Skip to main content
Stjúpforeldrar

Mig langar að vera góð stjúpmóðir

Ég heyrði einu sinni að sum dýr geta ekki hugsað um afkvæmi annara kvendýra og þá sérstaklega ef um er að ræða afkvæmi sem makar þeirra eiga með öðru kvendýri. Sum dýr eru jafnvel vond við þessi afkvæmi. Við erum fljót að dæma og finnst þessi framkoma hræðileg.

Getur verið að okkur konum sé ekki eðlislægt að hugsa um afkvæmi maka okkar sem hann á með annari konu? Við konur erum í umönnunarstörfum og önnumst börn annara kvenna. Það virðist vera okkur leikur einn. Af hverju er stjúpmóðurhlutverkið þá svona erfitt?

Bréfið frá föðurnum

Um daginn las ég bréf frá föður sem fannst eins og börn konunnar væru mikilvægari en dóttir hans. Ég samsamaði mig með þessu bæði á þann hátt að ég skildi hann vel og er viss um að manninum mínum líður stundum svona en jafnframt hugsaði ég um hana, finnst aumingjans konunni hans kannski eins og hann líti á dóttur sína sem mikilvægari en börnin hennar? Ég sá að fólk póstaði þessari grein inn á Facebook og talaði um ömurlega framkomu konunnar hans þar sem hún hengdi upp myndir og verkefni eftir börnin sín en ekki hans, upp á vegg, lánaði herbergi dóttur hans, leyfði börnum sínum að róta í dótinu hennar og virtist skamma dóttur hans meira en sín eigin börn.’

Hefur þessi faðir skoðað hug sinn og spurt sig hvernig hann er að koma fram við börn konunnar sinnar? Getur verið að hann skammi þau meira en sín eigin? Getur verið að þau pirri hann meira en dóttir hans? Af hverju á dóttir hans að vera á sérsamning varðandi hluti og dót í herberginu sínu? Eru systkini ekki oft að róta í dóti hjá eldri systkinum? Ég veit að yngsta barnið mitt gerir það og af hverju ætti dótið í herbergi stjúpsysturinnar að vera heilagra en dót systkina? Ég lána stjúpbörnum mínum oft eitthvað dót, en finnst eins og það sé aldrei sjálfsagt að þau láni á móti.

Skildi konuna

Þegar ég las þessa grein vorkenndi ég konunni því ég skildi hana svo vel. Kannski langar konunni umfram allt að vera góð stjúpmóðir. Kannski þráir hún að sinna þessu hlutverki vel en finnst það svo erfitt. Kannski langar henni að hengja upp myndir eftir dóttur hans en stelpan kemur bara aldrei með neitt heim til þeirra. Kannski skammar hún börnin sín alveg jafnt og dóttur hans en pabbinn og dóttirin eru bara svona rosalega viðkvæm fyrir skammaryrðum frá henni.

Mín reynsla er nefnilega sú að maður þarf að standa sig þrefalt betur sem stúpmóðir en móðir, því foreldrum er fyrirgefið en ekki stjúpforeldrum. Stjúpbarn þolir ekki að vera skammað af stjúpforeldri og það er líka erfitt fyrir stjúpforeldri að skamma, af því þú veist að barnið er svo ofur viðkvæmt fyrir því. Af hverju er þetta svona og af hverju reynist stjúpforeldrahlutverkið svona erfitt? Af hverju er þetta svona flókið? Kannski ef við náum að skilja stjúpforeldra betur og stjúpbörn þá náum við að sinna þessu hlutverki og hætta að vera með væntingar um að allt gangi eins og í sögu og hætta að vera svona dómhörð. Það er ekki að ástæðulausu að sagan um hina „vondu stjúpmóður“ varð til.

Ég er líka stjúpdóttir og á stjúpföður

Stjúpfaðir minn er hinn besti maður. Ljúfur við alla og vill allt fyrir alla gera. Ég man þó þann tíma þegar mamma og hann voru nýbyrjuð saman hvað ég þoldi hann ekki. Það má í raun segja að ég hafi farið að heiman vegna hans. Ég gat ekki búið undir sama þaki og þessi maður. Ef ég hugsa til baka þá gerði hann samt ekkert rangt. Ég var bara svo viðkvæm fyrir því þegar hann setti út á eitthvað hjá mér eða reyndi að ala mig upp á einhvern hátt. Ég þoldi ekki hvernig hann vildi hafa hlutina því okkar venjur og hefðir áttu að eiga meiri rétt á sér. Hann mátti ekki einu sinni koma með sín eigin húsgögn inn í íbúðina okkar því mér fannst þau svo ljót. Ég var mjög neikvæð út í hann og gaf honum ekki tækifæri á að verða góður stjúpfaðir á þessum tíma. Ég brosti sjaldan til hans og heilsaði bara mömmu þegar ég kom heim. Hann hefur örugglega verið að gefast upp á mér og fundist þetta erfitt.

Nú er ég sjálf orðin stjúpmóðir og maðurinn minn er stjúpfaðir

Ég hef reynt frá fyrsta degi að gera þetta vel og þrái að eiga gott samband við stjúpbörnin mín. Ég hengi upp myndir af börnunum hans, hef hluti sem þær hafa búið til og gefið okkur uppi við og lagði metnað minn í að gera herbergið þeirra fínt þegar við byrjuðum að búa saman. Ég skipulagði ferðir fyrir alla fjölskylduna og fannst gaman að eiga allt í einu svona mörg börn. En með árunum hafa samskiptin orðið þannig að ég er ekki ánægð með mig í þessu hlutverki. Mér finnst ég ekki standa mig og ég sef varla fyrir áhyggjum og niðurbroti.

Ég veit ekki hvernig þetta byrjaði. En ég var mjög jákvæð í upphafi sambúðarinnar. Maðurinn minn var á þessum tíma nýskilin og kannski voru börnin hans að ganga í gegnum erfiða tíma því þegar hann kom með þau heim til okkar þá voru þau venjulega vælandi eða öskrandi. Hann öskraði á móti og börnin mín voru hálfhrædd. Þetta var víst munstur sem hafði viðgengist á heimili þeirra. Það var alltaf verið að rífast og börnin kunnu ekki að eiga eðlileg samskipti. Vanlíðanin var mikil. Þetta varð til þess að ég kveið fyrir pabbahelgunum.
Mér finnst í raun ekkert skrítið þó börnin hans hafi ekki alveg tekið mér opnum örmum í byrjun. Ég var með pabba þeirra en þau þráðu að mamma og pabbi mundu taka aftur saman. Þessi þrá er enn til staðar hjá þeim núna mörgum árum seinna. Ég hef alltaf unnið með börnum og hugsaði með mér að ég mundi nú vera fljót að vinna hylli þeirra þar sem ég hafði alltaf haft lag á að spjalla við börn. Jú jú, það komu góðir tímar þar sem við áttum skemmtilegar stundir . Fórum í mörg ferðalög, til útlanda og í sumarbústað. Svona var þetta þó ekki alltaf og lenti ég í hálfgerðum vítahring og vanlíðan.

Alltaf verið óörugg

Þannig að þegar börnin hans komu vælandi og öskrandi heim til okkar, heilsuðu mér jafnvel ekki og horfðu á mig með köldu augnaráði þá varð ég sár og óörugg gagnvart þeim. Sem gerði það að verkum að ég varð örugglega svolítið köld við þau. Ég ætlaði mér það ekki, ég átti bara svo erfitt með að vera ég sjálf, hress og kát við þau af því ég var svo viss um að þau þoldu mig ekki. Ef ég setti út á þau við manninn minn fór hann allur í vörn og brást illa við. Þetta hefði hann aldrei gert ef við ættum börnin saman, þá hefðum við geta rætt málin eins og foreldrar gera. Ef ég sagði börnum hans til varðandi umgegni eða annað tóku þau því mjög illa og urðu en kaldari við mig. Ég var þess vegna mjög fljótt ákveðin í því að skamma þau aldrei sem gerðu samskipti okkar líka svolítið skrítin og stirð. Þegar þau þurftu að ræða eitthvað við pabba sinn kölluðu þau venjulega á hann og vildu ekki leyfa mér að heyra. Þetta varð eins og tvö lið. Ég og börnin mín og hann og börnin hans. Mig langar ekki að hafa þetta svona. Mig langar að vera góð stjúpmóðir. Það hafa komið margir dagar og margar vökunætur þar sem ég hugsa um þetta. Mér líður svakalega illa út af þessu

Ólík framkoma stjúpföðurins

Talandi um föðurinn sem skrifaði bréfið þá verður mér hugsað til mannsins míns sem býr með mér og börnunum mínum. Ég þoli ekki hvernig hann talar við börnin mín. Mér finnst hann alltaf svo hvass við þau og hreytir einhverju í þau meðan hann kyssir og knúsar sín eigin börn. Í herbergi barna hans eru húsgögn og hlutir sem sumir tilheyrðu börnunum mínum. Þannig hefur það alltaf verið hjá mér þar sem við höfum ekki alltaf haft mikla peninga. Ég hef t.d. aldrei keypt rúm handa börnunum mínum, þau hafa alltaf fengið þau gefins frá ættingja af því viðkomandi er að losa sig við eitthvað. Þegar dóttir mín átti afmæli ákvað hún að kaupa sér ný húsgögn í herbergið sitt fyrir afmælispeningana sína auk þess sem hún átti eitthvað í banka. Börnin hans grétu yfir þessu, hvað væri nú flott í herberginu hennar en ekki þeirra. Þau fengu ýmislegt frá mínum börnum í herbergið sitt og allir sáttir en ef þau fengu eitthvað nýtt sem þau áttu sjálf mátti engin snerta þann hlut. Þetta urðu heilagir hlutir en börn mannsins míns máttu fá hluti frá mínum börnum eins og ekkert væri.

Af hverju er þetta svona? Af hverju eiga sumir svona erfitt með stjúpforeldrahlutverkið. Af hverju er stundum svo erfitt að vera stjúpbarn einhvers? Er það óöryggi? Er það af því að þessi börn tilheyra fyrrverandi konunni sem er jafnvel ógn við hjónabandið? Er það af því að börnin þola ekki að foreldrarnir fá sér nýjan maka? Eru kannski okkar eigin börn alltaf mikilvægust í augum foreldra?

Stjúpa sem langar að standa sig vel

 

Aðsend grein

Instagram