrar þeirra tækju saman að nýju þegar þau voru börn en þau gera sér grein fyrir í dag.Engu verði þó slegið á föstu um það.

Skilaboð uppkominna skilnaðarbarna

Börn upplifa margvíslegar tilfinningar þegar foreldrar þeirra fella hugi til annarra aðila. Þau vilja að foreldrar þeirra hagi sér eins og foreldrar en ekki eins og kærasta eða kærasti eða m.ö.o. ekki eins og ástfangnir unglingar! Enginn virðist þó vera alveg viss um hvernig foreldrar eigi að haga sér, en það hjálpi börnum þegar þeir geri ekki ráð fyrir eða ætlist ekki til að þau séu mjög spennt yfir þessum nýja aðila. Foreldrar eiga hinsvegar ekki að þola börnum sínum dónaskap. Þeir geta látið börnin vita að þeir geri sér grein fyrir hvernig þeim líði og þau ætlist til þess að börnin sýni kurteisi nýja manninum eða nýju konunni.

Valgerður Halldórsdóttir þýddi.

Instagram