Skip to main content
All Posts By

valgerdur

Skipt búseta með einu lögheimili er valkostur fyrir úrvalsdeildina

Eftir Foreldrasamvinna

Foreldra barna sem eiga tvö heimili munu geta átt þess kost að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, að semja um „skipta búsetu“ barna sinna. Lögheimili barns mun þó verða áfram hjá öðru foreldri þess, verða tillögur starfshóps sem var skipaður í kjölfar þingsályktunartillögu sem samþykkt var á Alþingi 12. Maí 2014, að veruleika. Þetta kom fram í kynningu Rakelar Þráinsdóttur, lögfræðingi hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu og starfsmanni starfshópsins, á málstofa sem Rannsóknastofnun Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni hélt í Lögbergi 11. nóvember sl. og bar heitið „Skipt búseta barna sem búa á tveimur heimilum“.

Í pallborði sátu Bóas Valdórssyni sálfræðingur, Guðríður Bolladóttir lögfræðingur og Pálmi Þór Másson lögfræðingur sem voru í starfshópnum auk Lilju Borg Viðarsdóttur sem var starfsmaður hans. Málstofustjóri var Hrefna Friðriksdóttir, prófessor við Lagadeild HÍ og stjórnarformaður RÁS.

Starfshópurinn hafði það verkefni að kanna hvernig mætti jafna stöðu foreldra sem fara sameiginlega með forsjá barna sinna með tilliti til réttinda, skyldna og skráningar sem fylgir lögheimili barns. Hópnum var falið í því samhengi að taka afstöðu til þess hvort taka skuli upp kerfi sem heimilar börnum að hafa tvöfalt lögheimili eða hvort annað fyrirkomulag jafnrar búsetu henti betur. Formaður nefndarinnar var Þórhildur Líndal, lögfræðingur og forstöðumaður Rannsóknastofnunar Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni.

Úrvalsdeild foreldra

Á fundinum koma fram að um væri að ræða almennar tillögur fyrir afmarkaðan hóp foreldra sem vildu og gætu unnið saman að hagsmunum barna sinna eða fyrir „úrvalsdeild foreldra“ sagði Guðríður Bolladóttir og bætti við að þeim væri ekki ætlað að leysa úr ágreiningi foreldra. Pálmi Þór Másson tók í sama streng og sagði tillögurnar almennar og „fyrir afmarkaðann hóp foreldra“ og þær þyrfti að útfæra nánar. Bóas Valdórsson benti jafnframt á, að fyrir þá foreldra sem vildu semja og jafna stöðuna sín á milli „þá sé engin fyrirstaða í kerfinu sem hindrar það“ næðu tillögurnar fram að ganga. Tillögurna væri hinsvegar hvorki tæmandi né fullkomnar.

Að mati starfshópsins á skipt búseta að fela í sér fimm meginþætti:

1 Foreldrar taki í sameiningu allar ákvarðanir er varða barnið, þ.á m. ákvarðanir er varða lögheimili innanlands, leikskóla,grunnskóla og daggæslu, heilbrigðisþjónustu og tómstundir.
2. Opinber stuðningur við foreldra skiptist jafnt á milli þeirra, s.s. barnabætur, mæðra- og feðralaun og umönnunargreiðslur. Þá verði tekið tillit til þess að barn sé í skiptri búsetu varðandi rétt til námslána og vaxtabóta.
3. Meðlag falli sjálfkrafa niður með þeim rökum að skipt búseta byggi á góðu samkomulagi og ríkum samstarfsvilja foreldra þar sem gengið er út frá því að foreldrar semji sín á milli um hvernig framfærslu barnsins skuli háttað.
4. Stuðningur og þjónusta sveitarfélaga við foreldra vegna barns skiptist jafnt á milli þeirra nema þeir semji á annan hátt.
5. Skipt búseta barns verði skráð í Þjóðskrá Íslands og hægt verði að miðla þeim upplýsingum, m.a. til sveitarfélaga.

Starfshópurinn leggur til eftirfarandi skilyrði fyrir skiptri búsetu:

1. Sameiginleg forsjá, enda felur skipt búseta í sér jafna ábyrgð, rétt og skyldu foreldra til að taka sameiginlega allar ákvarðanir er varða barnið.
2. Samkomulag sé um lögheimili barns
3. Gott samstarf foreldra og góð og víðtæk sátt milli foreldra um það sem barninu er fyrir bestu. Að foreldrar eigi farsæl samskipti varðandi hagi barnsins og geti miðlað upplýsingum um daglegt líf þess sín á milli.
4. Foreldar búi nálægt hvort öðru, í sama eða aðliggjandi skólahverfi, hvort sem um er að ræða sama sveitarfélag eða ekki. Barn sé í einum leikskóla og sæki einn grunnskóla. Einnig að barnið geti sótt skóla frá báðum heimilum, tekið þátt í frístundastarfi og átt samskipti við vini.
5. Samningur um skipta búsetu verði háður staðfestingu sýslumanns sem jafnframt ber að leiðbeina foreldrum um þau skilyrði sem þarf að uppfylla til að skipt búseta komi til greina og hvaða réttaráhrif hún hefur í för með.
6. Foreldrum verði veitt ráðgjöf hjá embætti sýslumanns sem sérfræðingur í málefnum barna veitir áður en sýslumaður staðfestir samninginn.

Ágreiningsmálum fjölgar með skiptri búsetu

Eins og áður segir er tillögunum ekki ætlað að leysa ágreining foreldra um eitt eða annað og gengið er út frá því að samskipti foreldra séu mjög góð í alla staði. Það væri ein megin forsenda þess að sýslumaður myndi staðfesta slíkan samning.
Í viðtali við Hrefnu Friðriksdóttur kom hinsvegar fram að bæði í Svíþjóð og Noregi þar sem mesta reynslan er á skiptri búsetu séu sterkar vísbendingar um að einstaka ágreiningsmálum fara fjölgandi, eftir því sem fyrirkomulagið hefur þróast. „Þegar fólk á að að taka allar ákvarðanir sameiginingu þá er að koma í ljós að fólk ræður ekki við það“ segir Hrefna. Svíar hafa rætt þennan vanda til margra ára og „ þeir breyttu lögunum fyrir nokkrum árum og játuði sig dálítið sigraða. Þeir yrðu að opna fyrir þann möguleika að foreldrar væru ekki sammála í öllum tilvikum og settu sérstak lagaákvæði um það, að það mætti veita barni ákveðna heilbrigðisþjónustu ef annað foreldrið væri því sammála ef það fengist samþykki félagsmálanefndar“ segir Hrefna.

Hún sagði jafnframt að Svíar hafi ætluðu eingöngu að beita þessu ákvæði í örfáum undantekningum t.d. þegar ofbeldi væri í spilinu og í þjónustu við börn þegar annað foreldri var grunað um ofbeldi. „Reynslan er hinsvegar sú að þetta er ekki bara í þeim málum“ segir Hrefna. Algengt er að foreldrum greinir á um greiningar og meðferð við ofvirkni og athyglisbresti og fleira. „Fleiri og fleiri mál koma upp og heilmikið álag er fyrir félagsmálanefndir að taka við ágreiningsmálum“ segir Hrefna.
Hrefna nefndi jafnfram að í Svíþjóð hafi það færst í vöxt að börn sem eru í skiptri búsetu séu í sitthvorum tómstundunum sitthvora vikuna. Ágreiningur um skólagöngu barna hafi færst í vöxt og um hverskonar skóla á að velja fyrir barnið. Í slíkum tilvikum er „enginn til staðar til að leysa úr ágreiningi og þá fjölgar dómsmálum um lögheimili eða forsjá“ segir Hrefna.

Valgerður Halldórsdóttir ritstjóri

Þú mátt ekki skamma mig – samband stjúpmæðra og dætra

Eftir Börn og ungmenni

Í BA rannsókn í félagsráðgjöf komu fram vísbendingar um að neikvætt samband stjúpdætra og stjúpmæðra geti haft neikvæð áhrif á samband dætra við feður sína.

Rannsóknina gerðu þær Jónína Rut Matthíasdóttir og Valgerður Rún Haraldsdóttir vorið 2015. Leiðbeinandi þeirra var Valgerður Halldórsdóttir aðjúnkt.

Ritgerðin ber heitið  „Þú mátt ekki skamma mig“ í félagsráðgjöf fjallar um upplifun stjúpdætra af sambandi sínu við stjúpmæður sínar. Hún er byggð á niðurstöðum eigindlegrar rannsóknar þar sem viðtöl voru tekin við sex ungar konur í Háskóla Íslands sem allar eiga það sameiginlegt að hafa verið stjúpdætur. Aðstæður kvennanna voru að mörgu leyti frábrugðnar og kom því rannsakendum á óvart í hversu miklum mæli þær höfðu svipaða reynslu og sögu að segja. Rannsóknin gefur vísbendingu um að neikvætt samband stjúpdætra og stjúpmæðra geti haft neikvæð áhrif á samband dætra við feður sína, og væri því áhugavert að skoða það nánar. Samband stjúpmæðra og stjúpdætra er flóknasta samband innan stjúpfjölskyldunnar og niðurstöður þessarar rannsóknar sýna að stjúpdætur á unglingsaldri eiga erfiðara með að mynda góð tengsl við stjúpmæður sínar heldur en þær sem yngri eru. Áhrif stjúp- og hálfsystkina spila einnig stóran þátt í upplifun stjúpdætra á að finnast þær tilheyra fjölskyldunni og sambandi þeirra við feður sína. Þátttakendurnir voru allir sammála um að helsta orsök þess að sambandið þróaðist á neikvæðan hátt mætti rekja til þess að stjúpmæðurnar reyndu of fljótt að gegna foreldrahlutverki í þeirra lífi og nálguðust þær ekki á þann hátt að mynda vinatengsl og traust í byrjun. Þær gagnrýndu það harðlega þegar stjúpmæður þeirra reyndu að fara inn á yfirráðasvæði mæðra þeirra.

Hér má lesa ritgerðina í heild sinni

http://skemman.is/stream/get/1946/21386/49430/1/%C3%9E%C3%BA_m%C3%A1tt_ekki_skamma_mig_lokaeintakpdf.pdf

Stjúpforeldrar geta upplifað sig útundan – Linda og lífsbrotin

Eftir Hljóð/Mynd

Val­gerður Hall­dórs­dótt­ir fé­lags­ráðgjafi er sér­fræðing­ur í stjúp­fjöl­skyld­um og hjálp­ar fólki að verða betri stjúp­for­eld­ar. Í viðtali við Lindu Bald­vins­dótt­ir, í þætt­in­um Linda og lífs­brot­in, ræðir hún um vanda­mál­in sem geta komið upp þegar fólk sem á börn byrj­ar í nýju ástar­sam­bandi.

…….hægt að sjá viðtalið á slóðinni http://www.mbl.is/smartland/samskipti/2015/01/12/stjupforeldrar_upplifa_sig_stundum_utundan/

Mig langar að vera góð stjúpmóðir

Eftir Stjúpforeldrar

Ég heyrði einu sinni að sum dýr geta ekki hugsað um afkvæmi annara kvendýra og þá sérstaklega ef um er að ræða afkvæmi sem makar þeirra eiga með öðru kvendýri. Sum dýr eru jafnvel vond við þessi afkvæmi. Við erum fljót að dæma og finnst þessi framkoma hræðileg.

Getur verið að okkur konum sé ekki eðlislægt að hugsa um afkvæmi maka okkar sem hann á með annari konu? Við konur erum í umönnunarstörfum og önnumst börn annara kvenna. Það virðist vera okkur leikur einn. Af hverju er stjúpmóðurhlutverkið þá svona erfitt?

Bréfið frá föðurnum

Um daginn las ég bréf frá föður sem fannst eins og börn konunnar væru mikilvægari en dóttir hans. Ég samsamaði mig með þessu bæði á þann hátt að ég skildi hann vel og er viss um að manninum mínum líður stundum svona en jafnframt hugsaði ég um hana, finnst aumingjans konunni hans kannski eins og hann líti á dóttur sína sem mikilvægari en börnin hennar? Ég sá að fólk póstaði þessari grein inn á Facebook og talaði um ömurlega framkomu konunnar hans þar sem hún hengdi upp myndir og verkefni eftir börnin sín en ekki hans, upp á vegg, lánaði herbergi dóttur hans, leyfði börnum sínum að róta í dótinu hennar og virtist skamma dóttur hans meira en sín eigin börn.’

Hefur þessi faðir skoðað hug sinn og spurt sig hvernig hann er að koma fram við börn konunnar sinnar? Getur verið að hann skammi þau meira en sín eigin? Getur verið að þau pirri hann meira en dóttir hans? Af hverju á dóttir hans að vera á sérsamning varðandi hluti og dót í herberginu sínu? Eru systkini ekki oft að róta í dóti hjá eldri systkinum? Ég veit að yngsta barnið mitt gerir það og af hverju ætti dótið í herbergi stjúpsysturinnar að vera heilagra en dót systkina? Ég lána stjúpbörnum mínum oft eitthvað dót, en finnst eins og það sé aldrei sjálfsagt að þau láni á móti.

Skildi konuna

Þegar ég las þessa grein vorkenndi ég konunni því ég skildi hana svo vel. Kannski langar konunni umfram allt að vera góð stjúpmóðir. Kannski þráir hún að sinna þessu hlutverki vel en finnst það svo erfitt. Kannski langar henni að hengja upp myndir eftir dóttur hans en stelpan kemur bara aldrei með neitt heim til þeirra. Kannski skammar hún börnin sín alveg jafnt og dóttur hans en pabbinn og dóttirin eru bara svona rosalega viðkvæm fyrir skammaryrðum frá henni.

Mín reynsla er nefnilega sú að maður þarf að standa sig þrefalt betur sem stúpmóðir en móðir, því foreldrum er fyrirgefið en ekki stjúpforeldrum. Stjúpbarn þolir ekki að vera skammað af stjúpforeldri og það er líka erfitt fyrir stjúpforeldri að skamma, af því þú veist að barnið er svo ofur viðkvæmt fyrir því. Af hverju er þetta svona og af hverju reynist stjúpforeldrahlutverkið svona erfitt? Af hverju er þetta svona flókið? Kannski ef við náum að skilja stjúpforeldra betur og stjúpbörn þá náum við að sinna þessu hlutverki og hætta að vera með væntingar um að allt gangi eins og í sögu og hætta að vera svona dómhörð. Það er ekki að ástæðulausu að sagan um hina „vondu stjúpmóður“ varð til.

Ég er líka stjúpdóttir og á stjúpföður

Stjúpfaðir minn er hinn besti maður. Ljúfur við alla og vill allt fyrir alla gera. Ég man þó þann tíma þegar mamma og hann voru nýbyrjuð saman hvað ég þoldi hann ekki. Það má í raun segja að ég hafi farið að heiman vegna hans. Ég gat ekki búið undir sama þaki og þessi maður. Ef ég hugsa til baka þá gerði hann samt ekkert rangt. Ég var bara svo viðkvæm fyrir því þegar hann setti út á eitthvað hjá mér eða reyndi að ala mig upp á einhvern hátt. Ég þoldi ekki hvernig hann vildi hafa hlutina því okkar venjur og hefðir áttu að eiga meiri rétt á sér. Hann mátti ekki einu sinni koma með sín eigin húsgögn inn í íbúðina okkar því mér fannst þau svo ljót. Ég var mjög neikvæð út í hann og gaf honum ekki tækifæri á að verða góður stjúpfaðir á þessum tíma. Ég brosti sjaldan til hans og heilsaði bara mömmu þegar ég kom heim. Hann hefur örugglega verið að gefast upp á mér og fundist þetta erfitt.

Nú er ég sjálf orðin stjúpmóðir og maðurinn minn er stjúpfaðir

Ég hef reynt frá fyrsta degi að gera þetta vel og þrái að eiga gott samband við stjúpbörnin mín. Ég hengi upp myndir af börnunum hans, hef hluti sem þær hafa búið til og gefið okkur uppi við og lagði metnað minn í að gera herbergið þeirra fínt þegar við byrjuðum að búa saman. Ég skipulagði ferðir fyrir alla fjölskylduna og fannst gaman að eiga allt í einu svona mörg börn. En með árunum hafa samskiptin orðið þannig að ég er ekki ánægð með mig í þessu hlutverki. Mér finnst ég ekki standa mig og ég sef varla fyrir áhyggjum og niðurbroti.

Ég veit ekki hvernig þetta byrjaði. En ég var mjög jákvæð í upphafi sambúðarinnar. Maðurinn minn var á þessum tíma nýskilin og kannski voru börnin hans að ganga í gegnum erfiða tíma því þegar hann kom með þau heim til okkar þá voru þau venjulega vælandi eða öskrandi. Hann öskraði á móti og börnin mín voru hálfhrædd. Þetta var víst munstur sem hafði viðgengist á heimili þeirra. Það var alltaf verið að rífast og börnin kunnu ekki að eiga eðlileg samskipti. Vanlíðanin var mikil. Þetta varð til þess að ég kveið fyrir pabbahelgunum.
Mér finnst í raun ekkert skrítið þó börnin hans hafi ekki alveg tekið mér opnum örmum í byrjun. Ég var með pabba þeirra en þau þráðu að mamma og pabbi mundu taka aftur saman. Þessi þrá er enn til staðar hjá þeim núna mörgum árum seinna. Ég hef alltaf unnið með börnum og hugsaði með mér að ég mundi nú vera fljót að vinna hylli þeirra þar sem ég hafði alltaf haft lag á að spjalla við börn. Jú jú, það komu góðir tímar þar sem við áttum skemmtilegar stundir . Fórum í mörg ferðalög, til útlanda og í sumarbústað. Svona var þetta þó ekki alltaf og lenti ég í hálfgerðum vítahring og vanlíðan.

Alltaf verið óörugg

Þannig að þegar börnin hans komu vælandi og öskrandi heim til okkar, heilsuðu mér jafnvel ekki og horfðu á mig með köldu augnaráði þá varð ég sár og óörugg gagnvart þeim. Sem gerði það að verkum að ég varð örugglega svolítið köld við þau. Ég ætlaði mér það ekki, ég átti bara svo erfitt með að vera ég sjálf, hress og kát við þau af því ég var svo viss um að þau þoldu mig ekki. Ef ég setti út á þau við manninn minn fór hann allur í vörn og brást illa við. Þetta hefði hann aldrei gert ef við ættum börnin saman, þá hefðum við geta rætt málin eins og foreldrar gera. Ef ég sagði börnum hans til varðandi umgegni eða annað tóku þau því mjög illa og urðu en kaldari við mig. Ég var þess vegna mjög fljótt ákveðin í því að skamma þau aldrei sem gerðu samskipti okkar líka svolítið skrítin og stirð. Þegar þau þurftu að ræða eitthvað við pabba sinn kölluðu þau venjulega á hann og vildu ekki leyfa mér að heyra. Þetta varð eins og tvö lið. Ég og börnin mín og hann og börnin hans. Mig langar ekki að hafa þetta svona. Mig langar að vera góð stjúpmóðir. Það hafa komið margir dagar og margar vökunætur þar sem ég hugsa um þetta. Mér líður svakalega illa út af þessu

Ólík framkoma stjúpföðurins

Talandi um föðurinn sem skrifaði bréfið þá verður mér hugsað til mannsins míns sem býr með mér og börnunum mínum. Ég þoli ekki hvernig hann talar við börnin mín. Mér finnst hann alltaf svo hvass við þau og hreytir einhverju í þau meðan hann kyssir og knúsar sín eigin börn. Í herbergi barna hans eru húsgögn og hlutir sem sumir tilheyrðu börnunum mínum. Þannig hefur það alltaf verið hjá mér þar sem við höfum ekki alltaf haft mikla peninga. Ég hef t.d. aldrei keypt rúm handa börnunum mínum, þau hafa alltaf fengið þau gefins frá ættingja af því viðkomandi er að losa sig við eitthvað. Þegar dóttir mín átti afmæli ákvað hún að kaupa sér ný húsgögn í herbergið sitt fyrir afmælispeningana sína auk þess sem hún átti eitthvað í banka. Börnin hans grétu yfir þessu, hvað væri nú flott í herberginu hennar en ekki þeirra. Þau fengu ýmislegt frá mínum börnum í herbergið sitt og allir sáttir en ef þau fengu eitthvað nýtt sem þau áttu sjálf mátti engin snerta þann hlut. Þetta urðu heilagir hlutir en börn mannsins míns máttu fá hluti frá mínum börnum eins og ekkert væri.

Af hverju er þetta svona? Af hverju eiga sumir svona erfitt með stjúpforeldrahlutverkið. Af hverju er stundum svo erfitt að vera stjúpbarn einhvers? Er það óöryggi? Er það af því að þessi börn tilheyra fyrrverandi konunni sem er jafnvel ógn við hjónabandið? Er það af því að börnin þola ekki að foreldrarnir fá sér nýjan maka? Eru kannski okkar eigin börn alltaf mikilvægust í augum foreldra?

Stjúpa sem langar að standa sig vel

 

Aðsend grein

Bréf frá stjúpu

Eftir Stjúpforeldrar

Síðan ég kom inn í stjúpheiminn hef ég víða rekist á hvað stjúpmæður eru oft harðar við sig og halda að þær þurfi að vera og gera allt 100%. Það fylgja því mikil vonbrigði enda getur ekki nokkur manneskja staðið undir slíkum kröfum.
En af hverju erum við margar svona harðar við okkur? Ég þekki enga stjúpu sem langar til að vera líkt við „vondu stjúpuna“, í raun er það hennar versti ótti að líkjast henni á einhvern hátt. Flestar reynum við því að verða „heimsins bestu stjúpur“ og teljum í fyrstu að það sé lítið mál enda erum við erum góðar frænkur, systur, dætur, sumar mömmur og kærustur. Hvað ætti að verða því til fyrirstöðu?

Við ætlum að gera allt rétt.  Jafnvel þó að við vitum samt ekki alveg eða bara alls ekki hvað það felur í sér. Margar halda að það hljóti að líkjast mömmuhlutverkinu, sem sumar okkar hafa heldur enga reynslu af. Við viljum skapa hina fullkomnu stjúpfjölskyldu með manninum (sumar með konunum), sem þær elska. Þegar rósrauðu skýjunum fer að fækkandi og hverdagsleikinn tekur við er lífið auðvitað lang frá því að vera „fullkomið“ eða eins og við héldum að það „ætti að vera“. En hver er fullkominn? Það er ekki til foreldri sem aldrei gerir mistök eða börn sem alltaf haga sér vel, nú eða fjölskylda sem sleppur við áföll. Það á líka við um okkur stjúpurnar, að sjálfsögðu þurfum við ekki heldur að vera fullkomnar. En trúum við því?

Lífið getur verið gott, þó það sé ekki „fullkomið“ og stundum kemur það okkur skemmtilega á óvart. Lendum við í erfiðleikum er gott að hafa ómetanlegt að hafa góðan meðspilara en hann þarf þó ekki heldur að vera fullkominn en við viljum geta treyst á hann. Þrátt fyrir að flestir geta verið þessu sammála, þá eiga margar stjúpur sem ég þekki og eru góðar vinkonur mínar erfitt með að láta af þessu kröfum um fullkomleika, um leið og þær reyna að afsanna goðsögnina um vondu stjúpuna.

Þær virðist ekki geta leyft sér að vera ófullkomnar eða bara mannlegar í „ófullkomnum“ stjúpfjölskyldum. En af hverju þurfa stjúpfjölskyldur að fullkomnar frekar en aðrar fjölskyldur? Við getum gert okkar besta og aflað okkur upplýsa þegar þörf er á, en við þurfum ekki að vera fullkomin.

Ég á móður sem er dásamleg en hún er ekki fullkomin. Ég sem stjúpmóðir get einnig leyft mér það sama, verið í senn dásamleg og ófullkomin. Foreldrum og stjúpforeldrum er leyfilegt að mistakast, þó það verði að segjast eins og er að mistök stjúpforeldrisins er oft litin alvarlegri augum en foreldrisins. Auðvitað getur manni fundist það stundum ósanngjarnt, en hver lofaðu manni alltaf sanngirni?  Þó eitthvað komi uppá, má alltaf læra eitthvað af því og kannski þroskast um leið. Krafa um fullkomnun gefur lítið pláss fyrir sálarró, lærdóm og þroska.

En með þessu vil ég segja þér kæra stjúpa , ef þú ert að gera þitt besta þá ertu á góðum stað. Mundu að við sem búum í stjúpfjölskyldum megum gera mistök rétt eins og í öðrum fjölskyldum. Okkur má leiðast og það mega verða óvæntar uppákomur. Samverustundir þurfa ekki að vera alltaf fyrir alla í einu, og í raun er það bara gott að við skiptum okkur stundum upp. Okkur hefur ekki mistekist neitt þó það séu ekki allir alltaf í góðu skapi eða sammála á heimilinu. Þú þarft ekki heldur ekki alltaf að vera upplögð ogmundu að þú  berð alls ekki ein ábyrgð á því hvernig gengur á heimilinu, þið búið þar nokkur. Þó ýmislegt komi upp á þá verður þú ekki vonda stjúpan, kannski ófullkomin stjúpa en það er líka bara í fínasta lagi. Ófullkomnar stjúpmæður geta verið dásamlegar stjúpmæður!

Aðsend grein

Nýr stjúppabbi – með ungling

Eftir Stjúpforeldrar

Að taka saman við manneskju sem á stálpaðan ungling er að mörgu leyti frábrugðið því að taka saman við manneskju sem á ungt barn. Unglingur sem er á mörkum þess að vera fullorðinn eða er orðinn það lögum samkvæmt, er eðli máls orðinn sjálfstæðari.

Hann vill ráða því hvenær hann vakar og sefur, hvenær hann er heima í mat og setur kannski fram kröfur um að tiltekið morgunkorn eða annað matarkyns eigi að vera til og þar fram eftir götunum. Vill vera barn þegar það hentar og fullorðinn þegar það hentar og getur verið fyrirferðarmikill á heimili á annan hátt en lítil börn.

Allt eru þetta mál sem margir foreldrar unglinga þekkja af eigin raun en í stjúptengslum er staðan snúnari. Nýr maki blóðforeldrisins stendur utan við uppeldið, sem á þessu stigi máls er langt komið og siðir unglingsins og venjur orðin ansi fastmótuð, en nýi makinn vill setja ýmsar reglur á sínu heimili sem unglingurinn á jafnvel ekki að venjast. Hvað á svo að segja við ungmenni sem vill fá lánaðan bíl eftir þörfum „þið ætlið hvort eð er bara að vera heima“ eða biður um uppáskrift vegna láns? Slíkt varðar fjármál stjúpforeldris með öðrum hætti en þegar ung börn eiga í hlut og stjúpforeldrið er e.t.v. óviljugra að taka slíkar áhættur en með eigin börn. Þá er oft til umræðu hvenær rétt sé að afkvæmi flytji að heiman. Er rétt að ýta við þeim sem orðin eru fullorðin eða eiga þau að hafa sína hentisemi? Eiga þau að borga heim? Sumir vilja styrkja þau til náms með því að leyfa þeim að búa á heimilinu á meðan þau eru í námi og þar fram eftir götunum.
Sé unglingurinn orðinn átján ára er hann fullorðinn í skilningi laga, en í slíkum tilfellum hafa umgengnissamningar t.d. ekkert gildi og möguleiki á því að unglingurinn fari til hins foreldrisins ef hann er óánægður eða flytji að heiman fyrr en ella. Slíkt getur eðli máls samkvæmt spillt nýja sambandinu.
Þetta eru ekki einföld mál og erfitt að ráðleggja hvernig vinna skal með þau en eins og alltaf er gott að ræða málin, bæði að parið ræði sín á milli um hvaða grunnreglur þau vilja halda í heiðri og eins getur verið gott að tengja unglinginn meira við ákvarðanatökuna t.a.m. með fjölskyldufundum.

Aðsend grein frá stjúppabba

Sterkari stjúpfjölskyldur – Örnámskeið 19. apríl 2021

Eftir Námskeið

Stjúpfjölskyldur eru algengar hér á landi. Þrátt fyrir margbreytileiki þeirra benda rannsóknir til að þær eigi ýmislegt sameignlegt. Fjallað er stuttlega um helstu áskoranir stjúpfjölskyldna; algengar tilfinningar,  agamál, hlutverki stjúpforeldra,  foreldrasamvinna,  þarfir barna og fullorðinna.

Vegna fyrirspurna þarf engin að tjá sig á námskeiðinu frekar en hann vill.

Hvernær: 19. apríl 2021

Verð: 10.500 krónur fyrir einstakling, flest séttarfélög greiða niður námskeið og viðtöl.

Staður: Merkurgata 2b,  Hafnarfirði

Leiðbeinandi er Valgerður Halldórsdóttir félags- og fjölskylduráðgjafi, MA .

 

 

Eru stjúpfjölskyldur normal í kirkjunni?

Eftir Fagfólk

Við vorum þrír prestar í litlum hópi fagfólks sem sat dagsnámskeið um stjúptengsl í síðustu viku. Námskeiðið var haldið af Valgerði Halldórsdóttur félagsráðgjafa og aðjúnkt við HÍ, sem hefur unnið mikið frumkvöðlastarf í miðlun og rannsóknum á stjúptengslum og stjúpfjölskyldum.

Markmiðið með námskeiðinu var að gefa fagfólki sem vinnur með fjölskyldum í starfi sínu færi á að kynnast helstu þáttum sem hafa áhrif á tengsl og líðan í stjúpfjölskyldum, svo það komist hjá því að auka óvart á streitu í fjölskyldum vegna þekkingarleysis heldur dragi einmitt frekar úr henni. Aukin þekking á sérstöðu stjúpfjölskyldna og á algengum uppákomum í stjúpfjölskyldum gefur fagfólki í fjölskylduvinnu meira öryggi í samstarfi við stjúpfjölskyldur og einstaklinga sem tilheyra þeim. 

 

Eru stjúpfjölskyldur normal í kirkjunni?

Hver borgar hvað fyrir hvern?

Eftir Skilnaður

„Mér finnst svo ósanngjarnt að við skulum vera látin borga tvöfalt meðlag með stráknum sem er aðra hvora viku hjá okkur. Það er ekkert pælt í því hvaða tekjur mamma hans hefur eða maðurinn hennar,  en þau eru mun betur stæð en við“.

Óhætt er að fullyrða að flestir foreldrar vilja sjá um framfærslu barna sinna og margir stjúpforeldrar greiða ýmislegt fyrir stjúpbörn sín eins og tómstundir, sumarfrí,  fatnað og mat og fleira.  Jafnvel þó bæði innlendar og erlendar rannsóknir sýni að stjúpforeldrar  séu síður tilbúnir til þess að styðja stjúpbörn sín en eigin börn.  Ef tengsl stjúpforeldra og stjúpbarna eru  góð er líklegra að þeim langi til að veita þeim  fjárhagslega stuðning en ef þau eru erfið eða engin.

Foreldrum ber lagalega skylda til að framfleyta börnum sínum.  Skiptir engu hvort þeir fari með forsjá þeirra eða ekki. Annað á við um stjúpforeldra og í raun hefur minnihluti þeirra framfærsluskyldu gagnvart stjúpbörnum sínum. Ástæðan er sú að um 90% foreldra fara með sameignlega forsjá við skilnað.  Þýðir það að minnihluti stjúpforeldra hefur forsjá stjúpbarna sinna.  Hafi þeir hana,  fellur hún niður við skilnað.

Því er hinsvegar ekki að neita ákveðnar væntingar eru til stjúpforeldra um framfærslu stjúpbarna.   Hvað varðar hið opinbera þá virðist sem að lögheimili barns sé látið ráða en ekki hvort stjúpforeldrið hafi forsjá þess eða ekki. Eða er hið opinbera ekki að  gera  ráð fyrir því að stjúpforeldri sem á  sama lögheimili og stjúpbarn  taki þátt í framfærslu barnsins,  þar sem  bætur tengdar börnum skerðast og  afsláttur fellur niður þegar breytingar verða á hjúskaparstöðu foreldrisins?

Ég er að reyna átta mig á þessu en  það virðist einhver önnur hugsun í gangi þegar kemur að stjúpforeldri sem er maki meðlagsgreiðanda.   Í  því tilviki virðast tekjur stjúpforeldrisins ekki skipta máli  þegar verið er að ákvarða hvort foreldri geti greitt eitthvað umfram einfalt meðlag með barni sínu eða ekki.   Auk þess sem það foreldri telst ekki  foreldri samkvæmt skattalögum og nýtur engra bóta tengda börnum  sem greitt er með meðlag, jafnvel þó það dvelji hjá því aðra hvora viku.   Ég velti fyrir mér af hverju sumir telja það þurfi að breyta lögheimilislögum  til að jafna betur opinberar bætur á milli heimila. Af hverju eru umgengnissamningar eða foreldrasamningar eins og ég kýs að kalla þá,  ekki látnir ráða?

Meðal almennings eru skiptar skoðanir um það hvort stjúpforeldri eigi að sjá um framfærslu stjúpbarna sinna eða ekki.  Í könnun sem send var út á vegum Félags stjúpfjölskyldna í fyrra taldi 52% svarenda að stjúpforeldrar ættu að borga til jafns við foreldra fyrir þau börn sem eru búsett á heimilinu.

En þegar tölurnar voru greindar nánar kom í ljós mikill munur á afstöðu fólks til þessa máls eftir samsetningu stjúpfjölskyldunnar.  En 65% þeirra sem áttu börn saman og báðir komu með börn í sambandið voru sammála jafnri framfærslu forelda og stjúpforeldra en aðeins 25% stjúpforeldra sem ekki átti börn sjálfir.  Tölurnar benda til þess að eignast barn saman skipti töluverðu um afstöðu bæði foreldra og stjúpforeldra varðandi þátttöku  stjúpforeldris í kostnaði vegna barna sem búsett eru á heimilinu.  Önnur afstaða virðist vera gagnvart börnum sem koma í „umgengni“ samkvæmt upplýsingum í nýlegri MA ritgerð í félagsráðgjöf. Þau börn virðast fá minni fjárhagslega aðstoð en börnin sem teljast búsett á heimilinu.  En hvenær teljast börn búa á heimili og hvenær eru þau í umgengni?

Jafnframt kom í ljós í fyrrgreindri  könnun  sem send var út á vegum Félags stjúpfjölskyldna að 25% svarenda voru þeirra skoðunar að foreldri ætti ekki að borga meðlag með barni sem býr með foreldri og stjúpforeldri. Þessi hugmynd hefur ekki farið hátt í umræðunni um meðlagsmál hér á landi – enda spurning hversu raunhæf eða sanngjörn hún er.

Hvað sem því líður þarf að skoða framfærslu  barna sem eiga foreldra á tveimur heimilum  svo tryggja megi þeim góð lífsskilyrði óháð hjúskaparstöðu foreldra og draga úr deilum sem kerfið skapar. Líklega þarf að endurskoða  kerfið frá grunni sem virðist taka mið af öðrum veruleika en við búum við í dag.

Valgerður Halldórsdóttir, félags- og fjölskylduráðgjafi

Sama hegðun – ólíkt mat

Eftir Börn og ungmenni

„Mér finnst stundum eins og stjúpsonur minn vilji ekkert með mig hafa og hann stjórni öllu heimilinu. Hann hefur frekar fyrir því að finna pabba sinn, til að biðja hann um eitt eða annað,  en að leita til mín sé ég nálægt.  “

Sjálfsagt eru börn misvel undir það búin að eignast stjúpforeldra.  Sumum finnst það hið besta mál að á meðan önnur eru ósátt.  Stuttur tími frá skilnaði foreldra eða ónæmni foreldrar á þörfum barnsins í nýjum aðstæðum hefur sín áhrif.  Foreldrar gegna lykilhlutverki en stundum líður þeim eins og þeir eru á milli steins og sleggju viti þeir ekki hvernig þeir geti komið á móts við ólíkar þarfir makans og barnsins. Foreldri er því ekki síður óöruggt en stjúpforeldrið í upphafi. Að vita við hverju er að búast, hjálpar. Á heimasíðunni www.stjuptengsl.is má finna ýmislegt sem gæti gagnast.

Það kann að koma sumum á óvart, sem alist hefur upp við ævintýrin um vondu stjúpuna, að flestir stjúpforeldar vilja góð samskipti við stjúpbörn sín og viðurkenning þeirra skiptir þá máli. Í nýlegri íslenskri könnun á stjúpfjölskyldum kom til að mynda í ljós að um 77% stjúpforeldra voru mjög/sammála fullyrðingunni „Viðurkenning barna maka míns skiptir mig máli“.  Það getur því reynt verulega á stjúpforeldrana séu börnin ekki tilbúin og þeir vita ekki við hverju má búast.   Í könnuninni kom einnig fram að stjúpbörn leituðu frekar til foreldra sinna en í stjúpforeldra en aðeins 35% stjúpforeldra sögu stjúpbörn leita jafnt til þeirra og foreldra sinna.  Það er því óvíst að stjúpforeldrar fái alltaf þá viðurkenningu frá börnunum sem þeir óska.

Rétt eins og fordómar geta komið  í veg fyrir að stjúpforeldrar njóta sannmælis og stuðnings í krefjandi hlutverki þá er sumum stjúpbörnum ætlaðir eiginleikar sem ekki er ætlað börnum almennt. Í stað þess að horfa á erfiða hegðun þeirra sem viðleitni í að halda tengslum og ná tengslum við foreldra sína sem geta verið eins og áður segir ónæmir á þarfir þeirra, eru sum stimpluð stjórnsöm og undirförul. Ef fimm ára gutti ýtir mömmu sinni frá pabba sínum þar sem þau kúra í sófanum og segist eiga pabba einn þykir hann krútt og foreldrunum finnst hann skemmtilegur. Ef hann hinsvegar ýtir stjúpmóður sinni til hliðar og segist eiga pabba einn er hætta á að hann sé talinn stjórnsamur, stjúpan upplifi höfnun og pabbinn vandræðagang,  taki fólk hegðun hans of persónulega.

Ef við kjósum að túlka hegðun barns sem  „diss“ gagnvart stjúpforeldri,  leiti það frekar til foreldrisins en þess fyrrnefnda, er hætta á að við lendum í ógöngum í samskiptum með tilheyrandi vanlíðan.  Börn eiga nefnilega ýmislegt sameiginlegt með fullorðnum. Flestum þykir eðlilegra að biðja góðan vin um lán fyrir kaffibolla en vin hans,  sem við getum þó verið ágætlega kunnug.  Af hverju ætti börnum að líða á annan hátt séu þau ekki jafn nánum tengslum við stjúpforeldrið og við foreldrið?  Hvernig myndu samskiptin þróast ef vinur vinarins tæki það mjög persónulega að hann væri ekki beðinn um lán fyrir bollanum og  túlkaði það sem svo að við værum að reyna útiloka hann á einhvern hátt? Jafnvel skemma vináttu hans við sameignlegan vin? Í hvaða sporum væri sameignlegi vinurinn?

Það má líka hafa í huga að framkoma stjúpforeldra er oft dæmd harðar en foreldra, sérstaklega  þegar kemur að agamálum. Við beinum sjónum okkar að vondu stjúpmóðurinni í Hans og Grétu en faðirinn sem fer með börnin sín út í skóg og skilur þau eftir, ekki einu sinni heldur tvívegis sleppur við alla fordæmingu samfélagsins. Hann er álitin fórnarlamb eiginkonu sinnar rétt eins og börnin hans.

Stundum er nauðsynlegt að setja hegðun og viðhorf okkar í víðara samhengi. Við þurfum að muna að góðir hlutir gerast hægt og tengslamyndun tekur tíma.   Þegar við höfum tengst fólki langar okkur frekar að koma á móts við óskir þess en ella – það sama á við um börn. Það getur því stundum verið gagnlegt í stjúpfjölskyldum að spyrja sig – hvað myndum við hugsa eða gera ef við ættum þessi börn saman?

Instagram