Skip to main content
Stjúpforeldrar

Börn í stjúpfjölskyldum þurfa samveru við foreldra

“Mér finnst leiðinlegast að ég fékk aldrei að vera ein með pabba, konan hans var alltaf með okkur!”

Börn geta orðið afbrýðissöm út í stjúpforeldra sína og fundist sér vera ýtt til hliðar ef ekki er lögð sérstök rækt við samband þeirra við kynforeldrana. Nýtt samband er ekki alltaf sama gleðiefnið fyrir þau og hið ástfangna par, einkum og sér í lagi ef það hefur í för með sér að draumurinn um að mamma og pabbi taki saman aftur fjarar út og verður að engu. Kynforeldrið elur aftur á móti þá von í brjósti að þeir sem standa hjarta þess næst, börnin og nýr maki, nái vel saman og úr verði hamingjusöm fjölskylda.

Umgengni við kynforeldra

Fáir efast um þýðingu þess að börnin umgangist báða kynforeldra sína, þótt þeir hafi slitið samvistir og búi hvor í sínu lagi. Hinsvegar er það mörgum hausverkur hvernig þeirri umgengni á að vera háttað, þegar faðir eða móðir hefja nýja sambúð. Hvert er hlutverk nýja makans í uppeldinu? Við hverju má búast af börnunum? Óraunhæfar væntingar og hugmyndir um nýju fjölskylduna geta valdið sárindum og ágreiningi. Því miður hefur skort mjög á fræðslu og umræðu um sérstöðu stjúpfjölskyldunnar til þessa.

Stjúpfjölskyldur hafa alla burði til að bera til að verða uppspretta hamingju og öryggis eins og aðrar fjölskyldur, en að ýmsu þarf að huga. Mikilvægi parasambandsins er síst minna en í öðrum fjölskyldugerðum, en það er töluverður munur á því að stofna fjölskyldu þar sem annar eða báðir aðilar eiga barn eða börn úr fyrri samböndum eða þar sem þeir eru barnlausir í upphafi.

Alltaf upptekin

Ekki er óalgengt umkvörtunarefni barna að þau fái sjaldan eða aldrei tíma ein með kynforeldri sínu í umgengni, að pabbi eða mamma sé alltaf upptekin með nýjum maka sínum. “Mér finnst ég vera eins og gestur heima hjá pabba,” sagði 10 ára barn sem ræddi við mig um helgarheimsóknir til pabba síns. “Hann spyr alltaf [konuna sína] fyrst ef ég bið hann um eitthvað. Það er eins og hún ráði öllu.” Við, sem búum í stjúpfjölskyldu, verðum að verja tíma saman og læra að virða og meta hvert annað, þannig að tengsl og vonandi væntumþykja skapist smám saman. En það þarf ekki að vera á kostnað sambandsins við börnin sem var til löngu fyrir stofnun nýrrar fjölskyldu. Þeim mun ánægðari sem þau eru, því ánægjulegra verður fjölskyldulífið. “Mér finnst ókurteist gagnvart sambýliskonu minni að halda henni og börnum hennar utan við það sem við erum að gera,” svaraði faðir í viðtali við mig um hvers vegna honum þætti erfitt að verða við óskum barna sinna af fyrra sambandi um að þau færu stundum ein saman í ferðalög eða bíó.

Samráð mikilvægt

Orð eru til alls fyrst og skiptir miklu að makarnir í stjúpfjölskyldum ræði af hreinskilni saman um verkefnin og vandamálin og geri sér grein fyrir að aðrar forsendur gildi að sumu leyti um þeirra fjölskyldu en hefðbundna kjarnafjölskyldu. Í því felst m.a. að bæði stjúpforeldrar og kynforeldrar skilji þörf barna fyrir samveru með kynforeldri sínu og gefi þeim næði til að rækta tengslin, s.s. með sund- eða hjólreiðaferðum, bíltúrum þar sem hægt er að spjalla um heima og geima, heimsóknum til afa og ömmu og þannig mætti áfram telja. Samráð um þetta verður líka til þess að stjúpforeldrinu finnst því ekki alfarið “haldið utan við” það sem maki þess og börn hans eru að gera – og það styrkir sambandið. Óraunhæfar væntingar og hugmyndir um nýju fjölskylduna geta valdið sárindum og ágreiningi. Ekki er raunhæft að ætlast til að stjúpforeldri komi í stað kynforeldris, sama hversu gott og velviljað stjúpforeldrið er. Að sama skapi er tæplega hægt að ætlast til að börn uni því að fá ekki að verja tíma eitt með kynforeldri sínu. Hætt er við að kynforeldrið verði eins og milli steins og sleggju taki það sér stöðu milli þeirra sem honum eru kærastir, maka síns og barna sinna. Að skilja og læra um verkefni stjúpfjölskyldunnar auðveldar henni að halda velli. Viðurkennum sérstöðu okkar, bæði styrkleika og takmörk, – og gleymum ekki húmornum þegar allt annað bregst.

Höfundur er Valgerður Halldórsdóttir, áður birt í Uppeldi 5. tbl. 17. árg. vetur 2004

Instagram