Skip to main content
Flokkur

Fjölskylda

Börn skipta foreldrum ekki út fyrir stjúpforeldra

Eftir Fjölskylda

Óhjákvæmilegar fylgja breytingar á daglegum venjum og hefðum við skilnað. Margir upplifa missi sem fylgja brostnum draumum, minni tilfinningalegan og efnahagslegan stuðning,   aukið álag og breytt samskipti foreldra og barna.  Í ljósi þess að um 36% hjónabanda endi með skilnaði hér á landi, tíðni sambúðarslita há og að yfirgnæfandi meirihluti er kominn í ný sambönd innan fjögurra ára er í raun merkilegt hvað fjölskyldumálin fá litla athygli.

Löggjafinn hefur enn ekki séð ástæðu til að tryggja fólki ráðgjöf við skilnað eða við stofnun stjúpfjölskyldna. Það ber þó að þakka að Félag stjúpfjölskyldna hlaut styrk á dögunum frá Félags- og tryggingaráðuneytinu sem gerir því m.a. mögulegt að halda úti símaráðgjöf og vera með fræðsluerindi og námskeið sem ber heitið „Sterkari stjúpfjölskyldur“ fyrir félagsmenn sína. Áhugasamir geta fengið frekari upplýsingar á stjuptengsl.is.

Þó flestir fari í ný sambönd virðast margir ekki nægjanlega undirbúnir undir þær breytingar sem oft fylgja eins og breytt foreldrasamvinna og samskipti foreldra og barna. Í stað þess að foreldrar ákveði alla hluti þarf nú að taka tillit til fólks sem annar aðilinn veit kannski lítil eða engin deili á eða er jafnvel mjög ósáttur við. En ólíkt því þegar börn fá nýjan kennara eða íþróttaþjálfara þá þykir það ekki jafn eðlilegt að báðir foreldrar kynnast nýju stjúpforeldri barna sinna, jafnvel þó  barnið sé í umsjá þess aðra hvora viku. Séu samskipti erfið milli foreldra er jafnvel litið á allar tilraunir foreldris til að fá upplýsingar um hvernig gengur sem eftirlit með fyrrverandi  í stað umhyggju fyrir börnunum.

Oftast vekur nýi maki fyrrverandi makans eðlilega forvitni en sé stutt liðið frá sambandsslitum og fólk ekki náð að jafna sig er meiri möguleiki á að viðkomandi finni fyrir tilfinningum eins reið og sorg.  Ýmsar ástæður geta legið þar að baki en sumir voru kannski ósáttir við skilnaðinn og höfðu jafnvel vonast til að hann væri tímabundinn. Aðrir óttast að missa tengslin við börnin sín og að þau hafi ekki lengur sömu þörf fyrir þá og áður þegar þau eignast stjúpforeldri eða þau taki stjúpforeldrana fram yfir þá sjálfa.  Tilfinningin að halda sig „hreinan óþarfa“ í lífi barna sinna er vond en það fjarri sanni að halda að foreldri skipti minna máli en áður. Börn þurfa á báðum foreldrum sínum að halda, jafnvel meira en áður.

Ótti foreldra við að börn þeirra „skipti þeim út“ fyrir stjúpforeldri eða foreldri sé ekki samkeppnisfært við það er oftast ástæðulaus.  Hvorki stjúpforeldrar né foreldrar þurfa eða eiga að vera í samkeppni um börnin. Börn skipta ekki út einni foreldrafyrirmynd fyrir aðra, heldur geta þau átt margar. Ást og væntumþykja kemur ekki í takmörkuðu upplagi og börn græða á góðum samskiptum við alla aðila. Stjúpforeldrar geta verið ágæt viðbót.

 Valgerður Halldórsdóttir, félags-og fjölskylduráðgjafi

Fjölskyldustefna innan – sem utan heimilis

Eftir Fjölskylda

Þegar fólk er komið á efri ár er það gjarnan beðið um að líta yfir farin veg og segja hvað það hefði viljað gera öðruvísi í lífinu ef það fengi tækifæri til að lifa því upp á nýtt.  Ýmislegt er týnt til. Margir segjast hafa viljað ferðast meira, verið óhræddari við að standa með sjálfu sér eða hafa átt meiri tíma með fjölskyldunni og unnið minna.  Óhætt er að segja að sumir eiga fárra kosta völ og neyðast til að vinna mikið, jafnvel langtímum saman fjarri fjölskyldu sinni til að geta séð fyrir sér og sínum.  Margir Íslendingar þekkja vel þungar greiðslubyrðar af lánum.  Aðrir kjósa að helga sig vinnunni  og láta fjölskyldu og vini mæta afgangi vegna“ aðkallandi verkefna“ sem engan enda virðist taka.

Bæði ríki og mörg sveitarfélög, fyrirtæki og stofnanir hafa komið sér upp fjölskyldustefnu og sýnt vilja til að reyna koma á móts við þarfir foreldra á vinnumarkaði s.s. með samræmdum starfsdögum í leik- og grunnskóla og með sveigjanlegum vinnutíma sem er hið besta mál.

Stundum geta þó ákvarðanir þessara aðila skapað vanda fyrir fjölskyldur sem hafa þá lítið svigrúm til að ákveða hvað hentar þeim sjálfum.  Nefna má sem dæmi þegar fólk er skikkað í sumarfrí á ákveðnum tíma, sumarlokanir leikskóla og ákvarðanir íþróttafélaga, stundum án samráðs  við foreldra um að keppa eigi á Selfossi um helgina og svo á Seltjarnarnesi helgina þar á eftir.  Auðvitað er allt gott og blessað við að börn fái sumarfrí og taki þátt í íþróttum  en þurfi allir að vera í fríi á sama tíma og af hverju þarf allar þessar keppnir, sérstaklega fyrir yngri deildirnar?  Eins og með annað finnst sumum þessar keppnir bæði ómissandi og bráðskemmtilegar og sumarfrístíminn hentar þeim vel sem og sumarlokanir leikskóla.  Aðrir hafa minni áhuga og langar að gera eitthvað allt annað með börnunum um helgar eða taka frí á öðrum tíma með þeim,  en láta sig hafa það að taka þátt og þegja þunnu hljóð af ótta við að vera álitnir fremur lélegir foreldrar.

Flestir foreldrar vera með börnum sínum í sumarfríi og hvetja þau áfram í íþróttum eða í tómstundum en vilja hinsvegar fá að hafa eitthvað um það að segja hvar og hvenær. Það er ekki sjálfgefið að foreldrar, stjúpforeldrar eða fósturforeldrar geti fengið sumarfrí eða mætt á mót á þeim tíma sem bæjarstjórn eða íþróttafélagið ákveður hverju sinni.  Fjölskyldur þurfa að geta átt meira val um hvernig þær ráðstafa tíma sínum og peningum. Með reglulegum könnunum er hægt að  komast að hvað hentar – og hvernig er hægt að koma á móts við ólíkar þarfir fólks.   Ólíklegt er að hægt sé að koma á móts við þær allar – en það er gott að geta átt val og taka þann kost sem hentar best.

Stundum virðist okkur líka skorta fjölskylduvæna stefnu á heimilinu sem gerir ráð fyrir óskiptri athygli fjölskyldumeðlima og þar er lítið við aðra að sakast nema þá  okkur sjálf.  Víða eru mörkin milli einkalífs og starfs  óljós. Við getum látið sem við séum að taka þátt í samræðum eða að horfa á sjónvarpið með fjölskyldunni með því að muldra reglulega „aha“  og brosað en verið í raun andlega fjarverandi – á kafi í  excelskjalinu eða verið að svara „aðkallandi“ tölvupóstum.  Fólk getur líka verið andlega fjarverandi á heimili þó það sé ekki á kafi í vinnu en auðvelt er að týna sér í feisbúkk, kandíkruss eða tölvuleikjum vanti sjálfsstjórn.

Samkeppni barna um óskipta athygli foreldra og  foreldra um athygli barna sem og maka getur því stundum verið hörð vanti stefnu á heimilinu um tölvunotkun.   Mörgum hefur reynst vel að ákveða saman  í fjölskyldunni hve miklum tíma fólk  ver í  tölvunni og þá hvar og hvenær. Svo getur verið hjálplegt að hver og einn segi til um hvernig hann vilji láta minna sig á  – hafi hann gleymt sér.   Í stað þess að líta á umkvartanir sem nöldur sem vert er að reyna leiða hjá sér –  má líta á þær sem tækifæri til umbóta. Upphaf að einhverju nýju.   Fjölskyldustefna er því ekki bara eitthvað sem aðrir eiga að sjá um – hún er líka í höndum okkar sjálfra.

Valgerður Halldórsdóttir félags- og fjölskylduráðgjafi

Hvað þarf að hafa í huga í nýjum stjúpfjölskyldum – Viðtal – MBL.

Eftir Fjölskylda

„Ég hef reynt margar áskoranir stjúpfjölskyldna á eigin skinni bæði sem uppkomið stjúpbarn og stúpmóðir. Ég hélt dagbók þegar ég varð stjúpa á sínum tíma og þegar ég lít til baka sé ég að vandamálin sem ég og mín fjölskylda var að glíma við voru fremur hversdagsleg fyrir stjúpfjölskyldur, en en þau reyndu verulega á okkur á þessum tíma þar sem við kunnum ekki að takast á við þau“ segir Valgerður Halldórsdóttir, fjölskyldu- og félagsráðgjafi, sem í dag veitir stjúpfjölskyldum ráðgjöf. Hún er með heimasíðuna stjuptengsl.is

Valgerður segir að þegar kemur að því að stofna stjúpfjölskyldu skipti mestu máli að taka því rólega, kynnast vel og ná tengslum, Hún segir jafnframt að mikilvægt sé að rækta tengslin við eigin börn, auk þess að gefa sér tíma til að kynnast stjúpbörnunum vel. En skyldi hún luma á einhverjum ráðum sem geta einfaldað fólki lífið?

„Fólk heldur gjarnan að þegar það er að búa til fjölskyldu þurfi það að eyða öllum stundum saman sem hópur. Það er ekki vænleg leið þegar mynda á tengsl við hvern og einn og kynnast vel. Maður á mann samskipti mestu máli til að kynnast. Fjölskyldan þarf því bæði að eyða tíma saman, og gefa sér tíma fyrir hvern og einn Parið verður líka að gefa sér tíma fyrir sambandið,“ segir Valgerður og bætir við að þegar vandamál geri vart við sig komi oft upp úr dúrnum að fólk þekkist ekki nægilega vel.

„Það er nokkuð algengt að börn hafa aldrei eytt tíma með stjúpforeldrum sínum þó fólk er orðið meðvitaðara um mikilvægi þess eða að foreldrar hafi ekki gefið sér tíma með börnunum sínum án maka eða stjúpsystkina. Sum börn upplifa því mikla sorg og missi sem stundum er mistúlkað sem frekja og stjórnsemi. Jafnvel að hitt foreldrið sé að reyna stjórna og hindra umgengni þegar þau viljia ekki fara á milli heimila þar sem þeim finnst ekki tilheyra öðru heimilinu. Valgerður segir ennfremur að fólk átti sig ekki alltaf á því hvernig sé best að undirbúa tilvonandi sambúð.

„Sem betur fer gefa margir sér góðan tíma til þess að kynnast áður  en þeir kynna börn til sögunnar. Margir átta sig oft ekki á þeim sérstöku verkefnum sem stúpfjölskyldr þurfa að takast á við umfram aðrar fjölskyldur. Það getur því reynt verulega á í fyrstu. Í stað þess að skilja að vandamálin sem tengjast sérstöðu stjúpfjölskyldna eins og upplifað stjórnleysi og að vera útundan, óvissa um hlutverk og flækjur í agamálum eru þau persónugerð. Hætta er á t.d. að barn sem fer á milli heimila eða sem er í engri umgengni lendi í hlutverki blórabögguls og kennt er um ástandið, eða stjúpforeldri sem tekur allt of mikið að sér, jafnvel foreldri úti í bæ . Þetta eru allt vandamál sem er vel gerlegt að leysa, en fólk þarf að skilja hvernig fjölskyldan virkar,“ segir Valgerður og bætir við að algengasta umkvörtunarefni barna sé einmitt að hlutirnir gangi of hratt fyrir sig.

„Börnunum getur líkað ágætlega við stjúpforeldri sitt, en samt upplifað ákveðinn missi. Foreldrar gleyma gjarnan að þegar þeir hafa verið einhleypir í einhvern tíma fara þeir að taka allskyns ákvarðanir með börnunum sínum. Svo verða þeir ástfangnir og fókusinn fer allt annað. Þá er hætt við að foreldrið gleymi sér og hætti að sinna hlutum sem það og barnið gerðu saman áður. Svo skilja foreldrarnir ekkert í því af hverju börnin eru svona fúl.“

Börn þurfa mörk og ramma
Valgerður segir að margar þær áskoranir sem stjúpfjölskyldur þurfa að kljást við stafi af venjum sem foreldrar tileinkuðu sér þegar þeir voru einhleypir.

„Þeir fara að taka allskyns ákvarðanir með börnunum sínum, eða sleppa því að setja þeim heilbrigð mörk vegna þess þeir finna til með þeim eftir skilnaðinn. Stundum þjást foreldrar af samviskubiti, en stundum eru þeir eðlilega bara þreyttir. Börnin þurfa nefnilega bæði mörk og ramma. Líka þegar foreldrarnir eru einhleypir. Þegar fólk fer síðan aftur í sambúð vill nýr maki til dæmis ekki þurfa að eiga samráð við ungt barn um hvað á að vera í kvöldmatinn,“ segir Valgerður og bætir við að agamálin geti reynst snúin.

„Stjúpforeldrar, og þá kannski sérstaklega stjúpmæður, upplifa gjarnan mikinn vanmátt og stjórnleysi í lífinu. Börnin eiga það til að taka völdin því foreldrarnir eru óöruggir í hlutverki sínu. Auk þess eru foreldri og stjúpforeldri ekki alltaf sammála um hvað telst vera eðlilegur agi. Til að mynda fer gjarnan óskaplega í taugarnar á stjúpforeldrinu þegar barn er látið komast upp með ókurteisi, það getur reynst erfitt að búa til tengsl þegar kureisi skortir í samskipti. Gott skipulag er einnig hjálplegt. Það eralgengt að foreldrar að vinna mikið þá daga sem barnið er hjá hinu foreldrinu En hætt síðan snemma þá daga sem börnin eru á heimilinu. Þá getur stjúpforeldrið upplifað að það sé aldrei timi fyrir það eða sambandið. Pör þurfa því að læra að tileinka sér jafnvægi og gefa sér tíma með hvort öðru,“ segir Valgerður, en lumar hún á góðum ráðum þegar kemur að samskiptum við stjúpbörn. Er eitthvað sem stjúpforeldrar ættu alls ekki að gera?

„Það er ekki hægt að gea kröfu um ást en fólk ætti fyrst og fremst að sýna barninu kurteisi og virðingu. Líta á sig sem fullorðinn vin og ekki rjúka á í agamálin þó það telji þörf á því. Það þarf að vinna hlutina á ákveðinn hátt og gagnlegt að koma á námskeið og læra um stjúptengsl. Fólk ætti svo auðvitað ekki að tala illa um hitt foreldrið í eyru barnsins. Margir stjúpforeldrar, sérstaklega stjúpmæður, hafa miklar áhyggjur af áliti annarra. Sumir bíða einnig eftir viðurkenningu frá börnum eða foreldrum úti í bæ. Það er þó fyrst og fremst makinn sem á að sýna stjúpforeldrinu þakklæti fyrir framlag sitt og mikilvægt að muna það. ,“ segir Valgerður.

Ekki lengur feimnismál
Valgerður segir að stjúpforeldrar í dag séu ófeimnir við að leita sér aðstoðar ef hlutirnir gangi ekki sem skyldi.
„Það er afar skemmtilegt að vinna með stjúpfjölskyldum vegna þess að það er svo mikil von í þeim. Í dag finnst mér flestir tilbúnir að takast á við vandann, frekar en að hlaupast frá honum. Það þykir nefnilega ekkert feimnismál lengur að leita sér ráðgjafar,“ segir Valgerður.
„Auðvitað er þetta mismikil vinna, en stundum þarf að vinda ofan af ranghugmyndum sem vinna gegn fjölskyldunni. Yfirleitt gengur það þó vel fái maður góðan tíma. Það geta þó að sjálfsögðu komið upp dæmi sem ekki er hægt að leysa. Stundum hafa mjög harkalegir atburðir átt sér stað í fjölskyldulífinu, og erfitt að vinda ofan af þeim Oftast er hægt að vinna með tengls og bæta samskipti. Við verðum líka að vera raunsæ og læra að bregðast við á uppbyggilega máta. Stjúpfjölskyldur geta verið jafn góðar og gefandi og aðrar fjölskyldur ef við vitum hvernig á að bregðast við áskorunum hennar.

Eru mínir nánustu þeir sömu og barna minna?

Eftir Fjölskylda

Jól og áramót er spennandi tími fyrir flesta. Skipts er á litríkum pökkun,  farið er í heimsóknir og matarboð til vina og  ættingja, flugeldar sprengdir í loft upp  þegar gamla árið kvatt og nýju ári fagnað.  Fyrir aðra fylgja honum blendnar tilfinningar, jafnvel kvíði og sorg.  Tómi stóllinn sem fyrrverandi maki átti  við  matarborðið minnir á  brostna drauma og fjarveru foreldris.  Skiptir ekki öllu máli hver áttir frumkvæðið að skilnaðnum,  hann er sársaukafullur fyrir marga.

Með tímanum ná  hinsvegar flestir að aðlagast breyttum aðstæðum og lífið fær nýjan lit. Í tóma stólinn er sestur nýr maki, stundum með börn af fyrra sambandi sem kallar á nýtt skipulag  og sveigjanleika.  Gera þarf ráð fyrir að fyrrverandi mökum og stjúpforeldrum í skipulagningu hátíða sem fólk er mistilbúið til eða eins og ein mamman sagði „Hvað kemur mér það við hvernig minn fyrrverandi og hans nýja hafa það um jólin?  Ég ætla bara að halda mín jól!“.

Okkur kemur í sjálfu sér ekki við hvernig fyrrverandi makar halda jól frekar en hvernig nágrannar okkar halda jól,  en  það skipir börn miklu máli að eiga átakalaus jól með sínum nánustu.  Þegar börn eiga foreldra á tveimur heimilum og kannski stjúpforeldra á þeim báðum er nánast öruggt að þau skilgreina fjölskyldu sína á annan hátt en foreldar þeirra.  Fyrrverandi makar skilgreina sjaldnast hvort annað sem hluta af fjölskyldu sinni en þeir tilheyra oftast báðir fjölskyldum sameiginlegra barna,  sem og stjúpforeldar barnanna, hálfsystkini og stundum stjúpsystkini. Fólk sem annað foreldrið veit jafnvel lítil eða engin deili á.  Það er þó ekkert gefið í þessum efnum frekar en annað.  Stundum,  ef engin eða lítil samskipti eru á milli stjúpforeldra og barna eða  þau ekki góð, eru meiri líkur á að viðkomandi teljist utan fjölskyldunnar en ella.

Viðhorf barns og þarfir geta farið sama með þörfum og viðhorfum foreldris en þær þurfa hinsvegar ekki að gera það.  Það er því ekki víst að barnið sé jafn spennt að ganga inn í hefðir  stjúpforeldrisins og foreldri þess,  eða segja skilið við stjúpforeldri  sem  foreldrið hefur sagt skilið við.  Í slíkum aðstæðum þarf að vera vilji til að finna lausn sem hentar öllum, ekki bara sumum.

Stundum er óskað eftir nærveru barna á fleirum en einu stað á sama tíma. Það væri lúxus ef hægt væri klóna börnin. Þannig gæti  Júlía,  verið með mömmu sinni hjá nýju tengdaforeldrum hennar  á jóladag og verið á „sama tíma“ með föður sínum  og stjúpu hjá föðurforeldrum í Grafarvogi , já eða á Akureyri hjá stjúpafa -og ömmu.  Þá gæti hún líka verið á „sama tíma“ með Helga,  sammæðra hálfbróður sínum hjá föður hans í Hafnarfirði,  sem hún hefur alltaf litið á sem föður sinn. Mamma hennar talaði líka alltaf um hann sem pabba hennar, þangað til þau skildu síðastliðið vor.  Nú heitir hann „Gummi pabbi Helga“ hjá mömmu hennar.

Þangað til við höfum náð að þróa þá tækni betur að klóna fólk þurfa foreldrar,  sem og stjúpforeldrar séu þeir til staðar, að komast að einhverju samkomulagi um veru barna um hátíðir. Það er ágætt að hafa það á bak við eyrað í skipulagningunni að börn þurfa hvíld, að í árinu eru 365 dagar og ekkert sem bannar að halda þá alla hátíðlega ef við viljum.  Séum við eitthvað illa upplögð má biðja vini og vandamenn um aðstoð að koma börnum á milli heimila,  slappað af í staðinn með konfekt og kertaljós.   Börn telja ekki  daga og mínútur nema helstu þegar vona er á jólasveininum,  þau kunna hinsvegar vel að meta góð samskipti foreldra númer eitt, tvö og þrjú.   Skipta fjölskyldugerðir þar engu máli. Veljum frið –  og eigum öll gleðileg  jól!

Valgerður Halldórsdóttir, félags- og fjölskylduráðgjafi

Bréf frá föður – umgengni

Eftir Fjölskylda

Ég er á leiðinni að sækja dóttur mína og er með kvíðahnút í maganum. Ég get ekki talað um þessi mál við konuna mína. Hún myndi strax segja að ég væri að stilla henni upp í hlutverk vondu stjúpunnar. Það gerir hún vanalega.

Dóttir mín og ég ræðum þetta líka sjaldan, hún er orðvör þegar ég geri það. Vill ekki staldra við þetta efni. Ég skil hana vel. Hún reynir að spila eins vel og hún getur úr spilunum sem hún er með á hendi. Hún vill ekki lenda á milli, veit ekki hvað ég gæti misst út úr mér í rifrildi. Vill ekki hætta á að fleiri neikvæðir straumar beinist að sér. Hún og ég vitum samt bæði hvernig andrúmsloftið er.
Ekki er víst að henni verði heilsað þegar heim kemur og ef það gerist þá verður það án áhuga og líklega í mæðutón. Sennilega fær hún strax aðfinnslur fyrir að leggja töskuna eða skóna á rangan stað. Það sama fer reyndar í taugarnar á konunni minni þegar hennar börn eiga í hlut en ekki á sama hátt. Sama gerist ef hún klárar ekki mjólkina úr skálinni með mjólkurkorninu og þannig mætti lengi telja.

Hún fær alltaf skilaboð um að hún tilheyri okkur ekki þótt aldrei sé það sagt berum orðum. Hún fær aldrei að eiga sitt rými í friði. Alltaf þykir sjálfgefið að hennar rúm sé lagt undir ef ættingjar utan af landi beiðast gistingar. Alltaf þykir sjálfsagt að önnur börn vaði í dótið hennar þótt hún sé ekki heima. Aldrei er því fagnað þegar hún kemur með skraut eða myndir úr skólanum. Alltaf eru verstu árekstrarnir á heimilinu þegar hún er hjá okkur.

Oft getur hún ekki sofnað og þá reyni ég að líta til hennar svo lítið beri á. Ég ræði þetta ekki við konuna mína. Ekki heldur þegar ég þarf að fara eitthvað á kvöldin sem ég reyni eins og ég get að koma mér hjá ef ég get. Yfirleitt tek ég hana þá með. Ég þarf reyndar ekki að minnast á það við dóttur mína, hún er alltaf á nálum ef hún sér fararsnið á mér. Ef ég get ekki haft hana með þá fæ ég oftast mömmu eða einhvern annan til að passa hana fyrir mig. Stundum skipti ég um dag við mömmu hennar undir því yfirskini að eitthvað skemmtilegt sé í vændum þann daginn. Bý þá til eitthvað leikrit í kringum það. Ég og dóttir mín ræðum hinar raunverulegu ástæður ekki og hún tekur þátt í leikritinu. Það sem hún er hinsvegar ekki jafn meðvituð um og ég er það að við erum ekki á jafnræðisgrundvelli í þessu leikriti. Ábyrgðin er mín.

Aðsend grein.

Eru börn konunnar mikilvægari en dóttir mín?

Eftir Fjölskylda

„Ég er með kvíðahnút í maganum í hvert sinni sem ég sæki dóttur mína.  Það er ekki út af mömmu hennar, heldur eiginkonu minni. Ég veit aldrei hvaða móttökur dóttirin fær.  Stundum heilsar konan mín henni ekki og ef það gerist er það í áhugalausum mæðutón.  Aðfinnslur um hvar hún setur töskuna og skóna fylgja venjulega á eftir. Hún fær líka að heyra það ef hún klárar ekki mjólkina úr skálinni með mjólkurkorninu, það fá stjúpbörnin mín líka en umburðalyndi móður þeirra er meira og tónninn annar.

Dóttir mín fær ósjaldan skilaboð frá konunni að hún tilheyri ekki fjölskyldunni,  þó hún  orði það ekki. Henni þykir til dæmis sjálfsagt að ættingjar utan að landi fái afnot af herbergi dóttur minnar,  hvort sem hún er hjá okkur eða ekki. Þegar ég mótmæli,  fæ ég að heyra að dóttir mín „búi ekki hjá okkur“ hún sé bara á heimilinu nokkra daga í mánuði. Hún sé meira eins og gestur en heimilismeðlimur.   Ég er þessu algerlega ósammála, auðvitað á dóttir mín heima hjá okkur líka.  Ég finn reiðina, já og sorgina,  krauma í mér.

Sjaldan eru myndir eftir hana eða skraut sem hún kemur með úr skólanum sett á ísskápinn eins og myndir hinna barnanna og sömu reglur virðast ekki gilda um dótið hennar  og þeirra. Þau fá að vaða í  það þegar hún er ekki heima,  en eigi að spyrja hvort annað vilji þau fá eitthvað lánað.  Ósjaldan eru geisladiskarnir hennar ekki á sínum stað þegar hún kemur til okkar. Finn ég að hún er sár en segir ekki neitt.

Þegar hún getur ekki sofnað og lít ég til hennar, en svo lítið beri á. Konan mín segir hana ekki vera smábarn og hún eigi ekki að stýra heimilislífinu þegar hún kemur. Rétt eins og tilvist dóttur minnar eigi ekki að hafa neitt vægi í mínu lífi. Hún er líka sífellt með athugasemdir á mig sem föður en bara sem föður hennar,  en ekki hinna barnanna á heimilinu.  Ekki veit ég hvað konan mín segi ef ég gerði það sama við hana.

Ég bið ekki konunni mína fyrir hana þegar ég þarf að fara eitthvað á kvöldin.  Dóttirin finnur spennuna á heimilinu og er á nálum þegar hún sér eitthvað farasnið á mér. Ég reyni því oftast að taka hana með mér eða fá pössun fyrir hana hjá mömmu. Það er heldur ekki  jafn sjálfsagt að dóttir mín komi með í sumarfríin, eins og hennar börn.

Ég er hundleiður á því að það þurfi allt að fara í háaloft á heimilinu þurfi að ræða eða gera eitthvað fyrir dóttur mína,  en það er allt svo sjálfsagt sem snýr að hennar börnum. Framkoma konunnar minnar er farin að bitna á samskiptum mínum við hana og hennar börn sem annars hafa verið mjög góð. Mér líður eins og ég sé í framhjáhaldi með dóttur minni þar sem ég fer á bak við konuna mína með ýmislegt er varða hana. Það versta er að er að ég get ekki talað um þessi mál við konuna mína án þess að allt fari í háa loft og hún segir  „Á nú að gera mig að vondu stjúpunni?“

Einmanna faðir og „vonda stjúpan“ er ekki góð blanda,  hvorki fyrir fullorðna né börn sem eru eins og barómet á líðan foreldra.  Allar fjölskyldur eiga möguleika á að lifa góðu lífi, óháð fjölskyldugerð. Sumar þurfa meiri upplýsingar og stuðning en aðrar þegar tekst er á við verkefni sem þær þekkja ekki eða eru illa undur búnar, og stundum frá fagfólki.  Að hlaupa í vörn,  ræða ekki málin, draga sig úr úr samskiptum, fara í felur, verða enn gagnrýnni og neikvæðari er ekki vænleg leið til að byggja upp gott fjölskyldulíf. Í vel starfhæfum fjölskyldum er tekið á vandamálunum fljótt, í stað þess að leyfa þeim að safnast upp. Það er ekki vandamál að upp komi ágreiningur heldur ef ekki er á honum tekið.  Hver og einn þarf axli sína ábyrgð á stöðunni og hafa í huga –  að öll börn eru mikilvæg!

Valgerður Halldórsdóttir, félags- og fjölskylduráðgjafi,  byggt á „Bréfi frá föður“ á stjuptengsl.is

 

 

Kostnaðarsöm sektarkennd

Eftir Fjölskylda

Konan mín sýnir því lítinn skilning þegar strákurinn er hjá okkur og segir mig láta allt eftir honum. Kannski er eitthvað til í því  en hann er nú bara stuttan tíma í einu hjá okkur og ég vil að honum líði vel.

Það hefur ekki talist góð uppeldisaðferð hjá foreldrum að annað bannar og hitt leyfir. Aðferðin verður ekkert betri þó stjúpforeldri og foreldri sjái um uppeldið. Jafnvel skaðlegri,  sé ætlunin að skapa samhenta stjúpfjölskyldu. Stjúpforeldrar hafa yfirleitt ekki sömu stöðu í augum barna og foreldrar, þess vegna geta orð þeirra vegið  léttar reyni þeir að banna það sem foreldrar leyfa.

Sjaldan sjá börn ástæðu til að setja diskinn í uppþvottavélina eða  þakka sérstaklega fyrir sig ef foreldri skeytir ekki um að  kenna þeim almenna kurteisi og reglur heimilisins. Það getur vel verið að barni þyki það ákjósanleg staða í einhver tíma að um það gilda aðrar reglur, en til lengdar hefur að áhrif á aðlögun þess í stjúpfjölskyldunni.   Sérstaklega ef þetta sama foreldri  er tilbúið til að fylgja reglunum af hörku gagnvart öðrum fjölskyldumeðlimum.

Er það umhugsunarvert að að sjá að mismunun gagnvart börnum í stjúpfjölskyldum virðist vera nokkuð algeng.  Í könnun sem m.a. var lögð fyrir félagsmenn í Félagi stjúpfjölskyldna voru 45% svarenda  mjög/sammála fullyrðingunni „Það gilda aðrar reglur um börn maka míns á heimilinu en mín börn (getur líka átt við barnabörn)“  og 38% voru mjög/sammála fullyrðingunni „Mér finnst maki minn gera meiri kröfur til minna barna en sinna eigin barna (getur líka átt við um barnabörn).

Það bætir ekki ástandið ef foreldri setur ofan í við stjúpforeldri sem reynir að fylgja eftir „samþykktum“ heimilisreglum eða  afsakar ókurteisi barnsins með vanlíðan eða það komi  svo sjaldan. Það þurfi  því ekki að gera svona mikið mál úr hlutunum. Hætta er á að heimilismenn  skiptist á svipstundu upp í tvær andstæðar fylkingar með tilheyrandi pirringi og vonbrigðum.  Í sumum tilvikum beinist pirringur stjúpforeldrisins gagnvart barninu sem talið er bera ábyrgð á líðan stjúpforeldrisins og aðstæðunum sem „það“ skapar í hvert sinn sem það kemur. Í stað þess að horfa á hegðun foreldrisins og samspil parsins.

Ýmsar ástæður geta verið fyrir því að uppalendur í stjúpfjölskyldum eru ekki samstíga en stundum er það ekkert flóknara en svo að  heimilisreglur hafa aldrei verið ræddar. Nú svo leggur fólk áherslu á mismunandi hluti í uppeldinu og það getur tekið tíma að finna út hvaða reglur eigi að hafa að leiðarljósi á heimilinu. Það getur verið smekksatriði hvort nauðsynlegt sé að börnin gangi alltaf frá leikföngum eftir notkun í þar til gerðar hillur eða það sé látið duga að þau lagi til í herbergjum sínum einu sinnu í viku.  Að kunna þakka fyrir sig,  telst hinsvegar sjaldnast smekksatriði.

Flestir foreldrar, óháð hjúskaparstöðu eða fjölskyldugerð,  finna öðru hvoru til  sektarkenndar gagnvart börnum sínum og telja sig geta gert betur. Við skilnað og þegar farið er ný sambönd finna margir foreldrar mjög sterkt fyrir henni,  meðvitaðir um þau áhrif sem breytingarnar geta haft  á börn þeirra.Óánægja í svip barnanna ristir því djúpt í hjörtu sumra foreldra sem reyna hvað þeir geta til að má hana af og fá bros í hennar stað.  Margir verða því  eftirlátsamir á gjafir og peninga meira en góðu hófi gegnir eða horfa fram hjá ókurteisi og heimilisreglur látna fjúka út um gluggann af ótta við valda enn meiri leiðindum í lífi barna sinna. Oft umbuna foreldrar, venjulega ómeðvitað, slæma hegðun barna sinna í stað þess að veita þeim öruggi sem felst í kærleiksríkum reglum.

Láti stjúpforeldrið í ljós óánægju sína er það í sumum tilvikum jafnvel vænt um að þola ekki barnið. Í viðleitni sinni  að „vernda“ barnið gagnvart  „slíku“ stjúpforeldri getur foreldrið   orðið enn eftirgefanlegra.Sé þetta ástand viðvarandi er hætta á miklum pirringi og reiði á heimilinu. Það þarf  því ekki að undra að í sumum tilvikum er koma barnsins verði kvíðvænleg.

Óhófleg eftirlátssemi hvort sem það er í fjármálum eða á öðum sviðum er kostnaðarsöm og gerir hvorki börnum né sambandinu gott.  Flest jafna sig á breytingum. Sektarkenndina má nýta til góðs , með því læra nýja færni og  styrkja sig i foreldrahlutverkinu – en stundum er líka full ástæða til að spyrja sig: Hvað myndi ég gera ef hún væri ekki til staðar?“

 

Valgerður Halldórsdóttir, félags- og fjölskylduráðgjafi, sáttamaður

Tengslamyndun tekur tíma

Eftir Fjölskylda

„Við erum búin að búa saman í þrjá mánuði og mér finnst ekkert ganga að kynnst dóttur hans. Ég eiginlega veit ekki hvað ég get gert meira“

Flestir eru meðvitaðir um mikilvægi góðra tengsla  fyrir almenna velferð og andlegt heilbrigði. Það er því ekki að ástæðulausu að sérstaklega er fylgst með nýbökuðum  mæðrum í því skyni að kanna hvort tengslamyndun  við barnið gangi eðlilega fyrir sig og gripið er inn í ef ástæða þykir til.

Í stjúpfjölskyldum þarf sérstaklega að vinna í því að búa til tengsl milli stjúpforeldris og barns svo stuðla megi að góðri líðan og heilbrigði fjölskyldunnar. Finna þarf hlutverk fyrir stjúpforeldri í lífi barns sem hefur kannski enga sérstaka þörf fyrir það, en getur verið góð viðbót í lífi þess þegar vel tekst til. Flestir stjúpforeldar vilja til tengjast börnunum. Það getur því verulega reynt á takist ekki eins vel til óskað er eða ef stjúpforeldrið upplifir höfnun af hálfu barnsins. Hætta er á að hlutirnir  vindi upp á sig og stjúpforeldrið jafnvel hætti að reyna tengjast barninu, taki fólk framkomu þess of persónulega.

En það er ýmislegt sem getur haft áhrif á að allt gangi ekki alveg að óskum í byrjun.  En bæði börn og fullorðnir eru með fortíð og töluverður munur á að mæta inn í ”mitt leikrit” eða taka þátt í að semja  það.  Ef  stutt er liðið frá skilnaði  eru börn oft ekki tilbúin til að kynnast stjúpforeldri , jafnvel þó það leggi sig af alúð við að reyna tengjast því.  Stundum eru börn afbrýðissöm út í stjúpforeldra sína sem þeim finnst fá „alla“ athygli foreldrisins og halda jafnvel  þau ekki eins mikilvæg í augum foreldrisins og áður.  En er algengt umkvörtunarefni barna í stjúpfjölskyldum er að þau fái  ekki  tíma ein með foreldri sínu eins og áður –   og oft er það rétt. Samveran er hinsvegar mikilvæg bæði til rækta tengsl og takast á við missinn sem fylgir skilnaði og breytingum sem er hluti af lífinu í stjúpfjölskyldunni.  Jafnvel þó þær séu taldar af hinu góða og börn séu mjög sátt við stjúpforeldra sína.

Í sumum tilvikum vantar líka upp á tengsl foreldris og barns séu náin. Stundum endurspeglast sá skortur í því að foreldrið treystir sér illa til að vera eitt með barninu og vill að stjúpforeldrið sé til staðar öllum stundum sem barnið er á heimilinu. Þó það geti létt á streitunni  í einhvern tíma hjálpar það ekki til við tengslamyndin  til lengri tíma. Við þurfum að eiga maður á mann samskipti bæði til að rækta tengsl og skapa ný. Það er líka hætta á að stjúpforeldrið upplifað aðstæður sínar íþyngjandi fái það of stóran skammt af samveru við barnið í einu í stað þess að fá smá saman að kynnast því og tengjast á eign forsendum.

Tengslamyndun er flókið fyrirbæri og ekki er hægt að gera ráð fyrir að tengslamyndun í stjúpfjölskyldum sé jafn einföld og að laga „skyndikaffi“ eða „ Neskaffi“ sem krefst ekki mikillar hugsunar, ein skeið í bollann og heitt vatn út í og þá er það komið.

Vinna þarf í því að búa til tengsl milli stjúpforeldris og barns þar sem  þau verða ekki til við það eitt að stjúpforeldrið taki upp samband við foreldri barnsins eða deila saman heimili einhverja daga í mánuði.   Hvorki börn né fullorðnir eru  einsleitir hópar. Finna þarf út hvað hverjum og einum hentar til að útkoman verði eins og best verður á kosið.   Stjúpforeldrið  þarf að finna smám saman út hvernig tengjast má barninu og hjálpar mikið að foreldrið sé styðjandi og leiðbeini ef á þarf að halda. Það dregur úr kvíða barna að aðrir fjölskyldumeðlimir séu til staðar til að byrja með. Þó að mikilvægt sé fyrir tengsl stjúpforeldris og barns að þeim sé gefinn tími saman án annarra,  meta þarf aðstæður hvenær það er tímabært.  Hæfilegur áhugi og  reyna að vera vakandi fyrir því hvað vekur áhuga stjúpbarnsins hjálpar.  Til að vera áhugaverð þurfum við að sýna áhuga. Góður hlutir gerast hægt – og  á það sérstaklega vel við í stjúpfjölskyldum. Nú svo má alltaf gera meira af því sem vel gengur.

 

Valgerður Halldórsdóttir, félags- og fjölskylduráðgjafi, MA

 

Glíma stjúpur við „fæðingarþunglyndi“

Eftir Fjölskylda

Erlendar rannsóknir benda til að stjúpmæður geta upplifað mikla streitu í uppeldishlutverki sínu og að þær séu vanmetnar bæði af öðrum fjölskyldumeðlimun þ.e. stjúpbörnum og maka, og samfélaginu í heild.

 

Flestar stjúpmæður fara í nýtt samband með góðum hug og vilja til að láta hlutina ganga með börnin, stundum of langt og á þeirra eigin kostnað. Erlendar rannsóknir benda til að stjúpmæður geta upplifað mikla streitu í uppeldishlutverki sínu og að þær séu vanmetnar bæði af öðrum fjölskyldumeðlimun þ.e. stjúpbörnum og maka, og samfélaginu í heild.fylgir ákveðin hætta á þunglyndi og margar eru einmanna í þessum mjög svo algengum sporum en um 75-80% fólks fer í ný sambönd eftir skilnað. Þó þær glími ekki við fæðingarþunglyndi í þeirri merkingu orðsins en full ástæða er til að rannsaka betur hvað það er sem veldur. Líðan stjúpmæðra bitnar ekki eingöngu á þeim sjálfum heldur benda rannsóknir til að tengsl eru á milli andlegrar heilsu umönnunaraðila eins og stjúpmæðra og andlegrar heilsu barna. Það er því mikilvægt að stjúpmæður taki ekki meira að sér en þær raunverulega treysta sér til þegar kemur að stjúpbörnunum að ótta t.d. við að vera“leiðinlegar“.

 

Félagslegur stuðningur er ein besta vörnin gegn streitu og þunglyndi. Samfélagið hefur hinsvegar og því miður einkennst af hálfgerðri stjúpblindu þar sem ekki er komið auga á stjúptengsl eða gert ráð fyrir þeim í rannsóknum eða stefnumótun í samfélaginu né miklum stuðningi. Jafnvel ekki hjá stjúpfjölskyldunum sjálfum og fundnar eru til ýmsar skýringar á því af hverju viðkomandi tilheyrir ekki stjúpfjölskyldu eins og að börnin búi ekki hjá viðkomandi að staðaldri, þau hafi ekki sama lögheimili eða þau séu orðin svo fullorðin. En stjúpfjölskylda er skilgreind sem fjölskylda þar sem annar eða báðir aðilar koma með barn eða börn úr öðrum samböndum.

Skortur á viðurkenningu

Þessi skortur á viðurkenningu er víða og sumri reyna að fela það að þeir búa í stjúpfjölskyldum. Sumir ganga jafnvel svo langt að segja að viðkomandi stjúpfaðir eða stjúpmóðir sé meira eins og pabbi eða mamma þar sem viðkomandi er svo góð/ur! Rétt eins og stjúpforeldar geti ekki verið góðir. Við vitum að þessi ímynd kemur úr ævintýrunum en það er ekki hægt að horfa framhjá því sem kemur fram bæði í erlendum og innlendum rannsóknir það getur reynt meira á í stjúpfjölskyldum sem kemur m.a. fram í tölum um ofbeldi innan fjölskyldunnar og ungmenni fari fyrr að heiman. Það er því mikilvægt forvarnarverkefni að styðja við stjúpforeldra og stjúpfjölskyldur í heild sem og að tryggja að börn og ungmenni haldi tengslum við báða foreldra sína eftir skilnað og líka þegar farið er í stjúpfjölskyldu.
Það er mitt mat að eitt stærsta velferðarmál samtímans sé að þétta tengslanet barna og fjölskyldna þeirra. Fordómar, óvissa og lítill félagslegur stuðningur við stjúpfjölskyldur getur gert það að verkum að þessi stuðningurinn fer oft forgörðum í stað þess að gera fjölskyldunetið ríkara þegar vel tekst til.

Stjúpuhittingur

Til að bregðast við þessari þörf sem ég þekkti sjálf vel á sínum tíma ákvað ég í í vetur eftir nokkuð hlé að bjóða upp stjúpmæðrahópa sem ganga undir nafninu „Stjúpuhittingur“ og eru konurnar frá 5-8 í hóp ásamt leiðbeinanda. En ég legg áherslu á að hóparnir séu persónulegir og allar konur fái sinn tíma til að tjá sig en það er nú oft þannig að leið og við orðum hlutina upphátt, í öruggu umhverfi og án þess að vera trufluð finnum við okkar eigin lausnir.

Í hópunum tökum fyrir ákveðin verkefni og ræðum í hópnum. Ég hef haft þá venju að biðja þær um að senda mér póst þar sem fram kemur hvað þær vilja fá út úr hópnum. Það er ótrúlega oft það sama sem þeim langar til að ræða og það sem stendur upp úr og er nánast í öllum póstum er að þeim langar að kynnast öðrum stjúpum, fá ráð frá þeim sem eru í svipuðum sporum og fá staðfestingu á því að líðan þeirra sé normal, þær séu ekki einar um að líða „svona. Mitt hlutverk er að leiða hópinn, leggja fyrir verkefni og stutt innlegg úr fræðunum þegar við á.

Hóparnir eru lokaðir og skiptir trúnaður þar öllu máli. Þetta hefur verið einstaklega gefandi og skemmtileg vinna og er bæði grátið og helgið og allt þar á milli. Á fyrsta fundi förum við m.a. yfir þessa punkta sem þær senda mér án þess að nefna hver sendi hvað og síðan fá þær heimaverkefni sem farið er í næsta tíma. Eftir fyrsta tímann er upplifa margar konur eins og þungu fari sé af þeim létt en sumar finna líka fyrir gremju yfir ýmsu sem upp hefur komið og ekki náðst að vinna úr. Það má kannski segja að vera í slíkum hóp hjálpar þeim m.a. að vinna úr hlutunum og gefur þeim kjark til að takast á við hluti milli funda eins og að setja mörk og ræða viðkvæm mál. Við áherslu á að koma auga á það sem vel gengur og gera meira af því sem virkar. Það sem mér hefur fundist skipta konurnar mestu máli er að hitta aðrar konur í öruggum aðstæðum og ræða stjúpmóðurhlutverkið sem hvílir þungt á mörgum konum. Fara í sjálfsskoðun og heyra í öðrum í sömu sporum en við lærum mikið af hvor annarri. 

Vita hvað þær eiga ekki að vera!

Flestar stjúpmæður eru meðvitaðar um hvað þær eiga ekki að vera þ.e. mæður stjúpbarna sinna, enda eiga flest þeirra mæður. Þær vilja heldur ekki vera vonda stjúpan í ævintýrunum. En hvert er þá hlutverk stjúpmóðurinnar? Margar komast að því að þær hafa leyft öðrum að skilgreina það fyrir sig og það hafi ekki hjálpað að vilja ekki vera „leiðinleg“ og setja því ekki sjálfum sér og öðrum mörk. Með því að læra hvað er normalt fyrir stjúpfjölskyldur og vera með raunhæfar væntingar, velja sér sjálf það hlutverk sem hún vill vera í og prófa sig áfram, sem og taka áhættina á að „vera leiðinleg“ sem felur ekkert annað í sér en að setja viðeigandi mörk og skapast góður grunnur fyrir gott fjölskyldulíf. Það verður hinsvegar mikilvægt að taka fram að það er ekki á ábyrgð stjúpunnar einnar að bæta fjölskyldulífið en það verður nú að segjast eins og að oftast eru það konur sem draga vagninn í fjölskyldumálum. Á námskeiðinu öðlast flestar þann kraft og ekki síst sjálfsöryggi sem til þarf að fara í þá vinnu sem til þarf svo öllum líði vel í fjölskyldunni. Oftast er makinn áhugasamur um það sem fram fer og parið fer í að skoða málin meira saman – sem er lykilatriði.

Valgerður Halldórsdóttir, félags- og fjölskylduráðgjafi

 

Instagram