Skip to main content
Flokkur

Stjúpforeldrar

Finna stjúpur meira fyrir skorti á stjórn á eign lífi en stjúpar?

Eftir Stjúpforeldrar

Ætla má að ólíkar væntingar til hegðunar kynjanna hafi áhrif á viðhorf og hegðun stjúpforeldra.  Algengt er til að mynda að stjúpmæður telji sig skyldugar til að sinna foreldrahlutverkinu þegar hitt foreldrið er ekki til staðar, en ýmist draga sig út eða eru settar til hliðar þegar makinn/foreldrið er nálægt.

Þessi „spila“ og „stopp“ staða ýtir enn frekar undir tilfinningina að hafa ekki stjórn á aðstæðum sínum sem getur alið á kvíða og streitu sem síðan getur bitnar á samskiptum þeirra við stjúpbörnin.

Að upplifa sig vanmetin og vera settur til hliðar er ekki gott veganesti þegar byggja á upp jákvæð tengsl og því mikilvægt að hafa raunhæfar væntingar. Margir karlar virðast eiga auðveldara með stjúpforeldrahlutverkið en konur. Kannski gera þeir ekki eins miklar kröfur um tilfinningalega nálægð og konur, en sumar telja sig þurfa að „hoppa í og úr einskonar foreldrahlutverki eftir þörfum annarra. Erlend rannsókn sýndi t.a.m. að karlar telja sig ekki þurfa að sinna uppeldishlutverki í sama mæli og konur þótt þeir taki að sér og sinnu  ýmsu sem snýr að stjúpbörnum þeirra. Þeir völdu oftast sjálfir að takmarka hlutverk sitt, voru sérstaklega tregir til að klæða og baða stjúpbörn og töldu það hlutverk mæðra að sjá um að aga börnin.

Ólík sýn á hlutverkið getur því haft töluvert að segja hvernig tengsl er reynt að mynda við börnin. Valgerður Halldórsdóttir, félags- og fjölskylduráðgjafi

Stjúp­mæður reyna oft of mikið að þókn­ast öðrum – viðtal

Eftir Stjúpforeldrar

Val­gerður Hall­dórs­dótt­ir, fé­lags- og fjöl­skylduráðgjafi, rek­ur fyr­ir­tækið stjuptengsl.is. Nú er hún að fara að halda nám­skeið fyr­ir stjúp­mæður og líka fyr­ir pör í stjúp­fjöl­skyld­um. Hún seg­ir að sam­fé­lags­miðlar hafi áhrif á sam­skipti stjúp­for­eldra við stjúp­börn og það geti verið auðvelt fyr­ir börn að upp­lifa að þau séu „útund­an“ þegar verið er að pósta lát­laust þegar börn­in eru ekki með í för.

Hvers vegna ertu að halda nám­skeið fyr­ir stjúp­mæður og pör í stjúp­fjöl­skyld­um?

„Flest­ar stjúp­fjöl­skyld­ur og marg­ar stjúp­mæður upp­lifa svipaða hluti sem eru oft mjög fyr­ir­sjá­an­leg­ir en fæst­ir þekkja. Með því að læra um stjúptengsl má koma í veg fyr­ir al­geng­ar uppá­kom­ur og van­líðan sem get­ur fylgt þeim. Ég hef rekið mig á að þegar fólk þekk­ir ekki til þá er til­hneig­ing til að fólk „kenni hvað öðru um“ sem eyk­ur enn frek­ar á vand­ræðin. Flest­um finnst sjálfsagt að fara á for­eldra­nám­skeið fyr­ir verðandi for­eldra eða sækja nokk­ur hundaþjálf­un­ar­nám­skeið til að tak­ast á við nýj­ar áskor­an­ir á upp­byggi­leg­an hátt. Það sama á við um stjúptengsl,“ seg­ir Val­gerður.

Hvað er það sem stjúp­mæður eru oft að gera vit­laust?

„Að setja ekki á sig súr­efn­is­grím­una og reyna of mikið að þókn­ast öðrum á sinn eig­in kostnað. Kon­ur eru oft hrædd­ar við að „vera leiðin­leg­ar“, reyna að þókn­ast öll­um og rugla því sam­an við að setja heil­brigð mörk til dæm­is gagn­vart maka sín­um og taka of mikið að sér gagn­vart börn­un­um í fyrstu. Jafn­vel þótt eng­inn hafi beðið þær um það, sum­ar halda jafn­vel að þær eigi að vera einskon­ar mæður á heim­il­inu án þess að hafa „umboð“ til þess frá stjúp­börn­um sín­um eða maka. Nú svo get­ur mak­inn og stjúp­for­eldrið verið sam­mála en stjúp­börn­in láta óspart vita að „hún er ekki mamma mín“. Það eru til ýms­ar út­gáf­ur á þessu.

Það er líka mögu­leiki á að öll­um líki mjög vel við hana sem stjúpu og það sem hún stend­ur fyr­ir á heim­il­inu en hún sjálf er að koðna niður inn­an frá. Birt­ist það meðal ann­ars í því að all­ir vin­konu­hitt­ing­ar, sauma­klúbb­ar eða auka­vinna er sett á þann tíma sem stjúp­börn­in eru á heim­il­inu,“ seg­ir Val­gerður.

Val­gerður bend­ir á að það fylgi þessu verk­efni mik­il óvissa.

„Sér­stak­lega þegar fólk hef­ur litla sem enga hug­mynd um hvernig dýna­mík stjúp­fjöl­skyldna er. Allt of marg­ar kon­ur spyrja hvort þær megi hafa svona og hinseg­in til­finn­ing­ar gagn­vart hlut­verk­inu í stað þess að virða sín­ar til­finn­ing­ar og skoða hvað megi gera til að þeim líði bet­ur. Þessi óvissa og löng­un til að öll­um líki við hana veld­ur því m.a. að aðrir skil­greina hlut­verk stjúp­unn­ar en ekki hún sjálf. Við ræðum þessa hluti og fleira meðal ann­ars á ör­nám­skeiðinu þann 28. októ­ber. Þann 22. októ­ber verður í boði fyr­ir þær kon­ur 6 vikna nám­skeið sem kall­ast Stjúpu­hitt­ing­ur.“

Hvers vegna verða sam­skipti stjúp­mæðra og stjúp­barna oft svona stirð?

„Það vant­ar oft­ast upp á tengslamynd­un­ina milli stjúp­mæðra og barna í slík­um til­vik­um. Við þurf­um að ein­blína meira á maður á mann sam­skipti og kynn­ast hvert öðru áður en við för­um að beita okk­ur. Oft og tíðum vant­ar líka upp á sam­vinnu pars­ins t.d. um regl­ur á heim­il­inu. Stjúp­mæðrum/​feðrum finnst for­eldrið ekki vera að fylgja eft­ir regl­um heim­il­is­ins og fer þá „beint í börn­in“ sem taka því illa. En stund­um samþykk­ir for­eldrið ein­hverja reglu sem það er í raun ekki til­búið að fylgja eft­ir, í stað þess að ræða það við stjúp­for­eldrið og móta regl­ur sem henta öll­um. Skort­ur á sam­starfi bæði á milli stjúp­for­eldra og for­eldra á heim­ili og á milli heim­ila bitn­ar því mjög oft á börn­un­um. Jafn­vel finnst börn­um að stjúp­for­eldrið stjórni for­eldri þeirra og stjúp­for­eldr­inu að börn­in stýri for­eldr­inu þegar þau eru á heim­il­inu.“

Ef þú ætt­ir að gefa stjúp­móður eitt ráð, hvað væri það?

„Lærðu um stjúptengsl og hlúðu vel að sjálfri þér.“

Svo ertu líka með para­nám­skeiðið. Hvað græða pör á því að fara á svona nám­skeið?

„Það sem flest­ir segja að þeir hafi grætt mest á er að hitta önn­ur pör í svipuðum spor­um. Jafn­framt með því að læra um helstu áskor­an­ir stjúp­fjöl­skyldna er eins og að fá gott landa­kort til að fara eft­ir.

En skorti mörk, sam­starf og skiln­ing á stöðu bæði for­eldra og stjúp­for­eldra sem og barna er hætta á að pirr­ing­ur og árekstr­ar verði tíðir. Næsta para­nám­skeið byrj­ar 18. októ­ber og síðan annað þann 8. nóv­em­ber.“

Finnst þér stjúptengsl verða flókn­ari með til­komu sam­fé­lags­miðla?

„Það er stund­um viðkvæmt mál þegar stjúp­for­eldr­ar birta mynd­ir af sér með stjúp­börn­um sín­um á Face­book eða öðrum miðlum en alls ekki í öll­um til­vik­um. For­eldr­um barn­anna á hinu heim­il­inu get­ur fund­ist að sér vegið sem for­eldri en við þurf­um sjaldn­ast að ótt­ast að börn skipti for­eldr­um sín­um út fyr­ir stjúp­for­eldra.

Í öðrum til­vik­um birt­ist mynd af for­eldri með stjúp­börn­um sín­um, og fer það fyr­ir brjóstið á börn­un­um á hinu heim­il­inu sem ekki eru með. Stund­um hafa ung­menni lokað á stjúp­for­eldra sína á sam­fé­lags­miðlum án út­skýr­inga af þeirri ein­földu ástæðu að slík­ar mynd­ir geta sært. Til­finn­ing­in að vera „útund­an“ er sterk.

Sam­fé­lags­miðlar geta líka auðveldað fólki að fá yf­ir­sýn yfir líf barna sinna og stjúp­barna, sem gjarna glat­ast við það að eiga börn sem til­heyra tveim­ur heim­il­um,“ seg­ir Val­gerður.

Hægt er að fá nán­ari upp­lýs­ing­ar á stjuptengsl@stjuptengsl.is.

 

Mig langar að vera góð stjúpmóðir

Eftir Stjúpforeldrar

Ég heyrði einu sinni að sum dýr geta ekki hugsað um afkvæmi annara kvendýra og þá sérstaklega ef um er að ræða afkvæmi sem makar þeirra eiga með öðru kvendýri. Sum dýr eru jafnvel vond við þessi afkvæmi. Við erum fljót að dæma og finnst þessi framkoma hræðileg.

Getur verið að okkur konum sé ekki eðlislægt að hugsa um afkvæmi maka okkar sem hann á með annari konu? Við konur erum í umönnunarstörfum og önnumst börn annara kvenna. Það virðist vera okkur leikur einn. Af hverju er stjúpmóðurhlutverkið þá svona erfitt?

Bréfið frá föðurnum

Um daginn las ég bréf frá föður sem fannst eins og börn konunnar væru mikilvægari en dóttir hans. Ég samsamaði mig með þessu bæði á þann hátt að ég skildi hann vel og er viss um að manninum mínum líður stundum svona en jafnframt hugsaði ég um hana, finnst aumingjans konunni hans kannski eins og hann líti á dóttur sína sem mikilvægari en börnin hennar? Ég sá að fólk póstaði þessari grein inn á Facebook og talaði um ömurlega framkomu konunnar hans þar sem hún hengdi upp myndir og verkefni eftir börnin sín en ekki hans, upp á vegg, lánaði herbergi dóttur hans, leyfði börnum sínum að róta í dótinu hennar og virtist skamma dóttur hans meira en sín eigin börn.’

Hefur þessi faðir skoðað hug sinn og spurt sig hvernig hann er að koma fram við börn konunnar sinnar? Getur verið að hann skammi þau meira en sín eigin? Getur verið að þau pirri hann meira en dóttir hans? Af hverju á dóttir hans að vera á sérsamning varðandi hluti og dót í herberginu sínu? Eru systkini ekki oft að róta í dóti hjá eldri systkinum? Ég veit að yngsta barnið mitt gerir það og af hverju ætti dótið í herbergi stjúpsysturinnar að vera heilagra en dót systkina? Ég lána stjúpbörnum mínum oft eitthvað dót, en finnst eins og það sé aldrei sjálfsagt að þau láni á móti.

Skildi konuna

Þegar ég las þessa grein vorkenndi ég konunni því ég skildi hana svo vel. Kannski langar konunni umfram allt að vera góð stjúpmóðir. Kannski þráir hún að sinna þessu hlutverki vel en finnst það svo erfitt. Kannski langar henni að hengja upp myndir eftir dóttur hans en stelpan kemur bara aldrei með neitt heim til þeirra. Kannski skammar hún börnin sín alveg jafnt og dóttur hans en pabbinn og dóttirin eru bara svona rosalega viðkvæm fyrir skammaryrðum frá henni.

Mín reynsla er nefnilega sú að maður þarf að standa sig þrefalt betur sem stúpmóðir en móðir, því foreldrum er fyrirgefið en ekki stjúpforeldrum. Stjúpbarn þolir ekki að vera skammað af stjúpforeldri og það er líka erfitt fyrir stjúpforeldri að skamma, af því þú veist að barnið er svo ofur viðkvæmt fyrir því. Af hverju er þetta svona og af hverju reynist stjúpforeldrahlutverkið svona erfitt? Af hverju er þetta svona flókið? Kannski ef við náum að skilja stjúpforeldra betur og stjúpbörn þá náum við að sinna þessu hlutverki og hætta að vera með væntingar um að allt gangi eins og í sögu og hætta að vera svona dómhörð. Það er ekki að ástæðulausu að sagan um hina „vondu stjúpmóður“ varð til.

Ég er líka stjúpdóttir og á stjúpföður

Stjúpfaðir minn er hinn besti maður. Ljúfur við alla og vill allt fyrir alla gera. Ég man þó þann tíma þegar mamma og hann voru nýbyrjuð saman hvað ég þoldi hann ekki. Það má í raun segja að ég hafi farið að heiman vegna hans. Ég gat ekki búið undir sama þaki og þessi maður. Ef ég hugsa til baka þá gerði hann samt ekkert rangt. Ég var bara svo viðkvæm fyrir því þegar hann setti út á eitthvað hjá mér eða reyndi að ala mig upp á einhvern hátt. Ég þoldi ekki hvernig hann vildi hafa hlutina því okkar venjur og hefðir áttu að eiga meiri rétt á sér. Hann mátti ekki einu sinni koma með sín eigin húsgögn inn í íbúðina okkar því mér fannst þau svo ljót. Ég var mjög neikvæð út í hann og gaf honum ekki tækifæri á að verða góður stjúpfaðir á þessum tíma. Ég brosti sjaldan til hans og heilsaði bara mömmu þegar ég kom heim. Hann hefur örugglega verið að gefast upp á mér og fundist þetta erfitt.

Nú er ég sjálf orðin stjúpmóðir og maðurinn minn er stjúpfaðir

Ég hef reynt frá fyrsta degi að gera þetta vel og þrái að eiga gott samband við stjúpbörnin mín. Ég hengi upp myndir af börnunum hans, hef hluti sem þær hafa búið til og gefið okkur uppi við og lagði metnað minn í að gera herbergið þeirra fínt þegar við byrjuðum að búa saman. Ég skipulagði ferðir fyrir alla fjölskylduna og fannst gaman að eiga allt í einu svona mörg börn. En með árunum hafa samskiptin orðið þannig að ég er ekki ánægð með mig í þessu hlutverki. Mér finnst ég ekki standa mig og ég sef varla fyrir áhyggjum og niðurbroti.

Ég veit ekki hvernig þetta byrjaði. En ég var mjög jákvæð í upphafi sambúðarinnar. Maðurinn minn var á þessum tíma nýskilin og kannski voru börnin hans að ganga í gegnum erfiða tíma því þegar hann kom með þau heim til okkar þá voru þau venjulega vælandi eða öskrandi. Hann öskraði á móti og börnin mín voru hálfhrædd. Þetta var víst munstur sem hafði viðgengist á heimili þeirra. Það var alltaf verið að rífast og börnin kunnu ekki að eiga eðlileg samskipti. Vanlíðanin var mikil. Þetta varð til þess að ég kveið fyrir pabbahelgunum.
Mér finnst í raun ekkert skrítið þó börnin hans hafi ekki alveg tekið mér opnum örmum í byrjun. Ég var með pabba þeirra en þau þráðu að mamma og pabbi mundu taka aftur saman. Þessi þrá er enn til staðar hjá þeim núna mörgum árum seinna. Ég hef alltaf unnið með börnum og hugsaði með mér að ég mundi nú vera fljót að vinna hylli þeirra þar sem ég hafði alltaf haft lag á að spjalla við börn. Jú jú, það komu góðir tímar þar sem við áttum skemmtilegar stundir . Fórum í mörg ferðalög, til útlanda og í sumarbústað. Svona var þetta þó ekki alltaf og lenti ég í hálfgerðum vítahring og vanlíðan.

Alltaf verið óörugg

Þannig að þegar börnin hans komu vælandi og öskrandi heim til okkar, heilsuðu mér jafnvel ekki og horfðu á mig með köldu augnaráði þá varð ég sár og óörugg gagnvart þeim. Sem gerði það að verkum að ég varð örugglega svolítið köld við þau. Ég ætlaði mér það ekki, ég átti bara svo erfitt með að vera ég sjálf, hress og kát við þau af því ég var svo viss um að þau þoldu mig ekki. Ef ég setti út á þau við manninn minn fór hann allur í vörn og brást illa við. Þetta hefði hann aldrei gert ef við ættum börnin saman, þá hefðum við geta rætt málin eins og foreldrar gera. Ef ég sagði börnum hans til varðandi umgegni eða annað tóku þau því mjög illa og urðu en kaldari við mig. Ég var þess vegna mjög fljótt ákveðin í því að skamma þau aldrei sem gerðu samskipti okkar líka svolítið skrítin og stirð. Þegar þau þurftu að ræða eitthvað við pabba sinn kölluðu þau venjulega á hann og vildu ekki leyfa mér að heyra. Þetta varð eins og tvö lið. Ég og börnin mín og hann og börnin hans. Mig langar ekki að hafa þetta svona. Mig langar að vera góð stjúpmóðir. Það hafa komið margir dagar og margar vökunætur þar sem ég hugsa um þetta. Mér líður svakalega illa út af þessu

Ólík framkoma stjúpföðurins

Talandi um föðurinn sem skrifaði bréfið þá verður mér hugsað til mannsins míns sem býr með mér og börnunum mínum. Ég þoli ekki hvernig hann talar við börnin mín. Mér finnst hann alltaf svo hvass við þau og hreytir einhverju í þau meðan hann kyssir og knúsar sín eigin börn. Í herbergi barna hans eru húsgögn og hlutir sem sumir tilheyrðu börnunum mínum. Þannig hefur það alltaf verið hjá mér þar sem við höfum ekki alltaf haft mikla peninga. Ég hef t.d. aldrei keypt rúm handa börnunum mínum, þau hafa alltaf fengið þau gefins frá ættingja af því viðkomandi er að losa sig við eitthvað. Þegar dóttir mín átti afmæli ákvað hún að kaupa sér ný húsgögn í herbergið sitt fyrir afmælispeningana sína auk þess sem hún átti eitthvað í banka. Börnin hans grétu yfir þessu, hvað væri nú flott í herberginu hennar en ekki þeirra. Þau fengu ýmislegt frá mínum börnum í herbergið sitt og allir sáttir en ef þau fengu eitthvað nýtt sem þau áttu sjálf mátti engin snerta þann hlut. Þetta urðu heilagir hlutir en börn mannsins míns máttu fá hluti frá mínum börnum eins og ekkert væri.

Af hverju er þetta svona? Af hverju eiga sumir svona erfitt með stjúpforeldrahlutverkið. Af hverju er stundum svo erfitt að vera stjúpbarn einhvers? Er það óöryggi? Er það af því að þessi börn tilheyra fyrrverandi konunni sem er jafnvel ógn við hjónabandið? Er það af því að börnin þola ekki að foreldrarnir fá sér nýjan maka? Eru kannski okkar eigin börn alltaf mikilvægust í augum foreldra?

Stjúpa sem langar að standa sig vel

 

Aðsend grein

Bréf frá stjúpu

Eftir Stjúpforeldrar

Síðan ég kom inn í stjúpheiminn hef ég víða rekist á hvað stjúpmæður eru oft harðar við sig og halda að þær þurfi að vera og gera allt 100%. Það fylgja því mikil vonbrigði enda getur ekki nokkur manneskja staðið undir slíkum kröfum.
En af hverju erum við margar svona harðar við okkur? Ég þekki enga stjúpu sem langar til að vera líkt við „vondu stjúpuna“, í raun er það hennar versti ótti að líkjast henni á einhvern hátt. Flestar reynum við því að verða „heimsins bestu stjúpur“ og teljum í fyrstu að það sé lítið mál enda erum við erum góðar frænkur, systur, dætur, sumar mömmur og kærustur. Hvað ætti að verða því til fyrirstöðu?

Við ætlum að gera allt rétt.  Jafnvel þó að við vitum samt ekki alveg eða bara alls ekki hvað það felur í sér. Margar halda að það hljóti að líkjast mömmuhlutverkinu, sem sumar okkar hafa heldur enga reynslu af. Við viljum skapa hina fullkomnu stjúpfjölskyldu með manninum (sumar með konunum), sem þær elska. Þegar rósrauðu skýjunum fer að fækkandi og hverdagsleikinn tekur við er lífið auðvitað lang frá því að vera „fullkomið“ eða eins og við héldum að það „ætti að vera“. En hver er fullkominn? Það er ekki til foreldri sem aldrei gerir mistök eða börn sem alltaf haga sér vel, nú eða fjölskylda sem sleppur við áföll. Það á líka við um okkur stjúpurnar, að sjálfsögðu þurfum við ekki heldur að vera fullkomnar. En trúum við því?

Lífið getur verið gott, þó það sé ekki „fullkomið“ og stundum kemur það okkur skemmtilega á óvart. Lendum við í erfiðleikum er gott að hafa ómetanlegt að hafa góðan meðspilara en hann þarf þó ekki heldur að vera fullkominn en við viljum geta treyst á hann. Þrátt fyrir að flestir geta verið þessu sammála, þá eiga margar stjúpur sem ég þekki og eru góðar vinkonur mínar erfitt með að láta af þessu kröfum um fullkomleika, um leið og þær reyna að afsanna goðsögnina um vondu stjúpuna.

Þær virðist ekki geta leyft sér að vera ófullkomnar eða bara mannlegar í „ófullkomnum“ stjúpfjölskyldum. En af hverju þurfa stjúpfjölskyldur að fullkomnar frekar en aðrar fjölskyldur? Við getum gert okkar besta og aflað okkur upplýsa þegar þörf er á, en við þurfum ekki að vera fullkomin.

Ég á móður sem er dásamleg en hún er ekki fullkomin. Ég sem stjúpmóðir get einnig leyft mér það sama, verið í senn dásamleg og ófullkomin. Foreldrum og stjúpforeldrum er leyfilegt að mistakast, þó það verði að segjast eins og er að mistök stjúpforeldrisins er oft litin alvarlegri augum en foreldrisins. Auðvitað getur manni fundist það stundum ósanngjarnt, en hver lofaðu manni alltaf sanngirni?  Þó eitthvað komi uppá, má alltaf læra eitthvað af því og kannski þroskast um leið. Krafa um fullkomnun gefur lítið pláss fyrir sálarró, lærdóm og þroska.

En með þessu vil ég segja þér kæra stjúpa , ef þú ert að gera þitt besta þá ertu á góðum stað. Mundu að við sem búum í stjúpfjölskyldum megum gera mistök rétt eins og í öðrum fjölskyldum. Okkur má leiðast og það mega verða óvæntar uppákomur. Samverustundir þurfa ekki að vera alltaf fyrir alla í einu, og í raun er það bara gott að við skiptum okkur stundum upp. Okkur hefur ekki mistekist neitt þó það séu ekki allir alltaf í góðu skapi eða sammála á heimilinu. Þú þarft ekki heldur ekki alltaf að vera upplögð ogmundu að þú  berð alls ekki ein ábyrgð á því hvernig gengur á heimilinu, þið búið þar nokkur. Þó ýmislegt komi upp á þá verður þú ekki vonda stjúpan, kannski ófullkomin stjúpa en það er líka bara í fínasta lagi. Ófullkomnar stjúpmæður geta verið dásamlegar stjúpmæður!

Aðsend grein

Nýr stjúppabbi – með ungling

Eftir Stjúpforeldrar

Að taka saman við manneskju sem á stálpaðan ungling er að mörgu leyti frábrugðið því að taka saman við manneskju sem á ungt barn. Unglingur sem er á mörkum þess að vera fullorðinn eða er orðinn það lögum samkvæmt, er eðli máls orðinn sjálfstæðari.

Hann vill ráða því hvenær hann vakar og sefur, hvenær hann er heima í mat og setur kannski fram kröfur um að tiltekið morgunkorn eða annað matarkyns eigi að vera til og þar fram eftir götunum. Vill vera barn þegar það hentar og fullorðinn þegar það hentar og getur verið fyrirferðarmikill á heimili á annan hátt en lítil börn.

Allt eru þetta mál sem margir foreldrar unglinga þekkja af eigin raun en í stjúptengslum er staðan snúnari. Nýr maki blóðforeldrisins stendur utan við uppeldið, sem á þessu stigi máls er langt komið og siðir unglingsins og venjur orðin ansi fastmótuð, en nýi makinn vill setja ýmsar reglur á sínu heimili sem unglingurinn á jafnvel ekki að venjast. Hvað á svo að segja við ungmenni sem vill fá lánaðan bíl eftir þörfum „þið ætlið hvort eð er bara að vera heima“ eða biður um uppáskrift vegna láns? Slíkt varðar fjármál stjúpforeldris með öðrum hætti en þegar ung börn eiga í hlut og stjúpforeldrið er e.t.v. óviljugra að taka slíkar áhættur en með eigin börn. Þá er oft til umræðu hvenær rétt sé að afkvæmi flytji að heiman. Er rétt að ýta við þeim sem orðin eru fullorðin eða eiga þau að hafa sína hentisemi? Eiga þau að borga heim? Sumir vilja styrkja þau til náms með því að leyfa þeim að búa á heimilinu á meðan þau eru í námi og þar fram eftir götunum.
Sé unglingurinn orðinn átján ára er hann fullorðinn í skilningi laga, en í slíkum tilfellum hafa umgengnissamningar t.d. ekkert gildi og möguleiki á því að unglingurinn fari til hins foreldrisins ef hann er óánægður eða flytji að heiman fyrr en ella. Slíkt getur eðli máls samkvæmt spillt nýja sambandinu.
Þetta eru ekki einföld mál og erfitt að ráðleggja hvernig vinna skal með þau en eins og alltaf er gott að ræða málin, bæði að parið ræði sín á milli um hvaða grunnreglur þau vilja halda í heiðri og eins getur verið gott að tengja unglinginn meira við ákvarðanatökuna t.a.m. með fjölskyldufundum.

Aðsend grein frá stjúppabba

Finnum okkur hlutverk en ofleikum ekki 

Eftir Stjúpforeldrar
  • Flestir eru sammála um að stjúpforeldri geti verið ágæt viðbót í lífi barna þegar góð tengsl ná að myndast og samstaða er um hlutverk þess á heimilinu.  Það getur jafnframt verið breytilegtfrá einum tíma til annars.Í flestum tilvikum er því ástæðulaust er stjúpforeldra þá að reyna gerast staðgengill  þess foreldris sem ekki er búsett á heimilinu. Mun vænlegra er að stuðla að góðum tengslum barna við báða foreldra sína og leyfa stjúpforeldrinu að móta sitt eigið hlutverk í samráði við maka og börn.
  •  Það vill engin koma í staðinn fyrir einhvern annan í sambandi, Við viljum fá að vera við sjálf og fullgild á okkar eigin forsendum,  hvort heldur sem um er að ræða börn eða fullorðna. Flest börn sýna  kynforeldrum sínum mikla hollustu, hvort sem við teljum þau góða eða slæma foreldra. Förum ekki í samkeppni við kynforeldra barnanna um ást þeirra og athygli. Við þurfum ekki að vera ofurstjúppabbar eða -stjúpmömmur. Verum við sjálf!
  • Verkefnið er að finna hlutverk fyrir stjúpforeldrið sem allir aðilar eru þokkalega sáttir við og gera ráð fyrir að það breytist. Lykilatriði er því  að sýna þolinmæði og sætta sig við að búa þarf til tengsl áður en „hoppað“ er í einhverskonar foreldrahlutverk gagnvart börnum.  Jafnvel þarf að horfa á þann möguleika að viðkomandi fari aldrei í neitt foreldrahlutverk gagnvart stjúpbarni sínu og líkist meira barnapíu, eða frænku eða frænda þess.
  • Það er sorglegt að vita til þess að fullorðnum sem hafa gaman af börnum og virðast vera tilvaldir stjúpforeldrar eru stundum útilokaðir eða þeim hafnað af stjúpbörnum sínum. Börnum getur fundist þau svíkja á einhvern hátt það foreldri sem ekki er á staðnum ef það sýnir stjúpforeldri sínu væntumþykju og hlýju.
  • Sýnum börnunum áhuga en kæfum þau ekki í athygli. Ef stjúpbarn krefst mikils rýmis, veitum því það, þótt það feli í sér að það hafi lítið samneyti við okkur. Við getum gert kröfu um að okkur sé sýnd kurteisi. Við getum ekki gert kröfu um að við séum elskuð.
  • Sleppum aðfinnslum og neikvæðum athugasemdum eins og unnt er. Við munum ekki sjá eftir því. Flest okkar umbera slíkt frá foreldrum, en fæst okkar frá stjúpforeldrum, einkum og sér í lagi áður en tengsl hafa skapast.
  • Sé samstaða er um hlutverkið skiptir ekki öllu máli hvert það er. Ætli fólk sér hinsvegar of mikið á skömmum tíma, getur það unnið gegn sambandi stjúpforeldris og barns sem hefur alla möguleika til að vera góð og gefandi, sé rétt að því staðið.
  •  E. Valgerði Halldórsdóttur, félags- og fjölskylduráðgjafa

Reynsla Stjúpfeðra – lokaverkefni frá 2010

Eftir Stjúpforeldrar

Íris Halla Guðmundsdóttir skrifaði BA ritgerð árið 2010  í uppeldis- og menntunarfræðum  sem heitir Stjúpfeður: upplifun og reynsla stjúpfeðra í stjúpfjölskyldum. „Þessi ritgerð fjallar um eigindlega rannsókn á upplifun stjúpfeðra í stjúpfjölskyldum.

Rannsóknin byggist á opnum viðtölum við sex stjúpfeður. Flestir stjúpfeðurnir upplifðu stjúpforeldrahlutverkið á góðan hátt að jafnaði þó svo að upp hafi komið einhver vandamál“. „Talið er mikilvægt að aðilar innan fjölskyldu myndi tilfinningatengsl, flestir stjúpfeðurnir töldu sig hafa náð að mynda góð tengsl við stjúpbörn sín. Sumum þeirra fannst skipta máli á hvaða aldursskeiði þeir komu inn í líf barnsins. Það var mismunandi hjá viðmælendunum í hversu miklum samskiptum þeir voru við líffræðilegan föður. Sumir voru í litlum sem engum samskiptum við hann en þrátt fyrir það voru engin leiðindi þar á milli. Hins vegar voru aðrir sem höfðu lent í ágreiningi og jafnvel forræðisdeilum við viðkomandi. Í þeim tilfellum fannst þeim skipta öllu máli að börnin myndu ekki lenda á milli í þessum deilum foreldranna.

Leiðbeinandi hennar var Sigurlína Davíðsdóttir Aðgangur er lokaður á Skemmunni http://hdl.handle.net/1946/4724

Hlutverk stjúpmæðra – BA rannsókn

Eftir Stjúpforeldrar

Í BA verkefni í félagsráðgjöf fjallar  Ólöf Lára Ágústsdóttir um hlutverk stjúpmæðra og þær væntingar og kröfur sem gerðar eru til þeirra. Ritgerðin byggir á niðurstöðum eigindlegrar rannsóknar þar sem djúpviðtöl voru tekin við fimm stjúpmæður. Þátttakendur rannsóknar höfðu mislanga reynslu af stjúpmæðrahlutverkinu og upplifðu hlutverk sitt á mismunandi hátt. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að hlutverkið reynist erfitt og fer það eftir þátttöku maka og þrautsegju stjúpmæðranna sjálfra hvernig tekið er á þeim vandamálum sem upp koma.

Áhrif goðsagnarinnar um vondu stjúpuna hafa einnig talsvert að segja um líðan stjúpmæðranna, hvernig þær sjá sig sem vondu stjúpuna og áhrif þess á hlutverk þeirra. Þó tengja þær sig ekki við þá stjúpu sem birtist í ævintýrunum. Stjúpurnar upplifðu sig í húshjálparhlutverki þar sem þeim er ætlað að sjá um öll helstu heimilisverk og gæta stjúpbarna sinna en á sama tíma halda ákveðinni tilfinningalegri fjarlægð frá þeim.

Umsjón með verkefninu var Dr. Sigrún Júlíusdóttir og leiðbeinandi Valgerður Halldórsdóttir

Hér má lesa ritgerðina í heild sinni  http://skemman.is/is/stream/get/1946/8120/21328/1/BA$005b1$005d.pdf

Börn í stjúpfjölskyldum þurfa samveru við foreldra

Eftir Stjúpforeldrar

“Mér finnst leiðinlegast að ég fékk aldrei að vera ein með pabba, konan hans var alltaf með okkur!”

Börn geta orðið afbrýðissöm út í stjúpforeldra sína og fundist sér vera ýtt til hliðar ef ekki er lögð sérstök rækt við samband þeirra við kynforeldrana. Nýtt samband er ekki alltaf sama gleðiefnið fyrir þau og hið ástfangna par, einkum og sér í lagi ef það hefur í för með sér að draumurinn um að mamma og pabbi taki saman aftur fjarar út og verður að engu. Kynforeldrið elur aftur á móti þá von í brjósti að þeir sem standa hjarta þess næst, börnin og nýr maki, nái vel saman og úr verði hamingjusöm fjölskylda.

Umgengni við kynforeldra

Fáir efast um þýðingu þess að börnin umgangist báða kynforeldra sína, þótt þeir hafi slitið samvistir og búi hvor í sínu lagi. Hinsvegar er það mörgum hausverkur hvernig þeirri umgengni á að vera háttað, þegar faðir eða móðir hefja nýja sambúð. Hvert er hlutverk nýja makans í uppeldinu? Við hverju má búast af börnunum? Óraunhæfar væntingar og hugmyndir um nýju fjölskylduna geta valdið sárindum og ágreiningi. Því miður hefur skort mjög á fræðslu og umræðu um sérstöðu stjúpfjölskyldunnar til þessa.

Stjúpfjölskyldur hafa alla burði til að bera til að verða uppspretta hamingju og öryggis eins og aðrar fjölskyldur, en að ýmsu þarf að huga. Mikilvægi parasambandsins er síst minna en í öðrum fjölskyldugerðum, en það er töluverður munur á því að stofna fjölskyldu þar sem annar eða báðir aðilar eiga barn eða börn úr fyrri samböndum eða þar sem þeir eru barnlausir í upphafi.

Alltaf upptekin

Ekki er óalgengt umkvörtunarefni barna að þau fái sjaldan eða aldrei tíma ein með kynforeldri sínu í umgengni, að pabbi eða mamma sé alltaf upptekin með nýjum maka sínum. “Mér finnst ég vera eins og gestur heima hjá pabba,” sagði 10 ára barn sem ræddi við mig um helgarheimsóknir til pabba síns. “Hann spyr alltaf [konuna sína] fyrst ef ég bið hann um eitthvað. Það er eins og hún ráði öllu.” Við, sem búum í stjúpfjölskyldu, verðum að verja tíma saman og læra að virða og meta hvert annað, þannig að tengsl og vonandi væntumþykja skapist smám saman. En það þarf ekki að vera á kostnað sambandsins við börnin sem var til löngu fyrir stofnun nýrrar fjölskyldu. Þeim mun ánægðari sem þau eru, því ánægjulegra verður fjölskyldulífið. “Mér finnst ókurteist gagnvart sambýliskonu minni að halda henni og börnum hennar utan við það sem við erum að gera,” svaraði faðir í viðtali við mig um hvers vegna honum þætti erfitt að verða við óskum barna sinna af fyrra sambandi um að þau færu stundum ein saman í ferðalög eða bíó.

Samráð mikilvægt

Orð eru til alls fyrst og skiptir miklu að makarnir í stjúpfjölskyldum ræði af hreinskilni saman um verkefnin og vandamálin og geri sér grein fyrir að aðrar forsendur gildi að sumu leyti um þeirra fjölskyldu en hefðbundna kjarnafjölskyldu. Í því felst m.a. að bæði stjúpforeldrar og kynforeldrar skilji þörf barna fyrir samveru með kynforeldri sínu og gefi þeim næði til að rækta tengslin, s.s. með sund- eða hjólreiðaferðum, bíltúrum þar sem hægt er að spjalla um heima og geima, heimsóknum til afa og ömmu og þannig mætti áfram telja. Samráð um þetta verður líka til þess að stjúpforeldrinu finnst því ekki alfarið “haldið utan við” það sem maki þess og börn hans eru að gera – og það styrkir sambandið. Óraunhæfar væntingar og hugmyndir um nýju fjölskylduna geta valdið sárindum og ágreiningi. Ekki er raunhæft að ætlast til að stjúpforeldri komi í stað kynforeldris, sama hversu gott og velviljað stjúpforeldrið er. Að sama skapi er tæplega hægt að ætlast til að börn uni því að fá ekki að verja tíma eitt með kynforeldri sínu. Hætt er við að kynforeldrið verði eins og milli steins og sleggju taki það sér stöðu milli þeirra sem honum eru kærastir, maka síns og barna sinna. Að skilja og læra um verkefni stjúpfjölskyldunnar auðveldar henni að halda velli. Viðurkennum sérstöðu okkar, bæði styrkleika og takmörk, – og gleymum ekki húmornum þegar allt annað bregst.

Höfundur er Valgerður Halldórsdóttir, áður birt í Uppeldi 5. tbl. 17. árg. vetur 2004

Instagram