Skip to main content
Börn og ungmenni

Það er stríðsástand heima – sjónarhorn barns

Þannig er að mamma og pabbi skildu fyrir um 6 árum og þau eiga saman 3 börn. Mamma tók saman við annan mann stuttu seinna sem kom með ungan son sinn með sér á heimilið.Heimilisástandið hefur verið mjög brösótt síðan. Strákurinn  og mamma þola ekki hvort annað.

Hann reynir allt til að gera henni lífið leitt og ögrar henni þangað til húsið er  fokhelt  þannig að  mamma og stjúpi minn talast ekki við svo dögum skiptir. Þannig vill hann hafa það, því að þá hefur hann pabba sinn alveg útaf fyrir sig.

Þetta er það slæmt að þau oft ræða skilnað og þess háttar en samt segjast þau elska hvort annað. Það er búið að margreyna að tala saman og gera reglur en svo rífast þau alltaf um að þitt barn gerir þetta og þitt barn gerir hitt . Guð minn góður, maður getur bara bilast af að hlusta á þetta!

Strákurinn er að springa úr frekju og bara yfir öllu sem til er. Hvað er hægt að gera til að laga þetta? Er það hægt? Ég get ekki einu sinni lýst almennilega því stríðsástandi sem ríkir oft á heimilinu.

Bless Bjössi

Svar:

Komdu sæll

Mikið álag er augljóslega á heimilinu og ætla má að það sé erfitt að búa við sífellda umræðu um mögulegan skilnað. Þeir fullorðnu taka ákvörðun um hvort þeir ætli að búa saman, gifta sig eða skilja – og börnin eru sjaldnast spurð álits. En ákvörðun þeirra snertir börnin á heimilinu sem fá stundum áhyggjur af því t.d. hvar þau eigi að búa, hvort þau fái áfram að vera í sama skóla, hvað verði um vini þeirra og hvort þau fái áfram að vera í samskiptum við stjúpforeldrið. Stundum átta þeir fullorðnu sig ekki á því hvaða áhrif orð þeirra hafa á börn.

Hvað varðar stjúpbróður þinn efast ég nú um að honum líði vel í þessum aðstæðum frekar en þér. Hann er augljóslega að prófa mörkin, þ.e. hvað hann kemst upp með. Kannski þyrfti bæði stjúpi þinn sem og mamma þín að gefa hverju og einum tíma til að kynnast betur.  Oft heyrist að krökkum langi ekki til að hlýða neinum sem bara skammast í þeim og þau þekkja ekki neitt. Auk þess sem flestum krökkum langar að fá tíma ein með foreldrum sínum.

Af bréfi þínu að dæma virðist sem móðir þín og stjúpi þurfi að skoða samskiptin sín á milli og finna út hvernig þau geti bætt líðan fjölskyldunnar. Að þegja þunnu hljóði hjálpar lítið.Stundum þarf fólk einhvern utanaðkomandi til að hjálpa sér að finna út úr málunum. Það geta verið verið góðir vinir og fjölskylda eða fagaðilar eins og félagsráðgjafar, prestar, geðlæknar og sálfræðingar.

Hægt að bæta öll samskipti, en það er ekki á þína ábyrgð eða stjúpbróður þíns að koma í veg fyrir skilnað. Ábyrgðin er þeirra fullorðnu. Þú getur hinsvegar lagt þitt af mörkum til að eiga góð samskipti innan fjölskyldunnar. Tekur þú eftir því sem stjúpbróðir þinn er góður í eða gerir vel? Lætir þú hann vita, hrósar honum, eða fær hann bara að heyra frá þér gagnrýni þegar eitthvað er að? Við þurfum öll hrós og athygli, líka frá stjúpsystkinum okkar og stjúpforeldrum. Ræddu við móður þína og stjúpa, segðu þeim hvernig þér líður, ef til vill eru þau þá tilbúin að leita sér aðstoðar og gera úrbætur. Hugsanlega vita þau ekki hvar þau eiga að byrja. Sýndu þeim kannski bréfið þitt.

Það eru töggur í þér, það þarf sterka persónu til að viðurkenna vanda sinn og leita sér aðstoðar!

Gangi þér vel 🙂

Valgerður Halldórsdóttir, félags- og fjölskylduráðgjafi

Instagram